04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (4125)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins tvær eða þrjár setningar. Það er nú í fyrsta lagi um rjúpnaskytterí og berjatínslu. Ég held, að það væri nú full þörf á því að koma í veg fyrir það, að þessir menn úr bæjunum — því að það eru nú aðallega bæjarmenn, sveitamenn hafa nú orðið ekki tíma til að fást við rjúpnaveiði, — fari nú eitthvað varlegar í sitt skytterí hér eftir en hingað til, því að þeir eru nú næstum því búnir að eyða rjúpunni. Þær fáu rjúpur, sem eftir eru, eru að skjótast á milli húsa suður í Rangárvallasýslu, þar í þorpunum, og hér á Suðurlandi. Þær telja sig betur verndaðar þar undir húsveggjunum, en á fjöllum uppi, því að þar eru þær eltar af ýmsum bæjarbúum, sem gera sér þetta til skemmtunar.

Ég hef nú ekki orðið var við, að það væri amazt við berjatínslu yfirleitt á afréttum. Ég hef sjálfur séð fólk vera í friði og makindum að tína ber víða á afréttum, og sannarlega má það fyrir mér njóta þess. Ég öfunda það ekkert af því og óska eftir því einmitt, að það geti fengið að njóta þessarar ánægju að safna sér berjum uppi í afréttum og ég hef hvergi orðið var við, að það væri bannað. Hins vegar er þetta bannað víða í heimalöndum og það er ósköp eðlilegur hlutur, að menn vilji sitja að því sjálfir, sem er næst þeim.

Um eignarheimildina, sem hér hefur verið rætt um, á afréttunum vildi ég minna á það, sem ég gleymdi í raun og veru áðan að segja, að þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín fóru um allt Ísland og lýstu hverri einustu jörð á landinu nákvæmlega, — það geta menn lesið sjálfir í jarðabókum þessara merku manna, — þá er tekið fram um hverja einustu jörð, að þarna og þarna eigi hún afrétt. Og af hverju er það gert? Það er gert, af því að afréttirnar eru taldar hluti af jörðinni. Og ég tel, að þetta sé einhver sterkasta heimild, sem nú er fyrir hendi um það, hver eignarréttur sé á afréttum landsins.

Um þessa stóru jökla, Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og slíkar jökulbreiður, þá tel ég, að þeir séu þjóðareign. Þetta eru forðabúr, sem geyma orkuna fyrir okkur og miðla henni gegnum fallvötnin til sjávar. Þetta eru einhverjar dýrmætustu orkulindir okkar, jöklarnir. Þó að okkur hafi nú stundum þótt nóg um kuldann frá þeim, þá eru þeir einhverjar dýrmætustu orkulindir okkar. Og ég held, að það hafi nú enginn bóndi hug á því að fara að eiga part í þessum jöklum að öðru leyti en því, sem þeir eiga þá eins og aðrir landsmenn. Og ég hef aldrei heyrt talað um það, að bændur hafi verið að ágirnast þessar miklu orkulindir og þessi miklu forðabúr, þar sem jöklarnir eru. Þess vegna má hv. síðasti ræðumaður og aðrir ágætir Íslendingar eiga þá í friði með okkur öllum hinum. Ég hef engan áhuga fyrir, að bændur hafi eignarrétt sérstaklega á þeim pörtum landsins. En þar sem um er að ræða verðmæti eins og afréttina, sem geyma að mínu viti geysilega mikil verðmæti, þar sem eru beitilöndin og sums staðar veiðiréttur, veiðiskilyrði allmikil, sem hafa bjargað heilum sveitarfélögum stundum frá hungri, ég álit, að þetta, sem búið er að vera eign jarðanna síðan landið byggðist, verði að fylgja áfram og það megi ekki taka þetta undan jörðunum. Það sé rangt og það sé hrein bylting að ætla sér að breyta þessu.