04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (4135)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða ýkja langorður um þetta mál. Það má kannske segja, að þessi till. sé góðra gjalda verð, ef maður vill vera kurteis. En hins vegar vekur það furðu mína, að aðal flm. hennar skuli vera fráfarandi fjmrh. Ég býst við því, sem ekki er óeðlilegt, það vil ég segja, að hann telji sig eiga verulegan þátt í því að hafizt var loks handa um gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland, og það er ekki ætlun mín að gera hlut hans lítinn í því máli. En ég vil þó minna á í þessu sambandi, að upphaf þess, að hafizt var handa um gerð áætlunar um samgöngur á Norðurlandi, má helzt rekja til bréfs, sem einir 15 þm. úr Norðurlandskjördæmum báðum skrifuðu Atvinnujöfnunarsjóði fyrir u.þ.b. ári síðan.

Sem sagt það, sem vekur eiginlega alveg furðu mína í sambandi við þetta mál, er það, að það skuli vera fráfarandi fjmrh., sem er rétt nýstaðinn upp úr ráðherrastólnum, að hann skuli þá á fyrsta eða öðrum degi þingsins gera þá kröfu til ríkisstj., sem ekki er vitað til, að hann hafi sjálfur fullnægt, meðan hann var ráðh. og er þó búið að vinna að þessari samgönguáætlun alllengi og þ.á.m. á þeim tíma, þegar hann fór með ráðherravöld. Og ég vil spyrja, hvort þessi hv. þm. hafi gert eitthvað til þess að tryggja fjármagn til samgönguáætlunar á Norðurlandi, á meðan hann sat í ríkisstj. Það má vel vera, að hann hafi haft uppi einhvern viðbúnað í því efni, en þó er ekki vitað til þess almennt, að hann hafi skilið þannig við, að núv. hæstv. ríkisstj. geti notið þess á nokkurn hátt. Það er a.m.k. alveg víst, að almennur viðskilnaður fráfarandi ríkisstj. er ekki með þeim hætti, að það sé við því að búast, að hæstv. ríkisstj. geti nú strax á fyrstu dögum þingsins lagt fram fjármagn í þessa ágætu Norðurlandsáætlun um samgöngumál, sem á döfinni er. Því miður er arfurinn frá fyrrv. ríkisstj. ekki á þann veg í fjárhagsefnum og efnahagsmálum yfirleitt, að núv. ríkisstj. geti sérstaklega notið þess. Þvert á móti er viðskilnaður fráfarandi ríkisstj. þannig í fjárhagsmálum og efnahagsmálum, að núv. ríkisstj. er dæmd til þess að gjalda fyrir hann. Sá arfur, sem fráfarandi ríkisstj. skildi eftir sig, var hrúga af ógreiddum reikningum, sem nú kemur í hlut ríkisstj., sem nú fer með völdin, að ráða fram úr, hvernig með skuli fara. Það kemur mér og ýmsum öðrum ekki út af fyrir sig neitt á óvart, þó að fráfarandi ríkisstj. hafi gleymt því að útvega fé í samgöngumálaáætlun Norðurlands, en ég átti ekki von á því, að fráfarandi fjmrh. þeirrar ríkisstj., nú hv. 2. þm. Norðurl. e., ætti eftir að gerast sá merkisberi sýndarmennskunnar, sem lýsir sér í því að sjóða saman þessa till. á fyrsta degi þingsins. Því að ég ætla þessum hv. þm. annan hlut en þann að halda hér í þingsölunum á loft merkjum sýndarmennskunnar. Þetta mál, eins og flest önnur mál, sem sjálfstæðismenn hafa uppi nú á hv. Alþ., er með skýru merki sýndarmennskunnar. Ég ætla ekki að svara fyrir hönd ríkisstj., það gera viðkomandi ráðherrar, vona ég,. en ég vil láta það í ljós sem mína skoðun og sannfæringu, að hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, geri sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir varðandi vegamál og önnur samgöngumál, hvort heldur er á Norðurlandi eða annars staðar.

Ástandið í vegamálum Norðurlands er vægast sagt hörmulegt og að vissu leyti verra en í öðrum landsfjórðungum. Hefur Norðurland orðið svo út úr í vegamálum á síðustu 10—12 árum, að róttækra aðgerða er þörf, ef úr á að bæta. Að vísu gjalda allir landsfjórðungar utan Reykjavíkursvæðisins að meira eða minna leyti hinnar röngu og hinnar ranglátu stefnu í vegamálum allt frá því að Sjálfstfl. tók við stjórn þeirra mála fyrir rúmum áratug. En þessi öfugsnúna stefna hefur ekki sízt komið niður á Norðurlandi. Þar eru nú einna verstir vegir á öllu landinu. Þeir eru illa lagaðir fyrir hina miklu sumarumferð og þungaflutninga, og þeir eru yfirleitt alóhæfir á vetrum, vegna þess að þeir eru ekki gerðir í samræmi við snjóalög á Norðurlandi, en allir vita, að á Norðurlandi eru mikil og langvarandi snjóþyngsli svo að segja á hverju ári. Auk þess kemur það til, að vegir á Norðurlandi eru gamlir og illa upp byggðir miðað við nútímaaðferðir, þeir eru niðurgrafnir á löngum köflum, malarlausir og undirlagðir holklaka margar vikur á hverju vori. Ástandið er þannig t.d. í kringum Akureyri, að þar er ekki fært nema á torfærubílum til næstu sveitarbæja, þó að ekki séu þeir nema steinsnar frá bæjarmörkunum. Samgöngur milli Akureyrar og Húsavíkur hljóta að liggja niðri svo að vikum skiptir vegna aurbleytu á þjóðvegunum, sem tengja þessa aðalkaupstaði á austurhluta Norðurlands. Sama er að segja um samgöngurnar á milli Akureyrar og Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Þar er ekki fært nema fuglinum fljúgandi langtímum saman á vorin vegna holklakans á illa gerðum vegum. Og á vetrum fennir allt í kaf vegna þess, að umferðaræðarnar eru niðurgrafnar rásir á löngum köflum í stað þess að vera upphlaðnir vegir eins og vegir eiga að vera og orðið sjálft vísar á. Allt stjórnartímabil fráfarandi ríkisstj., í 11—12 ár, voru Norðlendingar sviknir í vegamálum, og það mun koma í hlut hinnar nýju ríkisstj. að bæta úr því, hvort sem það nú verður á fyrstu dögum yfirstandandi þings eða eitthvað síðar. Miðað við vegamálastefnu fráfarandi ríkisstj. er þessi till. eintóm sýndarmennska og til þess eins fallin að rifja upp þá eymd, sem ríkt hefur í vegamálum landsbyggðarinnar allt stjórnartímabil fráfarandi ríkisstj. og þá alveg sérstaklega aumt ástand vegamálanna á Norðurlandi.