06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (4200)

46. mál, öryggismál Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér fyrir hléið talaði síðastur hæstv. forsrh. og honum var í upphafi máls síns afskaplega mikið niðri fyrir, vegna þess að hann taldi, sem rétt var að sjálfsögðu, að á dagskrá væri hér till. um öryggis— og varnarmál og fannst sjálfum, að sú till. væri ekki rædd sem skyldi og virtist vera sem svo, að hann kinokaði sér við að tala um þá síðustu atburði, sem nú eru efst í huga allra Íslendinga, þ.e. ákvarðanir ríkisstj. í flugvallarmálinu. Hins vegar sat ég hér samvizkusamlega í allan dag og hlýddi á þessar umr., og ég gat ekki betur heyrt en þær allar, allar þær ræður, sem fluttar voru, fjölluðu einmitt um öryggis— og varnarmál og ég get ekki séð annað en að fullt samhengi sé á milli þeirra síðustu atburða, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni og þeirrar till., sem er hér á dagskrá að forminu til, því að hvort tveggja snertir mjög öryggis– og varnarmál er raunverulega kjarni alls þessa máls. Ég lít jafnvel svo á, að ákvörðun ríkisstj. í þessu máli hafi verið prófsteinn á grundvallarstefnu viðkomandi flokka, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu, í öryggis— og varnarmálum.

Hæstv. ráðh. hvatti menn hér til að draga úr dylgjum og beindi að vísu þeim orðum sínum til stjórnarandstæðinga, en ekki fór fram hjá þingheimi, að þessu var jafnframt mjög beint að hans eigin stuðningsmönnum og þá sérstaklega félögum hans í Alþb., því að enginn og engir fóru með meiri dylgjur í þessum umr. í dag heldur en einmitt það ágæta fólk. Gamalkunnar glósur eins og um hersetumenn, um afsal landsréttinda, um það, að sjálfstæðismenn væru minni Íslendingar en aðrir, um það, að þeir væru handbendi einhverra stórvelda úti í löndum og gættu sérstaklega bandarískra hagsmuna, allt þetta er gamalkunnugt og virðist vera svo, að það sé algerlega ómögulegt að ræða við þetta fólk af fullri skynsemi eða með rökum, því að svona lagað er sífellt endurtekið, þrátt fyrir það, að ný viðhorf og nýir atburðir eigi sér stað í þessum málum. Þessar ræður þeirra virðast, að manni finnst og bezt verður séð, helzt fluttar til birtingar í Þjóðviðjanum. málgagni Alþb. Þetta er þeirra mállýzka, þessi stóryrði og mun ég ekki elta ólar við slíkt. En það, sem mér finnst hins vegar miður, er það, þegar þetta ágæta fólk er að gera mönnum upp ýmsar fullyrðingar eða ummæli, vitna í einhverjar tilvitnanir, sem eru staðlausir stafir og leggja síðan út af þessum tilvitnunum eins og einhverjum sjálfsögðum staðreyndum. Þannig t.d. leyfði hv. þm. Sigurður Magnússon sér að vitna hér í Morgunblaðið, fór með einhverjar setningar úr Morgunblaðinu, án þess að það væri frekar rökstutt, hvort sú tilvitnun væri á ábyrgð þess blaðs eða hvort hún væri rituð af einhverjum ákveðnum einstaklingum. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því, að Morgunblaðið frekar en Þjóðviljinn taki á sig ábyrgð af yfirlýsingum eða skrifum, sem eru undir nafni í þeim ágætu blöðum og ég ætla þessum þm. ekki svo ómerkilegan málflutning, að hann vilji, að þessi tilvitnun sé tekin trúanleg á þann veg, að það sé á ábyrgð Morgunhlaðsins og þess vegna vísa ég henni á bug og mótmæli sem algerlega úr lausu lofti gripinni.

Hér fyrr í dag leyfði hæstv. iðnrh. sér að grípa til sömu vinnubragða og er hans sök þó miklu meiri, þar sem hann er reyndur þm. og nú hæstv. ráðh. Hann sagði m.a. að ég hefði hér í upphafi þingsins í vetur kvatt mér hljóðs og mælt gegn aðild Rauða—Kína að Sameinuðu þjóðunum og þetta væri upphafið að því, hvernig sjálfstæðismenn hefðu beitt sér fyrir bandarískum hagsmunum hér á Alþ. Þetta er náttúrlega algerlega rangt, eins og ég geri ráð fyrir, að allur þingheimur muni. Ég mótmælti ekki aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Ég meira að segja tók það margoft fram í minni ræðu, að ég styddi þá aðild, en hins vegar vildi ég það ekki á kostnað þess, að Formósuríki væri vikið úr þessu sama bandalagi.

Hæstv. ráðh. leyfði sér líka að fullyrða hér í ræðustól frammi fyrir þingheimi, að ungir sjálfstæðismenn hefðu gert samþykkt um það að ala á tortryggni á meðal ríkisstj. og stjórnarflokkanna. Þetta er líka algerlega úr lausu lofti gripið og ég mótmæli þessu sem ósönnu. Ég skora á ráðh., ef hann vill standa við orð sín, að sanna það, að ungir sjálfstæðismenn hafi gert samþykkt á þessa leið. Ég geri ráð fyrir því, að hann hafi þarna í huga einhver plögg, sem stjórnarsinnar hafa kallað leyniplögg ungra sjálfstæðismanna, gefið þeim svo merkilegt og ábyrgðar mikið heiti. En þar er um að ræða plagg, þar sem var talið upp ýmislegt, — það voru tveir ungir menn, sem skrifuðu undir plaggið, — sem þeir vildu, að yrði haft til athugunar, þegar Sjálfstfl. færi í sína stjórnarandstöðu. En það var langt í frá, að þetta plagg hefði fengið samþykki og það er hvergi að finna neitt um það í ályktunum eða niðurstöðum ungra sjálfstæðismanna á þeirra þingum eða þeirra samkomum. Og enda þótt slíkt plagg sé fyrir hendi undirritað af einhverjum ákveðnum einstaklingum, sem tilheyra einhverjum ákveðnum flokki, þá er það ekki hjá okkur í Sjálfstfl. frekar en í öðrum flokkum, að flokkurinn sem slíkur geti tekið ábyrgð á slíkum ummælum.

Hæstv. ráðh. var svo mikið niðri fyrir hér í dag, að hann taldi rétt, að það þyrfti að víta ákveðna þm. fyrir þeirra ummæli, sem hann kallaði brigzl og óábyrgan málflutning, en ég vildi þá beina því jafnframt til forseta, hvort ekki væri ástæða til þess að víta svona fullyrðingar, sem eru tilbúnar og algerlega staðlausar.

Hv. þm. Sigurður Magnússon flutti hér langt mál í dag og lýsti þá m.a. andúð sinni á hernaðarbandalögum og hann taldi jafnframt vera stefnu síns flokks að vera á móti hernaðarbandalögum. Það er út af fyrir sig gott og gilt. En það er svo einkennilegt með þetta fólk, sem tilheyrir Alþb. og er sífellt að tala um, að það sé á móti hernaðarhandalögum, að á sama tíma sem þessi fordæming kemur, þá er sífellt talað um í sömu andránni, að þessi hernaðarbandalög stafi frá hinu illa og hið illa sé auðvaldið í heiminum. Það er aldrei minnzt á það, að það séu til hernaðarbandalög á báða bóga. Ef eitthvað er illt við þessi bandalög, þá á það að sjálfsögðu við um þau bandalög, sem til eru í hinum ýmsu blokkum. En af því að talað er um hernaðarbandalög, þá er spurning um það, hvort þau séu ávallt til ills, og sú spurning vaknar að sjálfsögðu, hvort það bandalag, sem bandamenn gerðu í síðustu heimsstyrjöld, hafi þjónað góðum eða slæmum tilgangi, hvort það bandalag hafi verið okkur þóknanlegt eða ekki. Vitaskuld er það svo, að afstaða okkar til hernaðarbandalaga er afstæð og ég segi það, að ef kommúnistar gengju einhvern tíma hreint til verks og segðu frá því, hvað þeir raunverulega vildu og hvað þeir ætluðu, þá skildi maður afstöðu þeirra til Atlantshafsbandalagsins betur en með þessu yfirklóri, sem á sér stað í dag.

Ég ætla ekki að fara að rekja sögu Atlantshafsbandalagsins. Það hefur margoft verið gert, en ég vil minna á, að tilgangur Atlantshafsbandalagsins við stofnun þess var sá að stöðva yfirgang kommúnismans, yfirgangsstefnu Sovétríkjanna. Þetta er söguleg staðreynd og henni verður ekki mótmælt. Ég hef bent á það, að Alþb. í dag á Íslandi er arftaki gamla kommúnistaflokksins. Ég skal ekki kalla þá kommúnistaflokk, í kurteisisskyni skal ég ekki gera það nú. En þessir arftakar hafa fordæmt framkvæmd kommúnismans í Sovétríkjunum. Þeir hafa afdráttarlaust sagt, að þeir telji það ekki æskilegt að kalla yfir sig slíkt ástand. Ég hef dregið þá ályktun, að þeir hafi um leið viðurkennt réttmæti þess, að Atlantshafsbandalagið var stofnað á sínum tíma, vegna þess að Atlantshafsbandalagið hefur vissulega komið í veg fyrir frekari yfirgang Sovétríkjanna og þessa kommúnisma, eins og hann er framkvæmdur í Evrópu. Hitt er annað mál, að við getum endurskoðað afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins og annarra slíkra hernaðarbandalaga nú 20 árum síðar, og það geta verið allt önnur viðhorf uppi og það er sjálfsagt að taka þau til athugunar. En þessu vil ég ganga út frá sem staðreynd, að Atlantshafsbandalagið var stofnað til þess að koma í veg fyrir yfirgang kommúnismans. Alþb. hefur fordæmt þessa framkvæmd á þessari þjóðmálastefnu og í því felst viðurkenning á því, að Atlantshafsbandalagið hafi þjónað sínum tilgangi.

Ef máttur Íslands er svo mikill, að með því að ganga úr Atlantshafsbandalaginu sé búið að leggja svo drjúgan skerf fram í það að leggja niður hernaðarbandalög í heiminum almennt, að það sé um að ræða tímamót, þá mundi ég sannarlega taka það til athugunar að ganga úr þessu bandalagi, því að ég er jafn sammála þeim og þeir a.m.k. eru í orði kveðnu, að ég er á móti hernaðarbandalögum. En ég vil ekki jafnframt á sama tíma og við göngum úr hernaðarbandalagi eða varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu í þessu tilviki, þá vil ég ekki stofna í hættu þeim hagsmunum, sem við höfum af þessu. Ég vil ekki raska því jafnvægi, sem fyrir er, og ég vil ekki, að það verði til þess, að það verði okkar bandamönnum í óhag. Þetta eru samt engu að síður afleiðingarnar af því, ef við gengjum úr Atlantshafsbandalaginu í dag.

En á sama tíma sem við sjálfstæðismenn erum vændir um þjónkun við bandaríska hagsmuni og sagðir hálfgerðir leppar Bandaríkjamanna, þá er lesinn hér upp á þingi kafli úr tímaritsgrein, sem ég skrifaði fyrir allmörgum árum, 1966, þar sem lýst er aðvörun minni við því, að Bandaríkjamenn nái of miklum áhrifum á Íslandi, að við tökum ekki allt gott og gilt, sem frá þeim kemur og við þurfum að vera á varðbergi fyrir öflum og áhrifum jafnt úr austri sem vestri. Ég vil taka það fram, að ég get staðið við hvert eitt orð, sem í þessari tímaritsgrein stendur og allt það, sem sagt var hér í dag. Og það þarf reyndar ekki að fara sex ár aftur í tímann til þess að finna tilvitnanir og sams konar orð af minni hálfu í þessa átt. En ég segi: Er til betri sönnun þess, þarf frekari vitnanna við, þegar ég er síðan á sama tíma vændur um það að gæta hér hagsmuna Bandaríkjamanna, eins og ráðh. t.d. talaði um í sambandi við aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum? En það er einmitt þessi tilvitnun, sem ég held, að sé hvað sterkust, þegar við erum að ræða um afstöðu okkar til þessara mála, því að ég segi, þrátt fyrir þessar skoðanir mínar og þrátt fyrir það, að ég hef þennan andvara á, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu tvímælalaust, að við eigum að taka áfram þátt í vestrænu varnarbandalagi og við eigum að styðja og taka þátt í NATO. Við eigum jafnframt áfram að treysta á samvinnu Bandaríkjamanna í þeim efnum. Og af hverju segi ég þetta og af hverju kemst ég að þessari niðurstöðu? Í því sambandi vildi ég leyfa mér að vitna til annarrar greinar, sem ég hef ritað, úr því að ég er byrjaður á því á annað borð. Sú grein er frá því í jan. 1971 og birtist í Morgunblaðinu og fjallar að nokkru leyti um sama efni og hv. þm. Sigurður Magnússon rakti hér fyrr í dag, en þar segir m.a. , með leyfi forseta:

„Ég er fyrstur manna til að mótmæla afskiptum Bandaríkjamanna af innanlandsmálum Íslendinga og við skulum taka sjálfstæða afstöðu til aðgerða Bandaríkjamanna hvar og hvenær sem er. Aftur á móti er sífelldur áróður um heimsveldisstefnu Bandaríkjanna löngum hvimleiður og ósanngjarn. Eftir heimsstyrjöldina síðari var það hlutverk bandarísku þjóðarinnar að rétta hjálparhönd í ýmsar áttir vegna yfirburða hennar í vopnastyrk og auðæfum. Sú aðstoð var bæði efnahagsleg og hernaðarleg og beinlínis forsenda enduruppbyggingar og bjargvættur frjálsra þjóða gegn yfirgangi kommúnista um víða veröld. Á tímabili kalda stríðsins voru Bandaríkin útvörður hins frjálsa heims, sem í skjóli styrkleika síns og málstaðar tók að sér hlutverk hins „almáttuga“ verndara í valda— og vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna. Var sú vernd umbeðin og vel þegin, þegar sýnt var, að hart þurfti að mæta hörðu, þegar ljóst varð, að alheimskommúnisminn sveifst einskis í því valdatafli.“

Nú er talað um það, að ungt fólk geri ályktanir og efni til samkoma, sem ganga út á það að fordæma hernaðarbandalög og vísa varnarliðinu úr landi og þetta sama unga fólk eigi að vera á móti NATO. Það breytir ekki afstöðu minni eða sannfæringu minni, hvort fleiri eða færri eru sammála mér. Það hefur ekki minnstu áhrif á mig. Ég er sannfærður um minn málstað og réttmæti þeirra skoðana, sem ég hef sett fram og ég er líka sannfærður um það, að þegar upphrópunum og tilfinningahita linnir, þegar menn skoða þetta með kaldri skynsemi, þá komast þeir að sömu niðurstöðu og ég hef gert í þessu máli. Þetta er mín sannfæring. Svo verður það að ráðast, hvort það tekst eða ekki að sannfæra ungt fólk og gamalt um þessar skoðanir. Við sættum okkur við þá niðurstöðu, sjálfstæðismenn, sem lýðræðissinnar, en við munum áfram berjast fyrir okkar málstað og trúum því, að hann verði ofan á, áður en yfir lýkur.

Mér er sjálfum ógeðfellt, að hér skuli dvelja erlent varnarlið í landi. Ég hef margoft sagt það, og ég ítreka það hér. En mér er meira áhyggjuefni heimsvaldastefna og ógnun kommúnismans og kommúnista og þess vegna tel ég það hræsni og yfirdrepsskap, þegar fólk, hvort sem það er vinstri sósíalistar eða frjálslyndir sósíalistar eða kommúnistar, Alþb.—menn eða hvað þeir kalla sig. Þegar þetta fólk er að tala um hlutleysi og það, að við eigum að vera fyrir utan hernaðarbandalög. Þeir eiga að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og segja afdráttarlaust: Við erum á móti Atlantshafsbandalaginu, við viljum stuðning og samstarf við austurblokkina. Ef þetta fólk getur sannfært mig um, að það sé ekki þessa sinnis og að það sé jafn einlægt á móti blokkinni í austri eða fordæmi jafn einlæglega kommúnismann eins og það fordæmir auðhyggjuna og kapítalismann, ef það getur sannfært mig um það, að heimurinn geti orðið betri með því að ganga úr Atlantshafsbandalaginu, þá mun ég hlusta á það, en fyrr ekki.

Nú vil ég víkja að máli hæstv. forsrh., að því máli, sem hann kallaði smámál hér fyrr í dag, þ.e. flugvallarmálinu og ágreiningi innan ríkisstj. Ráðh. tveir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað í dag og reyndar þrír, hafa lagt á það mikla áherzlu, að enginn klofningur væri í ríkisstj., það hefði engu breytt, hvað hefði skeð innan hennar nú í þessu máli. Þegar búið er að gefa út yfirlýsingar um ágreining innan ríkisstj. og þegar þessar yfirlýsingar fela í sér bein skeyti og aðdróttanir af hálfu hins hlutans í ríkisstj., þá leyfa þessir menn sér að standa upp og segja, að það sé enginn klofningur í ríkisstj. Hver trúir nú svona löguðu? Ég er ekki gamalreyndur í stjórnmálum. en ég get ímyndað mér, að það sé ekki einsdæmi, að ágreiningur sé innan ríkisstj. og ég held, að það sé ekki verið að fjalla um það hér, þegar gagnrýni er sett fram á vinnubrögð ríkisstj. Vissulega kemur upp ágreiningur innan ríkisstj., en þau mál eru leyst með ýmsum hætti, málamiðlun eða með þegjandi samkomulagi, en það er einsdæmi, að því er sagt er, að slíkur ágreiningur skuli koma upp á yfirborðið, hann skuli gerður jafnber eins og raun her vitni um í þessu máli. Og því frekar er þessi klofningur, þessi ágreiningur umtalsverður hjá ríkisstj., að hér er um að ræða „prinsip“–mál, algert „prinsip“–mál, stefnumál þessara flokka.

Hæstv. forsrh. hitti reyndar naglann á höfuðið, er hann sagði: „Þessi vinnubrögð eru ekki óeðlileg“, en bætti síðan við „formlega séð“. Hann getur haft þessa skoðun. Ég tel þau reyndar vera óeðlileg að forminu til líka, en hann sagði ekki það, sem hann átti að segja og það, sem kannske vakti fyrir honum. Vinnubrögðin eru vissulega óeðlileg pólitískt séð og það er það, sem verið er að deila á hér í þessum umr. Alþb. segir, að þessi öryggis— og varnarmál séu þeirra heilagasta baráttumál. Hæstv. iðnrh. sagði hér í umr. í dag, að þetta hefði spillt mjög öllu stjórnmálastarfi á Íslandi. Þetta hefði eitrað andrúmsloftið, deilur um þetta mál. Hann hefur jafnvel í viðtölum í sínum eigin málgögnum talið, að siðferði ráðh. og ríkisstj. væri beinlínis í voða við þær ákvarðanir, sem nú eru teknar. Og það kemur fram í yfirlýsingum tveggja ráðh. Alþb. að sjálfstæð utanríkisstefna er ekki lengur fyrir hendi, hún er farin fyrir bí með þessum ákvörðunum meiri hl. ríkisstj. Með tilliti til allra þessara raka, hversu stórt mál þetta hefur verið í hugum Alþb., hversu að þeirra mati hér er um alvarlegt siðferðislegt mál að ræða og að hér er hin sjálfstæða utanríkisstefna í sviðsljósinu, þá get ég ekki annað séð en hér sé um að ræða stórmál, ekki smámál og hér sé um að ræða mjög alvarlegan klofning, ágreining, sem alveg sé þess virði að gera veður út af.

Stjórnmál geta verið opin. Ég er sammála hæstv. iðnrh. í því, að það þurfi að stefna að því að hafa stjórnmál sem allra opnust, þannig að almenningur geti fylgzt með, en þessi vinnubrögð, að opinbera slíkan ágreining og senda skeyti til samráðherra sinna, þau eru ekki til þess að auka veg stjórnmála og ég held, að það sé engin ástæða fyrir aðra að ala á tortryggni innan ríkisstj., þegar þeir beita sjálfir svona vinnubrögðum.

Hæstv. forsrh. sagði hér í sinni ræðu áðan, að það hefði alltaf legið fyrir, að meiri hl. væri fyrir því á þingi, meiri hl. fyrir þeirri ákvörðun, sem meiri hl. ríkisstj. tók, þ.e. að þiggja fjárframlag Bandaríkjamanna til þessara framkvæmda, sem hér er um að ræða. Það má vera rétt, en þá segi ég, það er náttúrlega undirstaða þessa máls, hver sé forsenda þess meiri hl. Annars vegar er talað um, að þessa peninga og þessar framkvæmdir þurfi til þess að tryggja flugöryggi á Keflavíkurflugvelli, til þess að sjá um það, að þessi alþjóðlegi flugvöllur standist kröfur og geti sinnt þeim verkefnum og þeirri umferð, sem þarna er um að ræða. Hins vegar er um það að ræða að auka varnarmátt Atlantshafsbandalagsins. Og mér skilst, að fyrrv. ríkisstj. hafi verið búin að taka þá tvímælalausu afstöðu, að hún vildi ekki þiggja fjárframlag frá Bandaríkjamönnum, þegar um er að ræða beinar framkvæmdir fyrir eingöngu flugöryggi sem slíkt sem flugvöll innanlands. Hún byggði afstöðu sína í þessu máli á því, að þarna væri verið að styrkja varnarmátt okkar og Atlantshafsbandalagsins og þetta hefði hernaðarlega þýðingu að stækka flugbrautina og þess vegna teldi hún skyldu Bandaríkjamanna að leggja fram þetta fé. Og ég segi og ég ætla, að ég mæli fyrir munn sjálfstæðismanna, þegar ég segi, að við teljum það vera mútur, við teljum það vera ölmusu að þiggja þetta fé, ef það yrði þegið á öðrum forsendum en þeim að efla varnarmátt Atlantshafsbandalagsins. Þetta eru betlipeningar, eins og sagt er, ef það er ekki forsendan.

Nú er það rétt, að utanrrh. hefur gefið þær yfirlýsingar, að ákvörðun meiri hl. ríkisstj. byggist á þeirri forsendu, að efla skuli varnarmátt Atlantshafsbandalagsins. Þetta liggur fyrir staðfest, þannig að, að því leyti til er hægt að fallast á, að fyrir liggi meiri hl. á þingi. Á því byggist áreiðanlega afstaða stjórnarandstæðinga hér á þingi nú. Ég mundi halda, að þessi ákvörðun, sem byggist á þessari forsendu, sé afskaplega athyglisverður atburður og hægt sé að spá ýmislegt í hann. Ég held því fram, að með þessari ákvörðun hafi meiri hl. ríkisstj. hafnað rökunum um hlutleysi, sem sett hafa verið fram af Alþb. Meiri hl. ríkisstj. hefur hafnað þeim rökum, að hætta stafi af hernaðarmannvirkjum hér á landi og meiri hl. ríkisstj. hefur hafnað afdráttarlaust því, að Ísland eigi að vera hér varnarlaust. Meiri hl. ríkisstj. hefur, svo að engum vafa er undirorpið, staðfest það hér í eitt skipti fyrir öll, að hún vilji taka þátt í varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins og styðja og efla það með öllum hætti. Og svo segja þessir sömu menn, að þetta breyti engu, það breyti engu, þessi ákvörðun og afstaða ríkisstj. og stjórnarflokkanna til öryggis– og varnarmála. Vissulega gerir það, það. Eða hvað segja Alþb.–menn, stuðningsmenn Alþb. um þetta, að stefnan, það að segja upp varnarsamningnum, sé óbreytt, eins og hæstv. iðnrh. er að reyna að segja okkur hérna, á sama tíma sem ríkisstj., þeirra eigin ríkisstj., tekur ákvörðun um það að efla varnarmátt Atlantshafsbandalagsins? Og hvað segja stuðningsmenn hinna flokkanna, Framsfl. og SF, þeirra, sem vilja kannske taka undir það að vera í Atlantshafsbandalaginu áfram, hvað segja þeir um það, að hér sé tekin ákvörðun um það að efla varnarmátt Atlantshafsbandalagsins, en á sama tíma sé þeirra ríkisstj. að lýsa því yfir, að það eigi áfram að segja varnarsamningnum upp, eins og hæstv. iðnrh. gefur í skyn, að eigi að túlka málefnasamninginn og afstöðu ríkisstj.? Ég verð að biðjast afsökunar á því, að ég skil ekki „lógikkina“ í þessum rökum og þessari afstöðu.

Hæstv. utanrrh. kom hér inn á afstöðu sjálfstæðismanna í sinni ræðu og taldi, eins og það væri eitthvað nýtt í hans eyrum, það vera merkilegt að heyra, að sjálfstæðismenn væru á móti því, að hér væri erlent herlið í landinu. Það hefur ekki farið á milli mála mjög langan tíma, að sjálfstæðismenn hafa sagt það bæði í ræðu og riti, að þeir væru í „prinsippinu“ á móti því, að hér væri erlent varnarlið í landinu. Þeir teldu þetta hins vegar vera illa nauðsyn, þetta væri fórn, sem væri til þess vinnandi að taka þátt í sameiginlegu varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna og þetta væri nauðsynlegur liður til þess að tryggja öryggi landsins, eins og á stæði og meðan ekki fyndist önnur lausn á þessu. Síðan spurði hæstv. utanrrh.: Hvað hafa sjálfstæðismenn þá gert til þess að reyna að breyta þessu ástandi? Hafa þeir eitthvað gert til þess að fá þetta erlenda herlið úr landi? Þeir hafa að vísu ekki gefið út yfirlýsingar í málefnasamningum, þeir hafa ekki látið hafa eftir sér ummæli, sem túlkuð eru á marga vegu og enn eru í þoku. En að mínu viti hefur Sjálfstfl. með stefnu sinni í utanríkismálum vissulega stuðlað að því, að einhvern tíma gæti komið að því, að erlent varnarlið þyrfti ekki að vera hér á landi. Það segi ég, að Sjálfstfl. hafi gert með því að taka þátt í Atlantshafsbandalaginu, vegna þess að nú eru allir sammála um það, bæði hérlendis og erlendis, að batnandi ástand sé í Evrópu. Það séu meiri líkur á því, að það verði friðvænlegra í framtíðinni. Og hverju er það að þakka nema Atlantshafsbandalaginu og samheldni þessara ríkja, sem að því standa, og einmitt þeirri pólitík, sem rekin er á vegum þessa bandalags? Þar hefur Ísland átt sinn hlut, þar hafa sjálfstæðismenn stutt þá stefnu og ég held, að það fari ekki á milli mála, að einmitt einurð Atlantshafsbandalagsins og skelegg stefna þess í Evrópu hefur knúið Sovétríkin til þess að slaka á og veldur nú því, að batnandi horfur eru í miðri Evrópu. Ég segi miðri Evrópu, vegna þess að það er allt annað ástand hér á höfunum í kringum okkur með stórauknum flotastyrk Sovétríkjanna o.s.frv. Ég fer ekki út í það, en ég vil sem sagt halda því fram, þegar spurt er um, hvað sjálfstæðismenn hafi gert til þess að breyta ástandinu, að þeir hafi tekið þátt í Atlantshafsbandalaginu og á þann hátt stuðlað að friðvænlegra ástandi.

En þegar við erum að tala um það, hvort hér eigi að vera erlent varnarlið í landinu eða ekki og hvort við sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða Alþb.-menn viljum, að þetta erlenda herlið hverfi úr landi, þá verðum við að átta okkur á því, að það eru mjög mismunandi forsendur fyrir því, af hverju við viljum, að erlent varnarlið hverfi úr landi. Og ég held, að það fari ekki á milli mála, að fyrir lýðræðissinnaða og þá á ég við alla hina lýðræðissinnuðu flokka og eins þá, sem standa að núv. ríkisstj., hver sem svo vill kalla sig lýðræðisflokk. Það er þeirra sjálfra að dæma um það, ég held, að það sé af þjóðernis ástæðum lýðræðissinna, ég held, að það særi þjóðernis tilfinningu manna, að hér þurfi að vera erlent varnarlið og þess vegna viljum við stuðla að því, að það geti orðið breyting á því ástandi. En fyrir mönnum, sem hafa aðrar pólitískar skoðanir, sem hafa fram til skamms tíma a.m.k. stutt mjög stefnu Sovétríkjanna og ekki blakað við heimsveldispólitík þeirra, fyrir þeim hefur eingöngu vakað að spilla fyrir samstarfi vestrænna ríkja og að við rækjum herinn úr landi til þess að draga úr styrk þessa bandalags, Atlantshafsbandalagsins. Á þessu er sem sagt meginmunur, hverjar eru forsendur fyrir því, að við viljum breyta þessu ástandi.

Enn einu sinni voru gefnar mismunandi skýringar á því, hvernig ætti að útskýra málefnasamning ríkisstj. hvað snertir varnarmálin. Utanrrh. sagði hér í dag, sem hann hafði reyndar sagt áður, að Íslendingar og ríkisstj. vildu þó standa við skuldbindingar sínar gagnvart Atlantshafsbandalaginu án þess þó um leið, að erlent varnarlið væri í landinu og vildi endurskoða með það í huga, að við gætum verið í bandalaginu áfram, án þess að erlent varnarlið væri í landinu, m.ö.o. endurskoðunin geti leitt til þessarar niðurstöðu. Hins vegar segir hæstv. iðnrh. í þessum sömu umr., að túlka beri þennan málefnasamning á þann veg, að það eigi að taka upp samninga við Bandaríkjamenn og freista þess, að herinn fari, en ef þeir samningar takist ekki, þá eigi að segja samningnum upp. Það er ekkert annað en loddaraleikur og barnaskapur að vera eitthvað að þrefa um þetta meira. Það fer ekki fram hjá neinum skynsömum manni, að hérna eru tvær mismunandi túlkanir. Og ég held, að það þurfi jafnvel ekkert að vera að spyrja, hvorki forsrh. né aðra að því. Það liggur alveg á hreinu, að þetta eru tvær mismunandi túlkanir. Og það, sem verið er að spyrja forsrh. um, er það, hvora túlkunina hann taki til greina. Hvorri túlkuninni fylgir hann? Ég held, að það sé bara lítils virðing gagnvart okkur þm. og þjóðinni allri að vera að halda því til streitu, að ríkisstj. sé sammála í þessu máli. Forsrh. hæstv. reynir að snúa út úr þessu máli og segir: Ja, vilja menn bara endurskoða endurskoðunarinnar vegna? Venjulega er nú eitthvert markmið með endurskoðun. Vissulega er það rétt og því er ekki mótmælt. Við höfum ekkert á móti því í sjálfu sér, a.m.k. hef ég persónulega ekkert á móti því, að það sé endurskoðað með markmið í huga. En markmið er annað en niðurstaða og það er það, sem stjórnarandstæðingar hafa verið að gagnrýna, að það hefur verið tekin ákvörðun og komizt að niðurstöðu, áður en þessari endurskoðun var lokið. Og að þessu leyti eru ráðh. ósammála. Annar segir: Við erum búnir að taka ákvörðun um það að leita samninga við Bandaríkjamenn um það að segja upp samningnum og ef ekki, þá verður honum bara sagt upp, hver sem niðurstaðan verður af endurskoðuninni. En hæstv. utanrrh. hefur hins vegar margsagt og enn hér í dag, að endurskoðunin geti leitt til þess, að hér verði áframhaldandi dvöl erlends varnarliðs.

Herra forseti. Nú er ég að ljúka máli mínu. Ég vildi þó að lokum segja, að þessir atburðir varpa nýju ljósi á þessi mál. Ég hef dregið þær ályktanir, að ríkisstj. hafi tekið mjög athyglisverða ákvörðun. Það fari ekki á milli mála, að hún vill efla varnir Atlantshafsbandalagsins. Og þá skiptir í mínum huga ekki svo miklu máli, hvort það heitir erlent varnarlið, sem hér er í einu eða öðru formi, hvort varnirnar séu með þessum hætti eða hinum. Það sem skiptir máli í mínum huga, er það, að við tökum áfram þátt í sameiginlegu varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna. Og ef meiri hl. ríkisstj. er á þeirri skoðun, sem mér sýnist vera augljóst að álykta megi af hennar ákvörðunum, að efla þennan varnarmátt og þetta varnarsamstarf, þá er ég ánægður með þá niðurstöðu. Það er sannarlega ekkert sáluhjálparatriði hjá mér, að hér sé erlent varnarlið. Ég er búinn að lýsa því og ef endurskoðunin leiðir eitthvað annað í ljós, leiðir það í ljós, að við getum haldið hér uppi vörnum, sem eru í samráði við okkar vinaþjóðir, án þess að hér séu Bandaríkjamenn, þá er ekkert því til fyrirstöðu að breyta um, ef sú lausn er viðunandi fyrir okkar varnir og okkar öryggi. Þá skal ég vera fyrstur manna til að taka undir það. En það, sem skiptir þó öllu máli í þessu þýðingarmikla þjóðernismáli og sjálfstæðismáli, það er það, að hver ákvörðun, sem tekin er í þessu, sé gerð í samráði við þá menn, sem vilja starfa með okkur og við viljum starfa með.