04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (4121)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Till. sú á þskj. 13, sem hér er til umr., gefur mér tilefni til nokkurra aths. vegna þess, hversu margs konar áhrif hún mundi hafa á ýmsum sviðum, ef hún yrði samþ. og ef hinir sérfróðu menn, sem hún gerir ráð fyrir, að kvaddir verði til starfa við gerð frv., teldu rétt að leggja til, að ákvarðanir yrðu teknar, sem hnigju í sömu átt og tillögumenn gefa bendingu um, að rétt sé að gera.

1. flm. till., hv. 8. landsk. þm., lét svo um mælt í framsöguræðu, að till. stefndi að því, að hlutur þjóðarheildarinnar í landsréttindum vaxi, en hlutur einstaklinganna fari minnkandi. Þessa sjónarmiðs verður vart nokkuð víða, en þótt ég aðhyllist það ekki og telji það raunar fráleitt, þá ætla ég ekki á þessu stigi málsins að gera það að umræðuefni. Ég fæ ekki betur séð en slík lagasetning, sem gert er ráð fyrir í till. að efna til, mundi hafa í för með sér gróflega breytingu frá almennum og hefðbundnum skilningi á eignarráðum og eignarrétti á afréttum, eins og ég þekki þann skilning á Suðurlandi.

Til sönnunar því, að ég sé ekki einn um þann skilning, þykir mér rétt að koma að því, að á síðasta Alþ. var lagt fram frv. til námulaga. Það varð ekki útrætt, en vegna þess frv. barst mér bréf dags. 9. júlí s.l. frá sýslumanninum í Árnessýslu, og með leyfi hæstv. forseta vil ég kynna þingheimi efni bréfsins, en það er svo hljóðandi:

„Á nýafstöðnum aðalfundi sýslunefndarinnar í Árnessýslu var gerð svofelld samþykkt:

Sýslunefndin lýsir sig mótfallna ákvæðum 2. gr. í frv. til námulaga, sem lagt var fyrir síðasta Alþ„ þar sem stefnt er að því að rýra rétt eigenda afréttarlandanna.“

Til glöggvunar skal ég geta þess, að í frv. til námulaga er gert ráð fyrir því, að í landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgi réttur til hagnýtingar hvers konar jarðefna, en í 2. gr. segir aftur á móti: „Á öðrum landssvæðum en í 1. gr. segir, svo sem á afréttarlöndum, sem eru ekki í einkaeign, almenningum og öræfum, hefur ríkið eitt rétt til jarðefna.“

Og það er þessi skilningur, sem sýslunefnd Árnessýslu var að mótmæla í þessu bréfi.

Þessu til viðbótar vil ég láta það koma hér fram, að við Sunnlendingar þekkjum ekki þau landssvæði sunnan jökla, sem kalla mætti almenninga eða land, sem einstaklingur eða sveitarfélag teldi sig ekki fullan eiganda að. Ég tel, að ekki þurfi um það að deila, að afréttir eru eign sveitarfélaganna, full og ótakmörkuð, og vil ég styðja þá skoðun mína nokkrum rökum, þar sem allmargir virðast vera í vafa um þetta atriði. Fyrst nefni ég hér tilvitnun í grein, sem Páll Líndal, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, skrifar í 6. hefti tímarits sambandsins, og fjallar greinin um eignarrétt að almenningum og afréttum, en þar segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur verið könnuð töluvert eldri löggjöf um eignarrétt að almenningum. Hefur verið bent á, að samkv. bæði þjóðveldislögunum, þ.e. Grágás, og Jónsbók hafa almenningar verið taldir eign fjórðungsmanna, þ.e. bænda í hverjum landsfjórðungi. Er mjög vafasamt, hvort þessum fornu ákvæðum hefur nokkurn tíma verið breytt, en það þýðir, að landsfjórðungarnir eða væntanlega sveitarfélögin í hverjum landsfjórðungi eru sameigendur allra almenninga í hverjum fjórðungi fyrir sig. Kemur því mjög til álita, að landshlutasamtök sveitarfélaganna séu réttur aðili til að ganga fram fyrir skjöldu til að viðhalda þessum forna rétti fjórðungsmanna.“

Þá vil ég einnig geta þess, að á árunum 19l4 og 1916 stóð hreppsnefnd Gnúpverjahrepps að því að selja rétt til virkjunar fallvatna á afrétti hreppsins og landspildur smærri og stærri úr afréttarlandinu. Hreppsnefndin var ekki í neinum vafa um rétt sinn til þess. Hún var ekki í vafa um rétt sinn til þess að ráðstafa þessum eignum, og voru færustu lögfræðingar og dómarar á sömu skoðun. Því til sönnunar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, kynna þetta úr kaupsamningunum, sem gerðir voru:

Árið 1914 var gerður samningur við h.f. Títan um réttindi til virkjunar í fossum og seldar nokkrar landspildur meðfram þeim. Liður d. og e. í 1. gr. samningsins er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Eignarhluti seljanda í Hjálparfossi í Fossá ásamt öllu vatni og árfarvegi, 200 faðma upp ána frá fossinum og 200 faðma niður ána frá fossinum, svo og með 300 faðma breiðri landspildu af landi hreppsins milli téðra endimarka fyrir ofan og neðan fossinn.“ Og e. „Geldingaárfoss í Geldingaá ásamt öllu vatni og árfarvegi. Í kaupinu er undanskilinn allur námaréttur hvers kyns, sem er í ofannefndum landssvæðum hreppsins.“

Sem sagt, í samningnum er ekkert hik á því, að hreppnum bar réttur til námagraftar á þessu svæði, og er hann undanskilinn þar með. Undir afsal vegna þessa samnings er ritað:

„Reykjavík 16. júlí 1914 fyrir hönd hreppsnefndar Gnúpverjahrepps samkv. viðfestu umboði dags. 13. júlí 1914 með Eggert Briem skrifstofustjóra sem lögfræðilegum ráðunaut. Gestur Einarsson.“

Og enn fremur undirskrifað: „Gert í samráði við mig. Eggert Briem.“

Þá vil ég kynna hér einnig samning, sem gerður var árið 1916 við Einar Benediktsson, og fjallaði hann um sölu á landspildu, sem er í næsta nágrenni við núverandi virkjun við Búrfell. 3. gr. samningsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hreppurinn áskilur sér rétt sinn til skógarhöggs í Búrfellshálsi óskertan og endurgjaldslausan. Þó skal þetta skilyrði ekki mega koma í bága við starfrækslu eða afnot kaupandans af því selda, en gjalda skal hann fullar bætur eftir mati dómkvaddra; óvilhallra manna fyrir tjón það, sem þá kann að verða á skógarhögginu. Sömuleiðis áskilur hreppurinn sér rétt til uppreksturs og afréttarnotkunar á hinni seldu landspildu endurgjaldslaust, svo lengi sem það kemur ekki í bága við starfrækslu kaupanda eða þeirra, sem hann framselur rétt sinn á landinu.“

Þetta er um rétt hreppsins, sem þarna er tryggður og er ekki véfengdur. Á þennan samning er ritað: „Samningur þessi er gerður í samráði við undirritaðan eftir ósk hreppsnefndarinnar. Reykjavík, 3. okt. 1916. Eggert Briem yfirdómari.“

Ég hygg, að þessar tilvitnanir sýni það, að skilningur manna á Suðurlandi er sá, eins og ég lýsti hér í upphafi, að sveitirnar hafi átt óskoraðan rétt til þessa lands og það hefur verið þeirra skýlaus eign, og mér sýnist, að áskrift Eggerts Briem síðar yfirdómara sanni það, að almúgamaðurinn var ekki einn um þessa skoðun á þeim árum.

Þá þykir mér rétt að geta þess, að vikurnám hefur viðgengizt í afrétti Gnúpverjahrepps frá því 1932, þ.e.a.s. frá þeim tíma, að hægt var að nýta vikurinn vegna flutninga. Ef ég man rétt, mun það hafa verið frá 1932 og allt til þessa dags, og tekur sveitarsjóður að sjálfsögðu gjald fyrir hann.

Þessum aths. hef ég viljað koma á framfæri hér, svo að það liggi strax fyrir, að ég tel eignarrétt sveitarfélaganna á afréttunum óvéfengjanlegan, og þær upplýsingar, sem ég hef gefið, sýna, að ég er ekki einn um þá skoðun, heldur hefur hún verið ráðandi um ráðstöfun landsins um langan aldur, og hefur einn af færustu dómurum landsins staðfest þann skilning sem hinn rétta með undirskrift sinni undir þá samninga, sem ég var að lýsa hér. Ég fæ því ekki betur séð en bein yfirlýsing Alþingis um að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign væri eignaupptaka og mundi draga þann dilk á eftir sér, að um stórvægilegar greiðslur skaðabóta yrði að ræða, ekki einvörðungu vegna eigna einstaklinga, heldur og fyrir eignir sveitarfélaganna í landinu.

Ég vara við því, að þetta spor verði stigið. Með það fyrir augum hef ég gert þessar aths