21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (4188)

46. mál, öryggismál Íslands

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Þær umr. sem farið hafa fram hér í dag um þær tvær till., sem á dagskrá eru, hafa verið all lærdómsríkar, og ræða hv. 3. landsk. þm., sem hefur nú nýlokið máli sínu, var að mínum dómi furðuleg. Þegar mér er það ljóst, að hann hefur haldið sjálfur, að þegar hann í ræðustól talaði hér áðan, þá ræddi hann um endurskoðun varnarsamningsins með þeim hætti, að hér væri kominn sá hinn hlutlausi aðili, sem gæti talað til þeirra, sem áður hafa um þessi mál fjallað og það, sem hann segði í þessum málum, væri það eina sanna og rétta.

Ég gat ekki heyrt eitt aukatekið orð í ræðu þessa hv. þm., sem gæti talizt styggðaryrði í garð annars þess stórveldis, sem hann minntist á hér áðan. Öll hans ræða gekk út á það að gera þingheimi grein fyrir því, með hvaða hætti Bandaríkjamenn væru að yfirganga smáþjóðir heims, með hvaða hætti Bandaríkjamenn væru að heyja styrjöld í Asíu, brytja þar niður milljónir manna. Ég gat ekki heyrt annað en að þessi maður ræki hér í ræðustólnum erindi annars stórveldisins betur en e.t.v. þeir tveir, sem á undan honum voru og drógu þeir þó ekkert af sér í þeirri baráttu, sem þeir voru hér að heyja áðan. Þessi hv. þm. ræddi þessi mál öll með þeim hætti, að ekki verður skilið á honum annað en það, að hann sé gersamlega ósammála formanni síns flokks, sem hefur opinberlega lýst yfir í viðtölum í blöðum og í ræðum, hver sé skoðun flokks hans, Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, til Norður—Atlantshafsbandalagsins, og mér fannst það skjóta ákaflega skökku við, þegar þessi hv. þm. kom hér áðan með þá ræðu, sem hann hélt, og talaði með slíkri vandlætingu um þá hv. þm., sem leyfa sér að hafa skoðanir á borð við þá, sem flytja þær tvær þáltill., sem hér hafa verið til umr.

Það er staðreynd þessa máls, að ekki er samstaða í ríkisstj. um veru Íslands í Norður—Atlantshafsbandalaginu. Það kom strax fram, þegar ríkisstj. var mynduð og það hefur komið æ gleggra fram eftir því sem vikur og mánuðir hafa liðið. Formaður SF hefur gert grein fyrir því, með hvaða hætti og hvernig þessi mál standa í ríkisstj. Það var að sjálfsögðu ekki spurning um það, hvernig hæstv. utanrrh. og þeir aðrir ráðh. Framsfl. væru hugsandi í málum varðandi Norður—Atlantshafsbandalagið sem slíkt. Spurningin var að sjálfsögðu um þá aðra ráðh., sem tóku þátt í þeirri ríkisstj., sem mynduð var á s.l. ári.

Í Suðurnesjatíðindum, sem út komu nú í þessum mánuði, 10. marz, er getið ræðu, sem hæstv. félmrh., formaður SF, hélt á fundi í Keflavík, þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu sinni og flokks síns til veru Íslands í Norður—Atlantshafsbandalaginu. Og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp tvo smákafla úr þeirri ræðu, sem þar var haldin. En þar segir:

„Þá er það NATO og varnarliðið. Ég stend að þeirri ríkisstj., sem mynduð var í sumar, og þar er kafli í stjórnarsáttmálanum. sem segir, að það sé ákvörðun ríkisstj., að Ísland verði áfram í NATO að óbreyttum aðstæðum. Það þýðir, að meiri hl. stjórnarinnar hefur staðið að þessu, og þið vitið vafalaust allir. að Alþb. hefur ekki verið þar að verki, og þá hlýtur sá meiri hl. auk Framsfl. að hafa byggzt á okkar flokki, og það er rétt. Ég er þeirrar skoðunar, að það beri að virða samninginn, sem gerður var 1949 um þátttöku Íslands í NATO af réttkjörnum íslenzkum stjórnvöldum og samþykktur af Alþingi Íslendinga.“

Og hvað segir svo þessi hæstv. ráðh. um álit sitt á skoðunum fólksins í landinu? Það væri gaman og fróðlegt fyrir hv. 3. landsk. þm. að fá að heyra það, því að það, sem hann sagði hér áðan, er gjörsamlega á öndverðum meiði við það, sem hæstv. félmrh. lætur í ljós í áðurnefndri ræðu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það kom skýrt fram í viðtali mínu við Nýtt land, eftir að ég kom heim úr þessari margumtöluðu Ameríkuferð, að það væru ekki nema þrjár leiðir fyrir Ísland; að taka þátt í varnarkerfi vestrænna þjóða, að ganga undir verndarvæng Sovétríkjanna, eða í þriðja lagi að treysta á þá vernd, sem sumir vilja telja í algjöru hlutleysi þjóðarinnar, og ég taldi þá, að mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi, þó að enginn kosturinn væri algóður, að við yrðum áfram hlekkur í varnarkeðju vestrænna þjóða. Þessa skoðun hef ég lengi haft, og ég er reiðubúinn, ef þjóðin vill taka málið upp, hvort sem er á Alþ. eða með þjóðaratkvæði.“

Þetta eru skoðanir formanns Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, hæstv. félmrh. Hann er ekki á þeirri skoðun, sem hv. 3. landsk. þm. var hér áðan, að sú endurskoðun, sem fram færi, væri hugsuð fyrir hernaðarbandalag. Hann er á þeirri skoðun, að sú endurskoðun fari fram á samningi, sem vestrænar þjóðir gerðu sín á milli til þess að fyrirbyggja áframhaldandi yfirgang stórveldis, sem það hafði tíðkað frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Það er alveg rétt, að ekki er óeðlilegt, að samningur sem þessi sé endurskoðaður. Hann er gerður upprunalega til 20 ára og þá að sjálfsögðu með það fyrir augum. að vel geti tímar hafa breytzt þannig, að ástæða væri til þess, að honum yrði með einhverju móti breytt með endurskoðun, sem fram færi. Það er þess vegna okkar, sem förum með löggjafarvaldið í dag, að gera okkur grein fyrir því, hvernig málin hafa farið á þessu rúmlega 20 ára tímabili, sem liðið er frá því, að þessi samningur var gerður. Það er okkar að gera okkur grein fyrir því, hvort þeir menn, sem stóðu að gerð þessa samnings, gerðu rétt eða rangt, og það er okkar að meta það, hver framvinda þessara mála hefur orðið. Hvort framvindan hefur orðið með þeim hætti, að ástæða sé til þess að gera breytingu á samningnum og þá hvernig, ef við teljum að ástæða sé til breytinga. Það er þess vegna með engu móti, að við deilum á hæstv. ríkisstj. fyrir það, að þessi mál séu tekin til endurskoðunar. Við höfum hins vegar deilt á það og gerðum það strax í öndverðu, að á því væru skiptar skoðanir, með hvaða hætti sú endurskoðun skyldi fram fara. Okkur var það ljóst, að innan ríkisstj. voru menn, sem hugsuðu sér niðurstöðu endurskoðunarinnar áður en hún var hafin, og sú endurskoðun skyldi leiða til þess, að Íslendingar tækju ekki þátt í þeirri varnarkeðju, sem þeir hafa verið í meðal vestrænna þjóða s.l. 20 ár. Það var kannske ekki óeðlilegt, þó að hæstv. utanrrh. viðhefði ekki ævinlega sama orðalag í mörgum blaðaviðtölum, sem við hann voru höfð fyrstu dagana eftir að hann tók við sínu embætti og þess vegna væri hægt að túlka á mismunandi hátt það, sem hann sagði í það og það skiptið. Hins vegar er að mínum dómi jákvætt svar komið við þeirri gagnrýni, sem við í öndverðu settum fram og það er, að sú endurskoðun, sem fram fer eða mun fara að hefjast, fer fram með þeim hætti, að það er ekki fyrir fram ákveðið, hver niðurstaða hennar skuli vera.

Hv. 3. landsk. þm. vék að því hér, að sú endurskoðun, sem rætt er um í þeim till., sem hér eru á dagskrá í dag, byggðist fyrst og fremst á varnarbandalögunum sjálfum, en ekki Íslandi. Að sjálfsögðu byggist endurskoðunin á hagsmunum Íslands. Við göngum í þetta bandalag vegna hagsmuna sjálfra okkar. Það hafa allar þær þjóðir gert, sem í bandalaginu eru. Þær eru þarna fyrst og fremst og eingöngu vegna eigin hagsmuna og endurskoðunin hlýtur að fara fram og vera fyrst og fremst með sjónarmið Íslands fyrir augum. Jafnframt því að við erum í samstarfi við þær þjóðir, sem gengu í Atlantshafsbandalagið 1949 og við viljum áfram vera í samstarfi við þessar þjóðir.

Hæstv. utanrrh. vék hér að ræðu hv. 5. þm. Reykn. og taldi, að hér væri um óþarfa sögulestur að ræða. Ég vona nú, að eftir að hæstv. utanrrh. hefur hlýtt á ræður þeirra þriggja þm., sem hér hafa talað á undan mér, þá sé hann mér sammála um það, að upprifjun þessarar sögu sé fullkomlega nauðsynleg. Það er nauðsynlegt fyrir okkur hvenær sem er að gera okkur grein fyrir því, hvers vegna við gerðumst aðilar að bandalagi vestrænna þjóða. Við skulum minnast þess, hvernig Evrópa var leikin eftir síðari heimsstyrjöldina. Við skulum gera okkur grein fyrir því efnahags öngþveiti, sem þar var og Sovétríkin notuðu til þess að koma á hinum svokölluðu alþýðustjórnum í Austur-Evrópu gegn vilja meiri hluta þjóðanna. Við skulum ekki gleyma því, þegar utanrrh. Tékkóslóvakíu var kallaður til Moskvu. Þegar fram var boðin aðstoð til uppbyggingar efnahagslífs Vestur—Evrópu, þá var hann kallaður til Moskvu. Til hvers? Til þess að láta hann afsala sér því, sem hann hafði látið í skína, að hann gjarnan vildi þiggja til þess að reisa við efnahag síns ríkis. Þegar hann kom til baka, var það afturkallað, hann hafði loforð annars staðar frá. Þessi loforð voru að sjálfsögðu girnileg, þegar þau voru gefin. En við vissum. hvað skeði örfáum mánuðum síðar, þegar Tékkóslóvakía fékk sína alþýðustjórn gegn vilja landsmanna, og við þekkjum sögu þessa lands síðan. Þannig hafði þetta skeð og þannig er þetta raunverulega alltaf að gerast. Hér kemur hv. 3. landsk. þm., sögufróður maður, enda er það hans grein og talar að mínum dómi eins og hann hefði verið búinn að gleyma öllu því, sem skeði og það allt saman hefði enga forsendu eða engan grundvöll. (Gripið fram í.) Vel má vera, að sögufróðir menn þurfi lögfræðinga til þess að koma sér inn á rétta braut, og þá er ég reiðubúinn til þess að gera það. En ef menn eru svona fljótir að gleyma, að þeir leyfa sér að standa upp til þess að flytja sitt mál og það er byggt á þessum skilningi og á þessum forsendum, sem hér var áðan flutt af þessum hv. þm., þá segi ég, þá eru menn ekki að tala fyrir sína þjóð.

Víst eru það staðreyndir, sem ekki verður á móti mælt, að eftir stofnun Atlantshafsbandalagsins varð engin þjóð í Austur—Evrópu og í Evrópu kommúnismanum að bráð. Þetta eru staðreyndir, og þær verða ekki umflúnar. Landvinninga kommúnistanna var hægt að stöðva. Þetta eitt sýnir okkur, hversu nauðsynlegt það var, að vestrænar þjóðir bundust samtökum og stofnuðu sitt bandalag. En við skulum ekki dvelja of lengi aftur í tímanum. Við skulum velta þessari spurningu fyrir okkur: Hefur ásókn kommúnista lokið með stofnun þessa bandalags? Ég segi nei. Annars staðar í heiminum hafa þeir haldið áfram, þar sem ekki voru samtök á borð við Atlantshafsbandalagið. Hv. 3. landsk. þm. kemur hér í ræðustólinn og talar um árásir Bandaríkjamanna á Víetnam og ýmis önnur dæmi. Það skyldi þó aldrei vera, að einhver ástæða hefði verið fyrir þeim vopnaviðskiptum, sem þar hafa átt sér stað? Það skyldi þó aldrei vera, að þar væru menn annars staðar frá, sem ættu upptökin, og það væri yfirgangur þeirra, sem fyrst og fremst væri verið að reyna að stöðva? Allt þetta sýnir okkur, hvernig hér var að farið.

Við skulum skoða örlítið betur hvað hefur gerzt í Evrópu. Höfum við ekkert heyrt til þeirra þjóða, sem voru undirokaðar af kommúnistum, áður en Atlantshafsbandalagið var stofnað? Jú, við höfum fengið að heyra í þeim, en því miður ekki nema örstuttan tíma. Hvers vegna? Vegna þess, að þá kom sá, sem valdið hafð, og þaggaði niður í þessum þjóðum. Þannig hafa þeir gætt þess mjög vel, að frelsi fengju þessar þjóðir ekki aftur. Þannig höfum við reynslu af því, hvernig fer fyrir einni smáþjóð, sem lendir undir járnhæl þessa stórveldis. E.t.v. segja einhverjir okkar: Það verður auðvelt að losna undan þessum aðilum, ef þeir mundu nú ná tökum á okkur. En hér höfum við dæmið, og hér höfum við dæmin.

Þegar Sovétríkin gátu ekki unnið fleiri lönd í Evrópu, sneru þeir sér að öðru, þá sneru þeir sér að hafinu hér í kringum okkur. Ég skal ekki telja upp, hvernig þeir eru búnir herskipum og öðrum stríðstækjum. Það var gert hér áðan, en það er ljóst mál, að flota sinn hafa Sovétríkin eflt stórkostlega hér á Norður—Atlantshafinu, og ég spyr: Til hvers? Það getur hver svarað fyrir sig, en ég held, að menn geri sér grein fyrir því, að svarið við þessari spurningu er ekki nema eitt.

Á þskj. 47 flytja l0 sjálfstæðismenn till. um, að þeir þingflokkar, sem eru því sammála, að við verðum áfram í varnarsamtökum vestrænna þjóða, skipi nefnd, sem verði hæstv. utanrrh. til samstarfs varðandi þær viðræður, sem fram fara. Og hér hafa komið þm. með langar ræður til að sýna fram á, hversu ólýðræðisleg þessi till. sé. Við skulum skoða málið ofan í kjölinn. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er þingflokkur til, sem er andvígur því, að við séum í þessu varnarbandalagi. Þessi þingflokkur hugsar sér, eins og hér hefur komið fram í dag, að vinna að því, að við förum úr þessu bandalagi, hvort sem ástæður liggi þar fyrir eða ekki. Ég spyr: Þegar fjórir þingflokkar á Alþ. hafa lýst því yfir, að þeir telji, að við eigum að starfa áfram í bandalagi vestrænna þjóða, er þá eðlilegt, að reiknað hafi verið með því, að þeir, sem vildu fara út úr bandalaginu, vildu taka þátt í viðræðum um áframhaldandi veru þar? Ég held, að ef menn skoða málið út frá þessum sjónarhóli, þá geri þeir sér grein fyrir því, að öðruvísi gat þessi till. ekki orðið. Hitt er svo annað mál, að það hefur komið fram, að mér skilst, hjá þm. þessa flokks, að þeir vildu gjarnan taka þátt í þessum viðræðum. Bent hefur verið á það, að þessar athuganir færu fram af hálfu utanrrn., og hæstv. utanrrh. hefur hér í umr. gert grein fyrir sínum sjónarmiðum þar að lútandi. Ég skal taka það skýrt fram, að hann hefur, eftir að hann tók við sínu embætti, haft mjög gott samstarf við utanrmn. og ég efast ekkert um, að það, sem hann segir þar um, það muni hann gera, en þessi till. er flutt skömmu eftir að það leyndarmál upplýstist, að við hlið hæstv. utanrrh. höfðu verið settir tveir ráðh., tveir fyrrv. ritstjórar Þjóðviljans, sem báðir á sínum tíma a.m.k., sennilega þó ekki nema annar í dag, höfðu barizt gegn veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Það var því ekkert óeðlilegt, að slík till. yrði flutt. Það vissu menn fyrir.

Ég geri fastlega ráð fyrir því, að þessar till. fari til utanrmn., eins og lagt hefur verið til og að þær fái þar sína skoðun, eðlilega þinglega meðferð, en ég get ekki með nokkru móti séð, hvernig hæstv. utanrrh. getur talið, að till. sjálfstæðismannanna sé dulbúin vantrauststillaga á hann. Mér finnst þetta þvert á móti vera till., sem hann ætti miklu fremur að geta fallizt á, einfaldlega vegna þess, að hann er þeirrar skoðunar sjálfur, að Ísland eigi áfram að taka þátt í því samstarfi vestrænna þjóða, sem það hefur verið aðili að.

Ég ætla svo ekki á þessu stigi máls að fjölyrða meira um þessar till. Það er vissulega lærdómsríkt fyrir okkur að heyra það hér á Alþ., að þeir nýju þm., sem komið hafa á Alþ. sem fulltrúar Alþb., virðast ekki vera á sömu skoðun og hæstv. iðnrh. hefur viljað telja sig á undanförnum árum, þegar hann hefur sérstaklega lagt sig eftir því að segja þjóðinni frá því, hver séu raunverulega stefnumið Alþb., þar sem hann hefur lagt á það ríka áherzlu, að hér sé um að ræða íslenzkan, lýðræðislegan sósíalískan flokk. Þessir hv. þm., sem hér töluðu áðan, töluðu ekki fyrir slíkan flokk. Þeir töluðu fyrir flokk, sem hugsar sér að starfa eftir þeim grundvallarreglum, sem við sjálfstæðismenn höfum ætíð bent á, að Alþb. hefur gert og ætlar sér að gera, þeim reglum, sem sett eru af alþjóðasamtökum kommúnista.