02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (4118)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þm. Alþfl. hafa leyft sér að flytja till. til þál. um að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign og nokkuð fleira í því sambandi. Till. er þess efnis, að Alþ. álykti að leggja fyrir ríkisstj. að láta sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarrétt yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu. Í till. eru taldir upp sex liðir, sem taka þyrfti til athugunar í þessu sambandi, en sá fyrsti og lang mikilvægasti er á þá lund, að allt hálendi landsins og óbyggðir skuli lýst alþjóðareign, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila liggja ekki fyrir. Þarf þá jafnframt að kveða á um, svo að glöggt sé, hver verði mörk þessarar ríkiseignar. Þá er og fjallað um ýmis önnur landsins gæði, not afrétta, veiði og fiskiræktarrétt, um hagnýtingu fallvatna, um eignarrétt yfir jarðhita og öðrum verðmætum í jörðu. Er í þessum liðum að jafnaði bent á þá leið, að hlutur þjóðarheildarinnar vaxi, en réttindi einstaklinga til þessara gæða minnki sem því nemur.

Með síauknum afnotum og umferð um hálendi landsins verður með hverju ári nauðsynlegra að setja. skýr ákvæði um eignarrétt á því svo og ýmsum öðrum óbyggðum, sem þó teljast ekki beinlínis til hálendis. Liggur þá beinast við, að það verði lögtekið í eitt skipti fyrir öll, að slíkt land sé ríkiseign, ef önnur eignárheimild liggur ekki skýlaus fyrir. Gæti slík ákvörðun, ef hún yrði tekin áður en mörg ár líða, orðið til þess að firra þjóðina miklum vandræðum, sem vafalaust verða þegar frá liður á þessu sviði, ef ekkert verður að hafzt. Það er alkunna, að ýmis mál, sem þessu eru skyld, hafa þegar orðið mikil deilumál. Virðist því vera rík ástæða til, að hafið verði það starf, sem ég veit, að verður langt og mikið, að undirbúa löggjöf, er kveði afdráttarlaust og skýrt á um eignarrétt á því landi og þeim verðmætum, sem hér er um fjallað. Ég tel, að þetta sé stórmál, sem okkar kynslóð beri skylda til að leysa komandi kynslóðum í hag.

Á þessu máli eru margar hliðar. Við upplifum einmitt nú, að það gerist æ algengara, að efnaðir menn og auðug félög nota fjármagn sitt til þess að sölsa undir sig land. Oft eru þetta jarðir, jafnvel hlunnindajarðir, ýmist í byggð eða farnar úr byggð, eða annað land, sem einhver ástæða er til að ætla, að muni vaxa að verðgildi, t.d. ef það liggur vel við því að verða að útivistarsvæði í framtíðinni, að ekki sé talað um hugsanlega möguleika á einhverjum atvinnurekstri. Ég tel þýðingarmikið fyrir Íslendinga að reyna sem fyrst að forðast það, að hér verði mikið um jarðabrask í framtíðinni. Einstaklingar, sem ekki búa á landi, er þeir eignast, kaupa það með annað í huga og það er fyrst og fremst fjárgróðavon. Ég tel stórhættulegt, ef mikil svæði komast í einkaeign á þennan hátt, því að það leiðir til jarðabrasks, sem getur valdið ótrúlegum erfiðleikum við framtíðar hagnýtingu á landinu.

Á síðustu árum hefur mannkyninu orðið ljósara en nokkru sinni fyrr, að á stórum svæðum jarðarinnar hefur umhverfi þegar verið spillt með mengun vatns og lofts, svo að heil lönd geta eftir nokkrar kynslóðir orðið illbyggileg, ef ekki verður spyrnt við fæti hið bráðasta. Þjóðunum er að verða ljóst, að óspillt land, ómengað vatn og loft er nú talið til hinnar verðmætustu eignar hverrar þjóðar. Í þessum skilningi eru Íslendingar enn mjög auðugir, en verða þó að gæta fyllstu varúðar til að varðveita þessi gæði, jafnframt því sem þeir nýta auðlindir sínar á skynsamlegan og hagkvæman hátt. Samfara vaxandi skilningi á þessum staðreyndum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi, að sem mest af landinu, ekki aðeins hálendi og óbyggðir, vötn og ár, heldur og jafnvel byggilegt land, eigi að vera þjóðareign. Einkaeign slíkra auðæfa og brask með þau er hættulegt fyrirbrigði og reynsla annarra þjóða ætti að verða okkur til varnaðar.

Ég vil ítreka það, að ég tel þetta eitt stærsta óleysta verkefnið í íslenzkri löggjöf, og ég tel nauðsynlegt, að þegar verði hafið starf til að undirbúa löggjöf um þessi efni. Ég geri ráð fyrir, að slíku starfi og niðurstöðum þess muni fylgja miklar umr., en ég tel, að því fyrr sem þær umr. hefjast, því betra og því fyrr sem niðurstöður fást og löggjöf verður sett, því farsælla fyrir þjóðina.

Bragi Sigurjónsson flutti þessa till. lítt breytta á síðasta þingi, en hún varð ekki útrædd. Við þm. Alþfl. leggjum hana fram aftur í þeirri von, að menn fallist á að þessi mál þurfi að rannsaka gaumgæfilega.

Herra forseti. Ég legg til, að umr verði frestað og till. vísað til allshn.