16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (4147)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs hér undir umr. um þetta mál fyrir nokkrum dögum, vegna þess hve mjög ég undraðist málflutning tveggja hv. þm. Framsfl. úr Norðurl. e. Það hefur verið orðað hér af fleiri en einum þm. úr því ágæta kjördæmi, að ekki væri nú ástæða til þess að halda lengi áfram þessum framboðsfundi þeirra hér á hinu háa Alþingi, en ég vona, að hv. þm. misvirði það ekki við mig, þó að ég leyfi mér að blanda mér í þessar umr., þar sem ég er einn af flm. þessa máls.

Hv. þm. Framsfl., hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, og hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, hafa talið flutning þessarar þáltill. einstakt dæmi um sýndarmennsku okkar flm. hér á hv. Alþ. Ég verð að segja það, að með þessum ummælum sínum lýsa þessir hv. þm. algeru vanmati á þessari þáltill., að ég ekki segi hreinni glópsku sinni varðandi þetta mái, því að flutningur þáltill. felur það í sér, að stutt er að því, að þessi mál renni í sama farveg og gerðist í tíð fyrrv. ríkisstj., að sinnt sé því verkefni að útvega fjármagn til framkvæmdaáætlana, bæði varðandi samgöngumál og aðra þætti byggðaáætlana, þegar er þær eru tilbúnar. Það var sá háttur, sem fráfarandi hæstv. ríkisstj. hafði, og ef það er merki um sýndarmennsku hér á hinu háa Alþingi að ætlast til þess, að núv. hæstv. ríkisstj. sinni verkefnum með líkum hætti, þá hef ég skilið orðið sýndarmennska á allt annan veg en þessir hv. þm.

Ég ætla ekki að ræða mikið þá þætti í ræðum þessara hv. þm., er fjalla um ástand vega í þeirra kjördæmi eða ástand vega á Norðurlandi í heild. Það hygg ég, að öllum sé ljóst, að í því efni eru mörg verkefni óleyst, mörg verkefni kalla að og gera það brýnna og nauðsynlegra en ella, að þessi þáltill. verði afgreidd með jákvæðum hætti. Ég get þó ekki varizt því, að mér fannst það hálft í hvoru broslegt, þó að það væri að hinu leitinu sorglegt, þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti því, á hvern hátt hann hefði setið sjálfur tímum saman fastur í pytti á ákveðnum vegi, og svo í annan stað, hvernig þríhjóla trukkur, sem ég kann nú ekki að greina, hvaða verkfæri er, hafi setið fastur í pytti á öðrum stað.

Í þriðja lagi lýsti þessi hv. þm. því yfir, að skurðir í Norðurl. e. væru betri en vegirnir á vissum árstímum. Þó að ýmislegt hafi nú verið vel unnið við vegagerð á Norðurl. v., þá er þar vissulega mjög margt óunnið, sem og ég hygg, að sé annars staðar. En við erum nú ekki komnir á það stig í þeim landshluta, að skurðirnir séu með þeim hætti, að þeir séu betur fallnir til aksturs en vegirnir.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði í ræðu sinni hér fyrir nokkrum dögum, að mál þetta væri ekki komið á athugunar— eða umræðustig. Mér þóttu þessi ummæli kynleg og benda til þess, að hv. þm. væri þessu máli harla lítið kunnugur. Nokkrir þættir af undirbúningi þessa máls hafa verið raktir af fyrri ræðumönnum úr hópi flm. þessarar till. Ég vil þó bæta því við, að málið hefur verið undirbúið allt frá árinu 1969 af Fjórðungssambandi Norðlendinga, en á fjórðungsþingi sambandsins 1969 var skipuð mþn. til þess að gera frumdrög að till. um slíka áætlun. Sú mþn. skilaði áliti á næsta fjórðungsþingi árið 1970 og þau drög voru samþ. þar litið breytt. Síðan hefur málið hlotið framhaldsathugun. Það er tekið upp í Efnahagsstofnuninni eftir ósk Atvinnujöfnunarsjóðs á yfirstandandi ári og ýmsar athuganir hafa verið gerðar nú; bæði af heimaaðilum, af aðilum frá Vegagerð ríkisins, vita- og hafnamálaskrifstofunni og yfirstjórn flugmála í landinu. Hitt er svo annað mál, að þó að ég telji, að með þessu sé sannað, að málið sé á athugunar— og umræðustigi, þá er það ekki komið á framkvæmdastig. Og þó að hv. þm. hafi það eftir forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, að ekki séu líkur á því, að þessari áætlunargerð verði lokið fyrr en að einu eða einu og hálfu ári loknu, þá er að því stefnt, að fyrsti þáttur þessarar áætlunar verði tilbúinn það snemma, að unnt sé að hefja framkvæmdir þegar á næsta vori. Það er gert ráð fyrir því, að þá sé tilbúin eins konar bráðabirgðaáætlun, a.m.k. fyrir árið 1972. Fram verði síðan haldið að fullgera þessa áætlun, og það er vitaskuld engin vissa fyrir því, að þeirri áætlunargerð verði lokið fyrr en t.d. næsta vetur, svo að þarna skilur nokkuð á milli. Að því er einmitt stefnt með flutningi þessarar till. að beina því til hæstv. ríkisstj., að hún sinni því verkefni að tryggja fjármagn, til þess að unnt sé að framkvæma þann fyrsta hluta þessarar áætlunar, sem væntanlega verður tilbúinn á komandi vori.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að halda um þetta mál langa ræðu hér, þó að margt mætti vissulega um það segja. Það hafa sagt mér þeir menn, sem nú vinna að þessari áætlun, að meðal þeirra verkefna, sem efst séu í þeirra huga í sambandi við vegagerð á næsta sumri, séu t.d. kaflar á Norðurlandsvegi frá Stað að Melstað og í Langadal og á Dalvíkurvegi og kafli á Siglufjarðarvegi á Ytra-Eylendi. Það er öllum ljóst, að þessir vegakaflar allir eru í því ástandi, að brýn þörf er á að endurbyggja þá, og hvort sem þeir verða nú allir teknir inn í þá bráðabirgðaáætlun, sem ætlað er að vinna eftir á næsta sumri, eða ekki, þá er ljóst, að þarna er nægilegt verkefni til þess, að það sé a.m.k. réttlætanlegt að beina því nú til hæstv. ríkisstj. að útvega fjármagn til þessa verks.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að svona tillöguflutningur væri nú ekki til mikils, það væri eins gott að láta það eiga sig að vera að flytja svona till. Og hann beindi því til þeirrar hv. þingnefndar, sem þetta mál fær væntanlega til meðferðar, hvort ekki væri rétt að vísa þessu máli frá með rökst. dagskrá. Þá höfðu menn það. Þetta var vissulega í samræmi við tóninn í þeirra ræðum og allan þeirra málflutning, þessara tveggja hv. þm. Á undanförnum árum hefur þessi hv. þm. og raunar þeir tveir hv. þm., sem ég hef hér beint máli mínu til, viljað láta telja sig í hópi þeirra, sem bæru hagsmunamál strjálbýlisins fyrir brjósti. Þegar flutt er hér á Alþ. till., sem miðar að því að hrinda í framkvæmd einu af þeim verkefnum, sem hvað brýnust eru fyrir Norðlendingafjórðung, þá snúast þessir hv. þm. við með þeim hætti, að rétt sé að athuga það fyrir hv. þm., hvort ekki sé rétt að vísa málinu frá. Ja, skjótt hefur sól brugðið sumri.

Ég vil nú vænta þess, að þó að þessir tveir hv. þm, úr Norðurl. e. séu þessarar skoðunar eða a.m.k. hv. 4. þm. Norðurl. e., þá ráði það ekki úrslitum um afgreiðslu þessa máls. Ég vænti þess, að hv. þm. almennt geri sér ljósa grein fyrir því, hve hér er um þýðingarmikið mál að ræða og stuðli að framgangi þess í samræmi við það.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál öllu fleiri orð, en vil þó minnast á ummæli í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. hér áðan, er hann sagði, að meginefnið væri, að deilt væri um það, hvert viðhorfið hefði verið áður til framkvæmda við vegagerð í okkar landsfjórðungi. Þetta er auðvitað merkilegt viðfangsefni, að skoða það með sögulegum hætti, hvert viðhorfið hefði verið á hverjum tíma. En það er fyrst nú, sem um það er að ræða, að hægt sé að skoða málið í því ljósi, að til verði á komandi mánuðum framkvæmdaáætlun til að vinna eftir. Það er því hægt að skoða málið í ljósi framtíðarinnar. Og þegar við tölum um það, hvert viðhorfið sé nú, þá er það þetta: Það er brýn nauðsyn, að nú sé hafizt handa um fjármagnsútvegun, til þess að þessari áætlun megi hrinda í framkvæmd og það vænti ég, að hæstv. ríkisstj. geri, þrátt fyrir úrtölur þessara tveggja hv. þm. Ég vil um leið þakka hæstv. samgrh., sem tók til máls hér um þetta mál í umr. um daginn, hvernig hann tók á því með allt öðrum hætti en hv. þm. Norðurl. e. úr röðum stjórnarsinna. Það gefur mér vonir um það, að hæstv. ríkisstj. sé reiðubúin að taka á þessu máli með raunhæfari hætti en þessir hv. stuðningsmenn hennar úr viðkomandi kjördæmi vilja, að gert verði.