06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í D-deild Alþingistíðinda. (4206)

46. mál, öryggismál Íslands

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun leitast við að vera eins stuttorður og mér er kostur. Hv. 4. þm. Vestf. hafði miklar áhyggjur af því, að við stjórnarandstæðingar gerðum mikið úr ágreiningi innan ríkisstj. og þetta héti að rægja menn saman. Ég held, að hann þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því, vegna þess að stjórnarflokkarnir sjá um þetta sjálfir hjálparlaust.

Hv. 8. þm. Reykv. talaði um það, að það væri ágreiningur innan Sjálfstfl., sérstaklega meðal ungra manna og eldri, t.d. í varnarmálum. Þetta er mjög mikill misskilningur, eins og raunar kom fram hér í ræðu 9. landsk. þm., Ellerts B. Schram. Þar fór ekki á milli mála, að sama túlkun og sama skoðun var á ferðinni eins og hér hefur verið boðuð af öðrum formælendum sjálfstæðismanna. Vegna ummæla þessa þm., hv. 8. þm. Reykv., eða hæstv. iðnrh., ég man ekki hvors heldur, um það, að það væri ágreiningur innan þingflokks Sjálfstfl. um flutning þeirrar till., sem hér er á dagskrá, þá er það mikill misskilningur, vegna þess að hún er flutt með samþykki allra þm: þingflokksins.

Hæstv. iðnrh. sat við sama keip og kvartaði sáran undan því, að hann hefði verið klagaður vestur í Kanada og sagði sem svo; að ég hefði átt að gera mér ljóst, að ég væri meðlimur í opinberri sendinefnd og sem slíkur ætti ég eingöngu að tala því máli og fyrir þeirri stefnu, sem ríkisstjórn Íslands hefði á hverjum tíma. Það er grunnt á einræðishyggjunni í hæstv. iðnrh. Hann unir ekki frjálsri skoðanamyndun eða skoðanafrelsi eða túlkunarfrelsi. Í þessu sambandi er hér um að ræða þingmannaför. Þetta er þingmannasamband Atlantshafsríkjanna og það er einmitt tilgangurinn með þessum fundum, að þm. skiptist á skoðunum, sem ekki þurfa að vera í samræmi við ríkjandi skoðun ríkjandi stjórnar í hverju landi fyrir sig. Þannig hafa þarna átt sér stað skoðanaskipti í áheyrn þingheims alls milli þm. í mismunandi flokkum í Vestur-Þýzkalandi varðandi „Ost—pólitík“ Brandts kanslara, svo að ég nefni dæmi. Þannig að hér er algjörlega um eðlilegan hátt skoðanaskipta að æða, sem e.t.v. er eðlilegt, að þessi hæstv. ráðh. felli sig ekki vel við, ef skoðaður er uppruni stjórnmálaskoðana hans. Það má í þessu sambandi nefna, að Alþb. ætti í raun og veru að senda fulltrúa á þennan þingmannafund, og úr því að hæstv. utanrrh. var að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir það, að við gerðum ekki ráð fyrir því í till. okkar, að þeir, sem væru andvígir þátttöku okkar í Atlantshafshandalaginu, ættu sæti í þeirri nefnd, sem um varnarmálin og fyrirkomulag þátttöku okkar í því bandalagi ætti að fjalla, þá vil ég benda á það, að hann hefur ekki séð ástæðu til þess að skipa fulltrúa Alþb. í þessa þingmannasendinefnd Atlantshafsbandalagsins. Ég býst við því, að hæstv. utanrrh. hafi gefið flokknum kost á að eiga sinn fulltrúa. Þá er það væntanlega Alþb. sjálft, sem ekki hefur óskað að eiga þarna fulltrúa og er þá svo fjarri sú ályktun, sem ég dró hér fyrr í umr. að það væri óeðlilegt með öllu; að Alþb. óskaði eftir að eiga fulltrúa í slíkri nefnd, sem við lögðum til, að fjallaði um þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og hvernig vörnum hér á landi væri fyrirkomið. Mér dettur í hug í þessu sambandi frásögn, sem kemur fram í bók Bjarna heitins Benediktssonar, um samtal þeirra McMillans og Ólafs Thors, en þá hafði McMillan látið þess getið, að sá tími gæti komið, að Rússar bæðu um inngöngu í Atlantshafsbandalagið af ótta við Kínverja og sá tími gæti komið samkvæmt þessu, ef trúa á þessari forspá, að Alþb. yrði annaðhvort hlynnt Atlantshafsbandalaginu eða gengi í lið með maóistum og styddi Kína. Hvorum megin sem þessi ríki, Kína og Sovétríkin, verða nú í framtíðinni.

Þá er ég kominn að því atriði í ræðu hæstv. iðnrh., þegar hann talar um hernaðarbandalögin og jafnvægi. Ég er alls ekki þess sinnis að treysta á hernaðarbandalögin til þess að auka og efla friðarhorfur í heiminum. Hernaðarbandalag eins og Atlantshafsbandalagið, sem ég tel varnarbandalag, er ill nauðsyn, stofnað vegna yfirgangs Sovét—Rússlands, vegna yfirgangs alheimskommúnismans og við sjáum mjög greinilega muninn á annars vegar Atlantshafsbandalaginu og hins vegar Varsjárbandalaginu af þeim dæmum, sem hæstv. iðnrh. tók. Þegar Frakkar vildu að einhverju leyti losa um það nána samstarf, sem þeir áður voru í á hernaðarsviði innan Atlantshafsbandalagsins, þá var engin fyrirstaða þar á auðvitað, vegna þess að Atlantshafssamningurinn segir svo fyrir um, að hvert þátttökuríki ráði sér sjálft og ákveði sjálft, hvernig þátttöku þess í bandalaginu sé varið. Þegar Tékkóslóvakía, sem var langt frá því að vilja segja sig úr Varsjárbandalaginu, gerði nokkra tilraun til þess að koma á frjálslyndari stjórnarháttum innan sinna eigin vébanda, þá þótti Rússum nauðsynlegt að ráðast inn með herstyrk, sinn eigin herstyrk og annarra þátttökuríkja Varsjárbandalagsins. Það er líka vert að nefna það hér, sem mér finnst út af fyrir sig ekkert undrunarefni, að í þessum umr. er ekki ein einasta rödd, ekki einu sinni frá Alþb., sem dregur það í efa, að Bandaríkjamenn mundu auðvitað draga varnarlið sitt burtu frá Íslandi, ef Íslendingar ákvæðu það. En spyrji menn sjálfa sig, mundu Sovétríkin gera það, ef þau væru í sporum Bandaríkjanna? Ég held, að það sé alveg ljóst mál, að fjarri færi, að svo yrði.

Það er athyglisvert, að hæstv. iðnrh. tók snöggum sinnaskiptum. Ef þau sinnaskipti eru sönn, þá eru þau mjög til bóta. Þau urðu við innrás Rússa í Tékkóslóvakíu. Hann hafði varið allt þangað til, allan yfirgang og ofbeldi kommúnismans og Sovét–Rússlands, og blað hans hafði látið gott heita öll þau hryðjuverk, sem Stalín framdi á sínum tíma og köl1uð voru Moggalygi lengi vel, þangað til sjálfur Krúsjeff afhjúpaði þau. Það er mjög mikil freisting að vísu að álíta þessi skoðanaskipti hentisemi. Hentisemi vegna þess, að hæstv. iðnrh. og aðrir forustumenn Alþb. hafi skilið það, að þeim var vonlaust að leita fylgis meðal Íslendinga, ef þeir ætluðu áfram að verja slík ofbeldisverk. Látum svo vera, hvaða hvatir liggja að baki þessum skoðanaskiptum. Ekki skal ég fjölyrða um það, en aðalatriðið er hitt, að þessi hv. þm. og hæstv. ráðh. og skoðanabræður hans í Alþb. berjast fyrir því stjórnarkerfi, sem leiðir til þess að hneppa einstaklinga og þjóðir í einræðisfjötra. Það er að vísu sagt af hálfu formælenda Alþb., að þeir afneiti rússneskum sósíalisma, en þeir ætli að berjast fyrir íslenzkum sósíalisma. Í því sambandi held ég, að ég verði að bregða á sama ráð og hv. 4. þm. Vestf. og vitna í nóbelsskáldið, en hann segir svo í nýútkominni samtalsbók: „Engir tveir meina það sama, þegar þeir segja sósíalismi. Oft er eins og tveir þokulúðrar séu að kallast á úti í hafsauga og þá eru það tveir sósíalistar.“ Ég held, að þetta sé sannmæli um þann fagnaðarboðskap, sem formælendur Alþb. flytja, bæði hér innan veggja og í málgagni sínu á Íslandi.

Það var athyglisvert, að hæstv. iðnrh. sagði eitthvað á þá leið, að flugbrautarlengingin og tilboð Bandaríkjanna væri að vísu alvarlegt mál, en ekki þess eðlis, að það eigi að valda samvinnuslitum. Samt er í grg. hans og með ráðherra hans sagt, að sú stefna, sem ekki var valin, sé forsenda þess, að við getum í verki framkvæmt sjálfstæða utanríkisstefnu, m.ö.o. það er brostin forsenda fyrir því, að við getum framkvæmt sjálfstæða utanríkisstefnu. Hvað er alvarlegt mál, ef þetta er ekki alvarlegt mál? Ég er ekkert að gera svona mikið úr þessu máli, ég er aðeins að vitna í orð hæstv. ráðh. sjálfs. Hann telur, að það sé brostin forsenda til þess í verki að framkvæma sjálfstæða utanríkisstefnu, en samt situr hann áfram í stjórn.

Það var og athyglisvert, að hann sagði, að samstarfsnefndin innan ríkisstj., sem hann kallaði svo, en gengið hefur undir nafninu ráðherranefnd, hafi beinlínis verið sett upp til þess að fylgja fram ákvæðinu um brottflutning hersins. Þetta var sú ályktun, sem ég dró hér fyrr í umr. af atvikum málsins og atburðum öllum, en hæstv. utanrrh. vildi mótmæla. Enn kemur fram ósamkvæmni milli þeirra ráðherrabræðra.

Hæstv. utanrrh. vitnaði hér í ræðu þá, sem ég flutti á þingmannafundi Atlantshafsríkjanna í Kanada og ég fagna því. Þar kom fram, eins og hér hefur komið fram, að við sjálfstæðismenn viljum gjarna, að varnarsamningurinn sé endurskoðaður og teljum það út af fyrir sig eðlilegt, að varnar– og öryggismál landsins séu í stöðugri endurskoðun. En hæstv. ráðh. vildi meina, að ég hefði fallið í sömu gryfju og stjórnarliðið, að taka fyrir fram ákveðna afstöðu, þar sem ég hefði sagt, að við værum andstæðir því, að Ísland yrði varnarlaust vegna vaxandi ágengni rússneska flotans í Norðurhöfum.

Nú vil ég benda á, að það er töluverður munur á því að leggja til að ástand sé óbreytt, þangað til endurskoðun hefur farið fram, eða að kveða upp úr um það að breyta ástandi, áður en endurskoðun fer fram. Þetta er sá munur, sem er á mínum orðum og þeirri stefnu, sem sjálfstæðismenn hafa og á þeim orðum, sem hæstv. utanrrh. viðhafði og er stefna stjórnarinnar. Það er ekki ástæða til að breyta ríkjandi ástandi, að hafa varnarlið hér á Íslandi, fyrr en málin hafa verið grannskoðuð. Þá kann vel að koma fram nauðsyn einhverra breytinga. Annaðhvort gæti verið hugsanlegt að draga úr vörnum í landinu eða það þyrfti að efla þær. Það er hugsanlegt að breyta fyrirkomulagi varnanna. Það er hugsanlegt, að Íslendingar geti tekið að sér meiri þátt í vörnunum en hingað til. Það er hugsanlegt að efla landhelgisgæzluna með samkomulagi við Atlantshafsbandalagsríkin og fleira mætti stefna í þessu sambandi. Og þá tel ég mig um leið hafa svarað fsp. hv. 4. þm. Vestf., sem spurði, hvað við stjórnarandstæðingar ættum við, þegar við værum að tala um endurskoðun varnarsamningsins.

Hæstv. ráðh. vildi ekki gefa nein svör hér við því, um hvaða álit hann hefði beðið eða hvaða álit hann hefði fengið annars staðar frá varðandi varnar— og öryggismál landsins. Gerði hann hvorki að játa eða neita, minntist ekki á þá sérstöku fsp. varðandi sænsku skýrsluna, sem ég nefndi hér áðan. Ég skal ekki að þessu finna eða gagnrýna og tek svar hans gilt að því leyti, að hann muni gefa utanrmn. skýrslu um þessi mál. Ég tel hins vegar alveg nauðsynlegt að leggja áherzlu á, að utanrmn. fái jafnóðum að fylgjast með slíkum málum og slíkum álitum, sem fram kunna að koma, því að slíkar kannanir og rannsóknir hver fyrir sig geta vakið upp margar nýjar spurningar, sem ástæða væri til að láta athuga.

Ég skal svo gjarnan skýra honum í einkasamtali frá því, á hvaða viðtölum ég byggi þá skoðun mína, að stefna stjórnarinnar hafi skaðað málstað Íslendinga erlendis, enda held ég, að það sé alveg ljóst, að svo reyndur maður sem hæstv. utanrrh. ætlast ekki til, að ég nafngreini menn, sem koma í einkasamtöl á skrifstofu mína hér í Alþingi. En ég hlýt að endurtaka það, að einkennileg blinda og skortur á heyrn er það hjá báðum hæstv. ráðh., forsrh. og utanrrh., sem ekki hafa gert sér grein fyrir því af blaðaskrifum, umr. og einkaviðræðum. Vegna þess að ég hlýt að álykta, að við þá hafi verið talað á líkan hátt og mig, að átta sig ekki á því, að óljós stefnumörkun hæstv. ríkisstj. í öryggis— og varnarmálum landsins hefur vissulega skaðað okkur og veikt traust okkar út á við. Hæstv. forsrh. greip að vísu í það hálmstrá að segja sem svo, að ekki bæri tilboð Bandaríkjamanna vitni um það, að þeir bæru ekki traust til okkar. Það er þess vegna rétt, þótt hæstv. utanrrh: treysti sér ekki til eða hafi ekki spurt sendiherra Bandaríkjamanna, hvað ylli skoðanaskiptum þeirra, að benda á, að í tilboðinu segir:

„Aðrar framkvæmdir miða að því að endurbæta aðstöðu fyrir flugvélar varnarliðsins. Ákvörðunin um að fallast á ofangreindar framkvæmdir byggist á þeirri skoðun Bandaríkjamanna, að lenging þverbrautarinnar og bætt aðstaða fyrir flugvélar varnarliðsins sé hagsmunamál bæði hvað snertir flugöryggi og varnarmátt Atlantshafsbandalagsins.“

Þegar þetta tilboð er skoðað og forsenda þess og jafnframt höfð í huga frásögn hæstv. utanrrh., þegar hann svaraði fsp. hv. þm. Reykn., Stefáns Gunnlaugssonar, um flugbrautarmál hér fyrr á þingi. En þá gat ráðh. þess, að tekið væri fram í aths. fjárlaga Bandaríkjamanna, að of margar herstöðvar hefðu verið yfirgefnar, til þess að fýsilegt þætti að leggja fé í herstöðvar, þar sem slíkt væri yfirvofandi. Ef þetta er nú haft í huga og sú vitneskja og yfirlýsingar þm. stjórnarliðsins, sem hafa gefið fyllilega til kynna, að þeir væru ósammála því, að varnarliðið væri látið fara að svo stöddu máli, þá er ekki annan skilning hægt í þetta að leggja, en að Bandaríkjamenn telji sig hafa ástæðu til þess að ætla, að afstaða ríkisstj. og stuðningsmanna hennar sé sú, að varnarliðið verði hér áfram, a.m.k. fyrst um sinn. Og hæstv. forsrh. sagði, ef ég hef tekið rétt eftir og fest rétt niður á blað, að ástæðan til þess, að í svari ríkisstj. væri ekki vikið að þessum forsendum tilboðsins af Bandaríkjamanna hálfu, væri, að ríkisstj. liti þannig á, eða í það minnsta meiri hl. hennar, að á þau atriði, sem ekki er gerð aths. við, væri fallizt.

Ég er þeirrar skoðunar og hef látið hana í ljósi áður, að jákvætt svar ríkisstj. við tilboði Bandaríkjastjórnar væri rétt, ef ríkisstjórn Íslands telur þessar framkvæmdir nauðsynlegar vegna varna Íslands og öryggis í þessum heimshluta, sem er bæði í þágu Íslendinga og Bandaríkjamanna. Ef hún telur það hins vegar ekki vera og þýðingu framkvæmda einungis bundna almennri flugumferð um Keflavíkurflugvöll, er það ekki sæmandi að taka þessu tilboði. Þá eigum við sjálfir einir að kosta slíka framkvæmd.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, nefna það, að hæstv. forsrh. skaut sér algjörlega fram hjá því að svara fsp., sem til hans hefur verið beint, fyrst í umr. um skýrslu hæstv. utanrrh. 21. eða 23. nóv. s.l. og í umr. fyrir rúmum hálfum mánuði, varðandi það, hver væri rétt túlkun á stjórnarsáttmálanum. Hann taldi, að ég hefði átt við, að hann hefði sjálfur borið fram fleiri en eina túlkun á þessu sérstaka ákvæði stjórnarsáttmálans. Svo var ekki. Ég var að vitna til mismunandi túlkana, sem fram höfðu komið hjá hæstv. utanrrh. annars vegar . og sérstaklega hæstv. viðskrh. hins vegar, og nú í dag hefur hæstv. iðnrh. bætzt í hóp viðskrh.

Ef við rifjum þetta mjög stuttlega upp, vegna þess að ég er e.t.v. ekki eins góður í mér og hv. 7. þm. Reykv., að vilja ekki angra hæstv. forsrh. meira með fsp., ef við þess vegna, áður en fsp. er enn á ný ítrekuð, rifjum upp, hvað í henni felst, þá er það á þessa leið: Hæstv. utanrrh. hefur sagt, að fyrst fari fram ítarleg könnun á nauðsyn varnarliðsins hér á landi, niðurstaða þeirrar könnunar verði lögð fyrir Alþ. og Alþ. muni síðan ákveða, hvort og hvenær varnarliðið verði látið fara. Aðspurður í sjónvarpsþætti hefur hæstv. utanrrh. sagt, að þessi könnun, sem nú stendur yfir, gæti leitt til þess, að varnarliðið yrði hér áfram. Hins vegar hafa hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh. lýst því yfir, að þetta væri röng túlkun málefnasáttmála ríkisstj. Endurskoðunin væri til þess eins að leita samkomulags við Bandaríkin um brottför varnarliðsins. Ef endurskoðunin leiddi ekki til þessa, þá ætti uppsögn varnarsamningsins að koma til, svo að við Íslendingar gætum einhliða ákveðið brottför varnarliðsins, eða eins og hæstv. iðnrh. ítrekaði í umr. í dag: Ríkisstj. í heild er staðráðin í því að framfylgja fyrirheitunum um brottför hersins á kjörtímabilinu.

Annar ráðh. heldur því þannig fram, að endanleg ákvörðun hafi verið tekin um brottvísun varnarliðsins. Hinn segir, að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Augljóst er, að ekki geta báðir haft rétt fyrir sér, annar hvor hlýtur að fara með rangt mál. Nú er það spurning mín til hæstv. forsrh., hvort sú túlkun, sem hæstv. utanrrh. hefur flutt á ákvæði málefnasamningsins, sé rétt. Hefur utanrrh. í stjórn Ólafs Jóhannessonar farið með rétt mál í þessu efni, eða hefur hann farið með rangt mál? Við þessari spurningu bið ég um að fá svar, aðeins í einu orði, já eða nei. Hæstv. forsrh. frekar til glöggvunar vil ég afhenda honum þetta skriflega.