21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (4186)

46. mál, öryggismál Íslands

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það var eftirtektarvert við framsöguræðu hv. 2. þm. Reykv., 1. flm. till. á þskj. 47, að hann ræddi þar um ákvæði málefnasamningsins um brottför hersins og um alþjóðamál almennt. Hið eiginlega efni till., þ.e. það fyrirkomulag viðræðna, sem þeir leggja til, að komið verði á, renndi hann sér yfir fámáll og mjúkmáll og virtist nú minna vilja ræða um það en í umr. 23. nóv. s.l. Í þeim umr., sem urðu þá um þessa till., fór ekki á milli mála, að hv. þm. Sjálfstfl. telja, að þessari till. sé fyrst og fremst stefnt gegn Alþb. og einum ráðh. þess og hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir, bæði í nóv. og eins nú, að hann telji þessa till. vantraust á sig.

Ég vil segja það strax í upphafi máls míns, að þessi till. er ekki fyrst og fremst árás á einn ráðh. í ríkisstj. Hún er heldur ekki fyrst og fremst árás á Alþb. sem stjórnmálaflokk, enda þótt hún feli þetta hvort tveggja í sér. Hún er fyrst og fremst árás á lýðræðislega stjórnarháttu á Íslandi. Á þetta var bent í umr. í nóv. s.l. og verður ekki hjá því komizt í ræðu minni hér að rifja upp ýmislegt af því, sem þá var sagt.

Efni till. þarf raunar ekki að koma þeim á óvart, sem fylgzt hafa með skrifum Morgunblaðsins, síðan vinstri stjórn kom til valda. Þar skaut upp þeirri hugmynd strax á s.l. sumri að útiloka einn stjórnarflokkanna, Alþb., frá öllum áhrifum og afskiptum af mikilvægum þætti utanríkismála, þeirri endurskoðun og uppsögn herstöðvasamningsins, sem boðuð var í málefnasamningi ríkisstj. Þessum skrifum var þá strax mótmælt í öðrum dagblöðum og a.m.k. í einum umræðuþætti í Ríkisútvarpinu á þeim forsendum, að þau vinnubrögð, sem Sjálfstfl. legði til, að væru viðhöfð, væru andlýðræðisleg. Öllum rétt hugsandi mönnum mun hafa dottið í hug, að Morgunblaðsskrifin væru fljótfærnis skrif ritstjóra, sem hefði andartak misst fótfestuna, þegar flokkur hans missti völdin og að það dagblað hér á landi og sá stjórnmálaflokkur, sem harðast og oftast ber sér á brjóst í nafni lýðræðis og frelsis, mundi sjá að sér og leiðrétta villu sína. En svo kom á daginn, þegar till. þessi var lögð fram af 10 hv. þm. Sjálfstfl., að hér var ekki um fljótfærni að ræða né mistök, heldur vísvitandi, þaulhugsaðar aðgerðir, gerðar í fullri vitund þess, að hér er stefnt að því að brjóta eina af grundvallarreglum allra lýðræðisríkja. Og til slíks ætlar Sjálfstfl. að nota sjálft Alþ., þá stofnun, sem öðru fremur er tákn og trygging lýðræðislegra stjórnarhátta.

Í till. þessari er lagt til, að Alþ. álykti að fela hverjum þeirra þingflokka, sem styðja þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, að tilnefna fulltrúa, sem skuli starfa með utanrrh. í viðræðum um varnarsamninginn. Þessa till. hefði auðvitað mátt orða á þá leið, að Alþ. álykti, að útiloka skuli fulltrúa Alþb. frá viðræðum um varnarsamninginn. En beint orðalag hefði fyrr komið upp um hið rétta eðli tillögunnar. Orðalagið sjálft er skóladæmi um heilaþvott, þar sem lesandanum er gefin sú forsenda, sem hann á að nota til grundvallar hugsun sinni. Viðmiðunin er stuðningur við Atlantshafsbandalagið. Án þeirrar viðmiðunar skal engin hugsun komast að.

Nú er það staðreynd, að varnarsamningurinn svonefndi er samningur milli íslenzka ríkisins og Bandaríkjastjórnar. Það er líka staðreynd, að Alþb. á aðild að ríkisstjórn Íslands að undangengnum lýðræðislegum kosningum. Hv. flm. þessarar till. eru því að fara fram á, að ríkisstj. landsins sé gerð ómyndug og fulltrúum eins stjórnarflokkanna sérstaklega sé meinað að fjalla um og hafa áhrif á einn mikilvægan þátt landsmála. Í þessari till. er því lagt til, að Alþ. nemi burt áhrif og vilja tæps fimmtungs allra kjósenda í landinu á grundvelli stjórnmálaskoðana, á grundvelli stjórnmálalegrar afstöðu þeirra í einu ákveðnu máli. Málflutningur sjálfstæðismanna í umr. í nóv. s.l. var næsta undarlegur. Þeir fjölluðu þar mikið um ráðherranefndina svonefndu og töldu hana sönnun þess, að utanrrh. væri að afsala sér æðsta valdi í utanríkismálum. En í þessari till. sinni gera þeir þó ráð fyrir alveg sams konar vinnubrögðum. Eftir sem áður á að skipa nefnd, sem skuli starfa með utanrrh. í viðræðum við Bandaríkjamenn, eins og það er orðað. Röksemdir þeirra um óeðlileg vinnubrögð utanrrh. og ríkisstj. eru því fallnar með þeirra eigin tillögu. Spurningin er því ekki um vinnubrögðin, heldur um það, hver eigi að vinna með utanrrh. Og þegar sjálfstæðismenn reyndu að sannfæra þingheim um það hér fyrir jólin, að þeir ættu að vinna með hæstv. utanrrh„ en ekki samráðh. hans, varð málflutningur þeirra næsta hjartnæmur. Till. var í þeirra augum góðgerðarstarf til styrktar utanrrh., hjálp í nauðum og einn meðlimurinn í þessu nýja ráðherravinafélagi, hv. 12. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, sá meira að segja ástæðu til að taka fram, að þetta væri hjálp veitt af góðum hug.

Nú skal ég síður en svo verða til þess að gera lítið úr hjálp, sem veitt er af góðum hug. En slíkar yfirlýsingar verða að skoðast í samhengi, eins og allar aðrar yfirlýsingar. Ef utanrrh. ætlaði sér að útiloka einn stjórnarflokkanna frá mikilvægum stjórnarathöfnum, þá gæti vel verið, að honum veitti ekki af hjálp til að verja þær gerðir sínar. En hjálp boðin til þess eins að brjóta grundvallarreglur lýðræðis í landinu bendir til þess, að góðhugurinn sé á villigötum, og þess eru dæmi, að góðhugur hafi ratað af réttri leið. Ég man ekki betur en innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu hafi átt að vera hjálp veitt af heilum hug. Ég man ekki betur en innrás Bandaríkjamanna í Víetnam hafi átt að vera hjálp til handa öllum hinum lýðfrjálsa heimi. Nú hefur það að vísu síðan gerzt, að hæstv. utanrrh. hefur fengið að reyna það, að náðarfaðmur Sjálfstfl. er heldur ótryggur. Annan daginn er honum tekið sem hinum glataða syni, hinn daginn er honum varpað út í yztu myrkur, allt eftir því, hvort sendiboðar Morgunblaðsins rata í réttar möppur í útlöndum.

Þá vil ég víkja nokkuð að vörnum hv. 2. þm. Reykv. í umr. 23. nóv. s.l., þegar honum var bent á, að till. þessi væri ólýðræðisleg. Þá var helzt á honum að skilja, að till. gæti talizt lýðræðisleg, ef viðræðunefndin yrði skipuð með þeim hætti, sem Alþ. sjálft ákvæði, eins og hann tók til orða, þ.e. með meirihlutasamþykkt. Það er auðvitað engan veginn rétt, að till. þessi verði sjálfkrafa lýðræðisleg við það eitt að hljóta meirihlutasamþykkt hér á hv. Alþ. Það eina, sem þá væri hægt að fullyrða, væri það, að afgreiðsla málsins væri lýðræðisleg, væri samkv. leikreglum hér á Alþ. En till. sjálf, efni hennar og inntak væri eftir sem áður jafn ólýðræðisleg. Það eina, sem hefði gerzt, væri það, að lýðræðisreglur Alþingis hefðu orðið mönnum tæki til þess að skerða lýðræði á öðrum sviðum.

Þess eru dæmi úr mannkynssögunni, að þjóðþing hafi verið notuð á þennan hátt og ég þykist vita, að hv. flm. þessarar till. mundu hugsa sig betur um fremur en vilja láta telja sig til þess félagsskapar.

Þá taldi hv. 2. þm. Reykv., að till. þessi eða sú nefnd, sem hún gerði ráð fyrir, að sett yrði á fót, væri engu ólýðræðislegri en ýmsar nefndir, sem hann tiltók, þar sem stjórnarandstaðan ætti ekki fulltrúa. Ég get vel fallizt á það með hv. 2. þm. Reykv., að nefndir, sem eru eingöngu skipaðar fulltrúum meiri hl., geta auðvitað talizt ólýðræðislegar, ef þær eru notaðar til þess að þegja skoðanir minni hl. í hel. En till. hv. sjálfstæðismanna er af allt öðru sauðahúsi. Hún gerir ráð fyrir því, að viss stjórnmálaskoðun eða stjórnmálaleg afstaða sé bannfærð sem slík, án tillits til þess, hvort það er meiri hl. eða minni hl., sem heldur henni fram. Það er þetta atriði, sem talsmenn lýðfrelsis og lýðræðis telja hættulegast og vítaverðast af öllu. Í augum sjálfstæðismanna er það nægileg ástæða til þess að svipta menn stjórnmálalegum afskiptum af utanríkismálum eða a.m.k. vissum hluta þeirra, séu þeir þeirrar skoðunar, að aðild að NATO sé óæskileg og Íslendingum hættuleg.

Grg. fyrir þessari till. er einkar fróðleg og vel þess virði, að þar fari fram nokkur textagreining. Í fyrsta lagi er tekið fram, að flm. telji eðlilegt, að þeir þingflokkar, sem styðja aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, fái aðstöðu til að fylgjast með og hafa áhrif á viðræður við Bandaríkjamenn. Þessi klausa blekkir auðvitað ekki hv. þm., svo sem komið hefur fram hér í ræðum hæstv. utanrrh. og annarra þm. Þessi klausa er samin eingöngu í því skyni að skírskota til þeirra, sem skortir nægilega þekkingu á starfsháttum Alþ. til þess að geta tekið afstöðu til þeirra röksemda, sem hér eru fluttar. Auðvitað er þegar séð fyrir því, að þeir flokkar, sem styðja aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, fái aðstöðu til að fylgjast með og hafa áhrif á viðræður við Bandaríkjamenn. Þeir hafa þá aðstöðu nú þegar. Stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins í stjórnarandstöðu hafa þá aðstöðu í virkri utanrmn. og þeir sitja þar við sama borð og aðrir með fullum vilja og stuðningi Alþb.

Í öðru lagi vil ég sérstaklega vekja athygli hv. þm. á þeirri setningu í grg., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eðli málsins samkv. er útilokað, að þeir, sem andvígir eru áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, taki þátt í viðræðum við það og Bandaríkjamenn um varnarmál Íslands.“

Hér er því haldið fram, að í viðræðum um uppsögn varnarsamningsins svonefnda skuli ekki aðrir taka þátt en þeir, sem fyrir fram má ætla, að séu sömu skoðunar. Fyrst skal kanna skoðanir manna, áður en þeim er hleypt að viðræðuborðinu. Í lýðræðisþjóðfélögum tíðkast það hins vegar, að talsmenn allra skoðana hafa málfrelsi, þó að ekki sé til annars en lýsa andstöðu sinni í einhverju máli.

Við skulum sérstaklega gefa gaum að þeim ástæðum, sem hv. flm. till. færa fyrir svo andlýðræðislegum vinnubrögðum. Hvernig þeir réttlæta till. sínar um vinnubrögð, sem hvergi tíðkast nema í einræðisríkjum austan tjalds og vestan, þar sem stjórnmálaskoðanir manna ráða því hvort þeir fá að koma nálægt ríkismálefnum eða ekki, Í grg. stendur: „eðli málsins samkv.“ Nú er að vísu engan veginn nægilega skýrt, hvað fyrir flm. vakir með þessu orðalagi. En það má þó reyna að gera sér nokkra grein fyrir, hvers eðlis þetta mál er. Í augum Alþb. og stjórnarflokkanna snertir það sjálfstæðismál þjóðarinnar. Það er spurningin um það, hvort við eigum að beygja okkur undir það að hafa erlendan her í landi okkar til frambúðar. Það er spurningin um það, hvort á að efna það loforð, sem þjóðinni var gefið á sínum tíma, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Og svo segir hv. 2. þm. Reykv., að sér komi á óvart að heyra um áhuga Alþb.—manna á því, hvernig þátttöku okkar Íslendinga í NATO sé háttað. Honum kemur það á óvart, að Alþb. skuli láta sig það einhverju skipta, hvort hér er her í landi eða ekki. Áhugi Alþb.—manna kemur honum á óvart. Allt annað fremur hélt ég nú, að ætti að koma mönnum á óvart.

En eðli málsins er auðvitað annað jafnframt og það fer nokkuð eftir afstöðu manna almennt og af hvaða sjónarhóli þeir líta á alþjóðamál og dvöl hersins hér á landi sérstaklega, á hvað þeir leggja áherzlu í þessu máli. Hv. flm. þessarar till. hafa tekið fram, að forsenda hennar sé stuðningur þeirra við NATO og það vill auðvitað svo til, að þessi mikilvægi þáttur íslenzkrar sjálfstæðisbaráttu er á hinn óhugnanlegasta hátt þrælbundinn hernaðarlegum upplýsingum frá Pentagon og NATO, og þeir, sem tala út frá sjónarmiðum og hagsmunum þessara aðila. Víla ekki fyrir sér að gripa til auðvirðilegasta og óhugnanlegasta málflutnings. Ég vil leiða til vitnis málgagn þeirra hv. þm. Sjálfstfl. Í Reykjavíkurbréfi þann 31. okt. s.l. þar sem einmitt er fjallað um till. þá, sem hér er til umr., og ráðherranefndina títtnefndu, stendur eftirfarandi klausa, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef niðurstaðan yrði sú, að tilboði Sjálfstfl. yrði hafnað, hlyti afleiðingin að verða tortryggni allra lýðfrjálsra þjóða í garð okkar Íslendinga. Þá yrði vissulega erfitt fyrir utanrrh. og raunar hvern annan sem væri að ræða við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið um varnarmál. Þá væri ekki unnt að treysta því, að upplýsingar, sem gefnar væru, færu ekki beint til sovézkra yfirvalda, því að naumast getur það verið hugmyndin, að einn hinna þriggja nm. dylji aðra þess, sem hann kynni að verða áskynja.“

Hér er um að ræða skýlausa staðhæfingu um, að innan ríkisstjórnar Íslands sé ráðh., sem sitji á svikráðum við land og þjóð. Hér er fullyrðing um, að einhver ráðh. sé þess albúinn að fremja landráð. Þm. og forustumenn Sjálfstfl. hafa ekki andmælt þessari staðhæfingu í málgagni sínu. Öllu fremur hafa þeir ýtt undir hana með dylgjum og með þeirri till., sem hér er til umr. En séu þessi ummæli Morgunblaðsins sönn, þá fer ekki milli mála, að hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að forustumönnum Sjálfstfl. ber tvímælalaust skylda til að krefjast opinberrar rannsóknar. En þessi sjálfskipaði vörður lýðræðis, sjálfstæðis og frelsis hefst ekki að. Það er full ástæða fyrir almenning í landinu að hugleiða þetta hátterni sjálfstæðismanna.

Samkv. skrifum Morgunblaðsins mætti ætla, að kominn væri svo skýlaus grundvöllur fyrir raunhæfum aðgerðum, að ekki mætti bíða. En sannleikurinn er auðvitað sá, að þeir trúa þessu ekki sjálfir. En samt vaknar spurningin, fyrir hvern eru svona klausur skrifaðar? Kannske er þetta skrifað fyrir einhverja aðila erlenda? Ég veit það ekki. Kannske skrifar Sjálfstfl. þetta einvörðungu fyrir sjálfan sig. Kannske er hér um að ræða áróður af auðvirðilegasta tagi, vegna þess að Sjálfstfl. veit, að tilvera hans stendur og fellur með NATO og hernum. Sjálfstfl. er kominn í herkví. Þannig hefur hann komið sér fyrir í stjórnmálasögu landsins. Einn ungur Heimdellingur hefur orðað þetta svo í plaggi, sem birtist í Tímanum fyrir skömmu og var raunar tekið upp í forustugrein þess blaðs einmitt í dag og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sjálfstæðismenn halda fast við hina opinberu kenningu sína um, að Ísland megi aldrei varnarlaust verða, gæti farið svo, að þeir vöknuðu upp einn daginn við það, að þeir væru orðnir að athlægi fyrir að vera kaþólskari en páfinn.“

Nú kann að vera skiljanlegt, að ungur sjálfstæðismaður óttist það mest, að flokkur hans verði að athlægi. En það, sem þjóðin þarf mest að óttast, er till. af því tagi, sem 10 hv. þm. Sjálfstfl. hafa lagt fram hér á Alþ., till., sem skerðir lýðræði og frelsi, ef samþ. verður. Sjálfstfl. veit, að slíkar till. getur hann ekki borið fram nema í skjóli órökstuddra landráðabrigzla í garð ráðh. og með því að ala á tortryggni gagnvart Alþ. Sjálfstfl. reynir að koma því svo fyrir, að Alþb. og aðrir, sem andvígir eru aðild að NATO og andvígir hersetu á Íslandi, þurfi að verja þá skoðun sína öðrum skoðunum fremur og umfram það, sem stjórnmálaflokkar yfirleitt þurfa að gera í sambandi við afstöðu sína til mála. Slík áróðursbrögð duga ekki lengur. Það er ekki lengur unnt að telja íslenzku þjóðinni trú um, að öryggi hennar, sjálfstæði og frelsi sé bezt tengt andvaralausri auðsveipni við erlent hervald. En það er rétt og það skal ítrekað hér, að Alþb. er andvígt aðild Íslands að NATO. Alþb. og fjölmargir úr öðrum stjórnmálaflokkum eru andvígir því, að hér sé erlendur her, og enn hefur Sjálfstfl. ekki eignazt þau ítök, að menn neyðist til að þegja yfir þeim skoðunum sínum eða verða gerðir stjórnmálalega óvirkir ella.