16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í D-deild Alþingistíðinda. (4170)

31. mál, fálkaorðan

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er, eins og þegar hefur verið tekið fram, ekki langur tími til ræðuhalda hér, en mig langar samt til þess að segja örfá orð, ekki sízt af því, að þannig stendur nú á, að ég get ekki látið í ljós skoðun mína um þetta með atkv. mínu nú á eftir, ef það er virkilega meiningin að fara að afgreiða þetta mál nú á þessari stundu á Alþ.

Ég vil segja það, að ég álít, að veiting heiðursmerkja. að málefni fálkaorðunnar sé fyrst og fremst málefni forseta Íslands. Það eru engin lög til um hina íslenzku fálkaorðu. Hún er ákveðin með forsetabréfi og það er forsetinn, sem hefur í sinni hendi öll ráð varðandi orðuna. Að vísu er það rétt, að samkv. þessu forsetabréfi er skipuð orðunefnd. Það er forseti, sem skipar hana, að vísu eftir till. forsrh. En ríkisstj. kemur hvergi nærri, þegar um orðuveitingar er að ræða og það er alger undantekning frá því, sem er um starf forseta Íslands, þar sem allir hv. alþm. vita það, að hann gerir ekkert nema með uppáskrift ráðh., nema þegar um orðuveitingar er að ræða. Og þetta byggist á því, að ég hygg, að samkv. hefðbundinni venju hér og annars staðar er litið á þessar heiðursmerkjaveitingar, þar sem þær tíðkast, sem eins konar sérréttindi þjóðhöfðingjans, sem hann hefur í sinni hendi. Þess vegna álít ég, að það sé naumast viðkunnanlegt fyrir Alþ. að afgreiða mál eins og þetta, án þess að haft sé samráð áður við forseta Íslands um það. Það má að vísu segja og hefur verið gert af n. að hafa viðtal við formann orðunefndar. En ég veit ekki, hvort hann hefur haft nokkurt umboð þar til þess að túlka skoðanir forseta Íslands á þessum efnum. Og eins og ég áðan sagði, þá er þetta í raun og veru ekkert málefni ríkisstj. Þess vegna er það, að ef Alþ. hefði talið rétt að lýsa yfir vilja sínum varðandi fálkaorðuna, þá hefði það átt að grípa til þess ákvæðis, sem er í 38. gr. stjórnarskrárinnar, og senda forseta Íslands beint ávarp um það, en ekki láta það fara um hendur ríkisstj. Það hefði verið sá rétti eðlilegi farvegur í þessu tilfelli.

Þetta er nú um formið, og ég vil undirstrika það, að ég hefði talið eðlilegt, að áður en svona mál er afgreitt, þá hefði verið haft beinlínis samráð við forseta Íslands um það milliliðalaust af Alþ. hálfu.

Svo eru það efnisatriðin í þessu máli. Ég get ekki sagt, að ég sé neinn sérstakur fylgismaður orðuveitinga og ég mundi svo sem ekkert blikna við, þó að það væri samþ. hér að afnema allar orðuveitingar. En það verð ég að segja, að það þykir mér miklu verri kostur, ef á að banna það, að Íslendingar beri orðu eða Íslendingum sé veitt orða, en það eigi að hafa hana svona sem stáss eða glingur, sem eigi að veifa framan í útlendinga. Já, hvort sem eru hvítir, gulir eða svartir. Ég met þá svörtu eins mikils eins og þá hvítu. Það er alveg óþarfi að tala um það í einhverjum glannalegum tón, að það sé hengt á einhverja menn frá Nígeríu. Ég álit, að það sé naumast boðlegt að bjóða útlendingum upp á heiðursmerki, sem Íslendingar vilja ekki eða mega ekki bera. Þá fer heiðurinn að verða lítill. Þess vegna verð ég að segja það, að ef á að greiða atkv. um þetta nú, þá vil ég fyrir mitt leyti skora á menn að ganga hreint til verks og lýsa vilja sínum um það, hvort þeir vilja hafa nokkrar orðuveitingar. Það tíðkast í sumum löndum, að það eru alls engar orðuveitingar. Ég er nú ekki svo kunnugur í Svíþjóð, en þó veit ég það, að þar hafa orðuveitingar talsvert tíðkazt. En það má vera, að nú sé í undirbúningi þar að afnema þær. En það er nú gott í sumum tilfellum að vera alveg sjálfstæður og vera ekkert að apa of mikið eftir útlendingum, hvorki á þessu sviði né öðrum, svoleiðis að þeir mega afnema sína orðu, án þess að það hafi nokkur sérstök áhrif á afstöðu mína til þess máls, hvort Íslendingar eigi að veita orðu. Ég tel að vísu, að sú brtt., sem hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur gert við till. þá, sem hefur komið frá allshn. sé til bóta, þar sem það er þó ekki lokað fyrir það, að Íslendingar geti a.m.k. í undantekningartilfellum fengið orðu, þó að aðalreglan sé sú, að útlendingar einir eigi að bera hana. Ég vil minna á í þessu sambandi, að meðal heiðursmerkja er ekki aðeins um að ræða fálkaorðuna, heldur er líka um önnur heiðursmerki að tefla, a.m.k. eitt, sem ég man eftir í svipinn, afreksmerki íslenzka lýðveldisins. Ætli það ætti þá ekki að afnema það líka? En forseti veitir það einnig, ef ég man rétt.

Það er áreiðanlegt, að það er erfitt að úthluta orðu og það verður aldrei gert, án þess að mörgum mönnum finnist, að einhver annar hefði alveg eins vel átt skilið að fá orðu eins og sá, sem hefur fengið hana. En hitt tel ég nú engan ljóð á, að þjóðfélagið sýni það bæði t.d. mönnum á gamals aldri, sem hafa unnið þjóð nytjastörf, að þau séu einhvers metin, og ég vil líka segja ungum mönnum, sem unnið hafa afrek, sem hafa kannske kynnt nafn Íslands út um víða veröld. Ég sé ekkert athugavert við það. Þetta er svona smekksatriði. En sem sagt, ég skora á hv. alþm., ef það er meining hæstv. forseta að láta fara að greiða atkv. nú um þetta mál, að taka hreina afstöðu til þess, og þá verð ég að taka undir það með hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að það sé miklu hreinlegra að segja alveg beint til um það, hvort það eigi að vera hér nokkrar orðuveitingar eða ekki, en að fara að binda það við útlendinga.