16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (4148)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þó að gaman gæti nú verið að eiga dálítil orðaskipti við samþingismann minn, hv. 4. þm. Norðurl. e., þá skal ég nú reyna að stilla mig um það hér. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. v., skýrði í ræðu sinni í rauninni meginatriði þess, sem ég vildi sagt hafa hér í þessum orðum, og get ég því verið mjög stuttorður. Hann svaraði því í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., þar sem hann hélt því fram, sá hv. þm., að ekki væri hægt að ætlast til þess, að hægt væri að framkvæma neitt varðandi samgönguáætlun Norðurlands á næsta ári, þar sem undirbúningi hennar væri svo skammt á veg komið og það bryti algerlega í bága við það, sem gert væri t.d. með Austurlandsáætlun, að fara að ætlast til fjáröflunar, þegar ekki væri lengra komið. Þetta er alger misskilningur. Þó að ekki sé hægt að ljúka áætluninni endanlega, þá er, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. benti réttilega á, búið að vinna mikið í þessu máli, vegna þess að það er búið að gera margvíslegar athuganir, það er búið að raða t.d., sérstaklega á sviði vegamála, vegaframkvæmdum eftir mikilvægi þeirra samkv. áliti heimamanna. Það var einnig í sambandi við Austurlandsáætlun haft mjög náið samband við heimamenn, þannig að það er þegar hægt að flokka inn í þessa áætlun mjög veigamiklar framkvæmdir. Hins vegar er alveg rétt, að það er ekki víst, að hægt sé að ljúka henni, öllum þáttum hennar, samgöngum á sjó, landi og í lofti. En það má vel hugsa sér að taka hana í þremur áföngum, ef svo þykir henta, enda hafa þessar áætlanir aldrei verið unnar nema á nokkurra ára bili. Það hefur tekið nokkur ár að framkvæma þær.

Í sambandi við Austfjarðaáætlun vil ég láta það koma skýrt fram, að hafnar voru um það viðræður bæði við fjmrn. og samgrn., hvað hugsanlegt væri að fá af fé til þessara framkvæmda samkv. áætlununum, áður en gengið var frá áætlununum endanlega. Og það er auðvitað alveg nauðsynlegt, mjög fljótlega eftir að lauslegur rammi hefur verið gerður af veigamestu viðfangsefnunum í sambandi við samgönguáætlun Norðurlands, að gera sér einhverja hugmynd um það, hvað þau muni kosta. Það er alveg brýn nauðsyn að gera sér einnig grein fyrir því, hvað hæstv. ríkisstj. telur auðið að verja miklu fé til þessarar áætlunargerðar. Það er auðvitað hægt að búa til áætlun upp á 1.500 eða 2.000 millj. kr. Hugmyndirnar varðandi Austfjarðaáætlun voru upphaflega miklu hærri eða óskalistinn í sambandi við þá áætlun, en endanlega varð samkomulag um. Það varð samkomulag um það að lokum, áður en endanlega var lögð hönd á áætlunina, milli þeirra rn., sem ég gat um, og þm. Austurlands allra saman og fjórðungssambands Austfirðinga, hvað miklu fé yrði varið til áætlunargerðarinnar. Raunverulega taldi Efnahagsstofnun sér ekki fært að ganga frá áætluninni, fyrr en nokkurn veginn væri öruggt, hvað mætti ætla mikið fé til framkvæmdanna í einstökum atriðum, þannig að það er auðvitað alveg brýn nauðsyn að gera sér grein fyrir því allverulega áður en lokið er áætluninni, hvað ríkisvaldið hugsar sér að standa að baki miklum framkvæmdum á þessu sviði. Þannig er það því fullkomlega tímabært og það er í fullu samræmi við það, sem gert var í sambandi við samgönguáætlun Austurlands, að vinna að þessu máli eins og hér er lagt til. Og ég hygg, að ég viti nokkurn veginn eins vel um það eða betur en hv. 4. þm. Norðurl. e., hvernig að þeim málum var unnið.

Ég skal svo ekki ræða frekar um ástand vega í Norðurl. e. Hvort það hafi verið vinsælt kosningamál, það skal ég ekkert um segja, ég man nú ekki, hvort ég orðaði það á þann veg, en það var vinsælt hjá þessum hv. þm., af því að það vildi svo til, að það hittist svo á, að vegir voru þá mjög illa farnir, eins og hér hefur verið upplýst af fleiri þm., að þekkist víðs vegar um land, þar sem malarvegir eru. Það er holklaki í vegum á vorin, hann kemur mismunandi snemma, svo að þessir hv. þm. voru það heppnir að hafa versta ástand veganna rétt fyrir kosningar. Og það var sérstaklega vinsælt kosningamál hjá þeim, af því að þeir höfðu ekki úr svo miklu að spila í kosningunum, að reyna að tala um illa farna vegi. En nóg um það. Ég get þó ekki stillt mig um að lýsa furðu minni yfir því, að talað hafi verið um sérstaklega slæma vegi í Suður-Þingeyjarsýslu á einhverjum fundi, sem hv. þm. var á, því að ég held, að hvergi í okkar kjördæmi hafi verið jafnmikið unnið að vegaframkvæmdum eins og í Suður-Þingeyjarsýslu á undanförnum árum. Ég skal svo láta ósagt, hvort það reynist svo, sem mér skilst helzt á hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að hann væri í miklum vafa um, að þetta mál leystist í tíð núv. ríkisstj., og hann vonaðist til, að ég skipti ekki um skoðun, þegar kæmi ný stjórn. En ég skal láta það alveg liggja á milli hluta. Það getur verið, að hann kvíði því eða vonist til þess, ég veit ekki hvort heldur, kannske vonast hann til að þurfa ekki að fást við þetta vandamál. En mér fannst það þó furðulegast af öllu hjá hv. þm,. þegar hann sagði það í sambandi við umr. um tiltekin mál, að það skipti ekki máli í sambandi við málið að ræða um afgreiðslu þess. Það fannst mér þó slá öll met, ef það skiptir ekki máli, hvaða afstöðu menn hafa til máls, sem verið er að ræða.

Svo vil ég aðeins að lokum taka undir þakkir hv. 5. þm. Norðurl. v. til hæstv. samgrh. Hann talaði efnislega mjög skynsamlega um þetta mál og tók á því með þeim hætti, sem gleður mig að heyra. Hann talaði mjög jákvætt og alls ekki með úrtölublæ og vandræðum eins og þessir hv. þingbræður mínir úr Norðurl. e. Hann taldi ekkert vandamál, að hægt væri að hefjast handa um athugun þessa máls af hálfu stjórnvalda og það mundi ekki standa á sér að reyna að hrinda þessu máli áleiðis. Og ég vona, að hv. þingbræður mínir úr Norðurl. e. verði ekki til að draga úr honum í því efni.