11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (4144)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég er um eitt atriði alveg sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. og það er það, að við förum ekki að gera þetta að neinum framboðsfundi fyrir okkar ágæta kjördæmi, enda stóð það nú aldrei til af minni hálfu, þó að ég leyfði mér að segja nokkur orð um þessa till., þegar hún kom fram. Og sannleikurinn er sá, að ég hef ekki neinu sérstöku við það að bæta, sem ég sagði þá. Ég hef ekkert breytt um skoðun á till. eftir að hafa heyrt ágæta ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. um þetta efni nú aftur.

Ég benti á viss atriði, sem mér fundust vera ágallar við þessa till. og sérstaklega þótti mér áberandi sýndarmennskublærinn á henni. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, að fráfarandi fjmrh. skyldi á fyrsta degi þingsins flytja till. um þetta efni, á fyrsta degi þingsins. Ég held, að allir, sem annars hafa rétta hugsun, hljóti að sjá, að slíkt sem þetta lýsir hreinni sýndarmennsku. Og ég fékk ekki svar við því hreint og klárt, hvort þessi hv. þm., meðan hann var ráðh., hvort hann hafi unnið nokkuð sérstaklega að því að afla fjár til Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum. Það kom ekki fram. Og hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, lýsti því, hvernig það gekk af okkar hálfu að fá fé í þann veg í okkar kjördæmi, sem við lögðum megináherzlu á, að endurbættur væri skjótar en ýmsir aðrir vegir.

Annað atriði í minni örstuttu ræðu hér um daginn var lýsing á ástandi veganna í Norðurl. e., og ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Þeir segja hér, ýmsir þm. úr öðrum kjördæmum, að ástandið í vegamálum annars staðar sé ekki betra. Þetta má vel vera. Þó er ég annarrar skoðunar. Ég hef farið nokkuð mikið um vegi landsins, a.m.k. á þjóðleiðinni frá Akureyri suður til Reykjavikur og raunar austur um land líka, og mér er til efs, að það séu öllu verri samgönguleiðir annars staðar heldur en einmitt í okkar kjördæmi. Og það kemur m.a. af því, að við búum í ákaflega snjóþungum héruðum. Og það er eitt af því versta, að vegirnir fara snemma undir snjó, og svo kemur líka hitt til, hvað vegirnir eru gamlir og illa gerðir, þannig að holklakinn hefur þar meiri áhrif en víða annars staðar. Þessu lýsti ég öllu um daginn, og ég sé enga ástæðu til þess að fara að endurtaka það. Og ég benti einnig á það, að ég teldi, að á undanförnum árum hefði of litið áunnizt í vegamálunum, þrátt fyrir mikið fjármagn, sem í vegamálin hefur farið og ég leyfði mér að halda því fram, að það hefði verið haldið uppi rangri vegamálastefnu og ranglátri vegamálastefnu, vegna þess að það hefur verið lögð of mikil áherzla á að byggja upp hraðbrautakerfið í stað þess að leggja áherzlu á hina almennu þjóðvegi, þjóðbrautir og landsbrautir, sem eru aðalstofninn í vegakerfi landsmanna og náttúrlega flestir landsmenn verða að búa við og skipti landshlutana í heild langmestu máli. Þetta voru þau atriði, sem ég nefndi hér í ræðu minni um daginn, og ég sé enga ástæðu til þess að fara að endurtaka það frekar.

Ég er sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. í því, að það er ekki vert, að við förum að gera þetta að neinum framboðsfundi hér okkar í milli. Við getum tekið brýnu annars staðar um þessi efni, svo að ég get þess vegna lokið máli mínu, enda er nú komið að fundarlokum. En ég vil segja það enn um þessa till., að hún kemur mér undarlega fyrir, sá mikli hraði, sem var á því að koma henni út og ég sé enga ástæðu til annars, en vekja athygli á því atriði. Ég veit ekki annað en að unnið sé að þessari vegáætlun fyrir Norðurland, og þegar henni er lokið, hlýtur að koma að því, að hún verði framkvæmd með því fjármagni, sem frekast er tiltækt til þessa sérstaka málefnis.