06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (4199)

46. mál, öryggismál Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar maður sat hér í dag og hlýddi á ræður þeirra foringja stjórnarandstöðunnar, hv. 1. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv., þá vaknaði hjá manni sú spurning, hvað hefði eiginlega orðið úr þessum umr. í dag, ef ekki hefði komið til það,. að tilkynning barst frá Bandaríkjastjórn, að hún væri tilbúin og vildi falla frá þeim fyrirvara, sem Bandaríkjaþing hafði gert um lengingu flugbrautar á Keflavíkurflugvelli, því að allt þeirra mál snerist í raun og veru um þetta. En þeir viku svo að segja alls ekki að þeirri þáltill., sem hér er til umr., en kjarni þeirrar þáltill. er sá, að það skuli skipuð nefnd svokallaðra lýðræðisflokka til þess að taka upp viðræður um endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkjamenn.

En það hefur ekki verið vikið að þessu atriði. Og það sama má segja um þann hv. ræðumann, sem hér var síðast að ljúka máli sínu. Hann var stórorður um margt, en hann var fáorður um þá þáltill., sem hann hefði átt að ræða og rökstyðja hér. Og nánast var nú orðið hljóðið í honum það, þegar hann talaði um þessa þáltill., að það var í afsökunartón. Það var svo sem ekki af því, að Alþb. hefði út af fyrir sig ekki mátt vera með í þessari nefnd til þess að fjalla um þetta. Nei, nei, nei. Það var bara, að þeim hafði ekki komið það til hugar, að þeir vildu vera með í því. Ef þeir hefðu haft nokkra hugmynd um það, þá hefðu þeir tekið þá með. Svona er nú flóttinn orðinn í þeim málflutningi, sem þeir ætluðu að halda uppi fyrir þessari till. (Gripið fram í: Hver var að tala um flótta?) Það var ég, ég var að tala um flótta hjá sjálfstæðismönnum við að verja þá þáltill., sem þeir hafa lagt hér fram. Þeir hafa hörfað frá henni og hörfað að öðru málefni, því, sem ég minntist á. Og það er sjálfsagt að ræða það, ákvörðun ríkisstj. varðandi tilboð Bandaríkjastjórnar til Íslands, þó að það sé misskilningur, sem sérstaklega kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að þar væri um að ræða eitthvert óskaplegt stórmál. Það er mikill misskilningur. Það er ekkert stórmál. Það er frekar smátt mál og getur engum sköpum skipt að einu eða neinu leyti.

En samt sem áður vil ég fara nokkrum orðum um það og þá að gefnu tilefni, vegna þess að til mín var beint spurningum í sambandi við það, þó að ég að öðru leyti geti vísað til þess, sem hæstv. utanrrh. hafði um þetta sagt, og ég get í einu og öllu tekið undir og hef þar í sjálfu sér engu við að bæta. En spurning sú eða spurningar, sem beint var til mín í sambandi við þetta mál, voru sérstaklega um það, hvort þetta væri ekki andstætt öllu þingræði að hafa þann hátt á, sem hafður hefur verið, að ríkisstj. eða meiri hl. hennar tæki ákvörðun um þetta, en minni hl. innan ríkisstj. léti bóka ágreining um það efni. Og það var óskapleg hneykslun í rödd og ræðu hv. 7. þm. Reykv. yfir þessum ósköpum, að þetta skyldi hafa verið gert og ríkisstj. hefði ekki getað haft hugmynd um það á því augnabliki, sem hún var að samþykkja þetta eða sá meiri hl., sem samþykkti það, að það væri meiri hl. á Alþ., sem stæði á bak við slíka ákvörðun. En hver er nú staðreyndin í því? Staðreynd málsins er sú, sem kemur fram í tilkynningu Bandaríkjastjórnar sjálfrar, þar sem segir: Umræður um þessar framkvæmdir hófust milli ríkisstjórnar Bandaríkjanna og ríkisstjórnar Íslands 1970—1971 og var málið lagt fyrir Bandaríkjaþing 1971. Það er ekki sú ríkisstjórn Íslands, sem nú situr, sem hefur tekið upp viðræður við Bandaríkjamenn um lengingu á þessum þverbrautum á Keflavíkurvelli. Það var fyrrv. ríkisstj., sem það gerði. En síðan var svo settur af hálfu Bandaríkjaþings sérstakur fyrirvari, sem stóð í vegi fyrir því, að framkvæmdir gætu hafizt, eins og fyrirhugað var og ráðgert hafði verið í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég skal ekkert um það segja, hvað hefur ráðið því, að Bandaríkjaþing setti þennan fyrirvara. Það er þess mál. En þegar það lá fyrir og var tilkynnt, að þessi fyrirvari stæði ekki lengur í vegi, þá hafði a.m.k. ríkisstj. eða sá meiri hl. hennar, sem stóð að þessari ákvörðun, ekki ástæðu til að ætla annað en fyrrv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar, sem höfðu eftir þessu sótt og á það lagt áherzlu, mundu samþykkja þetta. Enda hefur það komið á daginn, að þeir hafa lýst því hér yfir, þessir foringjar stjórnarandstöðunnar, að þeirra flokkar væru þessu samþykkir. Það liggur því ljóst fyrir og hefur aldrei verið nokkur minnsti vafi á því hjá nokkrum skynbærum manni, að það væri meiri hl. á Alþ. fyrir því að taka ákvörðun sem þessa. Og þeirri stefnu hefur verið fylgt í núv. ríkisstj., eftir að kunnugt varð um þennan fyrirvara, sem settur var af hálfu Bandaríkjaþings, að ræða alls ekkert um það við Bandaríkjastjórn. Það var að sjálfsögðu ljóst, að þetta var fyrirvari, sem þeir settu og þeir áttu yfir að ráða, og það hafa af hálfu ríkisstj. hvorki einslega né opinberlega verið gefnar nokkrar skuldbindingar í sambandi við þetta tilboð, sem nú kemur frá Bandaríkjastjórn. Og það er raunar beinlínis staðfest í þeirri nótu, sem sendiherra Bandaríkjanna lagði fyrir hæstv. utanrrh.

En það er talið, að það sé eitthvað óeðlilegt, að það hafi orðið ágreiningur í ríkisstj. um þetta og jafnvel talið eitthvað óþingræðislegt, að manni skilst, að ríkisstj. eða allir ráðh. sitji eftir sem áður og talað um það eins og einhvern stórviðburð, slíkt hafi ekki átt sér stað áður. En ég vil nú leyfa mér að staðhæfa, að það sé um að ræða mjög margar hliðstæður við þetta. Ég vil leyfa mér að staðhæfa, að það hafi margoft skeð, að ríkisstj. hafi verið klofin um einstök mál, þótt það hafi ekki valdið stjórnarskiptum eða því, að einstakir ráðh. segðu af sér. Og þess er nú skemmst að minnast, þegar það skeði fyrir tveimur árum síðan eða þar um bil, að einn af þáv. ráðh. viðreisnarstjórnarinnar, Alþfl.–maðurinn hv. þm. Eggert Þorsteinsson, greiddi atkv. og drap með sínu atkv. það frv. um verðlagsmál, sem sjálfstæðismenn höfðu æ ofan í æ í málgögnum sínum og á þingi lýst yfir, að væri eitt af þeirra meginstefnumálum. (Gripið fram í.) Framsóknarmenn voru ekki í stjórn og þeim bar engin skylda til að styðja þá stjórn. En var treyst á þá í þessu efni? Var samið um það, að hann mætti leika lausum hala? (Gripið fram í.) Nei, en hvað skeði? Það skeði bara ekkert. Það skeði bara alls ekkert. Ríkisstj. sat eftir sem áður, þrátt fyrir það að einn af hornsteinum hennar, einn af ráðh., snerist öndverður gegn hennar eigin máli, gegn hennar stefnumáli og dræpi það.

Það er þess vegna ekki um neitt þingræðisbrot hér að ræða. Hvar er þingræðið, var hv. þm. hér að spyrja? Það er nú varla hægt að fara hér út í fræðilegar umr. um það. En ég þekki það þingræði og þá þingræðisreglu eina hér, að stjórn ber að víkja, ef henni er vottað vantraust á Alþ. Stjórn, sem meiri hl. Alþ. vill ekki styðja eða þola, á að víkja. (Gripið fram í.) Stjórn getur farið án þess. En henni er skylt að víkja, ef henni er vottað vantraust og það er það, sem felst í þingræðinu. Og þess vegna er öryggið það, ef ágreiningur verður í ríkisstj., að þá geta þeir, sem þar eru og verða undir þar, þeir geta tekið málið upp á Alþ. Stjórnarandstaðan, sem ekki vill una þeim úrslitum, sem þar eru fengin, hefur þá leið og hún á að fara þá leið, ef hún telur, að um þingræðisbrot sé að ræða, að bera fram vantrauststillögu og kanna það, hvort þingmeirihluti er að baki stjórnarinnar eða ekki. Ég skora á þá, sem eru að dylgja um það, að hér hafi verið framið eitthvert þingræðisbrot og eru að láta að því liggja, að stjórnin hafi ekki meiri hl. á bak við sig, að bera fram vantrauststillögu og kanna það. Það væri heiðarlegra, það væri mannlegra en að vera með þessar dylgjur um það, að stjórnin sé klofin, hafi ekki meiri hl. á bak við sig. Þá lægi það ljóst fyrir. Þá þyrfti ekkert um þetta að deila. Geri þeir það.

Nei, sumir ættu nú að tala litið um þingræði. Ég held t.d. að hv. 7. þm. Reykv. ætti að fara sér hægt í því sambandi við utanríkismál. Ég held, að forsaga Alþfl. í því efni sé þess konar, að hann hafi ekki efni á því. Við munum það vel og það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það, hvernig haldið var á utanríkismálum og varnarmálum alla þá tíð, sem Guðmundur Í. Guðmundsson var utanrrh. Það var farið með þau sem launungarmál og leyndarmál og stjórnarandstöðunni haldið algerlega utan við þau. Það voru starfshættir, sem lengi munu verða í minnum hafðir og á mun verða bent um ókomna tíð sem víti, sem beri að varast. Og það skal viðurkennt til verðugs lofs, að næsti utanrrh. Alþfl., Emil Jónsson, tók upp nýja starfshætti að þessu leyti og fyrir það á hann lof skilið. Og núv. ríkisstj. hefur heitið því að hafa þá starfshætti í þessum efnum að bera utanríkismál undir utanrmn. Ég hygg, að það sé ekki ástæða til fyrir hv. stjórnarandstöðu að kvarta undan því, að það hafi ekki verið gert.

Auðvitað mætti tala hér lengra mál um þingræði. Þess gerist nú varla þörf og það er naumast tími til þess nú og til þess gefst kostur síðar. En það vil ég segja, að í þeim efnum er sízt af öllu ástæða fyrir núv. stjórnarandstæðinga, sem skipuðu viðreisnarstjórnina, að setja sig á háan hest, því að svo ótalmörg dæmi mætti nefna frá þeim tíma um þau bolabrögð, sem þeir beittu æ ofan í æ gagnvart stjórnarandstöðunni. Og ég er alltaf tilbúinn að votta um það, ef þörf gerist. Ég hef dæmin um það. Þess vegna er það af þessu, sem ég hef sýnt fram á, þá fer því svo fjarri, að hér hafi verið framið nokkurt þingræðisbrot og þessi ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið með þeim hætti, sem gert hefur verið, sé á nokkurn hátt óeðlileg, formlega séð. Um efnið er ágreiningur, eins og komið hefur fram. Ég held fyrir mitt leyti, að ákvörðun meiri hl. sé í algerlega rökréttu samhengi við þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. hefur gefið í málefnasamningnum. Þar hefur því verið lýst yfir um afstöðu til NATO, að um hana væri ágreiningur, en að óbreyttum aðstæðum yrði Ísland í NATO og það er auðvitað ekkert launungarmál, það vita allir og það hefur komið fram hér á Alþ. áður, að, að þessari ákvörðun stendur meiri hl. ríkisstjórnarinnar. Alþb. hefur verið á móti Atlantshafsbandalaginu. Það hefur aldrei verið lögð nein launung á það. Þar sem aftur á móti meiri hl. telur, að okkur beri að vera í Atlantshafsbandalaginu að óbreyttum aðstæðum, þá var það auðvitað rökrétt, að við tækjum þessu tilboði, alveg eins og það var rökrétt og er rökrétt af Alþb. og í samræmi við þeirra fyrri afstöðu í þessu máli, að vera á móti því.

Það er verið að auglýsa eftir því, hvaða rök séu fyrir ákvörðun meiri hl., það komi ekki fram í svari utanrrh. við orðsendingu Bandaríkjastjórnar. Það má benda á, að í tilkynningu frá Bandaríkjastjórn stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvörðunin um að fallast á ofangreindar framkvæmdir byggist á þeirri skoðun Bandaríkjamanna, að lenging þverbrautarinnar og bætt aðstaða fyrir flugvélar varnarliðsins sé hagsmunamál bæði hvað snertir flugöryggi og varnarmátt Atlantshafsbandalagsins.“

Þetta er þeirra skoðun, þetta er þeirra mat. Og ríkisstj. eða utanrrh. í hennar umboði hefur svarað þessari orðsendingu jákvætt. Það var auðvitað ekki ástæða til þess, að það væri farið að taka þar upp hvert og eitt atriði, sem í orðsendingu Bandaríkjastjórnar sagði. Það liggur í hlutarins eðli, að á þau atriði, sem ekki er gerð aths. við í svari af hálfu utanrrh., er fallizt, enda þótt við auðvitað förum ekki út af fyrir sig að framkvæma neitt mat á því, hvort þetta mat Bandaríkjanna, sem þarna kemur fram, sé raunverulega rétt eða ekki. En það er ekki gerð aths. við það af okkar hálfu og á þessu sjónarmiði byggist að sjálfsögðu ákvörðun meiri hl. ríkisstj., eins og ég geri ráð fyrir, að tilmæli fyrrv. ríkisstj. hafi auðvitað byggzt á sjónarmiðum sem þessum.

Það var ekki ástæða til að endurtaka þetta. En hins vegar var í svari utanrrh. ástæða til þess að endurtaka annað og leggja áherzlu á annað, þrátt fyrir það, sem um það hafði verið sagt í orðsendingu Bandaríkjastjórnar og það er nefnilega það, að þrátt fyrir þessa lengingu þverbrautarinnar, sem á að verða þá til þess að styrkja varnarmátt Atlantshafsbandalagsins og auka flugöryggi, þá muni ríkisstj. ekki í neinu breyta sinni stefnu varðandi dvöl varnarliðsins hér á landi og endurskoðun varnarsamningsins. Það er alveg hreint mjöl í pokanum að þessu leyti. Bandaríkjastjórn veit alveg, að hverju hún gengur í þessu efni. Hún hefur ekki verið dulin eins eða neins. Henni er sagt alveg hreint út, að það verður ekki breytt um, þrátt fyrir það að hún framkvæmi þetta. Við höfum ekki beðið hana um það. Það er hennar ákvörðun.

Það var verið að spyrja um það, hvernig hefði átt að fjármagna þessa flugbrautarlengingu á Keflavíkurflugvelli. Hæstv. utanrrh. hefur svarað því. Það var gert ráð fyrir því að gera það í sambandi við framkvæmdaáætlun og þar sem ég hef nokkuð um gerð framkvæmdaáætlunar að segja, þar sem sú stofnun, sem að henni vinnur, heyrir nú nokkuð undir mig og það er auðvitað ekkert leyndarmál, að það hefur verið að undanförnu unnið að þessari framkvæmdaáætlun, þá get ég bara alveg ósköp hreint sagt það hér, að í þeim drögum, sem hafa verið gerð að framkvæmdaáætlun og þeir hafa verið að vinna að, þá hefur verið á blaði ákveðinn póstur, ákveðinn liður til þess að framkvæma þessa flugbrautarlengingu, þverbrautarlengingu í Keflavík. Það lá þess vegna ljóst fyrir og það hefur enginn þurft að velkjast í neinum vafa um það, að lenginguna átti að gera og hún hefði verið framkvæmd, þó að Bandaríkjamenn hefðu ekki dregið sinn fyrirvara til baka. Það hefur sjálfsagt Bandaríkjastjórn verið ljóst. Og auðvitað þarf ekki að rekja fyrir hv. 7. þm. Reykv. hvernig framkvæmdaáætlun er gerð. Það er ekki verið að taka fram alveg neina sérstaka fjáröflun til neinnar einstakrar framkvæmdar, heldur er fjár aflað til þeirra framkvæmda, sem á framkvæmdaáætlun eru, ýmist með beinum framlögum eða með lántökum innanlands eða utan. Og auðvitað hefði, ef það hefði staðið áfram á framkvæmdaáætlun, — nú gengur það væntanlega út — verið aflað fjár til þess alveg með sama hætti.

Það hefur kannske verið óþarflega mikið talað hér um samninga eða samningsgerð í þessu sambandi. Eins og ég hef þegar sagt, hefur af hálfu íslenzku ríkisstj. ekki verið farið fram á eitt eða neitt í þessu sambandi við Bandaríkjastjórn. Þetta er alveg hennar einhliða ákvörðun að bjóðast til að framkvæma þetta, auðvitað eðlilega og lögum og varnarsamningnum samkv. að því áskildu, að samþykki íslenzku ríkisstj. komi til.

Mér þótti aðeins rétt að taka þetta fram í tilefni af því, sem hér hefur komið fram og ég tel mig hafa sýnt algerlega fram á, að ákvarðanir bæði meiri hl. í ríkisstj. og minni hl. eru alveg í eðlilegu og rökréttu samhengi við þeirra fyrri afstöðu. Ég hef einnig sýnt fram á, að það lá ljóst fyrir, þegar ríkisstj. tók þessa ákvörðun sína og hefur sannazt í umr. hér og við yfirlýsingar forstöðumanna stjórnarandstöðunnar, að það var og er meiri hl. á Alþ. fyrir þessari ákvörðun. Ég hef enn fremur sýnt fram á það, að því fer svo fjarri, að það sé hægt að tala um nokkurt þingræðisbrot í þessu efni. Og ég segi það enn og aftur, að nær væri þeim, sem eru á því að klifa, að bera fram vantrauststillögu en að vera að tala um þetta. Og á tali þeirra, án þess að þeir kanni það, verður ekki mark tekið.

Það hefur náttúrlega verið sagt svona sitthvað, sem ég ætla ekki að fara að elta ólar við. Ég held nú, að í sambandi við utanríkismál og varnarmál sé oft rétt að spara stóru orðin og það sé réttara fyrir okkur að deila um ýmis önnur efni hér innanlands, en að vera að bera hverja aðra sökum í þeim efnum eða vera að efast um þjóðrækni og Íslendingseðli. Ég held, að allir þeir, sem hér sitja, séu þeir Íslendingar, að þeir vilji og setji hagsmuni Íslands ofar öðru, þegar um skipti við önnur ríki er að tefla. Og ég held, að við ættum ekki að vera með dylgjur hver í annars garð um það efni. Ég held, að það sé ekki viðkunnanlegt orðalag, eins og hv. 2. þm. Reykv. viðhafði hér, að með yfirlýsingum okkar og túlkun á okkar stefnu höfum við ekki aðeins verið að svíkja okkar vini, heldur svíkja okkur sjálfa. Þetta er nokkuð stórt og ég held, að það séu alveg tilefnislausar staðhæfingar af hans hálfu, að okkar yfirlýsingar í ríkisstj., okkar túlkun á okkar málefnasamningi, á ákvæðunum um varnarmálin, hafi skaðað okkar málstað. Og það er ósæmilegt að vera að slá svona fram án þess að nefna nokkur dæmi því til stuðnings. Ég held þvert á móti, eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh., að það liggi ekkert fyrir um það, að stefnuyfirlýsingar okkar eða túlkanir hafi skaðað málstað okkar erlendis, hafi veikt traust annarra þjóða á okkur. Ég verð t.d. að segja það, að þessi ákvörðun Bandaríkjastjórnar ber því ekkert vitni, að álit þeirra á okkur hafi minnkað við okkar stefnuyfirlýsingar og okkar túlkun á þessu. Og ég held, að það sé alveg óþarfi af þeim sama hv. þm. að vera að tala um það, að ráðh. hafi orðið tvísaga og margsaga í túlkun á þessum ákvæðum. Hann var með nokkru stærilæti að fara fram á það, að ég gæfi einhvern úrskurð um það, hvor hefði rétt fyrir sér í túlkun á ákvæðum stjórnarsáttmálans, það lægi ekki ljóst fyrir. Ég held nú, að það liggi alveg ljóst fyrir, hver stefna stjórnarinnar er í þessum efnum. Ég held, að stjórnarsáttmálinn segi alveg ákveðið til um það. (GH: Ákveðið?) Ákveðið, já. (GH: Innan gæsalappa.) Gæsunum má sleppa. En það er talað um, að það sé eitthvað óeðlilegt, að verið sé að fara fram á endurskoðun og uppsögn í sömu andrá og þess getið, að stefnt skuli að því, að herinn fari, varnarliðið fari í áföngum á kjörtímabilinu. Jú, þeir segja nú hv. sjálfstæðismenn: Við erum ekki á móti endurskoðun, við viljum endurskoða, enda segja þeir það hér í þessari þáltill. sinni. Þeir eru beinlínis komnir inn á það, að það eigi að fara fram endurskoðun á varnarsamningnum. Ég geri ráð fyrir, að hv. Alþfl.-menn séu einnig á því, þótt það sé ekki berlega tekið fram í þeirra till. Það eru sem sagt allir á því, að það eigi að fara fram endurskoðun á varnarsamningnum. Það er ekkert óeðlilegt eftir allan þennan tíma.

Og hvers vegna er þá talað um endurskoðun og uppsögn í sömu andrá? Það er beinlínis gert ráð fyrir því, að það sé farið eftir ákvæðum varnarsamningsins sjálfs um þessi efni. Þar er gert ráð fyrir sex mánaða tíma, sem fari í endurskoðun. Ef sú endurskoðun ber ekki árangur, þann árangur, sem báðir aðilar geta við unað, þá getur hvor aðili sem er sagt samningnum upp með 12 mánaða fyrirvara. Ég hélt, að þetta væri nokkuð ljóst. Já, segja þeir, það er allt í lagi. En að vera að taka það fram, í hvaða skyni samningurinn skuli endurskoðaður, að vera að setja það strax fram sem markmið, að varnarliðið skuli hverfa í áföngum á ákveðnu tímabili. Ja, ég verð nú að segja það, að ég fæ það ekki inn í mitt þykka höfuð, að það sé óeðlilegt. Ég hef margsinnis tekið þátt í því og verið við slíka endurskoðun á lögum eða hverju sem er, að það er gengið út frá því, að það skuli stefnt að einhverju ákveðnu markmiði með þeirri endurskoðun, sem fer fram. Menn eru ekki bara að endurskoða til að endurskoða. Nei. Menn eru að endurskoða til þess að fá fram einhverja ákveðna breytingu, sem þeir vilja fá fram. Ég get ekki séð, að þetta sé neitt óeðlilegt. Og ekki ætla ég að fara að gefa neinn úrskurð hér. En ég ætla að benda hv. 2. þm. Reykv. á það, sem ég sagði um túlkun á þessum ákvæðum í ræðu hér á hv. Alþ. 18. okt. fyrra ár. Það hefur legið fyrir allan þennan tíma. Þar hafa menn getað fundið það og séð, ef menn hafa lagt á sig það ómak að athuga það, hvað ég hef sagt um þetta efni. Og ég held, að það geti enginn, sem les það, sem ég sagði þar, verið í vafa um það, hver stefna stjórnarinnar er í þessum efnum. Þetta er nú kannske nokkuð langt til þess, að ég lesi það allt, en með leyfi hæstv. forseta — (Gripið fram í.) Erfitt að finna staðinn, sem á að byrja á? Nei, það er nú ekki erfitt. Það er um marga staði að velja, sem allir eiga jafn vel við í dag, því að þrátt fyrir allt, sem þeir eru að segja og hafa sagt, þá höfum við ekki sagt neitt eitt í dag og annað á morgun í þessum efnum. Við höfum þvert á móti verið okkur sjálfum samkvæmir og alltaf sagt það sama. Og ég skora á hv. 2. þm. Reykv. að fletta upp í þeim ræðum, sem ég hef haldið á Alþ., fletta upp í þeim greinum, sem ég hef skrifað um þetta efni, fletta upp í þeim viðtölum, jafnvel í Morgunblaðinu, þar sem við mig var talað daginn eftir, að ég tók við stjórn, og sýna mér fram á nokkurt ósamræmi í mínum málflutningi. Ég skora á hann að gera það. (Gripið fram í: Það er verið að spyrja um ósamræmi á milli ráðh. Það er verið að spyrja forsrh., hvernig hann túlkaði.) Nú, en ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að benda hér á nokkuð, sem ég sagði. En þar er sagt og það höfum við jafnan síðan aðspurðir sagt, að Ísland yrði að óbreyttum aðstæðum áfram í NATO:

„Jafnframt höfum við marg undirstrikað, að Ísland mundi standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart NATO, en við teljum, að þátttaka okkar í NATO leiði ekki til þess, að við séum skuldbundnir til þess að hafa erlendar hersveitir hér á landi á friðartímum. Því til sönnunar bendum við á forsögu málsins og fyrirvara af Íslands hálfu við inngöngu í NATO, sem ég ætla ekki að fara að rifja hér upp nema tilefni gefist til síðar. En ég ætla, að hér gerist enginn til að vefengja þær yfirlýsingar, sem þá voru gefnar, bæði af íslenzkum stjórnmálamönnum og útlendum mönnum. sem talað var við. Ennfremur er það augljóst mál af mismunandi gildistíma NATO—samningsins og varnarsamningsins, að þar var um tvö aðskilin mál að ræða. Hefur sú staðreynd oftlega verið undirstrikuð af hálfu forsvarsmanna allra þeirra stjórnmálaflokka, sem stóðu að inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Varnarsamningurinn er því fyrst og fremst málefni milli Íslands og Bandaríkjanna. Eins og við höfum margsagt, munum við eftir áramótin, eða þegar við höfum kynnt okkur öll málefni varðandi varnarstöðina nægilega rækilega, óska eftir viðræðum við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins. En í tíð fyrrv. stjórnar var núv. stjórnarflokkum haldið utan við öll varnarmál, svo að það er ekkert óeðlilegt við það, þó að þeir þurfi að kynna sér þau gaumgæfilega, áður en þeir ganga til viðræðna um endurskoðun samningsins. Ég vona, að í þessum fyrirhuguðu viðræðum takist að finna þá lausn þessara mála, sem báðir aðilar geti unað við. Stefnumark okkar er skýrt. Við viljum, að hið erlenda varnarlið hverfi úr landinu í áföngum. Við viljum, að slíkt geti átt sér stað á kjörtímabilinu.“

Ég held, að þetta sé sæmilega ljóst. Og ef þetta dugar ekki til þess að taka af öll tvímæli, þá mun ég ekki telja það eftir mér að veita hv. 2. þm. Reykv. nánari upplýsingar um þetta efni.

Ég skal svo, eins og ég sagði, ekki orðlengja þetta frekar og hef reyndar haft um þetta fleiri orð en ég ætlaði mér, því að ég hafði ekki hugsað mér sérstaklega að blanda mér í þessar umr., því að eins og ég sagði í upphafi, þá get ég í einu og öllu tekið undir það, sem hæstv. utanrrh. sagði um þetta og ég hef ekki þar við neinu að bæta. En það er aðeins rétt að endurtaka það, sem hann hefur sagt og við höfum sagt æ ofan í æ, að um þessi málefni, eins og um utanríkismál almennt, verður haft fullt samráð við utanrmn. Þess vegna er þáltill. Alþfl. í sjálfu sér óþörf. En út af fyrir sig er efni hennar eðlilegt, það er ekkert óeðlilegt við margt af því, sem þar segir.