02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (4060)

30. mál, stóriðja

Heilbr—:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Þetta er nú orðin ákaflega almenn stjórnmálaumræða, og ég ætla nú ekki að lengja mál mitt mjög mikið. En í tilefni af því, að hv. þm. lýsti mig hér ósannindamann, þá vil ég láta þess getið, að ég hef ekki tiltækar tilvitnanir, en ég minnist þess mjög glöggt, að Morgunblaðið vitnaði margsinnis í kosningabaráttunni í ræðu, sem þessi hv. þm. hélt um væntanlegar virkjanir í Tungnaá. Og þar lýsti hann yfir því, að hann teldi sjálfsagt að tengja þessar virkjanir við samninga við erlendan aðila. Þessar tilvitnanir eru mjög auðfundnar.

Í þessu felst náttúrlega ekki, að það sé ekki hægt að virkja án slíkra samninga, eins og hv. þm. var að orða hér áðan. Mér hefur aldrei dottið í hug, að hann hafi sagt neitt slíkt. En hans stefna var sú, að það ætti að tengja ákvörðun um virkjun í Tungnaá við samninga við erlendan aðila. Og það er þarna, sem okkur greinir á um stefnuna. Ef þessi hv. þm. hefði verið áfram í ráðherrastóli, hefði hann áreiðanlega tengt þetta tvennt saman. Hann var búinn að lýsa því yfir margsinnis, að það væri hans stefna. En ég held, að það liggi mjög greinilega í augum uppi, að slík samtenging er ákaflega óskynsamleg. Erlendur aðili, sem veit, að það er undir honum komið, hvort smáþjóð eins og við getur ráðizt í virkjun, fær samningsaðstöðu, sem er algerlega óþolandi og hann gengur þá örugglega á lagið. Við sáum hvernig það var gert í sambandi við Búrfellsvirkjun. Þar var sannarlega gengið á lagið. Þar var gengið á lagið að því er varðar raforkuverð. Það verð, sem þá var samið um, var að sögn aðalframkvæmdastjóra Alusuisse það lægsta, sem hringurinn greiddi nokkurs staðar í heiminum. Og það var meira gengið á lagið. Það var gengið þannig á lagið, að þetta fyrirtæki er ekki einu sinni undir íslenzkum dómstólum. Ég er sannfærður um það, sem ég sagði áðan, að slíkir samningar verða aldrei gerðir af Íslendingum oftar.

Hv. þm. minntist á raforkuverð frá Sigölduvirkjun og spurði, hvort 35 aura verð væri ekki miðað við fullnýtingu. Það er alveg rétt, það er miðað við fullnýtingu. Og ef þarna verður virkjað í áföngum, verður raforkuverðið mun hærra í fáein ár. Þetta er alveg rétt. Og að sjálfsögðu er það mikilvægt, að við reynum að haga iðnvæðingu okkar þannig, að við getum ráðizt í þessa virkjun í einum áfanga. Sá vandi hvílir á íslenzkum stjórnvöldum og Alþingi Íslendinga að reyna að láta orkuframleiðslu og orkunotkun haldast þannig í hendur, að þessi virkjun verði sem hagkvæmust og raforkan nýtist sem bezt. Þennan vanda verður að sjálfsögðu að leysa. En það er hægt að leysa hann á margvíslegan annan hátt, en gerður var með samningum við álhræðsluna í Straumsvík.

Hv. þm. sagði, að það væri ekkert nýtt að tala um að semja við erlendan aðila á þeim forsendum, að Íslendingar tryggðu sér meirihlutaeign í slíku fyrirtæki. Það má vel vera, að hv. þm. hafi stundum látið slík ummæli uppi. Mig rekur nú ekki mjög minni til þess. Hitt man ég, að þegar gyllingarnar voru hvað mestar um samningana við álbræðsluna, þá var talað um það, að þarna væri braut, sem yrði haldið áfram að fara eftir. Meira að segja var talað um það í draumsýn, að hér þyrftu að rísa einar 20 álbræðslur á örfáum árum. Og það voru fjölmörg önnur fyrirtæki af smávaxnara tagi, sem talað var um, að útlendingar ættu að reisa og reka á Íslandi. Þetta var hinn almenni áróður. Þetta var sú mynd, sem brugðið var upp fyrir þjóðinni.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er erfitt fyrir Íslendinga að komast inn í framleiðsluferil eins og álframleiðslu. Þarna er um að ræða mjög öfluga auðhringa, sem ráða yfir öllum stigum framleiðsluferilsins, allt frá námunum og upp úr. Og það er ákaflega erfitt fyrir veikan aðila eins og Íslendinga að ætla að koma fram sem sjálfstæður aðili gagnvart slíkum auðhringum. Þetta er alveg ljóst og þarna er eitt af þeim vandamálum, sem við verðum að gera okkur grein fyrir. Hvers erum við megnugir? Hvað getum við? Á hvaða sviðum treystum við okkur til þess að standa á rétti okkar að fullu og á hvaða sviðum getum við þetta ekki? Þetta verður örugglega mikill vandi. En þetta er eitt af þeim vandamálum. sem hvíla á hverri smáþjóð, sem reynir að halda rétti sinum í veröldinni. Og það er hlutverk okkar að reyna að leysa vandamál af þessu tagi.

En í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um raforku, þá er það eitt. sem ég held, að sé ástæða til að leggja áherzlu á. Það er oft talað um raforku sem það stóra einkenni í iðnaðarþjóðfélagi. En raforkuframleiðsla er í sjálfu sér mjög takmörkuð verðmætasköpun. Verð á hráorku er tiltölulega mjög lágt. Það, sem raforkan gerir, er að hún skapar grundvöll að iðnvæðingu. Það er hægt að koma upp iðnaði á grundvelli þess að fá raforku, og það er þar, sem gildið liggur. Og einmitt þess vegna er það keppikefli okkar að koma upp iðnaði í eigu landsmanna sjálfra fyrst og fremst, til þess að hagnýta þá miklu raforkuframleiðslumöguleika, sem við höfum í landinu. Ef við eftirlátum þetta verkefni útlendingum, þá erum við um leið að afsala okkur stórfelldum möguleikum og gefa hinum erlendu aðilum einnig tækifæri til þess að flytja arðinn af raforku okkar að verulegu leyti úr landi. Á okkur hvílir sá vandi að leysa þessi vandamál sjálfir, að iðnvæðast sjálfir af eigin rammleik og tryggja það, að iðnaðurinn verði hluti af efnahagskerfi íslenzku þjóðarinnar.

Hv. þm. minntist lauslega á húshitun með raforku og talaði nú ekki um hana af neinni sérstakri virðingu. Ég held, að við eigum ekki að gera neitt litið, úr þessum markaði. Samkv. bráðabirgðaskýrslu frá húshitunarnefnd Landsvirkjunar, þá er gert ráð fyrir því, að raforka til húshitunar á Landsvirkjunarsvæðinu geti verið komin upp í 380 gwst. á ári árið 1982. Og þetta er mjög verulegt magn, og þetta er aðeins á svæði Landsvirkjunar. Utan þess svæðis er einnig um mjög mikla möguleika á húshitun með raforku að ræða. Og auðvitað jafngilda slík umskipti frá innfluttum hitagjafa yfir til raforku, sem við framleiðum sjálfir, verulegum iðnaði og meira að segja gjaldeyrisiðnaði. Þarna erum við að spara gjaldeyri með framleiðslu í landinu sjálfu. Ég hygg nú, að fáum detti það í hug, að verð það, sem bjóðist til húshitunar, verði 35 aurar á kwst, jafnvel þótt talað sé um það sem framleiðslukostnaðarverð frá Sigölduvirkjun. En ég vil láta þess getið til fróðleiks, að í þessu áliti er talað um, að heildarkostnaður rafveitna vegna húshitunar sérstaklega sé áætlaður 15—20 aurar á kwst. og ef Landsvirkjun sjái sér fært að selja rafmagn til húshitunar á 45 aura kwst., þýði þetta, að rafveiturnar ættu að geta boðið 60—65 aura á kwst. til sömu nota. Þetta hygg ég, að sé býsna hagkvæmt verð og muni geta ýtt undir mjög verulega húshitun með rafmagni á Íslandi í framtiðinni.