06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (4192)

46. mál, öryggismál Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Enn erum við að ræða 46. mál þingsins, till. okkar sjálfstæðismanna til þál. um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands. Þessi till. var lögð fram á öndverðu þingi. Ýmsar ástæður hafa valdið því, að umr. hefur verið frestað æ ofan í æ, og skal ég ekki rekja þær. Þegar allt kemur til alls, staðfestir reynslan, að það hefur reynzt mikilvægt að hafa þetta mál með slíkum hætti stöðugt til meðferðar í þinginu.

Ekkert vakti jafnmikinn ugg hjá almenningi og ístöðuleysi og óvissan við myndun núverandi stjórnar varðandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvískinnungurinn varðandi öryggis— og varnarmál landsins. Gleðivíman í nýmynduðum stjórnarherbúðum var svo mikil, að heiðri og sóma var fórnað. Stjórnarsáttmáli hafði verið skrifaður í slíku ofboði, að ýmsum gleymdist sýnilega að hugsa. Nú átti að fylgja svokallaðri sjálfstæðri utanríkisstefnu, en hvað fólst í stjórnarsáttmálanum? Átti landið að vera varnarlaust með brottrekstri varnarliðsins, eða átti bara að stefna að því, að svo yrði? Hvað átti að endurskoða? Átti að endurskoða varnarsamninginn eða varnar— og öryggisstöðu landsins? Nei, varnarsamninginn skyldi ekki endurskoða, eins og kom síðar í ljós. Um það er ekki beðið, upplýsti hæstv. utanrrh. á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins 10. des. s.l., en þá segir hann: „Athugun á þessum málum er ekki lokið, og frekari ákvarðanir verða aðeins teknar að lokinni gaumgæfilegri athugun á niðurstöðum könnunarinnar. Þá fyrst verða ákvarðanir teknar. Ég vil þess vegna láta það koma alveg skýrt fram,“ segir utanrrh., „að enda þótt ég hafi gert mál þetta hér að umtalsefni, er ég ekki nú að biðja um formlega endurskoðun á grundvelli 7. gr. varnarsamningsins.“ (Utanrrh.: Þetta er rétt ræða.) Já, þetta er alveg rétt, þetta er ágætt líka. Þetta er ágætt. Þetta hlýtur að gleðja kollega þína í ríkisstj., tvímenningana. Og það er sitthvað fleira, sem hæstv. ráðh. hefur síðar sagt, sem hlýtur að gleðja þá líka, þó að sumt sé náttúrlega kannske annars eðlis.

En það var á baráttusamkomu gegn hernáminu hér 1. des., baráttusamkomu gegn hernámi Íslands, Þjóðviljinn kallaði það svo í frásögn af þessari baráttusamkomu, sem utanrrh. sagði: „Ég tek við þessari ályktun, sem fundurinn hefur gert, fyrir hönd ríkisstj.“ Eins og hér hefur komið fram, hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir því, að fram fari heiðarlegar, opinskáar umræður um stöðu Íslands og stefnt að því, að varnarliðið geti farið héðan fyrir lok kjörtímabilsins. Þessu tók nú hæstv. utanrrh. á móti frá þessu hernámsandstæðingaliði, en sjálfur varð hann svo að svara beinni spurningu ásamt hæstv. menntmrh. í sjónvarpsþætti um það, hvort þeir teldu Ísland vera hernumið, afdráttarlaust neitandi. (Gripið fram í: Það er hersetið.) Ekki sagði hæstv. utanrrh. það. (Gripið fram í: Ég segi það, það er hersetið.) Það taka nú því miður miklu færri mark á þessum hv. þm. en á hæstv..utanrrh.

Hinn 23. nóv. hafði utanrrh. sagt á Alþ.: „Varnarliðið fer ekki“ — þetta var líka góð ræða,— „nema meiri hl. Alþ. eða alþjóðar vilji það.“ Átta dögum síðar, þann 1. des.; kom svo í ljós, að meiri hl. var alls ekki fyrir því á Alþ., að varnarkeðja NATO væri rofin með hvatvíslegri brottvísun varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, átta dögum síðar. Þetta staðfestu yfirlýsingar þriggja eða kannske fjögurra, sá fjórði var loðnari, framsóknar þm. og eins af ráðherrunum í stúdentablaði Vöku, sem gefið var út þennan dag. Ég veit, að menn hafa tekið eftir þessu, það var tekið eftir því víðar en í þingsölunum. En þær eru svo afdráttarlausar, yfirlýsingarnar, að þær sýna það, að ekki er meiri hl. á Alþ. fyrir brottvísun hersins. Jón Skaftason var jafneindreginn í sinni yfirlýsingu þar eins og hann hafði reyndar áður verið og alkunnugt var, að hann teldi, að það væri óvarlegt og ætti alls ekki að láta varnarliðið fara af landinu og skilja landið eftir varnarlaust. Það ætti ekki að gera. Og hv. þm. Björn á Löngumýri segir, að álíti meðlimir Atlantshafsbandalagsins það nauðsynlegt að hafa hér gæzlustöð svipaða og verið hefur, telji hann ógerlegt að neita því. Miðað við það ástand, sem ríkir í heimsmálunum í dag, er hann á móti því, að gæzlustöð sú, sem hér er nú, verði lögð niður. Þetta var ekki talað heldur með neinni tæpitungu. Það gerði ekki heldur hv. 4. þm. Sunnl., sem sagði: „Ef könnun leiðir það í ljós, að varnarliðið þurfi að vera hér til öryggis og frelsis Íslendingum og landamönnum þeirra í NATO, tel ég sjálfsagt, að svo verði.“

Fjórði þm. var svo hv. 1. þm. Vestf. Hann sló svona meira úr og í, en ráðherrann, sem talað er við þarna í þessu blaði, hann er ekkert myrkur í máli og mátti greinilega skilja á hans ummælum að hann teldi, að varnarliðið ætti ekki að hverfa héðan af landi fyrr en þá að undangenginni athugun og ef það sýndi sig, að það veikti hvorki varnarmátt bandamanna okkar, Atlantshafshandalagsins né stöðu eða öryggi landsins sjálfs.

Svona hefur nú verið talað í þessu máli og það hefur m.a. verið töluverður vandi að fá fram skeleggar og ákveðnar yfirlýsingar, en þær eru smám saman að fæðast. Og áður en þetta var sagt, sem ég nú hef sagt, þá lágu fyrir yfirlýsingar um sama efni frá hæstv. sjútvrh., og einmitt þá byrjar hann að fetta fingur út í það, sem hæstv. utanrrh. hafði sagt í málinu, segir að vísu með þessum orðum á sjálfu þingi Alþb.: „Ég get ekki fullyrt, að það sé rétt haft eftir utanrrh., að fyrst skuli fara fram rækileg athugun á aðstöðu hersins hér á landi og síðan eigi að taka ákvörðun um brottför hans eða áframhaldandi dvöl hér.“ En hér er haldið fram algerlega rangri túlkun málefnasáttmálans. Nú geta þeir barizt sín á milli, ráðh. tveir. Þeir eru hvort eð er komnir í slag saman. Hæstv. sjútvrh. segir: „Í málefnasamningnum er fjallað um endurskoðun herverndarsamningsins, en þar er átt við endurskoðun, sem miðar að því, að herinn eigi að fara úr landi í áföngum á kjörtímabilinu.“ En það er sú sama túlkun, sem þegar kom fram í Þjóðviljanum í forustugrein 3. okt., þar sem hann segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Enda eru ákvæði málefnasamningsins um þessi mál skýr og ótvíræð. Herinn á að fara úr landi á kjörtímabilinu, í síðasta lagi á miðju ári 1975.“

Það er stefnan, til hvers svo sem endurskoðun leiðir, athugun eða könnun eða hvað annað.

Formaður Alþb. hafði skrifað síðasta dag ársins í Þjóðviljann:

„Ákvæði samningsins um brottför hersins eru ótvíræð. Viðræður við Bandaríkin munu fara fram um endurskoðun samningsins með það fyrir augum að ná samkomulagi um árlega fækkun herliðsins. Takist samningar hins vegar ekki, er um það fullt samkomulag milli stjórnarflokkanna, að herstöðvasamningnum skuli sagt upp.“

Þetta er sitt á hvað, annar talar í austur og hinn talar í vestur. Það hefur orðið m.a. með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst áðan og öllum er kunnugt um, að ríkisstj. hefur beinlínis klofnað varðandi mismunandi afstöðu til Atlantshafsbandalagsins og dvalar varnarliðsins hér á landi. Forsrh. sagði um sama leyti í áramótagrein, að það hljóti að vera grundvallarsjónarmið okkar ævinlega að gæta sem bezt öryggis og sjálfstæðis Íslands. Verður að líta á það efni af fullu raunsæi. Þetta eru orð, sem hæfa mjög hæstv. forsrh. að segja, en það verður ekki sagt, að margt, sem talað hefur verið af fylgjendum þingmeirihlutans, hafi verið í þessum anda. En þegar hæstv. félmrh. var kominn heim úr vesturförinni og Þjóðviljinn búinn að svívirða ráðh. nógu dyggilega með títuprjónastungum og löðrungum, þá stóðst nú ekki kempan mátið lengur og var heldur ekki honum líkt, og segir hann í blaði sínu, Nýju landi:

„Aðeins virðist vera um þrennt að velja. Vilja Íslendingar taka áfram þátt í varnarsamtökum vestrænna þjóða, vilja þeir leita undir verndarvæng Sovétríkjanna, eða vilja þeir láta skeika að sköpuðu og treysta á vernd hlutleysis, ef til átaka kemur milli risanna tveggja í austri og vestri? Eins og nú standa sakir, virðist flest benda til þess, að mikill meiri hl. þjóðarinnar vilji fyrsta kostinn.“

Nú þótti sumum sennilega skörin vera farin að færast upp í bekkinn, en félmrh. þótti af mörgum mæla hraustlega, og ég er honum alveg sammála um það, að mikill meiri hl. þjóðarinnar er á þeirri skoðun, sem félmrh. gerði þarna ráð fyrir, að hann væri og það hefur alltaf sýnt sig, að svo hafi verið. Ég minni t.d. á það, að árið 1956 átti nú að reka herinn úr landi og ríkisstj. var mynduð með því höfuð prógrammi. Sjálfstæðismenn voru þá í einarðri andstöðu gegn þessu og gerðu þjóðinni algerlega ljósa afstöðu sína. Þeirra stefna í varnar— og öryggismálum hefur ætíð verið ljós. Þeir hafa ekki síðan og ekki um langan tíma áður fengið jafnmikið kjörfylgi hjá þjóðinni eins og í þessum kosningum, í kosningunum 1956 og þó var þetta einmitt eitt af aðalbaráttumálunum. Og það er alveg öruggt mál og hefur komið fram, getum við sagt, síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað, að mikill meiri hl. þjóðarinnar hefur aðhyllzt aðild okkar að bandalaginu. Hins vegar hafa kommúnistarnir hér, hvort sem þeir eru dulbúnir eða ekki og hvort sem þeir sitja í ríkisstj. eða ekki, þeir hafa alltaf talað um það, að Atlantshafsbandalagið væri hlægilegt og við ættum ekki að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu, enda hafa þeir verið að vinna þar fyrir þá, sem þeim er ætlað að vinna fyrir. Og þeir sitja í ríkisstj., þó að teknar séu ákvarðanir á móti þeim í þessu máli, af því að þeim er líka sagt að sitja kyrrir í ríkisstj., enda þótt ríkisstj., að meiri hl., taki ákvarðanir með Atlantshafsbandalaginu og með dvöl varnarliðs á Íslandi. Samt skuluð þið sitja, herrar mínir, því að það getur nú vel verið, að þið getið gert af ykkur einhverja bölvun í ríkisstj. meiri en ella.

Þegar hér var komið málum, þá voru menn farnir að spyrja: Er sagan frá 1956, í tíð vinstri stjórnar þá að endurtaka sig? Mönnum var það ljóst, að það gat að sjálfsögðu ekki verið með sama hraða. Sú vinstri stjórn var mynduð á miðju sumri og með því aðalstefnumáli að reka varnarliðið úr landi, en í nóv. var svo samið, fyrir 30 silfurpeninga, sagði Þjóðviljinn, um það, að varnarliðið skyldi verða áfram, í nóv. sama ár. Þá gaf ríkisstj. út opinbera tilkynningu eða yfirlýsingu um samninga við stjórn Bandaríkjanna, þar sem segir m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Viðræður við stjórn Bandaríkjanna hafa leitt til samkomulags um, að vegna ástands þess, er skapazt hefur í alþjóðamálum undanfarið og áframhaldandi hættu, sem steðjar að öryggi Íslands og Norður-Atlantshafsríkjanna, þá sé þörf varnarliðs á Íslandi samkv. ákvæðum varnarsamningsins.“

Kommúnistarnir sátu áfram sem fastast í ríkisstj. og þar til þessi ríkisstj. gekk fyrir ætternisstapa af allt öðrum sökum. Hæstv. forsrh. þá, Hermann Jónasson, var búinn að segja af sér, þegar kommúnistar mönnuðu sig upp í það að gera einhverja ályktun um það í einhverjum félagsskap sínum, að þeir skyldu gera brottför hersins að fráfararatriði. Þá var hæstv. forsrh. búinn að segja af sér. Þá var það, sem litla ljóðið, sem ég hef nú víst einu sinni áður farið með hér í þingsölunum, birtist í Þjóðviljanum, eftir vonsvikna konu, þetta fallega ljóð:

Aumingja íslenzki hundur,

sem áttir að reka úr túninu illan og óboðinn gest.

Hvað hefur orðið af þér, ertu hættur að gelta?

Illa fer þér um flest.

Meðan við höfum haft þetta mál á dagskrá, hefur tíminn liðið og nú var farið að líða að páskum, og enn komu öryggismálin á dagskrá hér í þingsölunum. Svo kemur tilboðið frá ríkisstj. Bandaríkjanna um að kosta stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. En við skulum aðeins bíða við. Það var nefnilega sama dag dymbilvikunnar, sem birtist í aðalmálgagni Framsfl. stjórnmálaályktun aðalfundar miðstjórnar Framsfl. 1972. Hún er löng og ítarleg, en þar er að finna aðeins tvær og hálfa línu um utanríkismálin, og þær hljóða svo:

„Miðstjórnin ítrekar ályktun seinasta flokksþings í utanríkismálunum og fagnar ákvörðuninni um endurskoðun varnarsamningsins.“

Það var ekki verið að vitna í Ólafskver að þessu sinni, nei, „ítrekar ályktun seinasta flokksþings í utanríkismálunum.“ Og sennilega hefur formaður Alþb. lesið stjórnmálaályktun miðstjórnarinnar tvisvar og búizt við leiðréttingu, búizt við næsta dag, að fallið hefði niður tilvísun í meginákvæði stjórnarsáttmálans, en í sjónvarpi 23. nóv. hafði formanninum þótt ástæða til þess að taka fram eftirfarandi:

„Ég er sannfærður um, að staðið verði við meginákvæði stjórnarsáttmálans, að herinn hverfi úr landi á næstu fjórum árum.“

Ekki þótti miðstjórn Framsfl. ástæða til þess að árétta það í þessari merku ályktun sinni. Þegar fréttin um tilboð Bandaríkjanna barst, þá lætur utanrrh. hafa eftir sér efnislega eitthvað á þessa leið: Ákvörðun ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins stendur enn, og tilgangur hennar er óbreyttur. Það var nú einhvern tíma konungur forðum daga, sem hlustaði á véfréttina í Delfí og þóttist góður. En hvers konar véfrétt er nú þetta? Það er ekki hægt að rengja það, að þetta sé rétt, tilgangur hennar er óbreyttur. En þá er það spurningin: Hver er tilgangur hennar? Hver er tilgangur ákvörðunar ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins? Við vitum það núna, hver tilgangurinn er af hálfu hæstv. utanrrh, og ég fagna því og skal koma nánar að því síðar. En að liðnum páskum, þegar fréttir berast af hinum sögulega klofningi innan ríkisstj. um að samþykkja tilboð Bandaríkjastjórnar um stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, birtast sömu fyrirsagnirnar á forsíðu Þjóðviljans og Tímans. Þjóðviljinn segir: Samþykktin breytir engu um stefnu stjórnarinnar. Tíminn: Breytir í engu stefnu ríkisstj. Eini munurinn er sá, að leturgerðin er aðeins 4—5 sinnum smærri í Tímanum en Þjóðviljanum, að það breyti engu um stefnu stjórnarinnar. En nú spyr ég: Hver er þá stefna ríkisstj.? Það er þetta, sem við höfum verið að reyna að draga fram í dagsljósið í umr. um varnarmálin hér á Alþ„ og við höfum lagt áherzlu á það hér í stjórnarandstöðunni, að það sé skylt að gera stefnuna í varnar— og öryggismálunum á hverjum tíma fullljósa fyrir almenningi í landinu. Það á ekki að sigla hér undir fölsku flaggi. Ég veit, að það vilja margir sigla undir fölsku flaggi. En í þessum málum á það ekki að líðast, og forsrh. ríkisstj. á ekki að líða neinum af sínum ráðh. að sigla undir fölsku flaggi í sínum málum. Annaðhvort verða þeir að beygja sig undir það, sem forsrh. vill og meiri hl. ríkisstj., eða þeir eiga auðvitað að fara. Þeir eiga ekki að sitja þarna í andstöðu við þá meginstefnu, sem fylgt er. Sumir ráðh. fara á fundi um landið og segja: Það er alveg ákveðið og tvímælalaust, að varnarliðið á að fara á kjörtímabilinu. En svo koma aðrir ráðh. og segja: Við erum að athuga málið enn þá og við getum ekkert um það sagt fyrr en þeirri athugun er lokið, hvort ástæða sé til þess að hafa varnarlið í landinu.

Ég spurði, hver væri stefna ríkisstj. og nú spyr ekki sá sem ekki veit, því að ég tel, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, að stefna fimm af sjö ráðherrunum og þar með ríkisstj., verðum við að álíta, sé sú, sem áréttuð hefur verið af hæstv. utanrrh. og sem hann nú, held ég, mun á engan hátt hverfa frá, þ.e. að varnarstaða landsins verði endurskoðuð og á niðurstöðum þeirrar endurskoðunar velti, hvort talin verður þörf varnarliðsins hér á landi. Framhaldið af þessu var einnig, að hæstv. utanrrh. dró enga dul á það, að eins gætu niðurstöður endurskoðunarinnar leitt til þess, að varnarliðið yrði hér áfram. Um það yrði ekki sagt, fyrr en þessari könnun yrði lokið. Þetta allt saman hefur fengizt staðfest í sjónvarpi og í hinum löngu umr. hér á Alþ., m.ö.o. að hugsa fyrst og ákveða svo og slíkt er nú mikil bragarbót. Þar með hafa þessi mikilvægu mál ekki til einskis verið rædd hér í þingsölunum.

Mig langar nú til þess að víkja örlítið nánar að þeim ágreiningi eða klofningi, sem orðið hefur innan ríkisstj. um samninga við Bandaríkin um að kosta framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þar er fyrst, að ég vildi gera grein fyrir viðhorfum okkar sjálfstæðismanna og einnig þeirra, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj. Það hefur komið nokkuð fram í umr. hér strax, og ég skal fara fáum orðum um það, að við töldum, að Bandaríkjamenn ættu að kosta þær framkvæmdir, sem þar væru gerðar af hernaðarlegri nauðsyn til þess að styrkja varnarstöðu Atlantshafsbandalagsins, á grundvelli þess varnarsamnings sem íslenzka ríkisstj. og Bandaríkin höfðu gert sín á milli. Á þeim grundvelli töldum við, að þeir ættu að kosta allar framkvæmdir á vellinum, þ.á.m. sem við lögðum mjög mikla áherzlu á, sundurgreiningu hernaðarflugsins, herstöðvarinnar og hinnar almennu flugþjónustu. Þar sem Bandaríkjamenn töldu sig líta einnig þannig á, að það væri mjög mikilvægt öryggisins vegna að sundurskilja herstöðina og almennu flugþjónustuna, þá varð niðurstaða okkar, að þeir ættu að byggja flugstöðina, þetta væri hernaðarleg nauðsyn fyrir þá. Nú var það því miður, að frá þessu féllum við í samkomulagsuppkasti, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert, og niðurstaðan varð sú, að við ætluðum sjálfir að kosta þessa flugstöð, sem mundi kosta 3—4 millj. dollara, að því er ætlað var. Hins vegar töldum við okkur hafa góðar líkur fyrir því, að okkur mundi auðnast að fá lánsfé til þessarar framkvæmdar, og þar sem Bandaríkjamenn féllust á að gera annað, þá féllumst við á það fyrir okkar leyti að kosta sjálfir þessa flugstöð og gerðum það þá m.a. af því, að allar aðrar framkvæmdir ásamt með henni mundu styrkja rekstursfyrirkomulag vallarins það mikið, að auðvelt væri að standa undir lánum til þess að byggja flugstöðina.

Ef við víkjum að viðhorfi meiri hl. ríkisstj., þá tel ég það alveg víst, að viðhorfið til samningstilboðsins frá Bandaríkjunum um að stækka flugvöllinn og að lengja þverbrautina svokölluðu ásamt ýmsu öðru í sambandi við það byggist af þeirra hálfu, íslenzku ríkisstj., eins og Bandaríkjastjórnar, á því, að það styrki varnaraðstöðu Atlantshafsbandalagsins eða Bandaríkjanna fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins til varnar á Íslandi, bæði fyrir Íslendinga, Bandaríkin og aðra aðila í Atlantshafsbandalaginu. Núv. ráðh., sem hafa þessa stefnu, gætu í sjálfu sér ásakað okkur fyrir það, að við hefðum átt að heimta það, að Bandaríkjamenn byggðu flugstöðina. Ekki skyldi ég álasa þeim, þó að þeir tækju það mál upp aftur og næðu þeim árangri, að þeir kostuðu ekki flugstöðina. Það mundi ég ekki gera.

Í þessari niðurstöðu, sem ég lýsti áðan og í þessu samkomulagsuppkasti, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert, þá kom það einnig fram, að úr þessu skyldi sá skilningur gilda, að það, sem gegndi hernaðarlegu hlutverki við aðgerðir á vellinum, borguðu Bandaríkin, en annað borguðum við. Það var einnig niðurstaða samninganna. Mér þykir mjög mikilvægt, og ég tel, að við megum örugglega líta þannig á, og það skýrir línurnar í utanríkismálastefnu ríkisstj., að fimm af sjö ráðherrum gera þennan samning við Bandaríkin augljóslega vegna þess, að þeir eru sannfærðir um, að það styrki varnaraðstöðuna á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þetta er auðvitað staðfest í forustugrein Tímans í dag, að í þessa veru sé þessi samningur gerður. Það er svo aftur annað mál, hvernig ríkisstj. getur setið að völdum á Íslandi, sem hefur jafn geigvænlegan ágreining í jafnmiklu stórmáli og þessu. Hvernig hún getur setið miðað við okkar stjórnarfar, eins og hér hefur verið vikið að áður.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að viðhorfi tvímenninganna í ríkisstj. Þeir hafa alltaf sagt og ekki dregið neina dul á það, að við eigum ekkert erindi inn í Atlantshafsbandalagið. Þar eigum við ekki að vera. Ég veit ekki, hvar þeir vilja, að við værum. Sennilega mundi þeim vera miklu kærara, að það væri ekki flotastöð Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli, heldur flotastöð annars ríkis einhvers staðar á Austfjörðum og jafnvel gæti ég ímyndað mér, að annar hvor eða báðir þessir menn gætu fengizt til að vera hafnarstjórar í slíkri flotastöð, en hún yrði ekki undir stjórn vestrænna lýðræðisríkja, það er eitt, sem víst er, sú flotastöð.

Nú langar mig, herra forseti, til þess að fá að víkja nokkrum orðum að því, hver sé stefna okkar sjálfstæðismanna almennt í utanríkis—, varnar— og öryggismálum. Það geri ég nú og eyði nokkrum orðum í það, vegna þess að ég hef sagt æ ofan í æ, að það sé alveg nauðsynleg skylda hverrar ríkisstj. og hvers stjórnmálaflokks í raun og veru að gera fullkomna og ljósa grein fyrir stefnu sinni í svo þýðingarmiklum málum eins og öryggis— og varnarmálin eru og utanríkismálin í heild. Auðvitað fagna ég hverju því skrefi, sem hér er tekið í þinginu í umr. eða utan þings í umr., sem verður til þess að skýra stefnu núv. ríkisstj., svo óljós sem hún hefur verið. Stefna okkar sjálfstæðismanna hefur alltaf verið mjög skýr í þessum málum, og það hefur aldrei verið farið dult með hana, og í raun og veru má segja, að síðasta stjórnmálayfirlýsing flokksráðs Sjálfstfl. 14. nóv. sé að þessu leyti endurskin af öllum fyrri ályktunum, sem við höfum gert í þessu máli. Vil ég leyfa mér að lesa hana hér, með leyfi hæstv. forseta, hluta úr henni:

„Flokksráð Sjálfstfl. telur, að marka beri utanríkisstefnu þannig, að öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar verði sem bezt tryggt. Jafnframt telur flokksráðið þá siðferðislegu skyldu hvíla á Íslendingum, að ákvarðanir um þá þætti öryggismála landsins, sem tengdir eru samningsskuldbindingum við vestræn lýðræðisríki, séu ekki teknar án vitundar hlutaðeigandi ríkja. Í engu sé hvikað frá samstöðu með þessum ríkjum um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Á það skal minnt, að markmið Atlantshafsbandalagsins er að koma á varanlegum friði, og jákvætt starf bandalagsins í þá átt að draga úr spennu í Evrópu virðist nú vera farið að bera árangur. Kjarninn í þessari viðleitni er gagnkvæm afvopnun og minnkun herafla. Einhliða aðgerðir, er raska ríkjandi jafnvægi og spilla þeim árangri, sem þegar hefur náðst, vinna þannig þvert gegn yfirlýstum tilgangi sínum. Flokksráðið telur eðlilegt, að endurmetin sé á hverjum tíma, eftir því sem aðstæður breytast, skipan varnarmála landsins.“

Hér er ekki um neina nýja stefnu Sjálfstfl. að ræða, heldur beint framhald á fyrri stefnu hans, og það má segja, að á lýðveldistímabilinu hafi enginn flokkur fremur en Sjálfstfl. mótað utanríkismálastefnuna.

Þá skal ég gera grein fyrir því núna, hver afstaða Sjálfstfl. var 1956, þegar líkt stóð á og nú, þegar menn voru að tala um að láta herinn fara, þó að hann yrði áfram í landinu, eins og menn vita. Þá fékk afgreiðslu í þinginu þál. um að láta herinn fara. Þá vildum við sjálfstæðismenn afgreiða hana með rökstuddri dagskrá, og rökstudda dagskráin var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem fram kemur í sjálfum varnarsamningnum, hefur það ætíð verið tilætlun Alþingis og ríkisstj., að erlent varnarlið dveldi ekki lengur hér á landi en nauðsynlegt væri vegna öryggis landsins og þar með friðsamra nágranna þess að endanlegu mati íslenzkra stjórnvalda. Alþingi áréttar þennan vilja sinn og lýsir yfir því, að það telur rétt, að hafinn sé nauðsynlegur undirbúningur þess, að svo megi verða. Áður en ákvörðun um brottflutning varnarliðsins er tekin, þarf hins vegar að athuga rækilega hvort tveggja, ástand og horfur í alþjóðamálum og hvernig fyrir skuli koma margháttuðum úrlausnarefnum, er hér skapast af þessum sökum“.

Síðan er það rakið í rökstuddu dagskránni og ég ætla að leyfa mér að taka það upp, því að það getur verið góð leiðbeining fyrir hæstv. utanrrh., sem nú er að vinna að athugun á þessu máli, hvað það er, sem hann þarf að athuga og þar er m.a. vikið að þessu:

„Meðal þess, sem athuga þarf í því sambandi, er: Hefur ástand í alþjóðamálum raunverulega batnað eða aðeins á yfirborði? Er nokkur sérstök hætta, sem vofir yfir Íslandi? Hvaða áhrif hafa ný vopn, svo sem eldflaugar, á hernaðarþýðingu Íslands? Hvaða áhrif hefur brottför varnarliðsins frá Íslandi á varnarmöguleika og öryggi aðildarríkjanna í heild? Bætir það eða dregur úr friðarhorfum í heiminum, ef dregið er úr öryggi og vatnarmöguleikum Atlantshafsbandalagsins? Geta Íslendingar lagt til nægan mannafla til að tryggja öryggi Íslands, eins og á stendur, sjálfir? Er hægt að gera það án þess, að á herafla þurfi að halda? Hversu mikinn mannafla þarf til þessara starfa, sem framkomnar tillögur gera ráð fyrir, að Íslendingar taki að sér? Hvers eðlis er sú gæzla varnarmannvirkja, sem einnig var talað um? Hvernig fer með kostnað af þessum öryggisráðstöfunum?“

Á þessum tíma lágu engar upplýsingar fyrir um það í þinginu, hvernig væri hægt að svara þessum spurningum á grundvelli íhugunar á málinu, og það var m.a. með vísun til þess, sem við lögðum til, að till. um brottflutning hersins væri afgreidd með rökstuddri dagskrá og málið væri athugað og síðan væri í þinginu gefin skýrsla um málið eftir slíka könnun, sem hér var talað um, og þá ýtti það á meiri hl. Alþ., hvernig með málið skyldi fara.

Nú er hæstv. utanrrh. á þessari braut, og vel sé því, að gera þessa könnun, og ef það er eitthvað, sem ég nú hef lesið upp, sem hann hefur ekki enn látið sér til hugar koma að athuga, þá er þessa rökstuddu dagskra að finna í Alþingistíðindunum frá árinu 1956. Ég teldi, að það gæti verið ágætt fyrir þá menn, sem vinna að þessum málum, að gera sér grein fyrir því, hvað þarna sé um að ræða.

Ég vitna í þessa rökstuddu dagskrá til þess að sýna, hversu viðhorf okkar sjálfstæðismanna er nákvæmlega hið sama 1956 eins og er í dag. Það er ekki eitt í dag og annað á morgun og hefur aldrei verið. Enn fremur vil ég leyfa mér að vitna til nokkurra orða úr ræðu, sem ég flutti sjálfur 1956, einmitt um þessi mál, ekki endilega vegna þess, að ég hafi svo mikla ánægju af því að lesa upp úr mínum eigin ræðum, heldur vegna þess, að hún gæti alveg eins verið flutt í dag frá orði til orðs. Það er nákvæmlega sama stefnufestan í þessum málum. Þar er m.a. sagt, að hervernd Íslands geti orðið úr sögunni, ef öryggi landsins er ekki talin hætta búin. Þetta hefur verið þungamiðjan í utanríkismálastefnunni frá því að varnarsamningurinn var gerður 1951. En hefur þá skapazt hernaðarlegt jafnvægi í Evrópu? Það væri betur, að svo væri. En hvaða upplýsingar liggja fyrir um það og hvaða tilraunir hefur forusta Íslands í utanríkismálum gert til þess að afla slíkra upplýsinga og gera Alþ. og ríkisstj. grein fyrir þeim?

Meginatriði stefnunnar hef ég í fjórum atriðum. Í fyrsta lagi, að veigamiklar ákvarðanir um öryggismál þjóðarinnar séu ekki teknar nema að vel undirbúnu og rannsökuðu máli. Í öðru lagi, að þess sé vandlega freistað að fá samstöðu lýðræðisflokkanna um þær ákvarðanir, sem teknar eru og þetta er ekki nein tilviljun, því að við vissum ósköp vel, að hverju kommúnistarnir stefndu. Þeir voru um þetta leyti að breiða yfir sig nýja gæru, breyttu um nafn 1956. Það var ekki einn einasti kommúnisti í framboði, hefur ekki verið í áratugi hér á Íslandi, nei, nei, þetta eru allt saman sakleysingjar, ganga undir einhverju fögru nafni, Sameiningarflokkur alþýðu, Alþýðubandalag eða eitthvað því um líkt. Í þriðja lagi, að áður en ákvörðun um uppsögn varnarsamningsins sé tekin, fari fram endurskoðun hans í samræmi við 7. gr. samningsins og fyrst þegar niðurstöður þeirrar endurskoðunar liggja fyrir, séu ákvarðanir teknar um uppsögnina. Lögð sé megináherzla í fjórða lagi á, að erlendur her dvelji ekki lengur í landinu en nauðsyn krefur vegna öryggis þess, eins og fram kemur í sjálfum varnarsamningnum.

Ég vitna í þessi tvö plögg, eldri plögg, eins og ég sagði áðan, til þess að sýna það, að við höfum í öllum þeim umr., sem hér hafa farið fram og í okkar tillöguflutningi fylgt þeirri sömu stefnu nú og við fylgdum þá.

Um till. okkar, sem nú er til umr., á þskj. 46 þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Um efni hennar hefur þegar verið fullkomlega rætt í umr. Hæstv. utanrrh. misskildi þessa till. í upphafi umr. um hana og taldi hana vantraust á sig. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það væri mikill misskilningur að telja það vantraust á sig, að sjálfstæðismenn vildu og teldu rétt, að lýðræðisflokkarnir, sem vilja vera í NATO, legðu honum lið, ef hann óskaði þess, við þá samningsgerð, sem fram undan er. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. fallist á þessi sjónarmið, vegna þess að hann hefur á síðara stigi málsins gert till. um það, að þessi till. færi til nefndar. Ég þekki ekki það fyrirbrigði, að vantrauststillaga fari til nefndar í þingi. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að það verði enginn ágreiningur um það, að þessi till. fái þinglega meðferð og fari til nefndar, eins og önnur till., sem flutt er á svipaðan hátt af þm. Alþfl. hér. Við höfum einnig tekið fram í hinum ýmsu löngu umr., að auðvitað værum við til viðtals um margháttaðar breytingar á till. eða formi hennar, ef menn aðeins gætu komið sér saman um, að menn vildu stefna að einu marki við að framkvæma þá endurskoðun á varnarstöðu landsins, sem nú er gert ráð fyrir að framkvæma, í þeim tilgangi, að okkur verði ekki á neitt glapræði, sem geti veikt öryggi landsins og einnig veikt öryggi þeirra bandalagsaðila eða þeirra þjóða, sem eru í bandalagi með okkur innan Atlantshafsbandalagsins. Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess að, að loknum þessum umr. verði till. vísað til hv. utanrmn. og fái hún þar sína þinglegu meðferð.

Ég vil svo ljúka máli mínu með þessum orðum, að í forustugrein Tímans í dag kemur fram undrun á því, að stjórnarandstöðublað skuli gera að umtalsefni slíkan ágreining sem nú hefur risið innan ríkisstj. varðandi samninginn við Bandaríkin um framkvæmdina á Keflavíkurflugvelli. Það má vel vera, að ósóminn, svo sem dylgjur um siðferðilegan veikleika, sé nægjanlega sterkt bindiefni til þess að halda núv. ríkisstj. saman um sinn, en ekki skyldi því gleymt, að síðar kemur að skuldadögunum og ekki kæmi mér á óvart, þótt kommúnistarnir í ríkisstj., sem nú hafa orðið undir í átökunum við samstarfsflokkana, hugsi þeim þegjandi þörfina, þegar tækifæri býðst. Þá ætti ástúð Framsóknar að blossa upp í nýjum styrkleika eftir kenningu Tímans, því meiri ágreiningur, því meiri samstaða. Þetta er alveg nýr boðskapur í íslenzkum stjórnmálum. Það er ekki dónalegt að búa á slíku kærleiksheimili. Það eru hinar opnu dyr Alþingis, eyra þjóðarinnar og frelsi blaðanna, sem veita það aðhald, sem slíkum er nauðsynlegt og hafa nú þegar leitt til þess, að línurnar í íslenzkum stjórnmálum og línurnar í stjórnarsamstarfinu varðandi veigamestu mál landsins, utanríkis- og öryggismálin, eru sem betur fer að skýrast.