06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (4207)

46. mál, öryggismál Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má nú teljast vonlaust verk að ætla að koma hv. 2. þm. Reykv. í skilning um þessa fsp. og sjálfsagt öðrum einnig. Ég er búinn að svara þessu æ ofan í æ. Ég svaraði þessu í dag með því að gera grein fyrir minni túlkun á þessum ákvæðum, minni túlkun á þeim, sem birtist í ræðu, sem ég hélt hér á hv. Alþ. 18. okt. eða rétt eftir að Alþ. kom saman. Ég hélt satt að segja, að það lægi í hlutarins eðli, að ég a.m.k. teldi þá túlkun, sem ég sjálfur gef á þessum ákvæðum, rétta. Ég las talsvert úr þeirri túlkun upp í dag, engan veginn alla, en hana er að finna í þessari ræðu, og þar getur hv. þm. fengið alveg glöggt og greinargott svar við því, hvað ég tel rétta túlkun á þessu ákvæði í varnarsáttmálanum. Þetta þýðir auðvitað ekkert að segja þessum hv. þm. eða öðrum, því að það er alveg sama, hvað er sagt við þá. Svona skal þetta vera, eins og þeir hafa ákveðið það. Þeir hafa ákveðið það, að ég og aðrir, sem um þetta hafi talað, hafi orðið tvísaga og margsaga og að við segjum eitt um þetta í dag og annað á morgun. Það er alveg sama, þó að þetta sé alveg kafrekið ofan í þá hvað eftir annað. Þeir rísa upp aftur og halda þessu hinu sama fram. Ég segi, hv. 2. þm. Reykv. getur látið sitt einkamálgagn, Morgunblaðið, halda þessu fram. En það er ekki sæmilegt fyrir hann hér í þingsölum að rísa upp æ ofan í æ og halda þessu fram, að því hafi ekki verið svarað, sem hann hefur spurt um. (GH: Er búið að taka endanlega ákvörðun eða ekki?) Um hvað? (GH: Um brottför varnarliðsins.) Það hefur engin ákvörðun verið tekin um brottför varnarliðsins. Það segir í málefnasamningnum, að það skuli tekið til endurskoðunar eða uppsagnar með það fyrir augum, að varnarliðið hverfi af landi brott í áföngum, og sé stefnt að því , að það geti átt sér stað á kjörtímabilinu. (GH: Spurningin er bara, hvað þýðir þetta?) Ég hélt satt að segja, að hv. 2. þm. Reykv. skildi venjulegt mál. En það er auk þess að finna nánari skýringu á þessu í þeirri ræðu, sem ég hélt um þetta efni og þar er mín túlkun á þessu. (Gripið fram í: Er það túlkun ríkisstj. allrar?) Ja, ég verð að telja það, að ég a.m.k. hafi stöðu minni samkv. umboð til þess að tala í nafni ríkisstj. En fyrst og fremst hef ég lagt áherzlu á það, að þarna er að finna mína túlkun á þessu. En auðvitað er það alveg nákvæmlega sama. Á morgun kemur í Morgunblaðinu sama útgáfan eins og hefur verið að undanförnu, og hv. 2. þm. Reykv. á væntanlega eftir að halda margar ræður um þetta og reyna að halda því fram, sem hann hefur reynt að gera hér. Ef hann vill gera það og berja höfðinu við steininn, þá er honum það ekki of gott. (Gripið fram í: En ráðh. Alþb. túlka þetta allt öðruvísi.)