16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (4163)

31. mál, fálkaorðan

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessari till. fylgir grg., sem er ekki nema þrjár línur, og ræðan þarf ekki að vera öllu lengri, þegar ég fylgi henni úr hlaði. Reynslan af fálkaorðunni hefur orðið sú, að það hefur komið í ljós, að Íslendingar eru slíkt ágætisfólk, að það er ákaflega erfitt að velja einstaka út úr til þess að hengja, þessa orðu á þá, og þess vegna er það vafalaust heppilegt fyrirkomulag, að hætt sé að veita íslenzkum mönnum þessa orðu, nema það sé þá hægt að veita hana flestum eða öllum.

Annað mál er svo það, að þægilegt getur verið að hafa slíka orðu til að veita útlendingum, sem kunna líka að meta þetta betur en við, og með tilliti til þess getur verið eðlilegt að halda henni áfram á þann hátt, að það séu eingöngu útlendingar, sem fái hana eða sé veitt hún. Ég get að öðru leyti sagt það sem mína skoðun, að ef þessi meðalvegur, sem ég bendi hér á, nær ekki fram að ganga, þá get ég vel sætt mig við þá till. um fálkaorðuna, sem er á þskj. 26.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð öllu fleiri, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.