04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (4122)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að till. þessi boðaði róttæka byltingu á sviði eignarréttarins. Ég get tekið undir þetta. Flm. er fullkomlega ljóst, eins og fram kom í orðum mínum, er ég mælti fyrir till., að hér er um mjög stórt og veigamikið mál að ræða. Hins vegar vil ég benda á, að við höfum hvorki í þessari till. eða annars staðar lagt til breytingar á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og við höfum ekki í huga neina eignaupptöku, eins og hv. 6. þm. Sunnl. sagði hér áðan. Honum hefur sézt yfir þá setningu í 1. lið í till., að það eigi að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila liggja ekki fyrir.

Ræða hv. 6. þm. Sunnl., þar sem hann sýndi fram á viðhorf, sem ríkt hefur hjá mörgum aðilum á Suðurlandi, var um leið glöggt dæmi um það, hversu óljóst þetta mál er og hversu nauðsynlegt er að fá úr því skorið, hvort þessi skilningur á eignarrétti er réttur og þá hve langt hann nær. Eins og hann sagði sjálfur, er þetta deilumál. Þetta deilumál er þess eðlis, að ef við látum það vera óútkljáð lengi enn, geta af því skapazt í framtíðinni vandamál, sem verða þyngri og þyngri eftir því sem tíminn líður. Ef hann er jafnviss í sinni sök og mér virtist af ræðu hans, þá ætti hann ekki að þurfa að óttast slíkt uppgjör, en hlýtur að geta verið mér sammála um það, að æskilegt væri að fá staðfestingu á því, hvort hans skilningur er réttur eða ekki.

Kjarninn í þessu máli er sá, að talið hefur verið mjög vafasamt um langan aldur, hver væri raunverulegur eignarréttur á stórum hlutum landsins. Menn tala um, að þeir eigi afrétti, en það hafa margir lögfróðir menn efazt um, að þetta þýði, að þeir eigi landið. Úr þessu viljum við fá skorið. En við bendum jafnframt á það, að einmitt nú á síðustu árum er mjög vaxandi ásókn þeirra manna og félaga, sem hafa yfir fjármunum að ráða, að komast yfir jarðir, sem þeir ætla sér ekki að búa á eða nytja, heldur kaupa sem fjárfestingu til að græða á þeim og til þess að skapa sér aðstöðu.

Tilgangurinn með því, að ríkið eigi sem mest af landinu, er auðvitað sá, að þjóðin þurfi ekki að borga stórkostlega fjármuni fyrir land, sem hún kann að þurfa að nota síðar, annaðhvort til atvinnufyrirtækja eða til að geyma svæðin, taka þau frá, þannig að þjóðin geti síðar átt aðgang að þeim.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að hálendið væri allt opið, við gætum farið um það eins og við vildum, það væri meira að segja leyfilegt að byggja skóla uppi undir jöklum. Þetta er rétt í dag. En hversu lengi verður þetta svo? Ef nokkuð er að marka þróun í öðrum löndum, sem við getum mikið lært af, þá getum við búizt við því, að það verði breytingar í þessum efnum og girðingunum muni fjölga, ekki aðeins girðingum bændanna, heldur girðingum, þar sem stendur á, að óviðkomandi sé bannaður aðgangur. Það gæti verið, að það yrði fleira bannað en berjatínsla á stórum hlutum þessa lands, svo að hagur þeirra, sem búa í þéttbýlinu geti þrengzt all verulega — og ég vil taka fram aftur, ekki vegna aðgerða eða atvinnu bændanna, heldur ýmissa aðila, sem eru að seilast til landa og leggja þau undir sig, til allt annars en að búa á þeim sjálfir.

Það er fróðlegt að heyra merkisbónda segja það hér á Alþingi, að ungir menn geti varla hafið búskap á Íslandi í dag, vegna þess hve landið er orðið dýrt. Það skyldi þó ekki vera, að það væri vandamál. sem þjóðfélagið ætti að gefa gaum, hvort ástæða er til þess að láta hverja kynslóð kaupa landið upp á nýtt til að hagnýta það. Ég veit, að þetta eru gamlar og byltingarkenndar hugmyndir, en það sakar ekkert að taka þær fram og athuga þær upp á nýtt við nýjar aðstæður. Og þær breyttu aðstæður eru nýr skilningur á því, hve landið er verðmætt og miklu meira fjármagn en áður hefur verið til seilist til þess að ná yfirráðum yfir landinu í þeim tilgangi að græða á því, braska með það á einn eða annan hátt.

Mér þótti heldur leiðinlegt að heyra hv. 6. þm. Sunnl. segja, að hann teldi fráleitt að setja hag þjóðarheildar fram fyrir hag einstaklinga. Ég vil taka það fram, að ég er algerlega á öndverðum meiði við hann um þetta. Ég tel, að þar sem hagur þjóðarheildarinnar rekst á hag einstaklingsins, eigi þjóðarheildin að ganga fyrir. Það eru 205 þúsund á móti einum. Og það er einmitt á þessu sviði, sem slíkir árekstrar geta orðið margir í framtíðinni.

Ég vil endurtaka það, að okkur flm. er ljóst, að hér er um að ræða mjög viðamikið mál, sem mun taka langan tíma og feiknalega vinnu. En við teljum, að það verði að byrja á þessu verki, og því fyrr sem byrjað er á því, því fyrr munum við ljúka því og koma þessum málum í fastara og betra horf. Það mun verða þjóðinni til mikillar farsældar í framtíðinni að koma þessum málum í fastara form, áður en meira tjón verður gert og málin verða gerð mun flóknari, eins og ég hygg, að þau muni að öðrum kosti verða með hverju ári sem líður.