06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (4191)

46. mál, öryggismál Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs við fyrri hluta þessarar umr. nokkru fyrir páska, var það megintilgangur minn að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli við lengingu flugbrauta og auknar öryggisráðstafanir í því sambandi, og ætlaði ég að beina nokkrum fsp. til hæstv. utanrrh. um það efni, eins og honum var þá kunnugt um.

Síðan hefur margt og mikið gerzt í þessu máli, sem ég hlýt að sjálfsögðu að víkja að í þessum orðum mínum, sem hér fara á eftir. Ég ætlaði að segja það þegar fyrir páska, áður en nokkur ákvörðun hafði verið tekin um málið, að ég og flokkur minn værum sannfærðir um nauðsyn þeirra framkvæmda, sem um var að ræða, að þær væru nauðsynlegar af fjölmörgum ástæðum. Þær væru nauðsynlegar vegna þess, að með öðrum hætti gæti Keflavíkurflugvöllur ekki talizt fullkominn flugvöllur, hvorki að svo miklu leyti sem hann gegnir hlutverki í þágu varna Íslands samkv. varnarsáttmálanum við Bandaríkin fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins, né heldur sem fullgildur alþjóðaflugvöllur í millilandaflugi. En ákvæði varnarsáttmálans gera ráð fyrir því, að flugvellinum í Keflavík skuli við haldið þannig, að hann geti gegnt þessu tvíþætta hlutverki með fullum sóma. Enda var hann á sínum tíma, þegar hann var byggður, einn af fullkomnustu flugvöllum í VesturEvrópu, en hefur síðan smám saman dregizt svo aftur úr samfara vaxandi þróun í flugmálum, að nú verður hann einvörðungu talinn til þriðja eða fjórða flokks flugvalla. Það er eindregin skoðun mín, að Bandaríkjastjórn hafi borið og beri skylda til þess að annast þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, samkv. ákvæðum í varnarsáttmála milli Íslands og Bandaríkjanna. Fyrrv. ríkisstj. hafði þegar fengið samkomulag við Bandaríkjastjórn um það, að hún skyldi annast þessar framkvæmdir samkv. ákvæðum varnarsáttmálans. Endanlega hafði ekki verið frá samkomulaginu gengið, vegna þess að enn hafði ekki fengizt samþykki Bandaríkjaþings fyrir nauðsynlegri fjárveitingu í þessu sambandi, um 5.8 millj. dollara, en frá því hafði verið gengið, að um leið og sú fjárveiting fengist, — um hana hafði Bandaríkjastjórn þegar sótt og taldi engar líkur á því, að beiðni sinni yrði hafnað, — þá skyldi endanlega gengið frá samkomulaginu, svo að óhætt er að fullyrða, að samkomulagið hafi í reynd þegar verið gert á valdaskeiði fyrrv. ríkisstj., þó að ekki hafi verið hægt að ganga formlega frá því.

Síðan gerðist sá óheppilegi og óviðurkvæmilegi atburður, að bætt var í heimild til fjárveitingarinnar skilyrði varðandi vist varnarliðs á Íslandi. Ég er sammála þeim sjónarmiðum, sem sett hafa verið fram af hæstv. utanrrh. og raunar fleiri ráðh., að sérhverri ríkisstj. á Íslandi væri slíkt skilyrði algerlega óaðgengilegt og ég fagna því af heilum hug, að um það er nú ekki lengur að ræða, frá því hefur verið fallið. En það, sem ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. utanrrh. um þegar fyrir páska og sé ástæðu til þess að spyrja hann um enn er, hvað hann átti við með því, þegar hann á sínum tíma í sjónvarpi frammi fyrir alþjóð eða sjónvarpsáhorfendum a.m.k. lýsti því yfir, að hann gerði sér ljóst, að þessar framkvæmdir væru algerlega nauðsynlegar og að þær mundu verða framkvæmdar og aðspurður sagði hann, fyrir innlent fé. Ég man ekki betur, en hann hafi síðar staðfest það í blaðaviðtölum, að það mundi verða aflað innlends fjár til þessara framkvæmda, sem samkv. þeim útreikningum, sem fyrir liggja eða áætlunum munu kosta um 500 millj. ísl. kr. Ég verð að segja það, að þegar ég sat við sjónvarpstæki mitt umrætt kvöld, þá rak mig í rogastanz — mig rak í rogastanz yfir því, að ráðh. í ríkisstj. á Íslandi skyldi lýsa því yfir, að því er augljóst var umhugsunarlítið, að ríkisstj. hygðist afla 500 millj. kr. á þessu ári. Sumpart getur það gengið yfir á það næst og gæti það til viðbótar öðrum fjárþörfum, sem við sem þykjumst vera sæmilega kunnugir íslenzkum fjármálum og íslenzkum efnahagsmálum, vitum að er fyrir hendi. Mig rak í rogastanz einfaldlega af því, að ég hafði ekki trúað því á hæstv. utanrrh., að hann léti sér jafnflaustursleg og óábyrg ummæli um munn fara. Og þess vegna spyr ég hann nú og legg á það sérstaka áherzlu, að hann svari: Hvernig hafði hann eða ríkisstj. hugsað sér, að þessara 500 millj. yrði aflað á þessu ári? Hvernig átti að fjármagna þessar framkvæmdir af innlendu fé? Og ég spyr líka: Við hvaða aðila hafði hann rætt? Þetta vil ég fá upplýst alveg hreint undanbragðalaust. Við hvaða aðila, sem ráða yfir fé til innlendra framkvæmda, hafði hæstv. utanrrh. þá rætt eða hans starfsbróðir, hæstv. fjmrh., um það að láta í té 500 millj. kr. til þessara framkvæmda? Það þætti mér fróðlegt að heyra og ýmsum öðrum, sem hann hefði átt að ræða við, en ræddi aldrei við. Og þetta er mergurinn málsins. Og að því skal ég gjarnan víkja nánar á eftir, þegar hæstv. utanrrh. hefur svarað þessum spurningum. Það er fullkomlega út í bláinn í augum allra manna, sem til þekkja, að nóg sé að svara þannig, og því svari mun ég ekki taka, að þessar framkvæmdir hafi átt að taka í fjáröflunaráætlun ríkissjóðs. Það er engin skýring á málinu, vegna þess að þá mundi ég spyrja um, hvernig sú fjáröflunaráætlun liti nú út, hversu mikið í hana vanti til þess að ná endum saman og hvernig tilætlunin sé að afla þess fjár, sem þar vantar. Ég þykist vita svarið í stórum dráttum, en vil fá að heyra það af hendi hæstv. utanrrh., af vörum hans eða hæstv. fjmrh. Og þá vona ég, þegar menn hafa heyrt það svar, ef það verður satt og rétt, — verði það ekki satt, skal ég segja sanna og rétta svarið, — þá munu menn gera sér ljóst, hvers vegna mig rak í rogastanz, þegar ég heyrði það, að hæstv. ráðh. sagði, ég segi enn honum til afsökunar, auðsjáanlega að lítt eða alls ekki hugsuðu máli, að til þessara framkvæmda upp á 500 millj. mundi verða aflað innlends fjár. Þetta mun upplýsast í þessum umr., og það verður mjög fróðlegt að fá þær upplýsingar. Þetta lýtur að því, sem á góma hafði borið um málið fyrir páska.

En nú þykir mér ástæða til þess að beina þeim viðbótarfyrirspurnum til hæstv. utanrrh., ef hann vildi eða gæti upplýst eitthvað um það, hvernig hin breytta afstaða Bandaríkjastjórnar til málsins í heild sé tilkomin. Það er nauðsynlegt fyrir þing og þjóð að fá það upplýst, hvort utanrrh. hafði átt sérstakar viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um málið, áður en Bandaríkjastjórn breytti ákvörðun sinni. Það væri einnig fróðlegt að fá upplýst, hvort hæstv. samgrh. ræddi málið í Bandaríkjaför sinni á sínum tíma og hvort e.t.v. hin jákvæða afstaða Bandaríkjastjórnar nú á að einhverju leyti rót sína að rekja til alþekkts sannfæringarkrafts hæstv. samgrh. í viðræðu við bæði innlenda og útlenda menn. Ég gæti vel unnt honum heiðursins af því að hafa haft áhrif á afstöðu Bandaríkjamanna í þessu sambandi og vildi gjarnan fá að vita, hvort ég má halda áfram að hæla honum í þessu sambandi.

Ég vil taka það fram strax eða endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég hefði sagt um málið fyrir páska, að ég er sammála þeirri ákvörðun, sem þegar hefur verið tekin og það er þingflokkur Alþfl. M.ö.o. við styðjum þá niðurstöðu, sem ríkisstj. hefur komizt að. En okkur er ekki sama um, hvernig ákvörðunin er tekin og hvernig hún er rökstudd, og um þetta langar mig til þess að fara nokkrum fleiri orðum.

Ríkisstj. hefur klofnað um þetta stórmál. Ég held, að engum geti blandazt hugur um, að hér er um stórmál að ræða. Ég man ekki eftir öðru dæmi þess í nýlegri stjórnmálasögu Íslendinga a.m.k. að stórmál sem þetta hafi verið afgreitt með atkvgr. í ríkisstj., að þar hafi myndazt meiri hl. og minni hl., en þetta hefur gerzt nú og þetta má telja til einsdæma. Meiri hl. ráðherranna telur hér vera þjóðarnauðsyn á ferðinni og samþykkir því tiltekinn samning við erlenda ríkisstj. um framkvæmdir fyrir 500 millj. kr., sem er stórfé á íslenzkan mælikvarða. Og meiri hl. ráðherranna rökstyður þessa ákvörðun sína í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar við alþjóðabandalag, alþjóðavarnarbandalag, sem Ísland er þátttakandi í. Minni hl. ráðherranna telur þessa ákvörðun hins vegar ósamrýmanlega sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu. Það er ástæða til þess að endurtaka þetta, að hér eru sannarlega engin smáorð á ferðinni, engin smáyrði á ferðinni; minni hl. ráðherranna telur meiri hl. ráðherranna vera að taka ákvörðun, sem sé ósamrýmanleg sjálfstæðri, íslenzkri utanríkisstefnu. Ég efast um, að utanrrh. hafi nokkru sinni fyrr fengið kaldari kveðju frá samráðherrum sínum, en hér er um að ræða. Hann beitir sér fyrir framkvæmd eða samningi um framkvæmd, sem gerir honum sjálfum ókleift að framkvæma sjálfstæða, íslenzka utanríkisstefnu. M.ö.o. ef samningur þessi verður endanlega gerður, ég veit ekki, hvort búið er að gera hann eða ekki, þá er það að dómi tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar ekki lengur sjálfstæð, íslenzk utanríkisstefna, sem framfylgt er. Þetta framgengur alveg tvímælalaust af bókun hæstv. ráðh. Alþb. Það fer auðvitað ekki hjá því, að ýmsum detti í hug, hvað eitt aðalmálgagn núv. ríkisstj., Þjóðviljinn, hefði sagt fyrir réttu ári, ef fyrrv. ríkisstj. hefði tekið þessa ákvörðun eða aðra alveg hliðstæða henni. Ég þarf engum getum að því að leiða. Það vita allir, að það hefðu sézt mjög stórir stafir, orð prentuð mjög stórum stöfum. Það hefði verið talað um landsölu, það hefði verið talað um svik, það hefði verið talað um hermang. Nú sjást engin slík orð í Þjóðviljanum, aðeins bókun á ráðherrafundi, og síðan er haldið áfram að sitja í ráðherrastólunum. Það er m.ö.o. svolítið annað, sem þeir, sem einu sinni voru í ritstjórn Þjóðviljans, segja nú. Stólaskiptin hafa verulega þýðingu um það, hvernig þeir tala, hvað þeir láta sér nægja. Ég orðlengi ekki frekar um þetta. Þetta er öllum ljóst. Í augum sumra er þetta aðhlátursefni, í augum annarra er þetta sorglegur atburður, sem hér hefur gerzt og er bezt, að hver hafi sína skoðun í því efni.

En hér er í raun og veru,—og við skulum sleppa allri kerskni í þessu sambandi, — hér er um miklu, miklu alvarlegra mál að ræða en það, að ég sjái ástæðu til þess að byggja minn málflutning á nokkurs konar stríðni í þessu sambandi, þó að enginn vandi væri að gera hana að veigamikilli uppistöðu í því, sem hér yrði sagt. Það er ekki einu sinni um freistingu hjá mér í því efni að ræða, svo að ég þarf ekki að standast neina freistingu. Ég skal ekki gera það, því að hér er um miklu, miklu alvarlegra mál að ræða en svo, að Alþ. sæmi annað en ræða það af fyllstu alvöru. Það sem hér hefur nefnilega gerzt, vekur spurningu um mjög mikilvægt grundvallaratriði í íslenzkum stjórnarháttum og í raun og veru í stjórnarháttum allra lýðræðisríkja. Hér er ekki um það að ræða, að ég telji þá ákvörðun, sem hefur verið tekin, hafa verið ranga, heldur er aðferðin, sem hún er tekin með, ekki aðeins röng, ekki aðeins forkastanleg, heldur er hún stórkostlega hættuleg. Hún er stórkostlega hættuleg, ef hún skapar fordæmi og ef tilætlunin er hjá þessari hæstv. ríkisstj. að halda áfram sams konar vinnubrögðum. Það er alveg augljóst mál, að meiri hl. ráðh., sem að þessari samningsgerð stendur eða vill standa, gat ekki vitað á því andartaki, sem hann tók sína ákvörðun, hvort sá meiri hl. hefði stuðning meiri hl. Alþ. á bak við sig. En ég skil ekki í því, að um það geti verið ágreiningur milli manna, sem vilja halda þingræðislega reglu í heiðri, að þegar um jafnmikilvægan atburð og þennan er að ræða, þegar um jafnmikilvægt atriði og þetta er að ræða, þá sé nauðsynlegt, að ríkisstj., sem gerir samning fyrir hönd ríkis, eða meiri hl. ríkisstj., —það er ríkisstj. auðvitað að forminu til, þrátt fyrir bókun minni hl., — að hún sé viss um það, að hún hafi stuðning meiri hl. Alþ. á bak við sig. Með þessu er ég auðvitað ekki að halda því fram, að sérhver ráðh. þurfi alltaf að vera viss um það í hverri einstakri stjórnarathöfn sinni, að hann hafi meiri hl. Alþ. á bak við sig. Þetta leiðir af því og er í engu ósamræmi við stjórnskipaðar reglur þingræðisins, að ef ráðh. fremur athöfn, sem einhverjum þm. dettur í hug, að sé ekki í samræmi við vilja meiri hl. Alþ., þá getur sá þm. flutt vantraust á ráðh. og fengið úr því skorið, hvort hann hefur haft meiri hl. alþm. á bak við sig. Af þessari alkunnu og sjálfsögðu reglu þingræðis leiðir það, að sérhver ráðh. eða ríkisstj. þarf ekki að ganga úr skugga um það í hverju einstöku atriði, í hverju einstöku smátilviki fyrir fram, að hún hafi meiri hl. alþm. á bak við sig, enda mundi það torvelda störf löggjafarsamkomu með svo augljósum hætti, að engum hefur dottið í hug, að framkvæmd þingræðis þyrfti að vera eða ætti að vera með þessum hætti.

Hitt er aftur á móti jafnaugljóst mál, að þegar ríkisstj., að ég nú ekki tali um meiri hl. ríkisstj., tekur stórákvarðanir í stefnumálum, þá þarf hún að vera viss um það, að hún hafi meiri hl. alþm. raunverulega á bak við sig. Þegar slíkt gerist nú í fyrsta skipti, að stór ákvörðun í stefnumáli er tekin með atkvgr. í ríkisstj., þar sem meiri hl. ber minni hl. ofurliði og þar sem augljóst er, að meiri hl. hefur aðeins stuðning 22 þm. á bak við sig, en 10 þm. eru væntanlega í andstöðu við ákvörðunina, þá er það ótvíræð skoðun mín og miklu, miklu fleiri manna, að það hafi verið skylda forsrh. að ganga formlega úr skugga um það, að þessi ákvörðun hafi stuðning meiri hl. alþm. á bak við sig. Það gerði hann ekki og það er sú veigamikla yfirsjón, sem af hálfu hæstv. forsrh. og ríkisstj. hefur átt sér stað í þessu máli. Ég segi þetta ekki vegna þess, að það hvarfli að mér að draga í efa, að sá samningur, sem hefði verið gerður eða til ætlunin var að gera, sé, þrátt fyrir að þetta var vanrækt, bindandi fyrir Ísland, það er án alls efa. Ég segi þetta ekki heldur vegna þess, að ég sé ekki sannfærður um, að hæstv. forsrh. hefði fengið þær yfirlýsingar af hálfu núv. stjórnarandstöðuflokka, að þeir væru fylgjandi þessum samningi t.d. með þeim hætti að ræða málið áður í utanrmn. við fulltrúa flokkanna þar, sem með venjulegum hætti hefðu getað farið með málið í sína þingflokka og svarað fyrir hönd sinna þingflokka í utanrmn., að þeir hefðu ekkert við þessa samningsgerð að athuga. Þessi leið lá alveg opin fyrir hæstv. ríkisstj., fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og hana hefði að sjálfsögðu átt að fara. Og ég læt í ljós undrun mína yfir því, að hún skuli ekki hafa verið farin. En einmitt þetta, að jafnaugljós aðferð og þessi við afgreiðslu málsins var ekki farin, þó að ég dragi ekki í efa kunnáttu jafnágætra lögfræðinga eða reynslu jafnágætra lögfræðinga og hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. eru við meðferð slíkra mála hér og annars staðar, þá setur það ugg að mér og fleirum, að þrátt fyrir vitneskju þeirra um það, hvernig eðlilegt er að framkvæma lýðræðislegt þingræði, þá skuli þeir ekki hafa beitt þessari aðferð. Og þetta gefur manni tilefni til þess að spyrja: Ætlar ríkisstj. að halda áfram á þessari braut, er þetta upphaf að alveg nýjum vinnubrögðum í stjórnarháttum á Íslandi, í beitingu þingræðis á Íslandi? Þetta er spurningin, sem brennur mér á tungu og mörgum, mörgum fleirum. Úr þessu þarf að fást skorið.

Það er enginn vandi að hugsa sér annað tilfelli, þar sem málin gæti borið nákvæmlega eins að. Við skulum hugsa okkur eitthvert annað mál, eitthvert annað mikilvægt stefnumál þar sem ríkisstj. klofnar. Hún við hefur sömu aðferð og nú, greiðir atkv. það myndast meiri hl., og það myndast minni hl. Og nú skulum við gera ráð fyrir því, að ríkisstj. viti, báðir armar ríkisstj. viti, að stjórnarandstaðan styður málstað minni hl. Þessar aðstæður eru svo sannarlega hugsanlegar, þær eru sannarlega fræðilega hugsanlegar. Þá er spurningin: Hvað mundi hæstv. forsrh., hvað mundi stjórnin gera í slíku tilfelli eins og þessu? Mundi hún styðja sig áfram við meirihluta samþykkt í ríkisstj., gera framkvæmdina, gera samninginn, þó að ljóst liggi fyrir, að stjórnarandstaðan er sammála minni hl. í ríkisstj.? Þetta er spurning, sem úr verður að fást skorið sem grundvallaratriði. Hér er um að ræða „prinsíp“mál, sem verður að liggja alveg ljóst fyrir, hvað ríkisstj. hefur hugsað sér og hvernig hún mun hegða sér í framtíðinni, því að á þessu veltur það, hvort verið er að gera íslenzkt þingræði að skrípaleik með nýjum vinnubrögðum í ríkisstj. Það eru ný vinnubrögð að mynda þar meiri hl. og minni hl. með atkvgr. Vill hæstv. ríkisstj. annaðhvort lýsa því yfir, sem ég skal alveg taka gilt, að í þessu efni hafi henni orðið á mistök, —ég skal segja það strax, að ég skal vera fús til þess að taka þá skýringu gilda,—eða segir hún, að í þessu efni hafi henni verið kunnugt um, að stjórnarandstaðan var efnislega sammála samningsgerðinni, þess vegna hafi hún farið svona að? En verði hvorugt sagt, verði hvorki sagt, að þarna hafi átt sér stað mistök vegna páskaleyfis, vegna anna eða einhvers því um líks eða vegna þess, að stjórnin hafi gert samningana, meiri hl. ráðh., í fullvissu þess, að það væri fylgi á Alþ. fyrir framkvæmdunum, þá er það óneitanlega vísbending um það, að þetta sé e.t.v. upphaf að nýjum vinnubrögðum. Það, sem ég því vil biðja hæstv. forsrh. að svara alveg skýrt og skorinort og það, sem ég vildi að sjálfsögðu, að hann lýsti yfir, er, að hann muni ekki framkvæma fyrirætlanir sínar nema því aðeins að vera viss um það, að ríkisstj. hafi stuðning meiri hl. alþm. á bak við sig. (BGuðn: Er þingræðið í hættu?) Það er í hættu, ef þetta væri gert, þá væri það sannarlega í hættu. Ef ríkisstj. ætlar sér að gera samninga eða framkvæma stór áform í skjóli meiri hl. í ríkisstj., þó að hún viti um minni hl. sinn á Alþ., þá er lýðræðið í alvarlegri hættu.

Þá langar mig til þess að víkja nokkrum orðum að þeim rökstuðningi, sem hefur verið beitt eða kemur til með að verða beitt varðandi þá ákvörðun, sem þegar hefur verið tekin. Fyrrv. utanrrh., Emil Jónsson, og fyrrv. ríkisstj. í heild byggði óskir sínar gagnvart Bandaríkjastjórn um það, að hún kostaði þessar framkvæmdir, á skyldum Bandaríkjastjórnar til slíkra athafna samkv. varnarsáttmálanum. Á þetta var fallizt af hálfu Bandaríkjastjórnar, sem í þeim skilningi leitaði eftir fjárveitingu til framkvæmdanna, sem fékkst ekki fyrr en á miðju sumri, þ.e. eftir að kosningar voru um garð gengnar á Íslandi og stjórnarskipti fyrirsjáanleg. Það var auðvitað skýringin á því, að fyrrv. ríkisstj. var ekki búin að gera samninginn, — ég hef orðið var við misskilning í þessu efni, að hún hafi ekki gert samninginn. Hún gat ekki gert hann fyrr en fjárveitingin var fengin hjá Bandaríkjaþingi, og hún fékkst ekki fyrr en að kosningum loknum. Svo að það var ekki von, að ríkisstj., sú bráðabirgðastjórn, sem sat að völdum eftir kosningar, gerði samning eins og þann, sem hér var um að ræða, enda hefði áreiðanlega hvinið í einhverjum tálknum, ef það hefði verið gert. En það datt engum í þáv. ríkisstj. að sjálfsögðu í hug.

En mér skilst nú, og það er mjög mikilvægt, að meiri hl. ráðh. í núv. ríkisstj. byggi ákvörðun sína á skyldum Íslands við NATO, við Atlantshafsbandalagið, vegna þess að Ísland sé í NATO, þótt ágreiningur sé um það innan ríkisstj. Fyrst Ísland sé í NATO, þá leiði af því, að eðlilegt sé, að flugvellinum sé haldið í sem fyllstu lagi og þess vegna séu framkvæmdirnar eðlilegar og eðlilegt, að Bandaríkjastjórn kosti framkvæmdirnar. En ég vil benda á það og undirstrika sérstaklega, að við höfum engan samning við NATO. Ísland er aðili í NATO, en við höfum engan samning við NATO um varnir Íslands. Við höfum samning við Bandaríkjastjórn fyrir hönd NATO um varnir Íslands. Það er auðvitað allt annað, eins og allir, bæði lögfræðingar og ekki lögfræðingar, hljóta að gera sér ljóst. Þess vegna er staðreyndin sú, að annaðhvort er hér um að ræða samning um framkvæmdir samkv. varnarsamningnum við Bandaríkin fyrir hönd NATO eða þá þetta er ölmusa, eins og ráðh. Alþb. halda fram. Þriðja er ekki til. Þetta er annaðhvort samkv. samningnum við Bandaríkin fyrir hönd NATO eða ölmusa. Þriðja skýringin er ekki til. Allar aðrar skýringar eru út í bláinn. Ég tel fyrra sjónarmiðið vera rétt, að samningurinn um framkvæmdirnar sé gerður samkv. ákvæðum og í skjóli eða samkv. ákvæðum varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna fyrir hönd NATO. Hitt sjónarmiðið er algerlega rangt, að hér sé um ölmusu að ræða. En þetta veldur því, að sú skýring, sem enn hefur verið gefin af hálfu meiri hl., er röng. Meiri hl. kemst ekki hjá því að viðurkenna, að annaðhvort sé þetta gert samkv. varnarsamningnum eða þetta sé ölmusa. Og fyrra sjónarmiðið styð ég og minn flokkur að sjálfsögðu. En í þetta þarf að fást botn.

Það fer ekki hjá því, að með þessari ákvörðun sinni, ekki sízt því, hvernig hún er tekin og með hvaða rökum hún er studd, bæti ríkisstj. litið álit sitt bæði utanlands og innan. Svo að ég víki örfáum orðum að málinu almennt, þá var auðvitað fáránlegur glannaskapur af hæstv. ríkisstj. að taka samtímis í málefnasamning sinn fyrirætlanir um útfærslu landhelginnar, jafnstórt, víðtækt og vandasamt mál sem það er og svo hins vegar endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins í .því skyni, að herliðið verði brott af landinu fyrir lok þessa kjörtímabils. Sannleikurinn er sá, að við þurfum auðvitað, höfum þurft — og munum þurfa á aðstoð allra vina okkar að halda í landhelgismálinu. Um það er alger samstaða hér innanlands og það getur ekki heldur verið nokkur ágreiningur um það, að það mál mætir svo mikilli andstöðu, að við þurfum, eins og margsinnis hefur verið bent á, á stuðningi allra vina okkar í því máli að halda. En það er ekki líklegt til þess að afla almennt samúðar, aukinnar samúðar með Íslandi og stöðu þess í heiminum að ætla samtímis baráttu fyrir útfærslu landhelginnar að gera jafnviðkvæmt mál og dvöl varnarliðs á Íslandi er og yfirleitt þátttaka Íslands í vestrænu samstarfskerfi að umræðuefni og deiluefni austan hafs og vestan. Það hlaut að vera öllum skynsömum mönnum ljóst, að fyrirætlun ríkisstj. um að breyta stöðu Íslands í vestrænu varnarkerfi, að maður nú ekki tali um með svo róttækum hætti að láta varnarliðið hverfa burtu á allt að fjórum árum, hlyti að verða mjög umdeild stefna meðal margra nálægra vinaþjóða, og er ég með þessum orðum einum saman engan dóm um það að fella, hvort stefnan sé rétt eða röng. Ég er aðeins að vekja athygli á því, að þetta er ómótmælanleg staðreynd, að ákvörðun um gerbreytta stöðu Íslands í vestrænu varnarsamstarfi hlaut að vekja deilur meðal vinaþjóða, hún hlaut að vekja stóraukna gagnrýni á Ísland og þá ríkisstj., sem að þessu stæði, meðal þeirra vinaþjóða okkar í vestrænum heimi, sem við þyrftum ekki hvað sízt á stuðningi að halda hjá í baráttu okkar fyrir aukinni landhelgi. Þess vegna segi ég það, að það var í hæsta máta óhyggilegt af ríkisstj. að setja bæði þessi mál á stefnuskrá sína, eins og hún gerði á s.l. sumri.

Að vísu hefur hæstv. utanrrh. dregið talsvert í land varðandi þetta. Hann hefur lýst því yfir, að það, sem ríkisstj. hafi á stefnuskrá sinni, sé ekki annað en það, að endurskoða skuli samninginn og e.t.v. segja honum upp og með þessu sé stefnt að því, að varnarliðið verði á brott af landinu á þessu kjörtímabili. En hæstv. utanrrh. hefur ekki með þessum orðum sínum útilokað, að viðræðum um endurskoðun þurfi ekki að ljúka með endanlegri uppsögn, og hann hefur ekki útilokað, að viðræður um endurskoðun, geti leitt til þess, að eftir sem áður sé eitthvert bandarískt herlið með einhverjum hætti við varnarstörf á Íslandi. Og hann hefur talið, að þó að niðurstaðan yrði þessi, þá væri það ekki í ósamræmi við stjórnarsáttmálann, eins og hann er orðaður. Ég vil undirstrika það, að út frá þeim sjónarmiðum, sem ég aðhyllist í málinu, fagna ég mjög þessum skilningi hæstv. utanrrh. á stjórnarsáttmálanum og læt í ljós þá mjög einlægu ósk, að niðurstaðan verði í samræmi við skoðanir hæstv. utanrrh. á þessu máli. En ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því, að aðrir ráðh. hafa talað mjög með öðrum hætti um þetta mál. Þeir hafa að vísu ekki allir alltaf sagt það sama, eins og raunar hefur því miður hent hæstv. utanrrh. líka. Hann hefur ekki alltaf í öll skipti, sem hann hefur talað um málið, sagt nákvæmlega það sama og það er mannlegt. (Utanrrh.: Það verður nú leiðigjarnt.) Já, það get ég vel skilið og ég satt að segja öfunda hæstv. ráðh. ekki af því að þurfa að hlusta jafn oft á sjálfan sig og sínar yfirlýsingar um þessi efni og hann hefur þurft að gera, og það er ekkert skemmtilegt hjá okkur hinum heldur, ég get fullvissað hann alveg um það, þó að við verðum að leggja það á okkur.

Það fer ekki hjá því, að athygli verði að vekja á því, að ummæli annarra ráðh., og þá alveg sérstaklega ummæli ráðh. Alþb., hafa verið með allt öðrum hætti. Þeir og þá alveg sérstaklega þeirra málgagn, hafa sagt það, að ekki sé hægt fyrir nokkurn skynsaman mann að skilja ákvæði stjórnarsáttmálans öðruvísi en þannig, að varnarsáttmálanum verði sagt upp og allt herlið Bandaríkjanna flutt á brott, brottflutningi þess lokið, áður en kjörtímabilinu lýkur. Ég vek athygli á þessu, en geri það að þessu sinni ekki að aðalatriði í mínum málflutningi. Ég bara vildi gjarnan koma því einu sinni enn á framfæri, að ég vona, að skoðanir hæstv. utanrrh. á þessu efni verði ofan á. Og ég ætla gjarnan að bæta við að síðustu rökum mínum fyrir því, að óskynsamlegt væri nú að segja varnarsáttmálanum upp og flytja allt herliðið brott á þessu kjörtímabili. Ég tel margháttaða endurskoðun vera bæði nauðsynlega og sjálfsagða. En ástæðan fyrir því, að ég tel uppsögn varnarsamningsins og brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu ekki skynsamlega ráðstöfun, er ekki sú, að ég telji, að Ísland hljóti að vera í yfirvofandi árásarhættu frá einhverri þjóð, þó að hér væri ekki varnarlið, heldur eru rök mín einfaldlega þau, að gildandi samningar okkar við Bandaríkin fyrir hönd NATO og gildandi skipan, þó að breyta megi henni í einstökum atriðum, hefur orðið þáttur í valdajafnvægi í heiminum, í hinum vestræna heimi, sem gefizt hefur vel. Að vísu er þegar farið að halla örlítið á þau vestrænu ríki, sem við höfum varnarsamstarf við, að því er valdajafnvægi snertir með auknum umsvifum kafbátaflotans, sem tilheyrir öðru varnarbandalagi, frá norðlægum slóðum. En einmitt þess vegna er enn þá síður ástæða til þess, að við, sem erum þátttakendur í þessu varnarsamstarfi, stígum spor, sem enn mundi raska valdajafnvæginu í óhag þeim aðilum, sem við höfum undanfarna áratugi verið í varnarsamstarfi við. Þetta eru að mínu viti þau réttu og skynsamlegu rök gegn því að segja varnarsamstarfinu algerlega upp og flytja allt herliðið brott á allra næstu árum.

En svo að ég víki aftur að síðustu að framkvæmdunum á Keflavíkurflugvelli, þá verður það því miður að segjast, ég endurtek, því miður, að það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur staðið að þessu máli, hlýtur að valda því, að menn bæði innanlands og utan munu með réttu eða röngu draga þá ályktun, að þessi samningur boði, að varnarsamningnum muni ekki verða sagt upp og herinn ekki fluttur á brott á kjörtímabilinu. En ég tel, að samningsgerðina hefði átt að bera að með allt öðrum hætti. Það var alveg vandalaust, og þá hefðum við getað komizt hjá öllum getsökum í þá átt, sem íslenzk stjórnvöld nú hljóta að verða fyrir, bæði innanlands og utan, ég segi enn, með réttu eða röngu. Og þetta virðist mér enn eitt dæmi þess, og það skulu vera síðustu orð mín, enn eitt dæmi þess, hversu núv. hæstv. ríkisstj. er gersamlega heillum horfin. Jafnvel þegar hún gerir rétt, þá gerir hún það með þeim hætti, að það skaðar hagsmuni Íslands.