06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (4194)

46. mál, öryggismál Íslands

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Ég vil í upphafi beina athygli hæstv. forseta að mjög svo ruddalegum ummælum, sem fram komu hér í ræðu hv. þm. Jóhanns Hafstein, þegar hann gaf í skyn, að í ríkisstj. sætu menn, sem væru erindrekar erlends valds og sætu í ríkisstj. samkv. boði þessa valds og mundu vilja hafa erlenda herstöð þessa valds í landinu. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann telji munnsöfnuð af þessu tagi í samræmi við ákvæði þingskapa um þinglega aðferð við umr. hér á þingi. En þessi ummæli hv. þm. um tengsl við erlenda aðila beina athyglinni eða rifja upp, hvernig háttað hefur verið stjórnarandstöðu Sjálfstfl. og Alþfl. á þessu þingi. Sú andstaða hefur verið mjög í molum, eins og menn vita, og erfitt að finna í henni nokkra tiltekna stefnu. En það er eitt, sem hefur gengið í gegn eins og rauður þráður alla tíð, að í hvert einasta skipti, sem fulltrúar Sjálfstfl. hér hafa ímyndað sér, að ríkisstjórn Íslands væri að taka aðra afstöðu en ríkisstjórn Bandaríkjanna, hafa þeir komið hoppandi hér upp í ræðustólinn til þess að berjast gegn því, að Íslendingar hefðu sjálfstæða afstöðu. Þetta byrjaði á fyrstu dögum þingsins, þegar hv. þm. Ellert B. Schram kom hingað til þess að mótmæla því, að Íslendingar fylgdu aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Þetta hefur haldið áfram alla tíð síðan. Ég er ekki að halda því fram, að þetta stafi af því, að hv. þm. Jóhann Hafstein og félagar hans fylgi einhverjum fyrirmælum Bandaríkjastjórnar. Mér dettur satt að segja ekki í hug, að bandarískir ráðamenn leggi sig niður við það að ræða við þessa hv. þm. Hins vegar eru þeir að ímynda sér, hvað muni henta, hvað muni vera í samræmi við afstöðu valdamanna í Washington. Þetta er ímyndun þeirra sjálfra, enda standa þeir hér uppi aftur og aftur eins og þvörur, eins og afturgöngur frá tíð kalda stríðsins, einmitt á þeim tíma, þegar bandarísk stjórnvöld eru sjálf að breyta afstöðu sinni í mjög veigamiklum atriðum.

Þessi afstaða Sjálfstfl. hefur náð hámarki með þeirri till., sem hér er til umr. Á það hefur verið bent hér rækilega áður og ég þarf ekki að ítreka það, að þessi till. gengur í berhögg við grundvallarreglur lýðræðis og þingræðis. Hún gerir ráð fyrir því, að í stað ákvæðis stjórnarskrárinnar um jafnan rétt allra Íslendinga, verði tekin upp hollusta við Atlantshafsbandalagið sem mælikvarði á það, hvort menn megi fjalla um mikilvæg þjóðmál. Þetta er afstaða, sem við þekkjum frá miðöldum eða frá einræðisríkjum. En það er hreinlega til vanvirðu bæði við íslenzku þjóðina og við Alþingi, að slík till. skuli vera flutt og um hana skuli vera fjallað hér endalaust. Það ætti að vera búið að vísa þessari till. frá fyrir löngu til þess að rétta við sóma Alþingis gagnvart þjóðinni.

Inn í umr. um þessa till. til þál. hafa blandazt atburðir, sem nýlega hafa gerzt, þ.e. tilboð Bandaríkjastjórnar um að greiða fyrir tilteknar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og ágreiningur, sem komið hefur upp innan ríkisstj. í þessu sambandi.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði, að það væri algjört nýmæli í stjórnmálasögu Íslands, að afstaða til slíkra mála væri tekin með ágreiningi í ríkisstj. og greint frá ágreiningnum fyrir opnum tjöldum. Ég er nú ekki svo kunnugur stjórnmálasögu Íslendinga, að ég geti rakið það, hvaða fordæmi kunni að vera fyrir slíku. Þó hygg ég, að þau megi auðveldlega finna. Hitt skiptir þó miklu meira máli, að samkv. minni hyggju er hér um að ræða alveg sjálfsagða aðferð. Ég tel, að það eigi að fjalla um stjórnmál fyrir opnum tjöldum. Ég tel, að þjóðin eigi heimtingu á að fá að vita um afstöðu flokka og manna til mikilvægra mála og það eigi að skýra hreinskilnislega frá því, ef upp kemur ágreiningur t.d. innan ríkisstj. um það, hvaða afstöðu eigi að taka til tiltekinna mála.

Það er alveg rétt hjá þessum hv. þm., að þannig var ekki að málum staðið í tíð fyrrv. ríkisstj. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar heyrði maður einatt á þm. Alþfl. hér í hliðarherbergjum, að þeir kveinkuðu sér undan því, að þeir hefðu verið á móti málum, sem samþykkt voru í ríkisstj., en höfðu ekki djörfung til þess að skýra frá því opinherlega, að þeir væru andvígir slíkum málum. Það var þess vegna, að Alþfl. fékk þá útreið, sem hann fékk í kosningunum í fyrra og það var þess vegna, sem varaformaður Alþfl. skýrði frá því hér í þingbyrjun, að nú væri ástæða fyrir flokkinn að fara að endurhæfa sig. En á þá endurhæfingu var bundinn bráður endir, þegar formaður flokksins kom heim, því að hann hefur fylgt hv. þm. Jóhanni Hafstein eftir í hverri einustu vitleysu, sem þessi hv. þm. hefur gert sig sekan um hér á Alþingi.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði, að við ráðherrar Alþb. hefðum sagt, að það væri ósamrýmanlegt sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu að taka við gjafafé frá erlendum aðilum. Þetta er nú ekki rétt eftir haft. Við sögðum, að það væri forsenda fyrir sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu, að Íslendingar legðu sjálfir fram fé til mikilvægra framkvæmda, en þægðu það ekki frá öðrum. Þetta er atriði, sem hefur verið ágreiningsefni hér á Íslandi núna í aldarfjórðung. Það hófst skömmu eftir stríð. Þegar Marshallaðstoðin var sett á stofn, þá hófust deilur hér á landi um það, hvort Íslendingar ættu að vera aðilar að því kerfi eða ekki. Þá var það afstaða Sjálfstfl., að við ættum að gerast aðilar að þessu kerfi sem veitendur, en ekki sem þiggjendur. Þá voru Íslendingar vel efnuð þjóð í samanburði við þær þjóðir, sem urðu að ganga í gegnum hörmungar styrjaldarinnar og hv. þm. Bjarni heitinn Benediktsson sagði, að við ættum að fara inn í Marshallkerfið sem veitendur, en ekki sem þiggjendur. En hver varð raunin? Raunin varð sú, að við þágðum meira fé, en nokkur önnur þjóð, úr þessu kerfi að tiltölu við fólksfjölda. Og síðan, í 25 ár, hefur það verið háttur allra ríkisstjórna á Íslandi að sækjast eftir eða þiggja í sífellu fjármuni frá erlendum aðilum og við höfum seilzt svo langt, að það hefur verið til hreinnar vansæmdar. Við höfum meira að segja seilzt í sjóði, sem hafa verið stofnaðir til þess að hjálpa þjóðum, sem voru alveg sérstaklega fátækar og ég tel, að það sé sannarlega tími til kominn, að við hættum þessari iðju. Þjóðartekjur á mann á Íslandi eru einhverjar þær hæstu í heimi. Ég held, að við séum þriðja eða fjórða þjóð í röð hinna ríkustu að því er varðar þjóðartekjur á mann og við eigum sannarlega að vera menn til þess að leggja fram sjálfir þá fjármuni, sem við þurfum á að halda til mikilvægra framkvæmda á Íslandi.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason var einnig með mjög dularfullar stjórnlagalegar bollaleggingar í sambandi við það, að ágreiningur hefði komið upp í ríkisstj. og spurði, hvernig ætti þá að taka á málum, ef stjórnarandstaðan væri sammála minni hl. ríkisstj. í slíkum tilvikum. Auðvitað mundi slíkum málum verða vísað til Alþ. og Alþ. mundi skera úr. Það er ósköp einfalt að láta það koma í ljós, hvar meiri hl. Alþ. er hverju sinni.

Hér hefur verið rætt um nauðsyn verulegra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, og ég er sammála því, að það hefur lengi verið mikil nauðsyn að bæta þann flugvöll. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og raunar hv. þm. Jóhann Hafstein einnig héldu því fram, að það hefði verið skylda Bandaríkjastjórnar að standa að framkvæmdum á vellinum. Hafi það verið skylda Bandaríkjastjórnar, hefur sú skylda verið rækt ákaflega illa, því að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði; að Keflavíkurflugvöllur hefði eftir stríð verið einhver fullkomnasti flugvöllur í heimi, en væri núna þriðja eða fjórða flokks flugvöllur. En ástæðan fyrir því, að Bandaríkjamenn hafa verið tregir til þess að leggja fram fé í lengingu flugbrautar, er sú, að lenging flugbrautar er fyrst og fremst nauðsyn í sambandi við almenna farþegaflugið á vellinum og þeir hafa ekki talið, að slík lenging væri nauðsynleg fyrir herflugvélar sínar.

Fyrrv. ríkisstj. gerði afar einkennilegan bráðabirgðasamning við Bandaríkin um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þetta samkomulag var í því fólgið, að Bandaríkjamenn áttu að taka að sér að lengja hina margumtöluðu þverbraut, en á móti áttu Bandaríkin að fá flugstöðvarbygginguna í sínar hendur, þá flugstöðvarbyggingu, sem Íslendingar eiga þarna. Síðan áttu Íslendingar sjálfir að byggja nýja flugstöðvarbyggingu á sinn eigin kostnað. Ég held, að meira að segja peningalega hafi þetta dæmi komið ákaflega einkennilega út.

En meginatriðið í sambandi við Keflavíkurflugvöll er það, að það er alveg augljóst mál, að flugvöllurinn kemur til með að hafa sívaxandi hlutverki að gegna á næstu árum. Þar er nú þegar orðin mjög veruleg farþegaumferð og sérfræðingar erlendir, sem um það hafa fjallað, spá því, að þarna verði ákaflega ör þróun á næstunni og að Keflavíkurflugvöllur geti orðið ákaflega mikilvægur millilendingarstaður í sambandi við flugferðir yfir Atlantshaf. En forsenda þess, að völlurinn geti gegnt þessu hlutverki, er sú, að hann verði þá starfræktur á eðlilegan hátt sem farþegaflugvöllur. Herstöð og herlið á vellinum er þröskuldur fyrir slíkri þróun. Það er forsenda fyrir því, að við getum byggt flugvallarreksturinn upp sem eðlilegan atvinnurekstur og raunar stóratvinnurekstur á okkar mælikvarða, að herinn fari.

Það eru þessi atriði, sem ollu því, að við ráðherrar Alþb. lögðumst gegn því, að tilboði Bandaríkjanna væri tekið og töldum, að við Íslendingar ættum sjálfir að ráðast í þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru á Keflavíkurflugvelli. Það er ekki annað en algjör minnimáttarkennd að halda því fram, að við séum ekki menn til þess að rísa undir þeim framkvæmdum.

Hér hefur mikið verið talað um ákvæði stjórnarsáttmálans um brottför hersins og hvernig eigi að túlka þau ákvæði. Satt að segja er ég fyrir löngu orðinn leiður á þeim orðhengilshætti, sem menn hafa ástundað í sambandi við það. Þessi ákvæði eru ákaflega skýr, það á að taka samninginn við Bandaríkin til endurskoðunar, eins og ákvæði hans segja fyrir um, í því skyni, að herinn fari úr landi. M.ö.o. þess verður freistað að ná samkomulagi við Bandaríkin um það, að herinn fari. Ef þetta samkomulag næst ekki, á að segja samningnum upp í þessum sama tilgangi. Það er alveg ástæðulaust að vera að teygja, þessi orð út og suður. Ég vil lýsa því sem minni skoðun, að ég hef alltaf verið sannfærður um það, að hægt sé að taka upp alveg eðlilegar viðræður við bandarísk stjórnarvöld um þetta mál. Það hefur ekki komið upp nein vanstilling hjá bandarískum stjórnarvöldum eða í bandarískum blöðum vegna þessa ákvæðis í stjórnarsáttmálanum. Þar hafa ekki heyrzt nein slík ummæli eins og þau, sem hv. þm. Jóhann Hafstein lætur sér sæma að viðhafa hér á Alþingi Íslendinga. Þessu ákvæði hefur verið tekið mjög rólega, einmitt vegna þess, að Bandaríkjamenn eru sjálfir að endurskoða allt herstöðvakerfi sitt. Þeir líta orðið á það sem úrelt, kostnaðarsamt og úrelt, og þeir eru opnir fyrir því að ræða um endurskoðun á þessu kerfi. Á hinu vil ég vekja athygli, að hv. stjórnarandstæðingar eru að veikja samningsaðstöðu Íslendinga við Bandaríkin með málflutningi sínum hér á Alþ. Þeir eru að reyna að koma í veg fyrir það, að ríkisstj. nái árangri í viðræðum við Bandaríkin. Slík framkoma er óþjóðholl í mesta máta. Það er raunar ákaflega óþjóðhollt líka, þegar varaformaður Sjálfstfl., hv. þm. Geir Hallgrímsson, lætur sér sæma að mæta á þingmannafundi NATO til þess að bera fram klögumál á íslenzku ríkisstjórnina þar og til þess að leita liðsinnis erlendis í deilumálum hér á Íslandi. Þegar íslenzkir þm. leita út fyrir landsteinana um liðsinni vegna íslenzkra ágreiningsmála, er okkar málum illa komið. Við verðum að vera menn til þess að leysa vandamál okkar sjálfir og eigum að forðast það að gera erlenda aðila að beinum aðilum að slíkum vandamálum.

Það hefur komið mjög fram í þessum umr. og raunar löngum áður, sem stóð í samþykkt ungra sjálfstæðismanna í haust, að verkefni Sjálfstfl. ætti að vera það að bera róg á milli stjórnarflokkanna og reyna að vekja úlfúð á milli einstakra manna í ríkisstj. Þessari samþykkt ungra sjálfstæðismanna hefur verið fylgt dyggilega bæði af formanni Sjálfstfl. og öðrum þm. þess flokks. En ég vil greina frá því hér, að þessi aðferð Sjálfstfl. hefur haft alveg þveröfug áhrif. Innan ríkisstj. er mjög traust samstaða um öll þau vandamál, sem ríkisstj. hefur orðið að fjalla um og enda þótt upp hafi komið ágreiningur um þetta mál, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, þá er hitt að sjálfsögðu algjört meginatriði, að ríkisstj. í heild er staðráðin í því að framkvæma fyrirheitið um brottför hersins á kjörtímabilinu.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að ég tel, að einmitt þetta atriði, brottför hersins, sé ákaflega veigamikið fyrir alla framtíð íslenzku þjóðarinnar.

Það kom fram hér áðan og um það hefur stundum verið spurt, hvort hér væri um að ræða hernám eða hervernd. Nú ég vil ekki fara út í neinn orðhengilshátt, en ég vil minna menn á það, að þegar herinn kom hingað vorið 1951, þá var gengið í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar. Utanrmn. var ekki kvödd saman til að fjalla um það mál og Alþingi ekki heldur. (Gripið fram í.) 1951, já, um haustið, mörgum mánuðum eftir að herinn kom. En þá var því lýst yfir einnig af ráðamönnum Sjálfstfl., að þessi herseta væri ill nauðsyn og hún ætti aðeins að standa skamma hríð. Hún hefur nú staðið í 20 ár og hún hefur sundrað þjóðinni á ákaflega háskalegan hátt. Hún hefur valdið því, að upp hafa risið mjög annarlegir múrar, bæði á milli manna og flokka, múrar, sem ég tel vera ákaflega óeðlilega. Hún hefur valdið því, að hér hefur skapazt eitrað andrúmsloft aftur og aftur og ég held, að ef við sem þjóð ætlum okkur að halda velli, þá þurfum við að uppræta andrúmsloft af þessu tagi, andrúmsloft eins og það, sem hv. þm. Jóhann Hafstein lifir og hrærist í. Ég held, að það sé orðin mikil nauðsyn, að við setjum okkur það mark aftur, sem við settum okkur, þegar við stofnuðum lýðveldi á Íslandi, að við ætluðum okkur að lifa hér til frambúðar einir og frjálsir í landi okkar.