04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (4155)

26. mál, afnám fálkaorðunnar

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 26 hef ég flutt till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að öll ákvæði um hina íslenzku fálkaorðu og orðunefnd verði numin úr gildi. Þeir, sem hafa hlotið fálkaorðuna, haldi henni.“

Þetta er ekki í fyrsta sinni, sem till. um afnám fálkaorðunnar í einni eða annarri mynd hefur verið flutt hér á Alþ., enda er till. mín í verulegum atriðum samhljóða þeirri, er Skúli Guðmundsson flutti hér fyrir nokkrum árum. En nú virðist syrta mjög í álinn fyrir þessu heiðursmerki, því að tvær till., sem ganga að vísu ekki jafnlangt, liggja nú fyrir Alþ. til afgreiðslu og stefna báðar að því, að látið sé af þeim ósið að sæma Íslendinga fálkaorðunni. Þegar það endurtekur sig, að einstakir þm. vilja fálkaorðuna feiga, má vera sýnt, að eitthvað er bogið við veitingu hennar og tilveru alla.

Ég er sannfærður um, að þetta opinbera heiðursmerki horfi ekki til heilla fyrir land og lýð og hef því staðið að þeirri till., sem hér liggur fyrir. Skal ég nú reyna í sem skemmstu máli að styðja þetta rökum.

Til fálkaorðunnar var stofnað með konungsbréfi Kristjáns X. 1921, og var henni síðan fram haldið með forsetabréfi 1944 eftir stofnun lýðveldisins. Það er því ljóst, að fálkaorðan er erlend að uppruna og raunar erlendur ósiður, sem borizt hefur hingað til lands. Rætur hennar liggja í lénsskipulagi miðalda, þar sem hans konunglega tign dubbaði dyggustu þjónustumenn sína til riddara. Fálkaorðan er því afsprengi krossa, sem ætlaðir voru yfirstéttinni, stríðsmönnunum og embættismönnunum. Þetta eðli orðunnar og uppruni hefur, eins og gefur að skilja, sett verulegt mark sitt á úthlutun hennar, svo sem dæmin sanna.

Í 2. gr. fyrrnefnds forsetabréfs segir svo um þá menn, er orðuna eiga að hljóta:

„Orðunni má sæma þá menn innlenda og erlenda og þær konur, sem öðrum fremur hafa eflt hag og heiður fósturjarðarinnar eða unnið afrek í þágu mannkynsins.“

Svo mörg eru þau orð. Í Ríkishandbók Íslands frá 1965 er m.a. skrá um þáv. íslenzka stórriddara með stjörnu, og er það miðað við 31. okt. 1964, og hygg ég, að hún sem einhvers konar þverskurður gefi allgóða hugmynd um veitingu orðunnar almennt, og les ég þessa skrá, með leyfi hæstv. forseta:

Agnar Kl. Jónsson, ráðuneytisstjóri,

Árni Tryggvason, ambassador,

Björn Ólafsson, fyrrv. ráðherra,

Friðjón Skarphéðinsson, fyrrv. forseti Sþ.,

Gizzur Bergsteinsson, hæstaréttardómari,

Guðmundur Í. Guðmundsson, utanríkisráðherra,

Guðmundur Hlíðdal, fyrrv. póst- og símamálastjóri,

Guðmundur Vilhjálmsson, fyrrv. framkvæmdastjóri,

Gunnar Thoroddsen, ráðherra,

Gunnlaugur E. Briem, ráðuneytisstjóri,

Helgi P. Briem, ambassador,

Henrik Sv. Björnsson, ambassador,

Jón Árnason, fyrrv. bankastjóri,

Jón Ásbjörnsson, hæstaréttardómari,

Jón Pálmason, fyrrv. ráðherra,

Jónatan Hallvarðsson, hæstaréttardómari,

Jörundur Brynjólfsson, fyrrv. forseti Sþ.,

Kristinn Guðmundsson, ambassador,

Pétur Benediktsson, bankastjóri,

Richard Thors, forstjóri,

Vilhjálmur Þór, bankastjóri,

Þórður Eyjólfsson, hæstaréttardómari.

Nú má enginn taka orð mín svo, að ég dragi í sjálfu sér í efa, að þessir menn hafi allir maklega verið dubbaðir til stórriddara með stjörnu. Aðalatriðið er, að hér eru nær eingöngu taldir upp ráðuneytisstjórar, sendiherrar, bankastjórar, hæstaréttardómarar og ráðherrar. Brennt virðist fyrir það, að aðrir en háttsettir embættismenn geti eflt hag og heiður fósturjarðarinnar, svo að þeir verði sæmdir stjörnu stórriddara fálkaorðunnar, og allra sízt þeir, sem halda um pál og reku. Í ríkishandbókinni er einnig riddaratal, og það ber með sér, að uppistaðan í því er embættismenn í rn. eða utan. Vitaskuld fljóta með einstaklingar úr öðrum stéttum, enda er það óhjákvæmilegt, ef unnt á að vera að halda uppi þessu miðaldafyrirbæri á tímum aukins jafnaðar og lýðræðis. Sannarlega fer ekki mikið fyrir ófaglærðum verkamönnum, iðnaðarmönnum, prenturum, múrurum, ég tala nú ekki um húsmæður, hárgreiðsludömur og skrifstofustúlkur. Það verður að álíta sem svo út frá veitingu fálkaorðunnar, að múrarar, sem vinna að því að koma þaki yfir þjóðina, efli miklu síður hag og heiður þjóðarinnar, en embættismenn í háum launaflokkum hjá hinu opinbera.

Samkv. fyrrnefndu forsetabréfi er mælt svo fyrir um að sæma menn og konur orðunni. Það er sérstaklega tekið fram um konur, eins og konur séu ekki menn, en það er nú út af fyrir sig. Það er táknrænt, að engin kona hefur í ríkishandbókinni þótt makleg þess að vera sæmd stjörnu stórriddara. Það má vel vera, að þetta hafi breytzt. Og í riddaratalinu íslenzka í sömu bók kemur í ljós við lauslega talningu, að um 280 karlmenn hafa verið dubbaðir til riddara, en aðeins 30 konur. Hér er helzt um að ræða ekkjur þjóðkunnra manna, en heilsteyptasti hópurinn er sendiherrafrúrnar, sjö að tölu. Verða því vart bornar brigður á, að þær hafi öðrum konum fremur eflt hag og heiður fósturjarðarinnar eða unnið afrek í þágu mannkynsins. En svo kynlega bregður við, að meðal hinna 30 kvenriddara hefur slæðzt með ein saumakona og hlýtur orðunefnd að hafa orðið þarna á í messunni, því að hér er allt í einu kominn eir á meðal gullsins. En hvort sem menn velta þessu fyrir sér lengur eða skemur, blasir þó við sú staðreynd, að íslenzkar konur hafa ekki eflt hag og heiður fósturjarðarinnar í jafnríku mæli og karlmenn, og má því draga þá ályktun, að það sé vænlegast fyrir hag og heiður þjóðarinnar að fækka verulega kvenfólki, en fjölga karlmönnum að sama skapi. En skýringin á þessu riddaraleysi kvenþjóðarinnar er ekki langsótt. Fáar konur hafa í þessu karlmannaþjóðfélagi gegnt háum embættum og því ekki þótt ástæða til að krossa þær. Er þá vikið að einu meginatriði þessa máls, að fálkaorðan er fyrst og fremst veitt háttsettum embættismönnum, sem gegna starfi sínu með sóma eða stóráfallalítið. M.ö.o., fjölmörgum embættum fylgir orða sjálfkrafa. Embættin fá orðu, en ekki mennirnir. Hvað er þá verið að verðlauna, þegar fálkaorðan er að uppruna, eðli og úthlutun verulega embættisorða, en ekki afreksorða?

Nútímahugmyndir um jafnrétti og manngildi eru ólíkar þeim hugmyndum, er tíðkuðust á tímum embættismanna einvaldskonunga. Við lítum nú svo á, að allar stéttir þjóðfélagsins séu jafnar að manngildi og allar séu jafnnauðsynlegar í nútímaþjóðfélagi. Engin ein stétt er annarri æðri. Bóndinn, sem yrkir jörðina, sjómaðurinn, sem dregur bein úr sjó, trésmiðurinn, sem smíðar hús, skrifstofumaðurinn, sem reiknar út laun, og ég tala nú ekki um skatta, allir eru þeir jafnþarfir. Og hvaða gagn væri í því að hafa ráðuneytisstjóra, ef enginn væri bakarinn? Satt að segja hlýtur heiðursmerki af því tagi, sem fálkaorðan er, að vekja andstyggð jafnaðarmanna og raunar allra réttsýnna manna.

Hér að ofan var talað um jafngildi stétta. En kemur það nokkuð fálkaorðunni við, þar sem hún á að veitast einstaklingum, eins og segir í forsetabréfi? Það mætti því ætla, að þetta væri óskylt mál, en svo er vissulega ekki. Fálkaorðan er stéttarlegs eðlis, eins og fyrr segir. Eftir gildismati þessarar orðu vinnur bakari væntanlega svo lítilmótlegt starf, að hann hefur ekki eflt öðrum fremur hag og heiður fósturjarðarinnar, enda munu bakarar illfinnanlegir meðal riddaranna. Orðunefnd vinnur í kansellístíl og tekur á móti ábendingum um orðuþega. Þessi vinnubrögð leiða að sjálfsögðu til þess, að engin allsherjarkönnun er gerð hverju sinni um það, hverjir séu í raun og veru maklegastir til að vera dubbaðir. En þetta er í sjálfu sér algert aukaatriði. Jafnvel þótt orðunefndin ynni sýknt og heilagt að mati á verðlaunahæfi allra Íslendinga, kæmist hún aldrei að neinni óhrekjanlegri niðurstöðu. Henni er búið þannig verk í hendur, að henni er um megn að leysa það. Það er því ekki við hana að sakast um glámskyggni eða rangt gildismat. Því skal sízt neitað, að sumir einstaklingar skara fram úr öðrum að elju og farsæld í lífinu, og án efa hafa margir verið með réttu krossaðir. En hitt er líka jafnljóst, að meðal þeirra, er aldrei eru sæmdir fálkaorðunni, eru margir, sem eiga engu síður eða jafnvel miklu fremur skilið að vera dubbaðir til riddara en þeir, sem fálkaorðuna hljóta. Og illar tungur segja, að sumir, sem hafa verið sæmdir orðu, gerðu bezt í því að láta aldrei sjá sig með hana. En hversu sem því er farið, er meginatriði, að mér vitanlega er ekki til neinn algildur mælikvarði til að vega og meta starf þegnanna fyrir samfélagið. Það er ekkert „system í galskabet“ og verður aldrei til. Svíar hafa t.d. verið með einhverja tilburði í þá átt að veita orður eftir starfsaldri, — að sjálfsögðu embættismönnunum. Er þá talað um orðuregn með Svíum. En vitaskuld er þetta sama hringavitleysan.

Það fer ekki hjá því, að fálkaorðan elur á tildri, hégómaskap og snobbi með Íslendingum. Ég léti þessa orðu mig litlu varða, ef þetta eitt kæmi til, því að mönnum er vissulega í sjálfsvald sett, hvort þeir gera sig spaugilega. En það er annað og meira, sem veldur því, að ég læt þetta ekki afskiptalaust. Sjálft forsetaembættið og íslenzk stjórnvöld standa að baki orðunni. En það kann að valda spjöllum á hugarfari þjóðarinnar og læða inn hjá henni alröngu og viðsjárverðu gildismati á einstaklingum og stéttum þjóðfélagsins. Og ekki sakar að geta um það, þar sem Alþ. fjallar nú mikið um fjármál, að afnám fálkaorðunnar sparar ríkissjóði hálfa millj. kr. árlega. Ég set ekki fyrir mig, þótt erlendir menn yrðu sæmdir fálkaorðunni, eins og þáltill. hv. 4. þm. Reykv. gerir ráð fyrir, svo framarlega sem við Íslendingar losnum við þennan ófögnuð.

Herra forseti. Ég legg til, að till. minni verði vísað til allshn.