11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í D-deild Alþingistíðinda. (4078)

191. mál, staðarval og flutningur ríkisstofnana

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú eiginlega ekki hljóðs til þess að ræða sérstaklega um þessa till., sem hér er til umr., en margt af því, sem hv. frsm. sagði, get ég gert að mínum orðum. En ég vil spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort hann leyfi það, að 20. mál á dagskrá, sem er till. um svipað efni, verði rætt með þessari till. Ég teldi rétt, að þær færu báðar til sömu nefndar og yrðu ræddar í einu.

(Forseti: Já, það er heimilt.)

Þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að mæla hér með nokkrum orðum fyrir till., sem ég hef flutt á þskj. 370 um aðsetur ríkisstofnana og embættismanna með tilliti til landsbyggðar. Þessar till., sem flutt hafa hv. samþm. minn, 5. þm. Norðurl. e., og ég, komu fram svo að segja samtímis, en það hefur ekki orðið úr því, að við ræddum saman um þetta mál áður, en ella má vel vera, að við hefðum getað orðið samferða um það að flytja eina till. En till. mín er þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta fara fram og hraða endurskoðun á lagaákvæðum og ákvörðunum stjórnarvalda um aðsetur opinberra stofnana og embættismanna og leggja fram rökstuddar till. til breytinga með það fyrir augum að auka dreifingu starfseminnar um landið með hverju sem tök eru á og stuðla með því að viðhaldi og eflingu landsbyggðar. Enn fremur segir svo:

„Gefa skal fulltrúum tilnefndum af landshlutasamtökum sveitarfélaga og Sambandi ísl. sveitarfélaga, einum frá hverjum þessara aðila, kost á að taka þátt í endurskoðuninni.“

Í till. minni er sem sé ekki gert ráð fyrir þingkjörinni nefnd, heldur að stjórninni verði falið að láta fara fram endurskoðun og að það verði gert í samráði við landshlutasamtökin, sem í reyndinni mundi að líkindum þýða það, að skipuð yrði nefnd tilnefnd af landshlutasamtökunum til þess að endurskoða þessi mál. Þessa till., sem ég nú flyt á þskj. 370, hef ég raunar flutt áður hér á hinu háa Alþingi. Það gerðist fyrir l4 árum eða árið 1958, og hún var mjög svipuð að efni til þessari till., sem hér liggur fyrir. En að því leyti sem hún er nú frábrugðin því, sem hún var fyrir 14 árum, stafar það af því, að landshlutasamtökin hafa nú tekið á sig fastara form, en þau þá höfðu gert. Í sambandi við þessa till., sem samþ. var á Alþ. 30. maí 1958, þá seint á árinu, skipaði þáv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, nefnd til þess að framkvæma það, sem í till. fólst, og voru í hana valdir menn úr ýmsum landshlutum. Þessi nefnd, sem almennt var kölluð Staðsetningarnefnd ríkisstofnana, kom alloft saman á næstu árum og ég ætla, að það hafi verið snemma á árinu 1962, sem hún skilaði áliti til þáv. ríkisstj. um málið. Í þessu áliti staðsetningarnefndarinnar voru nokkrar till. um flutning ríkisstofnana eða athugun á flutningi ríkisstofnana og í nál. var einnig lagt til, ekki ósvipað og hv. 5. þm. Norðurt. e. gerir nú, að sett verði föst nefnd til þess að vera ráðgefandi um þessi efni. Það var nú á áratugnum sem leið heldur lítið um framkvæmdir í þessum efnum, en á undanförnum árum höfum við tveir úr staðsetningarnefnd, sem sæti áttum á Alþ., hv. 2. þm. Sunnl. og ég, flutt sum af þessum málum í frv.—formi, sem nefndin gerði till. um í áliti sínu árið 1962. Þau mál hafa ekki hlotið afgreiðslu enn þá. Eitt af þeim málum var t.d. frv. til l. um verkfræðiráðunauta ríkisins í einstökum landshlutum, sem oftar en einu sinni hefur legið fyrir Alþingi.

Þessi till., sem ég flyt nú, er sem sé í raun og veru endurtekning á till., sem flutt var fyrir 14 árum. En síðan hefur margt verið rætt um þessi mál og kannske vaxandi skilningur á nauðsyn þess að byggja landið, og vil ég nú vænta þess, að árangur verði meiri á næsta áratug en hann var á hinum síðasta. En ég vil leggja til, að þessari till. minni verði vísað til allshn. Ég tók ekki eftir, hvort hv. 5. þm. Norðurl. e. gerði till. um nefnd í sambandi við sína till., en eðlilegt fyndist mér, að þeim væri báðum vísað til sömu nefndar.