11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (4142)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 3. og 4. þm. Norðurl. e. í umr. um þetta mál, sem nú er til umr. hér í þingsölum, tel ég rétt að upplýsa eftirfarandi í viðbót við það, sem komið hefur fram hjá hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér er til umr.

Byrjað var að framkvæma atvinnumálaþátt Norðurlandsáætlunar árið 1969. Til þess stórátaks í atvinnumálum Norðlendinga var aflað sérstaks fjár. Samtímis voru atvinnumálanefndir að störfum, eins og kunnugt er, og í hlut Norðlendinga kom hlutfallslega mikið fé af ráðstöfunarfjármagni þeirra og að auki verulegt ráðstöfunarfjármagn Atvinnujöfnunarsjóðs. Ég hygg, að enginn, sem þekkir til atvinnusögu Norðlendinga síðustu árin og þ.á.m. hv. 3. og 4. þm. Norðurl. e. geti haldið því fram í alvöru, að hér hafi ekki verið rétt að unnið. Í kjölfar síldarbrestsins og verðfalls á sjávarafurðum árin 1967—1969 komu greinilega í ljós veikleikar norðlenzks atvinnulífs. Það er alkunna, að síldveiðar og síldariðnaður voru einir meginburðarásar þess um langt skeið. Útgerðarhættir voru með þeim hætti, að norðlenzkir bátar sóttu síldveiðar á sumrum, en jafnframt sóttu allir stærri bátar á vetrarvertíð við Suðvesturland. Þegar síldin færði sig fjær Norðurlandi og sókn báta jókst á vetrarvertíð við Suðvesturland, fór svo, að sáralítill síldarafli barst til Norðurlands og sum árin eftir 1960 skipuðu norðlenzkir bátar meiri þorskafla á land til fiskiðjuvera á Suðvesturlandi yfir vetrarvertíðina en þeir lönduðu allt árið á Norðurlandi. Það gefur því auga leið, að þróun norðlenzkra útgerðarhátta annars vegar og síldarbresturinn hins vegar og þau samdráttaráhrif, sem hann hafði fyrir atvinnulíf allra landsmanna, komu alveg sérstaklega illa niður á atvinnulífi Norðlendinga. Þetta má raunar sýna fram á með beinhörðum tölum. Árin 1969 og 1970 varð, að meðaltali fimm sinnum meira atvinnuleysi hlutfallslega á Norðurlandi, en í öðrum landshlutum. Ég vil því fullyrða, að þegar svo var komið vegna óhagstæðra ytri aðstæðna, hafi engum manni til hugar komið, að ekki bæri að leggja höfuðáherzlu á að gera stórátak til eflingar norðlenzku atvinnulífi. Um þetta varð alger samstaða milli samtaka Norðlendinga og ríkisvaldsins. Árangur er sá, að nú er ástandið gerbreytt. Ótvírætt er, að áfangasigur er unninn í norðlenzku atvinnulífi. Nú er verkefnið að fylgja þeim áfanga sigri til áframhaldandi framfarasóknar.

Það er ekki rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, að samgönguáætlun Norðurlands eigi rætur sínar að rekja til bréfs þm. til stjórnvalda. Það bréf kom í kjölfar aðgerða heima fyrir.

Enda þótt öll megináherzla væri, eins og áður segir, á því að efla atvinnulífið, var strax á árunum 1969 og 1970 tekið að undirbúa það innan Fjórðungssambands Norðlendinga, að næsta stórátak til eflingar byggðar í fjórðungnum skyldi vera samgönguáætlun Norðurlands, og á árinu 1970 var þess formlega farið á leit við stjórnvöld og þm. beggja kjördæma, að þeir beittu sér fyrir því, að slík samgönguáætlun yrði gerð. Á árinu 1970 var á hinn bóginn unnið að vegáætlun fyrir Austfirði, og kom þá í ljós við ítrekaðar óskir af hálfu Fjórðungssambands Norðlendinga, að Vegagerð ríkisins treysti sér ekki til að vinna að báðum áætlununum í einu. Af hálfu forráðamanna Fjórðungssambands Norðlendinga kom fram, að þeim þótti eðlilegt og sanngjarnt, að vegáætlun fyrir Austfirði hefði forgang í þessu efni, þar sem atvinnumálaþáttur Norðurlandsáætlunar var í framkvæmd, og því ekki eðlilegt, að byggðaáætlun fyrir tvo þætti á Norðurlandi sæti fyrir fyrstu byggðaáætlun á Austfjörðum. Það varð því að samkomulagi, að unnið skyldi að því að koma vegáætlun fyrir Austfirði í framkvæmd árið 1971, en Vegagerð ríkisins tjáði sig fúsa til þess að vinna að gerð samgönguáætlunar Norðurlands árið 1971, sem kæmist í framkvæmd á árinu 1972. Stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs samþykkti síðan formlega, að slík samgönguáætlun fyrir Norðurland yrði gerð, svo sem komið hefur fram í þessum umr. og sú ákvörðun stendur.

Þegar vegáætlun Austurlands var komin í burðarliðinn á síðasta hausti, kom það í hlut fyrrv. ríkisstj. að afla sérstaks fjármagns í því skyni. Á framkvæmdaáætlun hennar var því aflað 60 millj. kr. í þessu skyni umfram eðlilegar fjárveitingar á venjulegri vegáætlun. Það er ætlun okkar flm. þeirrar till., sem nú er til umr., að núv. stjórnvöld geri slíkt hið sama, þau afli fjármagns til þess að framkvæma samgönguáætlun Norðurlands, sem verður tilbúin til framkvæmda á næsta vori. Það er því einfaldlega krafa okkar, að núv. stjórnvöld standi sig ekki lakar en fyrrv. ríkisstj. á þessu sviði. Þetta kallar svo hv. 3. þm. Norðurl. e. sýndarmennsku. Það er vonandi, að fleiri hv. stjórnarsinnar á Alþ. séu honum ekki sammála í því efni.

Vegna ummæla hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáns Valgeirssonar, um að í stjórnarsáttmálanum standi, að hæstv. ríkisstj. ætli að beita sér fyrir stórauknu fé til vegaframkvæmda og þess vegna sé þessi till. nánast hlægileg, þá vil ég segja, að hér er um grundvallar misskilning að ræða. Norðurlandsáætlunin í samgöngumálum er byggðaáætlun, og fé til hennar er til viðbótar því fjármagni, sem veitt er á vegáætlun, sbr. Austfjarðaáætlun.

Út af þeim ummælum hans, að forstjóri Efnahagsstofnunarinnar hafi sagt, að áætlun væri ekki til, svo að framkvæmdir gætu ekki hafizt á næsta vori, þá vil ég upplýsa hann um, að framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga hefur símann 2 16 14 á Akureyri og hann getur fengið þar nýjustu upplýsingar um það mál. En spurningin er sú, hvort hv. þm. Framsfl. í Norðurl. e. vilja í raun fresta framkvæmd samgönguáætlunar Norðurlands til vorsins 1973. Það væri gott að fá úr því skorið, og mér er nær að halda, að þeir sýni hug sinn í verki í þá veru, ef þeir láta handjárna stjórnarlið og vísa þeirri till. frá, sem hér liggur fyrir, að sérstaks fjár sé nú aflað til samgöngubóta á Norðurlandi.

Kjarni þessa máls, sem hér er til umr., er sá, að fyrrv. stjórnvöld stuðluðu að stóreflingu atvinnulífsins á Norðurlandi einmitt þegar mest á reyndi í því efni þar. Í kjölfar þess, var strax hafizt handa af hálfu heimamanna að gera áætlun um sérstakar samgöngubætur, en fullnaðarvinna í því efni var ekki framkvæmd af tæknilegum ástæðum samtímis Austfjarðaáætlun. En nú er komið að því að framkvæma Norðurlandsáætlun í samgöngumálum. Þá er spurningin sú, sem ég vil að síðustu beina til hæstv. samgrh.: „Ætlar ríkisstj. að afla fjármagns til framkvæmda samgönguáætlunar Norðurlands á þessu hausti, eða ætlar hún ekki að gera það? Ætlar ríkisstj. að fella niður þann mikilvæga þátt í eflingu landsbyggðarinnar, sem er gerð og framkvæmd byggðaáætlana?“