02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í D-deild Alþingistíðinda. (4062)

30. mál, stóriðja

Heilbr.-– og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessum ummælum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. Landsvirkjun bjó til fjóra valkosti, þegar hún lagði fyrir áætlanirnar um virkjanir í Tungnaá. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að tveir af valkostunum gerðu ráð fyrir samningum við erlendan aðila. En það voru tveir aðrir valkostir, sem ekki gerðu ráð fyrir slíkum samningum. Og þegar verkfræðingar Landsvirkjunar eru að gera upp það dæmi, hvort ráðast eigi fyrst í Sigöldu eða Hrauneyjafossa, sem var nú ekkert meiri háttar vandamál, eru röksemdir þeirra fyrst og fremst verkfræðilegar. Og vegna þess að verkfræðingar Landsvirkjunar komust að þessum niðurstöðum, á verkfræðilegum forsendum, þá taldi ég að sjálfsögðu engin rök til þess, að ég færi að breyta þeirri niðurstöðu.

Hv. þm. minntist á það, að ég hefði óskað eftir því, að fyrri áætlanir um smávirkjanir yrðu endurskoðaðar með tilliti til dagsins í dag. Þetta er alveg rétt. Þetta gerði ég. Ég gerði þetta af þeirri einföldu ástæðu, að ég var að taka við störfum sem nýr ráðh. og ég vildi kynna mér þá valkosti, sem um væri að ræða. Ég vildi ekki hafa orð annarra fyrir því, hvað væri hagkvæmast, heldur vildi ég kanna þetta sjálfur. Og ég vænti þess, að þetta verði ekki talin neitt óeðlileg vinnubrögð.

Það kom í ljós, að þessar smávirkjanir voru óhagkvæmar, tvær þeirra a.m.k. En það hefði vissulega verið freistandi að ráðast í varmaorkuveitu í Hveragerði. Það hefði verið ákaflega freistandi. Það var hagkvæm virkjun og hún hefði getað fært okkur mikla nýja reynslu. En ástæðan til þess, að ég taldi engu að síður rétt að ráðast í stóra virkjun, var sú, að núv. ríkisstj. er í málefnasamningi sínum með áform um mjög verulegar iðnvæðingar framkvæmdir á Íslandi og ef þær framkvæmdir eiga að ná fram að ganga, eins og er ætlun ríkisstj., þá þurfum við að sjálfsögðu á verulegri raforku að halda og þá raforku vildum við tryggja með þessari ákvörðun.

Hv. þm. sagði, að það gæti verið álitamál, hvort það væri skynsamlegra að gera samninga við orkukaupaaðila í sambandi við virkjun eða síðar. Það gæti vel skeð, að ef menn tækju ákvörðun um virkjun, þá lentu þeir í þvílíkum vanda, að þeir yrðu að gera lélega samninga að lokum, vegna þess að þeir sæju ekki alla hluti fyrir. En þetta er ekki rétt í þessu tilviki. Það liggur fyrir á óumdeilanlegan hátt, að á Íslandi er nægur raforkumarkaður fyrir alla raforku frá Sigölduvirkjun. Við þurfum ekki að lúta að neinum nauðungarsamningum. Þessi samningur er tiltækur í landinu. Markaðurinn fyrir orkusölu til húshitunar er meira en helmingurinn af orkumagninu frá Sigölduvirkjun, sem hægt er að verja til slíkra hluta á þessum áratug, fram til 1980, þannig að við þurfum ekki að lenda í neinum vanda. En að sjálfsögðu þurfum við að kanna það mjög gaumgæfilega, hvort það er í okkar hag að koma hér upp orkufrekum iðnaði til þess að flýta þessum framkvæmdum og að því mun að sjálfsögðu verða unnið. Við munum safna öllum tiltækum upplýsingum um þau mál, og síðan verður það metið á sjálfstæðan hátt út frá hagsmunum okkar, hvort það er skynsamlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir, ekki vegna þess, að við séum tilneyddir, eins og fyrrv. ríkisstj. taldi sig vera, þegar hún þóttist ekki geta ráðizt í Búrfellsvirkjun nema semja við erlendan aðila. Við viljum kanna það á málefnalegan hátt, hvort slíkar framkvæmdir séu hagkvæmar, og séu þær það, verður ráðizt í þær.