21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (4182)

46. mál, öryggismál Íslands

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Við 10 þm. Sjálfstfl. flytjum á þskj. 47 till. til þál. um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands, þar sem við leggjum til. Að Alþ. álykti að fela hverjum þeirra þingflokka, sem styðja þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, að tilnefna fulltrúa, sem skuli starfa með utanrrh. í viðræðum við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir bandalagsins um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, þátttöku Íslands í störfum bandalagsins og skipan öryggismála landsins. Þessi till. var flutt hér á Alþ. snemma á þingtímanum, og ég gerði fyrir hönd okkar flm. nokkra grein fyrir till. í umr. um skýrslu ráðh. um utanríkismál 23. nóv. s.l. Þá var búizt við því, að umr. um þessa till. svo og till. þá til þál. um athugun á öryggismálum Íslands, sem þm. Alþfl. flytja, yrðu fljótlega. Þess vegna var ætlunin, að framsaga með þessari till. okkar yrði ekki til muna meiri en fram kom í umr. um skýrslu um utanríkismál.

Ég verð þó líklega að reifa till. ítarlegar nú en ég ætlaði, þar sem svo langur tími hefur liðið sem raun ber vitni, áður en till. þessi kom til umr., en ýmsar ástæður hafa valdið því, sem við engan er um að sakast.

Það vakti strax kvíða, óhug og andúð, þegar í ljós kom, að í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. var komizt svo að orði:

„Ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Að óbreyttum aðstæðum skal þó núgildandi skipan haldast, en ríkisstj. mun kappkosta að fylgjast sem bezt með þróun þeirra mála og endurmeta jafnan stöðu Íslands í samræmi við breyttar aðstæður.“

Í þessum orðum gat falizt, að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu væri raunar tímaspursmál og reynt yrði að sæta færi að finna ástæðu til þess í þróun alþjóðamála að segja skilið við varnarsamstarf vestrænna þjóða, þótt sagt væri, að núgildandi skipan skyldi þó haldast að óbreyttum aðstæðum. Þá var tekið fram í málefnasamningnum, að varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skuli að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.

Að vonum voru aðstandendur hæstv. núv. ríkisstj. að því spurðir, hvernig skilja bæri þessi ákvæði málefnasamnings ríkisstj., og kom í ljós, að þeir voru ekki á eitt sáttir um, hvað í þeim ákvæðum fólst. Hér skal ekki rifjað upp, að hæstv. utanrrh. þótti í skýringum sínum ósamkvæmur sjálfum sér eða þeir flokksbræðurnir, hann og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, voru sín á milli ekki sammála um túlkun stjórnarsáttmálans, svo að stjórn Sambands ungra framsóknarmanna taldi sér skylt að skerast í leikinn. Óhjákvæmilegt er þó að minna á, að málsvarar Alþb. lögðu á það áherzlu, að ákvörðun væri endanleg um það, að varnarliðið hyrfi af landi brott, en skynsamari málsvarar stjórnarinnar héldu því fram, að það færi eftir niðurstöðu athugana þeirra á vörnum landsins, sem fram ætti að fara, hvort varnarliðið skyldi hverfa af landinu eða ekki. Málsvarar Alþb. töldu þá nauðsynlegt að gera heyrinkunnugt, að innan ríkisstj. hefði verið skipuð sérstök ráðherranefnd til þess að fjalla um öryggis— og varnarmál Íslands og framkvæmd á ákvæðum stjórnarsáttmálans að þessu leyti. Og í nefndina hefðu verið skipaðir ásamt hæstv. utanrrh. þeir hæstv. iðnrh. Magnús Kjartansson og hæstv. menntmrh. Magnús Torfi Ólafsson. Ekki þótti slík ráðherranefnd traustvekjandi, enda algert einsdæmi og var ekki vitað til þess, að með önnur mál innan ríkisstj. hefði verið höfð slík málsmeðferð.

Í umr. um utanríkismál 23. nóv. s.l. bar þessa ráðherranefnd mjög á góma sem og þann tvískinnung og mismunandi túlkun, sem uppi var varðandi ákvæði stjórnarsáttmálans um endurskoðun varnarsamningsins og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Eins og hv. þm. muna, sagði hæstv. utanrrh., að könnun á varnarmálum færi fram. Niðurstaða þeirrar könnunar yrði lögð fyrir Alþ. og Alþ. tæki ákvörðun um. hvort varnarliðið væri látið fara. Hæstv. viðskrh. sagði, að ef endurskoðun varnarsamningsins leiddi ekki til þess, að varnarliðið færi, yrði samningnum sagt upp undir öllum kringumstæðum til að tryggja brottför varnarliðsins fyrir lok kjörtímabilsins. Óskað var eftir því, að forsrh., sem farinn var af fundi, úrskurðaði, hvor túlkunin væri í samræmi við stjórnarsamninginn sjálfan, en forseti Sþ. vildi ekki fresta fundi til að ná í forsrh. og afsakaði sig með því, að tækifæri gæfist til þess við umr. um þessa till., sem nú er á dagskrá, að fá úr því skorið, hvor ráðherrann hefði rétt fyrir sér. Vil ég því ítreka þessa spurningu hér og biðja hæstv. forsrh. að svara.

Þótt umr. þessum lyki þannig, að málin skýrðust ekki eins og æskilegt hefði verið og svör hefðu ekki fengizt við mörgum spurningum, sem varpað var fram um afstöðu stjórnarinnar og stefnu í varnar— og öryggismálum landsins, þá hafa síðar komið fram nokkur atriði, sem eru þó fremur í jákvæða átt og rétt er að rifja upp. Um afstöðu einstakra þm., einkum stuðningsmanna stjórnarinnar, hafa málin skýrzt m.a. með viðtölum við þá í stúdentablaði Vöku 1. des. s.l., en þar segir hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, með leyfi forseta:

„Það er mín persónulega skoðun, að nú sé óheppilegt að veikja Atlantshafshandalagið með því að svipta það þeirri aðstöðu, sem það hefur hér, aðallega vegna þess, að nú fara fram samningaumleitanir milli ríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins um að minnka spennuna í Evrópu og semja um öryggiskerfi í þessum heimshluta.“

Hv. 3. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, segir þar, með leyfi forseta:

„Álíti meðlimir Atlantshafsbandalagsins það nauðsynlegt að hafa hér gæzlustöð svipaða og verið hefur, tel ég ógerlegt að neita því. Miðað við það ástand, sem ríkir í heimsmálunum í dag, er ég á móti því, að gæzlustöð sú, sem hér er nú, verði lögð niður.“

Loks segir hv. 4. þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson: „Ég er mjög hlynntur vestrænu samstarfi og því samstarfi, sem við höfum haft við ríki Atlantshafsbandalagsins. Ef könnun leiðir það í ljós, að varnarliðið þurfi að vera hér til öryggis og frelsis Íslendinga og bandamanna þeirra í NATO, tel ég sjálfsagt, að svo verði.“

Þá hefur hæstv. utanrrh„ Einar Ágústsson, aðspurður í sjónvarpsþætti um öryggismál svarað játandi spurningunni um það, hvort endurskoðun varnarsamningsins og könnun, sem fram færi í tengslum við þá endurskoðun, gæti leitt til þess, að ákveðið yrði, að varnarliðið yrði hér um kyrrt.

Þá er rétt í þessu sambandi og að geta þess, að hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, hefur sagt í viðtali við málgagn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, með leyfi forseta:

„Aðeins virðist um þrennt að velja. Vilja Íslendingar taka áfram þátt í varnarsamtökum vestrænna þjóða, vilja þeir leita undir verndarvæng Sovétríkjanna, eða vilja þeir láta skeika að sköpuðu og treysta á vernd hlutleysis, ef til átaka kæmi milli risanna tveggja í austri og vestri? Eins og nú standa sakir, virðist flest benda til þess, að mikill meiri hluti þjóðarinnar velji fyrsta kostinn, þótt enginn þyki að öllu góður.“

Ég hef talið nauðsynlegt að rifja upp hér nokkur þessara ummæla til þess að gera okkur ljóst, hvert er stefnt í þessum málum. Þrátt fyrir þessi ummæli og þrátt fyrir það, að þau beri vitni meiri yfirvegun ýmissa stjórnarsinna upp á síðkastið en áður var um að ræða, þá er því miður margt óljóst enn í þessum efnum.

Hæstv. utanrrh. hefur áður lýst því yfir, að athugun á endurskoðun varnarsamningsins yrði vönduð og er komizt svo að orði: Enginn óeðlilegur hraði verður viðhafður í þessum vinnubrögðum, og hefur það verið ásetningur ríkisstj. að rasa ekki um ráð fram og nota fyrstu 6—8 mánuðina til þessarar athugunar.

Nú eru meira en 8 mánuðir liðnir, en síðar hefur komið fram, að enn frekari frestun niðurstaðna sé líkleg. Væntanlega kemur því málið ekki til ákvörðunar á Alþ. fyrr en næsta vetur, og bið ég hæstv. ráðh. að leiðrétta, ef sú ályktun mín er ekki rétt.

Með tilvísun til þess, að Alþ. hlýtur að fjalla um öryggismálin og taka endanlega ákvörðun um varnir landsins, teljum við sjálfstæðismenn eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. hafi aðstöðu til þess að fylgjast með og hafa hönd í bagga með þeirri könnun, sem fram fer, svo að auðveldara sé fyrir alþm., þegar málið kemur til kasta Alþ., að fjalla um málið og taka afstöðu til þess. Við bendum á, að eðlilegt hefur verið talið, að samráð sé með þingflokkunum í landhelgismálinu með tilvísun til þess, hve landhelgismálið er mikilvægt, og þótt það samráð, sem þar var lofað, að haft yrði við stjórnarandstöðuna, hafi ekki verið slíkt sem æskilegt hefði verið að öllu leyti, þá hefur það þó verið mjög til bóta við meðferð landhelgismálsins.

Við teljum öryggismál Íslands vera grundvöll sjálfstæðis landsins og því engu síður mikilvægt, en landhelgismálið sjálft og því ekki óeðlilegt að ætla Alþ. og þingflokkunum aðild og samráð einnig í þeim efnum. Tillöguflutning okkar ber að skoða sem tilraun af Sjálfstfl. hálfu til þess að bjóða samstarf um öryggis— og sjálfstæðismál landsins. Að því hefur verið fundið, að till. geri ekki ráð fyrir því, að allir þingflokkar eigi fulltrúa í þeirri nefnd, sem starfi með utanrrh. að endurskoðun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, heldur eingöngu þeir, sem fylgjandi eru þátttöku okkar í Norður—Atlantshafsbandalaginu. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að við höfum ekki talið, að sá þingflokkur, sem andvígur er aðild okkar að Atlantshafshandalaginu, hafi áhuga á að fjalla um, hvernig þátttöku okkar innan þess skuli háttað. Hins vegar vil ég taka það fram, að við viljum gjarnan við meðferð málsins í utanrmn. taka til athugunar allar till. um breytta skipun slíkrar nefndar, er fjalli um endurskoðun varnarsamningsins.

Í því sambandi vil ég minnast á till. þm. Alþfl. um athugun á öryggismálum Íslands. Okkar till. byggist á þeirri forsendu, að við höldum áfram aðild að Atlantshafsbandalaginu og ekki sé bein nauðsyn að kanna sérstaklega gildi þeirra varnarsamtaka fyrir öryggi landsins. Við höfum samt sem áður ekkert á móti því, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu sé einnig tekin til meðferðar og málið í heild sinni kannað ofan í kjölinn, m.a. með það fyrir augum, að um öryggis- og varnarmál Íslands í samfélagi þjóðanna megi takast umr., er gerðu Íslendingum almennt ljóst, hvar þeir stæðu og hvert stefna bæri til þess að tryggja sjálfstæði og öryggi landsins. Við teljum þessar tvær till., till. okkar á þskj. 47 og till. þm. Alþfl. á þskj. 62, geta vel farið saman og viljum gjarnan, að utanrmn. fjalli um þær báðar, hvort heldur niðurstaðan yrði sú að sameina þær í eina till. eða samþykkja þær í breyttu formi hvora um sig.

Herra forseti. Margt bendir nú til þess, að nauðsynlegt sé, að við Íslendingar höfum meira samráð um mótun utanríkisstefnu okkar en nokkru sinni áður. Það er lífsnauðsyn fyrir litla þjóð sem hina íslenzku, að sem mest samstaða takist um utanríkisstefnu hennar. Það er því nauðsynlegt, að við fylgjumst vel með öllum þeim breytingum á alþjóðavettvangi, sem skipta okkur Íslendinga mestu. Það er einkum atburðarásin í Evrópu, sem máli skiptir. Og það er vert að rifja upp, að nú eru tímamót í þeim efnum.

Fyrst skal það nefnt, að ríkisstj. Vestur—Þýzkalands hefur gert ákveðna tilraun til þess að bæta sambúðina við nokkur Austur—Evrópuríki, sérstaklega Sovétríkin og Pólland, með samningum við þau lönd. Þessir samningar hafa enn ekki verið staðfestir af sambandsþinginu í Bonn, og raunar er nokkur óvissa um og jafnvel vaxandi, hvort þeir verði staðfestir. En þeir gerðu mögulegt samkomulag milli fjórveldanna um stöðu Berlínar, þótt staðfesting milliríkjasamninganna í Bonn sé forsenda fyrir því, að Berlínarsamkomulagið komi til framkvæmda.

Þá er í öðru lagi þess virði að minna á, að á fundi utanrrh. NATO—ríkjanna í Reykjavík sumarið 1968 var samþykkt, að hafnar skyldu viðræður við Sovétríkin um gagnkvæman samdrátt herafla í Mið—Evrópu. Innrásin í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968 stöðvaði frekari viðleitni í þessa átt, en á s.l. sumri lét Bréznev hins vegar í það skína, að Sovétríkin kynnu að vera reiðubúin til þess að ræða þessa till. við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Var ástæðan talin sú, að Sovétríkin vildu bæta ástandið á vestur—landamærum sínum, svo að þau gætu eflt varnarmátt sinn á landamærum Sovétríkjanna og Kína sökum versnandi sambúðar þessara tveggja ríkja. Á fundi aðstoðar utanrrh. NATO—ríkjanna í Brüssel í okt. var ákveðið að tilnefna sérstakan sendimann, Manlio Brosio, þáv. framkvæmdastjóra samtakanna, til þess að fara til Moskvu og kanna vilja Sovétstjórnarinnar í þessum efnum. Enn hefur Sovétstjórnin þó ekki verið tilbúin til að taka á móti þessum sendimanni Atlantshafsbandalagsins.

Í þriðja lagi má svo minnast á þær umræður, sem fram hafa farið í Evrópu um hugsanlega öryggismálaráðstefnu í Evrópu með þátttöku Bandaríkjanna og Kanada, þar sem reynt yrði að ná samkomulagi um nýskipan í öryggismálum álfunnar. Ísland hefur eins og önnur Atlantshafsbandalagsríki lýst yfir stuðningi við slíka ráðstefnu og tjáð sig reiðubúið að taka þátt í henni.

Í fjórða lagi eiga sér stað hinar svokölluðu SALT viðræður stórveldanna um gagnkvæma afvopnun sérstakra vopnategunda. Þegar þessi þróun mála í Evrópu er höfð í huga, verður ljósara en ella, að á þessu stigi málsins er ákaflega óhyggilegt og raunar mikið fljótræði af Íslendingum að gera róttækar breytingar á skipan öryggismála landsins einhliða, meðan þau mál eru í deiglunni í Evrópu, sem geta ráðið miklu um stöðu Íslands og varnarþörf á næstu árum. Enda er forsenda allra þessara viðræðna og væntanlegra breytinga á skipan öryggismála í Evrópu, að þær eigi sér stað með gagnkvæmum samdrætti vígbúnaðar stórveldanna eða bandalaganna tveggja, Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. Á slíkum tímum er það nauðsynlegra en ella, að þeir stjórnmálaflokkar, sem hingað til hafa stutt og styðja enn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, hafi náið samráð sín á milli og þannig verði stuðlað að sem mestri samstöðu og einingu um utanríkisstefnu Íslands á örlagatímum. Öryggismál Íslands eru og verða aldrei einangrað fyrirbrigði, sem okkur einum kemur við. Auk þess sem þau skipta miklu önnur Atlantshafsríki í heild og þeirra öryggi Er ljóst, að fyrirkomulag á þessum málum hér hefur mikil áhrif á öryggi hinna Norðurlandanna. Í Noregi hafa t.d. komið fram alvarlegar áhyggjur vegna hugsanlegra breytinga á skipan öryggismála Íslendinga. Eins og kunnugt er, hafa Norðmenn miklar áhyggjur af vörnum Noregs á landamærum Sovétríkjanna og Noregs vegna aukinna athafna sovézka flotans við Norður—Noreg. Vitað er, að sovézki flotinn hefur haldið æfingar rétt utan við norska landhelgi, þar sem æfð hefur verið innrás í Noreg. Ef hugsanlegur brottflutningur varnarliðs frá Íslandi hefði t.d. þau áhrif, að Norðmenn teldu nauðsynlegt að efla varnir sínar, t.d. með erlendu varnarliði, mundi það hafa áhrif á stefnu Svía í varnarmálum og ekki síður Finna. Ein af ástæðunum fyrir því, að Norðmenn tóku strax 1949 þá afstöðu, að þeir vildu ekki hafa erlent herlið í landi sínu, var sú, að þeir töldu líklegt, að þá mundu Sovétríkin krefjast herstöðva í Finnlandi. Slíkar herstöðvar í Finnlandi mundu að sjálfsögðu gera Finnland enn háðara Sovétríkjunum en það er nú og um leið mundu þær einnig veikja varnir Noregs og Svíþjóðar.

Afstaða okkar til öryggismálanna er því ekki einkamál okkar. Hún getur haft víðtækar afleiðingar. Þess vegna er eðlilegt, að einn þáttur í þeirri athugun, sem utanrrh. segir nú, að fari fram á varnarmálunum, beinist að stöðu hinna Norðurlandanna og Íslands. Um leið og það er sjálfsagt að leita álits aðildarríkja í Norður—Atlantshafsbandalaginu og þar á meðal ekki sízt Norðurlandaþjóðanna Dana og Norðmanna. Þá er það ljóst, að ákvörðunin sjálf er okkar einna í samræmi við hagsmuni Íslands í bráð og lengd, og því verðum við að gera okkur far um að kynna okkur alla málavöxtu sem bezt. Á það er að vísu bent, að við Íslendingar höfum aldrei haft her og þess vegna eigum við að láta öll slík mál lönd og leið og deilur þjóða á milli afskiptalausar. Það getur verið gott og blessað, en gallinn er bara sá, að aðrar þjóðir láta okkur Íslendinga ekki afskiptalausa. Við verðum því öryggis og sjálfstæðis okkar sjálfra vegna að gera upp hug okkar, hvernig vörnum landsins er bezt fyrir komið á hverjum tíma.

Þótt við Íslendingar höfum aldrei haft her og hugsum ekki til þess, þá eigum við eins og aðrar þjóðir að geta gert okkur grein fyrir, hvernig öryggi landsins er bezt borgið. Það er alkunna, að þótt aðrar þjóðir hafi her á að skipa og hernaðarsérfræðinga, þá fellur það fyrst og fremst í hlut stjórnmálamanna og alls almennings meðal lýðræðisþjóða að kveða á um þessi mál. Að þessu leyti hvílir sú hin sama skylda á okkur Íslendingum, stjórnmálamönnum á Íslandi og öllum almenningi, eins og með öðrum þjóðum. Aðrar þjóðir geta að vísu staðið betur að vígi en við að því leyti, að þær hafa á að skipa innlendum, hernaðarlegum sérfræðingum, en við ættum að geta fengið sérfræðilega aðstoð okkur til leiðbeiningar að þessu leyti.

Það má til sanns vegar færa, að við höfum ekki hugað nógu vel að þessum málum á undanförnum árum, þótt fyrrv. ríkisstj. hafi gert tilraun til þess að fá hlutlausa, sérfræðilega könnun öryggismála landsins. Sannast bezt að segja verðum við að leggja áherzlu á, að Íslendingar sjálfir kynni sér þessi mál betur en verið hefur, og bezt væri, að ekki væri eingöngu nauðsynlegt að treysta á erlenda ráðunauta í þessum efnum, heldur væru til staðar Íslendingar, sem hefðu lagt sérstaka stund á að kynna sér þessi mál og gætu veitt sérfræðilegar upplýsingar um þau. Heyrzt hefur, að núv. ríkisstj. hafi fengið sér til liðsinnis sænskan ráðgjafa í þessum efnum, sem kynnir sér nú öryggismál Íslendinga almennt og eigi að gefa skýrslu um þau til hæstv. utanrrh. Ég nefni þetta hér ekki til þess að gagnrýna það, heldur eingöngu til að spyrjast fyrir um, hvort rétt sé hermt og hvort eigi sé þá rétt, að nefnd alþingismanna hafi aðstöðu til þess að fjalla um slíka grg. erlends sérfræðings og hafi þá aðstöðu til þess að óska eftir viðbótarskýrslum og upplýsingum.

Þá greindi hæstv. utanrrh. frá því í umr. 23. nóv. s.l., og hæstv. forsrh. staðfesti það síðar, að leitað hefði verið álits Atlantshafsbandalagsins í Brüssel um nauðsyn varna á Íslandi, þótt ekki væri þar um formlega álitsgerð að ræða samkv. 7. gr. varnarsamningsins. Í umr. í haust var einnig bent á nauðsyn þess að hafa sérstaklega samráð við Dani og Norðmenn, og tók utanrrh. vel í það, að því er mig minnir. Nú leyfi ég mér að spyrja, hvort álitsgerð hafi borizt frá Brüssel eða Norðurlöndum og hvort ekki væri æskilegt, að nefnd þingmanna hefði aðstöðu til að fjalla um slík álit, áður en þau væru höfð til viðmiðunar við ákvörðunartöku.

Við sjálfstæðismenn teljum einsýnt, að Íslendingar haldi áfram þátttöku sinni í Norður—Atlantshafshandalaginu, og bendum á þá góðu reynslu, sem af starfsemi þessa bandalags hefur orðið, en það hefur tryggt frið í okkar heimsálfu nú um meira en aldarfjórðungsskeið. Við teljum eðlilegt, að fram fari endurskoðun á varnarsamningnum við Bandaríkin, ekki með fyrirframtekinni ákvörðun um brottflutning varnarliðsins, heldur með það fyrir augum, að öryggi Íslands verði áfram tryggt og eigi verði af Íslands hálfu gerðar einhliða ráðstafanir, sem spilla þeim friði í álfunni, sem við með þátttöku okkar í Atlantshafshandalaginu og vörnum á Íslandi höfum átt þátt í að skapa. Þótt við teljum æskilegt, að hér dvelji ekki erlent varnarlið, þá teljum við það litla fórn af okkar hálfu, ef við með þeim hætti treystum öryggi okkar sjálfra og þess heimshluta, sem við búum í.

Við sjálfstæðismenn gagnrýnum það ekki út af fyrir sig, þótt hæstv. ríkisstj. ætli sér góðan tíma til að kanna öryggis— og varnarmál landsins, en bendum þó á, að málefnasamningur ríkisstj. og orðalag hans um varnarmálin hafa skaðað Ísland út á við og engum blöðum er um það að fletta, að nauðsynlegt er að skýra stefnu okkar í öryggismálum sem allra fyrst, svo að grannþjóðir og vinaþjóðir okkar viti, hvar við stöndum og við hverju megi af okkur búast. Það er lágmarkskrafa, sem hægt er að gera til okkar og við hljótum að vilja fullnægja og standa við sæmdar okkar sjálfra vegna.

Að svo mæltu, herra forseti, vil ég leggja til, að till. þeirri til þál., sem hér er til umr., verði vísað til utanrmn. að aflokinni þessari umr.