17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

119. mál, verðlagsmál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 12. þm. Reykv. Það er mín meining, að ef konur vilja komast í þessa verðlagsnefnd, þá ættu þær að vinna að því að komast þangað sem fulltrúar þeirra samtaka, sem eiga rétt á því að fá fulltrúa í nefndina. Af hverju eru konur t.d. ekki fulltrúar ASÍ eða BSRB? Í þessum stóru samtökum eru fjölmargar ágætar konur. Og hvernig er þá með hin samtökin, sem nefnd eru í frv.? Af hverju þarf sérstaklega að taka fram, að fulltrúinn sé kona? Þessir nm. eru níu og ekkert mælir gegn því, að þeir séu allir kvenmenn. Hvergi er tekið fram, að þeir eigi að vera karlmenn, hvorki í frv. né í brtt., nema þessari.

Ekki dettur okkur karlmönnum t.d. í hug að flytja brtt. um það, að karlmannafélagasamband Íslands fái sérstakan fulltrúa. Mér finnst till. fráleit og hreint vantraust á getu kvenna til þess að vinna sér sæti í kerfínu af eigin rammleik, og maður átti sízt von á slíkri till. frá þriðjungnum af þeim kvenmönnum, sem sitja hér á þingi. Hins vegar treysti ég okkar ágæta kvenkyni miklu betur en svo, að þær séu ekki fyllilega færar til þess að vinna sér sinn réttmæta sess eftir venjulegum leiðum.