06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (4193)

46. mál, öryggismál Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna a.m.k. hefur verið skýrt frá, verð ég því miður að víkja af þessum fundi um stund fljótlega vegna annarra starfa, sem ekki verður hjá komizt að sinna, en mig langar, áður en ég hverf af fundinum, að segja örfá orð í tilefni af því, sem fram hefur komið í þeim umr., sem átt hafa sér stað í dag, en það getur af framangreindum ástæðum ekki orðið neitt tiltakanlega löng ræða, sem kannske einu gildir nú, ef hægt er að svara þeim spurningum, sem fram hafa verið settar. Inn í þessar umr. um skipan og meðferð varnarmála og viðræður við Bandaríkin um fyrirhugaða endurskoðun varnarsamningsins, sem eru þau mál, sem hér eru á dagskrá, hafa nú blandazt miklar umr. um tiltekna verklega framkvæmd, lengingu einnar brautar á Keflavíkurflugvelli og ég kemst ekki hjá því vegna fsp. sem til mín hefur verið beint, að gera þetta mál örlítið að umtalsefni.

Eins og hér hefur komið fram margsinnis í umr. var fyrrv. hæstv. ríkisstj. komin í samningaviðræður, ég skal ekki segja, hversu langt þær viðræður voru komnar, hv. 1. þm. Reykv. kallaði skjalið samkomulagsuppkast, ég skal þá nota það orð. Alla vega hefur því þráfaldlega verið haldið fram hér af hv. stjórnarandstæðingum, að þeir hafi verið búnir að gera a.m.k. munnlegan samning við Bandaríkjastjórn um fjármögnun þessara framkvæmda og það, sem hafi komið í veg fyrir, að ekki var undir eins sett inn ákvæði í fjárlög í Bandaríkjunum um að leggja fé af mörkum í þessa framkvæmd, hafi verið yfirlýst stefna núv. ríkisstj. og það sé vegna hennar, að fyrirvarinn alþekkti hafi verið settur í bandarísk fjárlög. Ég er nú alveg sammála hv. 7. þm. Reykv., þegar hann kallar það óviðurkvæmilegan atburð, að Bandaríkjaþing skyldi setja slíkt skilyrði í fjárlög, ef svo er, sem ég verð að trúa, að þeir hafi verið búnir að fallast á þessa aðgerð. Engu að síður var skilyrðið þarna sett, og það hefur staðið þarna og stendur raunar enn. En það gerist svo á mánudag fyrir páska, ég man nú ekki alveg, hvaða mánaðardagur það var, að þá kemur bandaríski sendiherrann í utanríkisráðuneytið og tilkynnir, að Bandaríkjastjórn sé fallin frá því að beita þessu fyrirvaraákvæði og hún vilji nú ráðast í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli án nokkurra skilyrða og óskar samþykkis íslenzku ríkisstjórnarinnar á því. Ég hef áður gert þetta mál hér að umtalsefni að gefnu tilefni, m.a. vegna fsp. frá hv. 1. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv., sem bar upp á sama daginn.

Það er út af fyrir sig alveg rétt, að ég sagði það í sjónvarpsþætti, sem tekinn var upp í byrjun febr., að við mundum freista þess og það mundi takast að reisa þessa margnefndu flugbrautarlengingu fyrir íslenzkt fjármagn. Ég sagði þetta ekki umhugsunarlaust og alls ekki sérstaklega umhugsunarlítið, vegna þess að í ríkisstj. höfðum við rætt það, að það þyrfti að lengja þessa flugbraut, fyrst og fremst vegna afkomu eða notagildis Keflavíkurflugvallar, einnig að nokkru vegna aukins öryggis, sem þar mundi skapast við þessa lengingu. Þessa ákvörðun tókum við, vegna þess að við tókum mark á þeim fyrirvara í bandarísku fjárlögunum, sem þar stóð. Við trúðum því, að Bandaríkin hefðu þá stefnu, að þeir vildu ekki fjármagna þessa flugbraut, nema þeir fengju fullvissu um það, að bandarískt varnarlið fengi að vera hér á Íslandi um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég veit ekki, hvort hæstv. fyrrv. ríkisstj. hefði gengið að þessu. Mér heyrðist það á hv. 7. þm. Reykv. að hann hefði ekki viljað gera það.

Nú er sagt, að Bandaríkjamenn hljóti að túlka afstöðu Íslendinga á nýjan leik þannig, að Íslendingar séu fúsir til þess að hafa hér her um ófyrirsjáanlega framtíð. Af hverju túlka hv. stjórnarandstæðingar þetta svona núna, ef þeir eru alveg sannfærðir um það, að slíkt skilyrði hefði aldrei verið samþykkt af þeim? Þá hefði einfaldlega engin flugbraut verið byggð, engin flugbraut verið lengd, ef menn trúa þessu. Ég held, að það sjáist alveg af þessu, hversu fráleit þessi röksemdafærsla er, ekki sízt hjá þeim mönnum, sem telja það algjöra svívirðu og óhugsandi að ganga að því, að slíkt skilyrði hefði nokkru sinni komið til tals.

Hvernig átti þá að fjármagna? Ég sagði það hér og segi enn, að ég hafði gert ráðstafanir til þess meðal samstarfsmannanna í ríkisstj., að fjármagn til flugbrautarlengingarinnar yrði tekið á framkvæmdaáætlun 1972, og sú framkvæmdaáætlun er unnin nákvæmlega eins að þessu leyti og allar fyrri framkvæmdaáætlanir, nefnilega þannig, að stjórnarandstaðan hefur ekki verið kölluð til, til þess að semja þær framkvæmdaáætlanir fyrr en þeim er útbýtt á Alþ. Ef það er þetta, sem hv. 7. þm. Reykv. telur óeðlilegt við þessi vinnubrögð, þá skil ég ekki hans röksemdafærslu. En kannske er það eitthvað annað?

Hann spyr um það, við hvaða aðila ég hafi rætt. Ég hafði rætt meðal ráðh. í ríkisstj. um það að taka flugbrautarlenginguna inn á framkvæmdaáætlun, sem eru einhverjar þúsundir millj. króna. Ég skal ekki segja, hvaða niðurstaða verður þar, en var ekki framkvæmdaáætlun fyrrv. hæstv. ríkisstj. þegar allt er talið, um 4 þús. millj. króna? Ætli þessi verði miklu lægri? Ég á ekki von á því.

Ég vil nú spyrja hv. 7. þm. Reykv.: Telur hann þetta svo mikið mál og svo dýra framkvæmd, að óhugsandi sé, að Íslendingar geti af eigin rammleik lengt þessa tilteknu flugbraut? Hann svarar því væntanlega síðar. Við hefðum sem sagt, ef sá hugsanagangur væri ríkjandi, aldrei getað lengt flugbrautina á Keflavíkurvelli, nema gangast undir það, að hér yrði her einhvern tiltekinn tíma og helzt um ófyrirsjáanlega framtíð. Þessa skoðun aðhyllist ég ekki. Ég held, að við hefðum auðveldlega getað lengt flugbrautina af eigin rammleik. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þessi flugbraut verði fullfrágengin á því ári, sem yfir stendur. Þær upplýsingar, sem ég hef um það, hvort það sé unnt af tæknilegum ástæðum, segja, að það muni eigi verða. Þess vegna var hér um það að ræða, eftir minni hugsun, að skipta þessari framkvæmd á tvö ár.

Menn hafa talað um, að þessi flugbrautarlenging kostaði 500 millj. ísl. kr. Ég vil upplýsa það, að ég hef látið gera athugun á því, hvað slík flugbrautarlenging muni kosta miðað við íslenzkan tilkostnað á þeim framkvæmdum, sem þar er um að tefla, og ég hef fengið áætlun, að vísu aðeins frá einum verkfræðingi, en hún hljóðar upp á 250 millj. ísl. kr. og er eingöngu um lengingu flugbrautarinnar. Ég held þess vegna, að enginn þurfi að undrast það, þó þeim ráðh., sem ber ábyrgð á Keflavíkurflugvelli og á að gæta hagsmunanna þar, hafi fundizt það gerlegt að útvega íslenzkt fjármagn í þessa flugbrautarlengingu, einhvers staðar nálægt 125 millj. kr. hvort árið 1972 og 1973. Þeir, sem draga það í efa, þeir sýna lítinn stórhug. Sérstaklega held ég, að þetta hefði verið mjög auðvelt og a.m.k. framkvæmanlegt, þegar það er haft í huga, að flugbrautarlengingin bætir afkomu Keflavíkurflugvallarins geysilega mikið. Ég held, að það hafi verið í blöðunum í gær, sem flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli, Pétur Guðmundsson, er inntur eftir því, hvaða nýtingarprósenta verði eftir lengingu flugbrautarinnar, og ég má segja, að hann hafi sagt, að hún yrði 99.2%, þannig að það heyrði til algjörra undantekninga, ef flugvél þyrfti að fljúga hér yfir, en nýtingarhlutfallið fram að þessu hefur verið eitthvað um 87.5%. Þó ekki verið verra en það. Samt er þarna um mikla aukningu að tefla og ég minnist þess frá umr. hér í hv. Alþ. ekki alls fyrir löngu, að þá hafði hv. þm. Alþfl., Stefán Gunnlaugsson, mjög á hraðbergi upplýsingar um það, hversu gífurlega það mundi auka afkomumöguleika og tekjuöflun Keflavíkurflugvallar, að þessi flugbraut yrði lengd.

Ég satt að segja vona það, að þessar spurningar hv. 7. þm. Reykv. séu ekki bornar fram til þess að draga það í efa, að þessi framkvæmd hefði mátt gerast fyrir íslenzkt fé og ég vil nú nánast leyfa mér að spyrja að því og setja fram til umhugsunar, ekki sízt þeim, sem hér hafa farið með völd lengi og á Keflavíkurflugvelli mjög lengi, hvers vegna var ekki reynt að lengja þessa braut fyrr. Ég veit að vísu, að þörf lengingar er tiltölulega ný tilkomin, vegna þess að hér hafa verið teknar í notkun stærri þotur en áður voru, en það þurfti, held ég, ekki mikinn spámann til þess að sjá þá þróun fyrir.

Þá er þriðja spurning hv. 7. þm. Reykv. út af margumtalaðri flugbraut: Hvernig er breytt afstaða Bandaríkjamanna til komin? Þessu get ég ekki svarað. Þessari fsp. verður hann sennilega að beina til stjórnvalda Bandaríkjanna. Ég hygg, að enginn Íslendingur geti svarað þessu, en ég hygg þó, að það hljóti nánast að vera, að Bandaríkjamenn hafi við nánari athugun komizt að því, að þessi flugbrautarlenging sé nauðsynleg vegna þeirrar aðstöðu, sem NATO hefur haft hér og hefur hér á Íslandi.

Þá talaði hv. 7. þm. Reykv. um það, að Alþfl. styddi niðurstöðu þá, sem ríkisstj. hefði komizt að, en vildi vita, hver rökstuðningurinn fyrir henni væri. Ég hef á skyndifundi utanrmn., sem kallaður var saman í gær, upplýst það, hvaða röksemdafærslu við ráðh. Framsfl. höfum fyrir okkar afstöðu. Hún er sú, að við teljum, að Ísland eigi áfram að vera aðili að NATO. Við viljum standa við upphaflegar skuldbindingar þess varnarsáttmála.

Hv. 7. þm. Reykv. virtist telja, að við hefðum engar skyldur gagnvart NATO, hvað snertir varnir landsins. En ég vil nú spyrja: Hver var þá ástæðan fyrir því, að þessar þjóðir sóttust eftir því, að Íslendingar gengju í NATO? Ætli það sé ekki það, að í Norður-Atlantshafssamningnum hafi þeir ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveizlu friðar og öryggis? Og framlag Íslands samkv. NATO—sáttmálanum, eins og hér hefur verið margsinnis tekið fram, var það, að veita NATO aðstöðu, „facilities“, eins og nefnt er á ensku og hér hefur verið kallað að veita aðstöðu. Sú aðstaða var framan af afnot af Keflavíkurflugvelli án herliðs, og það er fyrst þegar varnarsamningurinn 1951 er gerður, sem hér er samþ., að komi herlið. Engu að síður uppfylltum við okkar skuldbindingar gagnvart NATO frá 1949 til 1951, eins og hér hefur margsinnis verið rakið og það er sú hugsun, sem er á bak við endurskoðunina hjá mér, að það fyrirkomulag geti aftur náð fram að ganga, m.ö.o. að við getum staðið við upphaflegar skuldbindingar án þess að þurfa að hlíta því, að herinn sé hér. Það vill enginn hafa herinn, ekki sjálfstæðismenn, ég veit að vísu ekki um hv. 7. þm. Reykv., hann lýsti engu yfir í því efni, en hv. 1. þm. Reykv. og hv. sjálfstæðismenn margir hér hafa margsinnis gefið þær yfirlýsingar, að það væri þeirra einlæg ósk, að Ísland þyrfti ekki að hafa her, — ég man ekki, hvernig það var orðað, — a.m.k. ekki á friðartímum og jafnvel, að það væri ósk allra að losna við hann sem fyrst.

Þá hefur mikið verið talað um það, að aðferðin sjálf við ákvörðunina hafi verið mjög vafasöm og jaðri við brot á þingræði. Því hefur nú að vísu að mestu verið beint að hæstv. forsrh. ég geri kannske ráð fyrir, að hann geri því einhver skil, ég veit það ekki þó, en frá mínu sjónarmiði vil ég aðeins segja það, að ég tel, að hér hafi verið um ákvörðun að ræða, sem fyrri hæstv. ríkisstj. var búin að gera. Og spurningin hafi verið um það, hvort núv. ríkisstj. vildi leyfa framgang ákvörðunar, sem tekin var af fyrri hæstv. ríkisstj. Slíkar ákvarðanir hafa fleiri komið til kasta núv. ríkisstj. og hafa verið leyfðar. Það hefur ekkert fjaðrafok orðið um þær hér á hv. Alþ.

En hvað á að álíta um styrkleikahlutföll á Alþ. og fylgi á Alþ. við þessa ákvörðun? Er ekki skynsamlegt að gera sér grein fyrir því, að fyrrv. stjórnarflokkar höfðu gert samkomulagsuppkast eða samning um þessi atriði? Var ekki óhætt að gera ráð fyrir því, að þeir væru enn sömu skoðunar um þau atriði, sem þeir sjálfir höfðu samið um? Þeir verða náttúrlega að svara því, ef þeim hefur snúizt svo hugur, að þeir vilji nú ekki ljá þessu máli brautargengi á Alþ. Þá er alltaf þetta ráð til, sem hv. 7. þm. Reykv. minnti réttilega á, að bera fram vantraust á ríkisstj. vegna þessa tiltekna máls og koma henni þannig frá. En ég minnist þess, að í grein, sem hv. 1. þm. Sunnl. skrifaði 19. febr. s.l. og var nú raunar rakin hér að verulegu leyti af hv. 1. þm. Reykv., fjallar hv. 1. þm. Sunnl., hæstv. fyrrv. samgrh„ Ingólfur Jónsson, um þessa margnefndu framkvæmd og dregur það fram, sem komið hafði fram í sjónvarpsþáttum, annars vegar, að ég hafi talið, að auðvelt væri og sjálfsagt, ef ekki vildi annað til, að fjármagna þetta með innlendu fé, en hins vegar, að samgrh. núverandi hafi talið eðlilegt, að flugbrautarlengingin yrði kostuð í samræmi við fyrri samninga. Um þetta hefur hv. 1. þm. Sunnl. þetta að segja, með leyfi forseta:

„Undir það mun mikill meiri hluti Íslendinga taka, því íslenzkt fjármagn er mjög takmarkað, en verkefnin mörg. Það verður að ætlast til þess, að ríkisstj. vinni að þessu máli af skynsemi og festu, og verði það gert, þarf ekki að taka innlent fjármagn til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli frá öðrum aðkallandi verkefnum.“

Ég held, að það sé alveg ljóst, eins og svo oft hjá þessum hv. þm. og alveg ótvírætt, hvað hann meinar og menn þurfi ekki að fara mikið í grafgötur um hans afstöðu til þessa tiltekna máls.

Ég held þá, að ég hafi í örstuttu máli svarað þeim fsp., sem hv. 7. þm. Reykv. setti fram og beindi sérstaklega til mín.

Mig langar þá aðeins að víkja í örstuttu máli að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér. En raunverulega hef ég ekki mikið um hans málflutning að segja. Hann rakti stefnu Sjálfstfl. í varnarmálum á nokkru árabili og við það hef ég engu að bæta. En ég tók eftir því, að þau ár, sem hann vitnaði til sérstaklega um það, hver stefna Sjálfstfl. hefði verið í varnarmálum, var annars vegar 1956, ef ég man rétt, og hins vegar núna 1971 eða 1972. Og það er alveg rétt, að í þessari stefnu er hið ákjósanlegasta samræmi. En mér verður þá á að spyrja: Hvað hefur hv. Sjálfstfl. að hafzt af því, sem hann telur nú og taldi 1956 alveg höfuðnauðsyn að gera í sambandi við endurskoðun varnarliðs, til þess að ná fram því stefnumarki sjálfstæðismanna, að hér þyrfti ekki að vera her? Ég veit ekki, hvað hefur verið gert af því. En hitt veit ég, að það hefur mjög lítið verið látið vita af því almennt. Fólk hefur lítið fengið að fylgjast með því, hvaða athuganir það eru, sem hafa leitt til þess á þessu tímabili öllu, að ekki hefur verið talið fært að endurskoða varnarsamninginn eða breyta honum í neinu, sem verulegu máli skiptir. En ég vil trúa því engu að síður, að þessi endurskoðun hafi verið í gangi hjá hv. sjálfstæðismönnum, því að annars hefðu þeir svikið þessa stefnu, sem er svona einstakt samræmi í. Því vil ég ekki að óreyndu trúa. En hitt bendi ég á, að fólkið í landinu hefur lítið fengið að vita um það og það hefur lítið orðið vart við tilburði sjálfstæðismanna til þess að endurskoða þetta allt saman í því skyni að koma stefnumálinu fram, að herinn þurfi ekki að vera hérna.

Það er spurt um það, hver sé tilgangurinn með endurskoðuninni. Ég get endurtekið það einu sinni enn, að tilgangurinn með endurskoðuninni er sá, að kanna það, hvort ekki sé hægt að koma því svo fyrir, að Íslendingar uppfylli skuldbindingar sínar við NATO, án þess að hér þurfi að vera erlent herlið og ég segi það hvar sem er og ég skammast mín ekki fyrir það, að það er mín bjargföst trú, að slíka könnun beri að framkvæma. Og ég segi það enn þá og aftur að marg gefnu tilefni, að slík ákvörðun hefur ekki valdið hneykslun erlendis. Hún hefur ekki spillt sambandi okkar við hinar svokölluðu vestrænu lýðræðisþjóðir og hún hefur ekki minnkað álit Íslendinga erlendis, þar sem mér er kunnugt um.

Hv. 1. þm. Reykv. kallar þetta barnaskap af mér að setja þetta fram. Hann gerir það í grein, sem hann skrifar á skírdag. Það verður þá að hafa það, þótt það sé kannske barnalegt að óska eftir því, að þessum málum sé hægt að koma betur fyrir. En ég er sannfærður um, að það vekur ekki undrun og ekki heldur hneykslun hjá þeim, sem þessi endurskoðun beinist að. Það hef ég enga ástæðu til að ætla og jafnvel öðru nær.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hér ætti ekki að sigla undir fölsku flaggi. Ég tek það ekki til mín, að hér sé siglt undir fölsku flaggi. Ég hef reynt að gera hv. Alþ. þrásinnis grein fyrir því, að hverju mín endurskoðun á varnarsamningnum eigi að beinast og hver sú niðurstaða sé, sem ég vonast eftir að geti komið út úr því dæmi. Og hver er hún? Nákvæmlega það, sem hv. 1. þm. Reykv. lýsti sem háleitu stefnumarkmiði sjálfstæðismanna, þ.e. að við getum uppfyllt skyldur okkar við NATO, án þess að hér þurfi að vera erlent varnarlið eða erlent herlið.

Það væri vissulega freistandi fyrir mig að ræða nokkru nánar þau atriði, sem þessi endurskoðun beinist að og ég mundi gera það alveg í áreytnislausu máli, en ég hef ekki tíma til þess núna. En ég vil þó aðeins víkja að því, sem er fyrsta atriðið í rökstuðningi hv. sjálfstæðismanna, en það var, hvernig ástatt væri í alþjóðamálum. Ástandið í alþjóðamálum í okkar heimshluta hefur almennt, hvar sem litið er, verið talið mjög batnandi að undanförnu — mjög batnandi. Um þetta get ég vitnað til fjölda ræðna þeirra manna, sem með þessi mál fara erlendis. Ég ætla einungis að vísa í þessu sambandi til ræðu, sem utanrrh. Svía hélt þann 23. f.m. í almennri utanríkismálaumræðu í sænska þinginu. Þar var það hans álit, að ástandið í okkar heimshluta hefði sjaldan verið betra, en það er nú. Ég ætla líka að leyfa mér að vitna á ný til ræðu, sem Andreas Cappelen utanrrh. Norðmanna hélt við svipað tækifæri í norska þinginu. En ég vil nefna þessi frændríki okkar bæði, vegna þess að milli þeirra skilur það, eins og allir vita, að Norðmenn eru meðlimir í NATO, en Svíar standa á eigin fótum. Þess vegna hef ég freistazt til þess að álykta, að ástandið í alþjóðamálum að því er snertir okkar hluta veraldarinnar sé svo mikið batnandi, að það gefi rökstuddar vonir til þess að ætla og vona, að á þessum málum, sem hér hafa orðið aðalumræðuefnið í vetur, geti orðið breyting í þá átt, sem ríkisstjórnar samningurinn fjallar um. Að vísu hafa orðið ýmsir atburðir, sízt skal ég neita því, sem draga úr þessum björtu friðarhorfum. Það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en nokkra mánuði, þegar út brauzt stríð milli Indverja og Pakistana, og upp úr því var stofnað nýtt ríki. Enn þá nýrra dæmi er auðvitað ófriðurinn í Víetnam, sem hefur blossað upp af endurnýjuðum krafti og enginn veit, hvaða afleiðingar kann að hafa. Allt þetta verður auðvitað að taka með í myndina, ég skal síður en svo neita því, en ég vonast til þess, að öllum hv. íslenzkum alþm. finnist það ekki óeðlilegt miðað við gang mála í V.—Evrópu, að menn leyfi sér að hafa vonir um það, að varnarmálum Íslendinga sé hægt að breyta til betra horfs.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þessi mál að svo stöddu fleiri orð. Þær till., sem hér eru til umr., hafa nokkuð fallið í skuggann. Ég get endurtekið það, sem ég hef áður sagt hér, að enda þótt ég telji alveg reginmun á þessum till., þar sem önnur er að mínu mati fráleit, en hin fyllilegrar athygli verð, þá mun ég ekki fyrir mitt leyti hafa á móti því, að till. fái þinglega meðferð báðar og að þeim verði að lokinni þessari umr. báðum vísað til hv. utanrmn.