04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (4134)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það munu nú vera nær tveir áratugir síðan raddir fóru að koma fram um það hér á hinu háa Alþingi, að nauðsynlegt væri þjóðfélagshagsmuna vegna að gera sérstakar ráðstafanir til þess að stuðla að því, sem kallað hefur verið jafnvægi í byggð landsins, þ.e. að koma í veg fyrir það, að um óeðlilegan tilflutning fólks yrði að ræða í landinu og reynt yrði að stuðla að þeirri meginstefnu, að hvarvetna þar sem búsetuskilyrði og atvinnuhættir leyfðu, gæti fólk dvalizt áfram og ekki yrði um óeðlilega tilflutninga að ræða nema það, sem þjóðfélagsþróunin hverju sinni hlýtur að sjálfsögðu að leiða af sér og verður jafnt í okkar þjóðfélagi sem annars staðar. En ástæðurnar til þess, að þessar raddir komu fram hér á Alþ., voru þær, að bæði var við að stríða atvinnuerfiðleika á ýmsum stöðum úti um land og einnig ekki hvað sízt vegna hins, að þróunin hafði verið þannig undanfarinn áratug eða áratugi, að tilflutningur fólks hafði verið mjög óeðlilegur og stórkostleg umframfjölgun hafði orðið hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa vegna atvinnuástæðna. Þá sögu þekkja allir, og skal ég ekki rekja hana. En það þótti nauðsynlegt af Alþ. að gera vissar ráðstafanir í þessu sambandi. Það var að vísu ekki í stórum stíl, sem hafizt var handa. Það mun hafa verið fyrst í fjárlögum ársins 1954, að ríkisstj. þáv. beitti sér fyrir því, að veitt var 5 millj. kr. heimild til að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu á þann hátt, sem hún teldi heppilegast. Um rúmlega 10 ára bil voru síðan sérstakar fjárveitingar veittar í fjárlögum, sem ráðstafað var allt til ársins 1959 af ríkisstj. sjálfri og varið til þess að styðja ýmis sveitarfélög og atvinnufyrirtæki víðs vegar á landinu, þar sem við atvinnuörðugleika var að stríða. Það var 1959, sem ákveðið var, að Alþ. sjálft tæki þessa úthlutun að vissu leyti í sínar hendur með kosningu sérstakrar nefndar. Þetta þótti þá ekki heppileg skipan og þyrfti að koma á þetta fastara formi, og því var það nokkrum árum síðar, að sett voru lög um Atvinnubótasjóð, og síðan nú fyrir nokkrum árum í sambandi við framkvæmdirnar í Straumsvík, þá voru sett lög um Atvinnujöfnunarsjóð, þar sem eðlilegt þótti með hliðsjón af því, að þarna reis á einum stað á landinu stórkostlegt atvinnufyrirtæki, að hluti af tekjum þjóðarbúsins af rekstri þess rynni einmitt til sérstaks sjóðs, er hefði það markmið að stuðla að atvinnujafnvægi í öðrum byggðarlögum landsins.

Með þessum hætti hefur allt frá árinu 1954 í vaxandi mæli verið séð fyrir fjármagni til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og hefur þessu fé verið varið til alls konar atvinnurekstrar, uppbyggingar margvíslegra fyrirtækja og til aðstoðar sveitarfélögum og þá fyrst og fremst og ekki hvað sízt þar, sem þannig hefur verið ástatt, að ekki hefur verið auðið að koma við almennri lánafyrirgreiðslu lánastofnana, vegna þess að aðstæður hafa ekki verið slíkar eða örðugleikarnir meiri en svo, að það væri hægt að fylgja þar almennum lánareglum, heldur var um veruleg áhættulán að ræða. Þessa sögu skal ég ekki rekja nánar, en taldi nauðsynlegt að rifja þó þetta mál upp.

Það kom fljótlega í ljós, að menn gerðu sér grein fyrir því, einnig hér á Alþ., að það væri ekki nóg að afla fjár í þessu skyni, heldur yrði að vinna að þessum umbótamálum með kerfisbundnum hætti, og voru um þetta fyrst gerðar hér ályktanir, en upphaf að sérstakri áætlanagerð, gerð svokallaðra byggðaáætlana, er að finna í svokallaðri Vestfjarðaáætlun, sem hafin var snemma á síðasta áratug, og voru það norskir sérfræðingar, sem unnu að gerð þeirrar áætlunar á vegum Framkvæmdabankans að tilstuðlan ríkisstj. Þá kom í ljós, að hér var um stórfellt viðfangsefni að ræða, en tilgangurinn með því var að reyna að stuðla að því, að fólksstraumur væri ekki jafnmikill og verið hafði brott frá þessum landshluta, en það hefur verið um einna mestan tilflutning að ræða á fólki einmitt frá Vestfjörðum. Því þótti rétt að byrja á því svæði, enda hafði Alþ. gert um það sérstaka ályktun. En til þess að þetta væri auðið, þá komust menn að þeirri niðurstöðu eða þessir sérfræðingar, að hér væri um svo umfangsmikið mál að ræða, að það yrði að gera það í áföngum. Og niðurstaðan varð því sú, til þess að þetta rynni ekki út í sandinn, heldur væri hægt að taka það föstum tökum, að hafizt var handa um gerð samgönguáætlunar Vestfjarða, og mun það hafa verið nokkuð samdóma álit manna, að það væri eðlilegt, vegna þess að Vestfirðir ættu við mesta erfiðleika að stríða einmitt vegna samgönguörðugleika. Að þessari áætlun var svo unnið með sérstakri fjáröflun. Ekki var notað til þess það fé, sem var til ráðstöfunar til atvinnujöfnunar almennt í landinu, heldur var þetta gert með sérstakri fjáröflun frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins og að þessu unnið um sex ára skeið. Þeirri áætlun var þá lokið, og hefur hún tvímælalaust orðið til stórfelldra hagsbóta fyrir Vestfirðinga.

Síðan gerist það á árunum 1964 og 1965, að hafizt er handa um gerð næstu áætlunar í samvinnu við og í framhaldi af samkomulagi milli verkalýðsfélaganna og ríkisstj. og vinnuveitenda á Norðurlandi og Norðausturlandi. Var samkvæmt því samkomulagi ákveðið að gera þar áætlun um atvinnumál, þróun atvinnumála á Norðurlandi, vegna þess að það var einnig, að ég hygg, samdóma álit allra, eins og sakir stóðu um það leyti, að enginn landshluti væri eins illa stæður atvinnulega og Norðlendingafjórðungur. Að þessari áætlun var unnið af innlendum sérfræðingum, fyrstu byggðaáætlun, sem unnin var af þeim á vegum Efnahagsstofnunarinnar, og tók það að vonum alllangan tíma, eða ein 3—4 ár, að ganga endanlega frá atvinnumálaþætti þeirrar áætlunar, en áður en því væri að fullu lokið, þá þótti brýna nauðsyn bera til þess að afla einnig sérstaks lánsfjár, tryggja það í tæka tíð, þannig að áætlun þessi yrði ekki pappírsgagn, og var það gert. Ríkisstj. hafði forgöngu um að tryggja fé til framkvæmda á atvinnumálaþætti Norðurlandsáætlunar.

Það var strax talið sjálfsagt og eðlilegt, þegar hafizt var handa um gerð áætlunar sem þessarar, að ekki yrði haft það margt í takinu, að þetta yrðu aðeins pappírsgögn, heldur væri ein áætlun látin taka við af annarri, þannig að hægt væri að framkvæma þær með raunhæfum hætti. Á allra síðustu árum hefur þó verið nokkru meiri hraði hafður á þessu. Eftir að Atvinnujöfnunarsjóður tók til starfa var þetta verkefni fengið honum í hendur eða gert ráð fyrir því í lögum sjóðsins, að hann gæti látið gera sérstakar byggðarþróunaráætlanir fyrir einstök byggðarlög eða héruð eða landssvæði. En áður hafði þetta verið gert fyrir tilstuðlan ríkisstj., bæði Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun.

Fyrsta áætlunin, sem ákveðið var að gera á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs, var samgönguáætlun fyrir Austurland, og var samkomulag um það, til þess að takmarka viðfangsefnið og gera það enn , þá viðráðanlegra og raunhæfara, að takmarka sig þar við vegáætlun. Tókst að ljúka þeirri áætlun á mjög skömmum tíma. Í sambandi við þá áætlun, sem hafizt var handa um framkvæmd á nú á þessu ári, sá ríkisstj. einnig til þess, að áður en áætluninni var lokið var tiltækt fjármagn til þess, að hægt væri að hefjast handa um framkvæmd áætlunarinnar samstundis og frá henni hafði verið gengið. Og því er það, að fyrsti áfangi vegáætlunar Austurlands er nú kominn í framkvæmd á þessu ári, að séð var fyrir fé til þess á s.l. vetri.

Næsta skrefið í þessari áætlunargerð til byggðaþróunar og til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins var síðan ákvörðun stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs að gera samgönguáætlun fyrir Norðurland, en mjög hafði verið óskað eftir því, að það yrði næsta skrefið í jafnvægismálum eða byggðaþróunarmálum Norðlendinga, að slík áætlun yrði gerð, enda má raunar segja, að samgönguáætlun fyrir Austfirði gagni ekki nema að hálfu leyti, ef ekki er komið á viðhlítandi samgöngum á Norðurlandi. Að þessari áætlun hefur verið unnið nú að undanförnu, og það má gera ráð fyrir því, að auðið verði að ljúka a.m.k. vissum þáttum þeirrar áætlunar í vetur, og þá stöndum við andspænis þeirri sömu nauðsyn og áður, að stuðla að því, að fjármagn verði til staðar, til þess að framkvæmd áætlunar þessarar þurfi ekki að stöðvast vegna fjárskorts.

Ég hef talið rétt að greina frá, hvernig unnið hefur verið að þessum áætlunum og hvernig séð hefur verið fyrir fé til þeirra, til þess að menn skyldu ekki ætla, að þessi till., sem nú liggur fyrir og fjallar einmitt um öflun lánsfjár nú þegar, til þess að hægt verði að gera samgönguáætlun Norðurlands að veruleika þegar eða hefjast handa um framkvæmdina þegar á næsta sumri, að ekki væri hægt að segja, að þar væri um einhverja yfirboðstillögu að ræða. Hygg ég, að öllum hv. þm. sé ljóst, eftir að ég hef rakið það, hvernig þetta hefur gerzt með aðrar áætlanir, sem unnið hefur verið að, að hér er ekki um annað að ræða en að óskað er eftir því, að nákvæmlega eins verði að farið varðandi þennan þátt framfaramála á Norðurlandi, því að það hefur verið séð fyrir sérstakri fjáröflun, enda ekki annað auðið, því að Atvinnujöfnunarsjóður sem slíkur hefur ekki nægilegt fé til umráða til þess, að hann geti risið undir framkvæmdum samkvæmt slíkum áætlunum. Og það er einnig rétt að geta þess, svo sem átti sér stað samkvæmt vegáætlun Austurlands, að það er auðvitað ætlazt til þess, að hér komi til viðbótarfjármagn. Þegar aflað var 60 millj. nú í ár til framkvæmda á Austurlandi, þá var á engan hátt dregið úr hinum almennu vegaframlögum til Austurlands, enda hefði þá þessi áætlanagerð verið ónýt. Á sama hátt verður auðvitað að gera ráð fyrir því, að venjulegum fjárveitingum verði haldið uppi með eðlilegum hætti til Norðlendinga, þ.e. til kjördæmanna beggja á Norðurlandi, sem hér er um að ræða, enda þótt áætlunargerð sem þessi verði unnin og framkvæmdir hafnar samkvæmt henni, sem ég tel brýna nauðsyn, að verði á næsta ári. Hér er auðvitað ekki eingöngu um vegamál að ræða, þó að það sé einn allra mesti og ég vil segja fremsti þátturinn í samgöngubótunum hvað mikilvægi snertir, heldur samgöngurnar almennt. En eins og lítillega er drepið á í grg., þá hefur þegar verið hafizt handa á þessu svæði um mikilvægar vegaframkvæmdir, aðrar eru hvað athugun snertir á lokastigi. Það er nauðsynlegt, að hægt verði að hefjast handa um þær framkvæmdir, svo sem veg yfir Vaðlaheiði, — sem hefur auðvitað grundvallarþýðingu fyrir Austurland, — eftir að vegarstæðið hefur verið athugað og sú nefnd, sem að því vinnur, hefur lokið störfum. Einnig er nauðsynlegt, að þær framkvæmdir, sem unnið hefur verið að á öðrum svæðum á Norðurlandi á þessu ári, fyrir lánsfé af brýnni nauðsyn, að þær stöðvist ekki, heldur verði hægt að halda samfellt áfram á næsta sumri.

Ég vona, herra forseti, að þessi orð mín og skýringar á þróun byggðamálanna og hvernig að áætlanagerðum hefur verið unnið að undanförnu stuðli að því, að menn geti sameinazt um að fallast á ályktun þá, sem hér er um að ræða, því að í þeirri ályktun felst ekki á nokkurn hátt vantraust á hæstv. ríkisstj., að hún hafi ekki skilning á þessu máli, en það þótti þó rétt að hreyfa þessu strax í upphafi þessa þings til þess að vekja athygli á, að hér er um viðfangsefni að ræða, sem er nauðsynlegt að hefjast handa um þegar í stað, vegna þess að það getur vitanlega tekið sinn tíma að afla þess lánsfjár, sem hér er um að ræða. Ég skal svo aðeins geta þess að lokum, að óskað hefur verið eftir, að unnið yrði á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs að atvinnumálaáætlun fyrir Vesturland og Vestfirði, sem hlýtur að sjálfsögðu að koma í framhaldi af þessari áætlunargerð. En það eru áætlanir, sem taka áreiðanlega lengri tíma, og enn fremur er ljóst, að ekki verður öllum þessum áætlunum hrundið í framkvæmd samtímis, en þær áætlanir hafa auðvitað einnig mikla grundvallarþýðingu til að stuðla að atvinnujafnvægi í þeim landshlutum.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.