12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (4069)

30. mál, stóriðja

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að mótmæla að neinu leyti þessari till. eða afgreiðslu hennar. En úr því að hér ber á góma stóriðju og þá um leið rafvirkjanir í landi okkar, sem að mínum skilningi hljóta að fylgjast að, vil ég minna á það, að all snemma á þessu þingi flutti ég þáltill. og í henni fólst áskorun á ríkisstj. að láta fara fram þegar á þessu ári ítarlega athugun á virkjunarmöguleikum í Jökulsá eystri í Skagafirði. Ég veit, að allshn. hefur haft mikið að gera á þessum vetri og það bólar ekki enn þá neitt á afgreiðslu n. hvað þessa till. áhrærir, og má vera, að nál. komi ekki fram. Hins vegar hefði mér þótt vænt um, að það kæmu þá fram í þinginu einmitt upplýsingar t.d. frá þeim, sem hafa lítillega athugað virkjunarmöguleika í þessari á, að upplýsingar frá þeim kæmu fram og yrðu birtar hér í skjölum, sem liggja fyrir Alþingi.

Ég minnist þess í vetur, að ég las Morgunhlaðið. Vitaskuld geri ég það á hverjum degi, það þarf ekki að taka það fram. En ég man eftir því, að það var einhvern tíma í vetur,— það er ekki svo ýkja langt síðan,— að ég las viðtal, sem einn af beztu blaðamönnum Morgunblaðsins, að mínu áliti, Elín Pálmadóttir, átti við, — ég man nú ekki nafnið á manninum,—mann, sem vinnur hjá orkumálastofnuninni og hefur mikið vit á orkumálum. Og það var í sambandi við það, að hann hafði tekið þátt í ráðstefnum, sem höfðu verið haldnar um rannsóknir á hinum svo nefnda Atlantshafshrygg, sem liggur norður eftir öllu Atlantshafi eins og við vitum, og þannig er, að Ísland er á þessum hrygg. Og með þessari grein birtist mynd af Íslandi og einmitt þeim hluta hryggjarins, þar sem jarðfræðingurinn var að tala um. að sprungurnar lægju, sprungurnar í Atlantshafshryggnum. Það kom fram hér í vetur í umr. á Alþ. út af till. eða fsp. frá hv. 1. þm. Norðurl. e. í sambandi við rannsóknir á virkjunarmöguleikum í Jökulsá við Dettifoss, og hæstv. orkmrh. upplýsti það, að við þær rannsóknir hefði það komið fram, að þar væri um að ræða sífelldar hræringar í jarðskorpunni.

Ég átti tal við kunningja minn skagfirzkan, sem hefur einmitt unnið við Þjórsárvirkjanir. Við þau stóru verk, sem verið er að vinna á Þjórsársvæðinu, og hann sagði mér, að einn morguninn, þegar hann hefði komið út, sáu þessir verkamenn, að það hafði myndazt sprunga í jarðveginn. Hann sagðist ekki vita hversu löng. Hann sagðist hafa hent steini ofan í hana og hann hefði ekki heyrt neitt til þess steins, hvar hann lenti.

Sem sagt, ég ætla ekki að fara í neinn meting. Ég ætla ekki að fara að halda því fram, að við eigum að hætta við að rannsaka virkjunaraðstæður við Dettifoss og Jökulsá eystri. En ég vil bara benda á það, að allar þær stórvirkjanir, sem við höfum í huga, eru byggðar á þessu sprungubelti, sem liggur yfir Ísland. Allar stórvirkjanir, sem unnið er að í dag, eru byggðar á þessu belti. Vitaskuld væntum við þess, að hér verði ekki neinar hamfarir í náttúrunni, hvorki eldgos né jarðskjálftar, en það eru hlutir, sem við vitum ekkert um og ráðum engu um, og þess vegna ber ég fram þessa spurningu: Væri ekki hyggilegt, að við Íslendingar byggðum eina stóra virkjun fyrir utan þetta jarðskjálftasvæði? Möguleikarnir til að byggja þessa virkjun eru einmitt í Jökulsá eystri í Skagafirði. Þar getum við virkjað á milli 200 og 300 megawött.