14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (4100)

174. mál, virkjun Jökulsár eystri í Skagafirði

Heilbr.-– og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari till. og fsp., sem hv. frsm. beindi til mín, þá þykir mér rétt að greina hv. flm. og öðrum þm: frá því, hve þessar athuganir eru á vegi staddar, sem hv. frsm. minntist hér á. Á s.l. sumri létu Rafmagnsveitur ríkisins gera frumáætlun um virkjun í Jökulsá eystri í Skagafirði. Þessi frumáætlun hefur nú verið send Orkustofnun til frekari athugunar. Að því er orkustofnunarmenn tjá mér, er þess tæpast að vænta, að þarna sé um að ræða mjög álitlega virkjun, einkum ef hún hefur Norðurland eitt sem markað. Þó þykir sjálfsagt, að það mál verði kannað nánar, og því vinnur stofnunin nú að kerfisathugun á rekstri Jökulsárvirkjunar-eystri, í samrekstri við aðrar virkjanir á Norðurlandi, inn á sameiginlegt raforkukerfi Norðurlands, en einmitt þannig yrði rekstri virkjunarinnar háttað, ef hún verður framkvæmd. Enn fremur verður kannað, hvaða áhrif það hefur á hagkvæmni Jökulsárvirkjunar, að samtenging við Suðurland væri komin á, þegar virkjunin væri gerð. Þegar þessum athugunum er lokið, þykir rétt að meta, hvort efni þykja til að kosta til ítarlegri rannsóknar á Jökulsárvirkjun eystri.

Fyrir nokkru setti Orkustofnun síritandi vatnshæðarmælistöðvar í báðar skagfirzku Jökulsárnar; þá eystri og vestari, til þess að fylgjast með rennsli þeirra. Einnig gerði stofnunin út á s.l. sumri 1eiðangur mælingamanna að norðanverðum Hofsjökli, er mældi upptakakvíslar Jökulsánna, reglubundið um tveggja mánaða skeið, þegar leysing á jöklinum var sem mest. Þess má að lokum geta, að Orkustofnun vinnur nú að sams konar athugun á virkjun Skjálfandafljóts við Íshólsvatn og þeirri sem nú var lýst á Jökulsá eystri.

Eins og hv. frsm. vék að, var á síðasta þingi samþ. heimild til virkjunar í Svartá, en frá þeirri hugmynd hefur nú verið fallið, vegna þess, að sérfræðingar telja, að þar yrði ekki um virkjun að ræða, sem leysti þessi vandamál í héraðinu, og auk þess kom það í ljós við sérstaka könnun, að um það mál var uppi mikill ágreiningur innanhéraðs, sem gerði það engan veginn fýsilegt, að áfram yrði haldið á þessari braut. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. frsm., að raforkumálin í Norðurl. v. eru mikið og aðkallandi vandamál og að lausn þeirra mála verður að vinna mjög ötullega. Og fyrst þau mál í heild ber hér á góma, þá þykir mér rétt að greina frá því, að Rafveita Siglufjarðar hefur látið gera áætlun um 1.6 mw. virkjun í Fljótaá nokkru fyrir neðan núverandi virkjun. Og þessa áætlun hefur Orkustofnun einnig fengið í hendur og látið reynda verkfræðistofu gera umsögn um hana. Niðurstaðan er sú, að virkjun þessi í Skeiðsfossi mundi kosta um 66 millj. kr. Í sjálfu sér er ekki þörf fyrir orku þessarar virkjunar á svæðinu Siglufjörður-Fljót-Ólafsfjörður. Til þess að nýta hana nú á næstunni þarf því samtengingu við raforkukerfið í Skagafirði. Vissan hluta af kostnaðinum við þá samtengingu er að dómi Orkustofnunar rétt að telja til virkjunarinnar, en hinn hlutinn er í rauninni endurbót á innanhéraðskerfinu í austanverðum Skagafirði: Sú viðbót, sem þarna er um að ræða, er 13—16 millj. kr. eftir því, hversu mikið er í samtenginguna borið. Virkjun ásamt hluta virkjunar í samtengingu mundi því kosta 79—82 millj. kr. Helzti annar valkostur til öflunar orku fyrir Norðurl. v. er lögn háspennulínu milli Akureyrar og Sauðárkróks. Fyrir liggur lausleg áætlun um þá línu, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa látið gera, og er kostnaður af henni áætlaður 80 millj. kr. Sú áætlun hefur ekki verið endurskoðuð enn þá, en Orkustofnunin telur nauðsynlegt, að það sé gert og mun láta gera það nú á næstunni.

Ég vil bæta því við, að ég er þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt sem næsta verkefni í samtengingarmálum að tengja saman bæði Norðurl. v. og Norðurl. e., og ég tel, að það þurfi að ráðast í slíka samtengingu helzt á þessu sumri og að nauðsynlegt fjármagn í því skyni þurfi að komast inn á framkvæmdaáætlun þessa árs. Með því móti mundi í bili verða leystur mjög verulegur vandi fyrir Norðurl. v., og þetta mundi falla inn í það samtengingarkerfi, sem ég tel, að nú verði að vinna skipulega að á næstunni. Ég hef nýlega á opinberum vettvangi gert grein fyrir hugmyndum mínum um það, hvernig við eigum að marka stefnuna að því er varðar skipulagningu raforkumála á Íslandi á næstu árum og áratugum, og ég geri mér vonir um að geta lagt till. um það efni fyrir Alþ., helzt áður en þessi mánuður er á enda, og þá væri hægt að fjalla í ítarlegra máli um þessi vandamál í heild. Hitt er mér fullkomlega ljóst, að vandi Norðurl. v. er langsamlega brýnastur af þessum landshlutum, eins og nú standa sakir, eins og ég sagði áðan, og ég tel að, að lausn þessa vanda verði að vinna helzt nú þegar á þessu sumri