17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

119. mál, verðlagsmál

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég ætti kannske ekki að blanda mér inn í orðaskipti, sem hér fóru fram á milli hv. 12. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. áðan, og það því síður, sem ég er nánast í grundvallaratriðum sammála báðum. Ég met mjög mikils starfsemi kvenfélaganna um allt land, en sakna hins vegar ákaflega, hversu takmörkuð hefur verið þátttaka kvenna í almennum félagsmálum.

Mér fannst þó, að ég þyrfti að gera örlítið nánar grein fyrir afstöðu minni til brtt. hv. 12. þm. Reykv., úr því að þessar umr. spunnust um hana. Ég tók það að vísu fram, að það væri skoðun nm., að varðandi skipan verðlagsnefndar þá væri um að ræða samkomulag, sem enn væri í gildi, og þess vegna væri ekki gjörlegt að raska neinu í frv. vegna samkomulagsins. En út af þessum umr. vil ég einnig skýra afstöðu mína að öðru leyti örlítið nánar.

Það er staðreynd og er öllum ljóst, að í ASÍ og BSRB eru hundruð ef ekki þúsundir kvenna. Það liggur alveg í augum uppi. Einnig má það vera öllum ljóst, að í hópi vinnuveitenda og þá í verzlunarstétt einnig, en þessir tilnefna aftur mótaðilana, eru einnig hópar kvenna. Ég skal ekkert segja um fjölda þeirra, en það er alveg víst mál, að þær eru þar fleiri eða færri. Þess vegna má auðvitað reikna með því og það ætti svo að vera, að í hópi fulltrúa frá þessum samtökum geti alveg eins verið konur eins og karlar, eins og þetta er í pottinn búið skv. lögunum.

Hv. 12. þm. Reykv. tók það réttilega fram og lagði áherzlu á það, að það þyrfti að vera jafnvægi á milli vinnuveitenda, — það er auðséð, að til þess er ætlazt, — í þessari nefnd og svo aftur launþega, og þetta er hárrétt. En það vita allir hv. þm. og allur landslýður, að Samband Ísl. kvenfélaga, eða hvað það nú heitir orðrétt, er auðvitað blandaður félagsskapur, ekki eftir kynferði, heldur eftir stéttum. Þess vegna er það alveg undir hælinn lagt, hvort fulltrúi frá Kvenfélagasambandinu yrði úr hópi framleiðenda í þessu tilfelli eða neytenda, þannig að einnig af þeim ástæðum er ekki unnt að samþykkja þessa till., ef menn vilja tryggja jafnvægi í nefndinni á milli framleiðenda og neytenda, atvinnurekenda og launþega. Það er að sjálfsögðu alveg fráleitt að halda, að menn geti gengið út frá því, að þetta samband nefndi alls ekki konur úr hópi atvinnurekenda á einhverju sviði.

Ég vil láta þetta koma alveg skýrt fram, að auk þess, sem ég áður tók fram um það, að hér væri um að ræða að raska samkomulagi, sem er í gildi og ekki er grundvöllur fyrir að raska á þessari stundu, þá finnst mér einnig breytingin fráleit efnislega.