06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (4208)

46. mál, öryggismál Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég stend nú hérna upp, vegna þess að fyrr í umr. hélt ég framsögu um till. okkar Alþfl.—manna og með leyfi forseta voru báðar till. ræddar samtímis. Umr. eru nú orðnar svo gífurlega langar og hafa dreifzt á fleiri daga, að það er erfitt að halda þeim mjög lengi áfram, en það er ekki mjög miklu að svara varðandi okkar till. Það hefur verið tekið vel í þær efnislega af stjórnarsinnum, till. okkar er á nokkurn annan hátt en till. Sjálfstfl., og lýstu menn úr a.m.k. tveimur stærri stjórnarflokkunum jákvæðri afstöðu. Hins vegar var hv. 3. landsk. þm. með ýmiss konar tilburði og talaði um, að það vantaði íslenzkt sjónarmið í þá till. og hræðslusjónarmiða gætti hjá stjórnarandstöðunni o.s.frv. Hann hefur áður komið hér upp og talað um utanríkismál og er það eini maðurinn, sem hefur talað um hræðslusjónarmið og var hér mjög á iði í stólnum og virtist miðað við það vera eini maðurinn, sem var hræddur um leið og verið var að tala um hernaðarmál.

Einkennandi við framsögu Alþb.—manna utan hæstv. iðnrh. núna áðan var það, að þeir minntust alls ekkert á Varsjárbandalagið, fremur en það væri ekki til. Hins vegar tíndu þeir mjög fram ávirðingar annarra þjóða í NATO og fóru um það mjög hörðum orðum. En í millitíðinni barst mér skýrsla frá Evrópuráðinu samin eftir gagngerða athugun á ástandinu í Ungverjalandi. Ég ætla nú ekki að fara að lesa þessa skýrslu, ég hef ekki þýtt hana, hún er hér á ensku. En það er ógnvekjandi ástand, sem þar ríkir og ekki vottur af neins konar frelsi, alls ekki, og þar ræður kommúnistastjórnin í einu og öllu. Þar er enn í fullu gildi ákvæði laga nr. 4 frá 1957 t.d. um dauðarefsingu við tilraunum til verkfalla og einnig er allt bannað, fjöldafundir, fjöldasamkomur og þar er ritskoðun o.fl. o.fl.

Það var vitnað í ákveðið land á vegum NATO, sem ræki nýlendukúgun. Skal ég ekkert vera að verja það út af fyrir sig, en það er þó ekki rétt að vera að taka eina þjóð sér og leggja hana á höggstokkinn. Við gætum lýst almennt yfir, að við værum á móti nýlendukúgun og frelsiskúgun, hvar sem vera skal í heiminum.

Mér þótti það miður, að hæstv. utanrrh. undraðist það, að ég vænti þess, að bæði bandalögin lognuðust út af fyrr en síðar og við tækju menningarleg og viðskiptaleg tengsl þessara þjóða og átti ég við, að það væri óháð stjórnarfari. Ég tel mig ekki þess umkominn að geta sagt öðrum þjóðum fyrir, hvaða stjórnarform þær velja sér, alls ekki. Hins vegar vil ég, að við getum átt vinsamleg menningarleg og viðskiptaleg tengsl við hvaða þjóðir sem vera skal og séum ekki að knésetja þær eða flengja þær vegna þeirra stjórnarhátta, sem þær velja sér sjálfar. Ég er ekki svo stór bógur, að ég ætli mér þá dul að segja öðrum fyrir verkum í því efni á sama tíma og við vitum það, að áhrifin frá austri og vestri og úr þriðja heiminum eru þannig, að þau koma þessum frá og hjálpa hinum upp, eins og t.d. hefur skeð í Nígeríu.

Hvernig er ástandið í Nígeríu, og hvernig er þjóðinni haldið þar í skefjum? Ég talaði nýlega við Íslending, sem þar var og vil leyfa mér aðeins að vitna í hans orð.

Hann greindi frá því, að ríkisstj. þar sendi herflutningabíla, þar sem mönnum er raðað upp með tilbúnar vélbyssur og það er keyrt inn í íbúðarhverfin, svo að fólkið sjái, hver hefur völdin og hvernig því er haldið í skefjum með ótta og gínandi byssukjöftum. Við erum þó að reyna að taka upp viðskipti við þessa þjóð. En á sama tíma lýsir hæstv. utanrrh. yfir því, að hann óski svo ekkert sérstaklega eftir því í framtíðinni, að við munum hafa mikil viðskiptatengsl við vissar þjóðir innan NATO. Ég skil þetta svo, að hann fordæmi í framtíðinni viðskipti við Portúgal og Grikkland. Þá kannske fylgdi eitthvað fleira á eftir þarna í Suður–Evrópu. En hvaða lífskjör væru á Íslandi, ef við fylgdum þessu svo eftir og tækjum líka fyrir viðskipti við Varsjárbandalagslöndin? Ég vona, að við séum allir sammála um það að lýsa yfir óánægju og andstöðu við það, að fólkið sjálft hafi ekki eðlilegt frelsi. Því skal ég standa að. En ég ætla ekki að taka eina þjóð sér og fordæma hana, þegar það sama ríkir hjá fjölda þjóða í heiminum. jafnvel tugum þjóða í heiminum. Ég tel mig þess ekki umkominn og ekkert umboð hafa til þess hér á hv. Alþ.

Ég greindi frá því, að hæstv. forsrh. kom fram í sjónvarpinu í Noregi í októberbyrjun og þar sagði hann efnislega þetta: „Basen bliver“ Varnarstöðin verður. Hvað þýðir þetta, ef varnarliðið fer burtu? Varnarstöð án hermanns, hvers virði er hún og hvað felst í þessum orðum? Ég óskaði eftir því, að ráðstafanir væru gerðar til þess, að þessi sjónvarpsmynd, sem er rétt um klukkutíma löng eða rúmlega klukkutími og sýnir ýmsa merkilega þætti um siglingaflota Rússa hér á hafsvæðinu, bæði kringum Ísland og suður á bóginn, og margt fleira, ýmiss konar myndir, yrði sýnd hér í sjónvarpinu, því að þetta er athyglisverð mynd. Og þar kemur m.a. fram viðtalið við hæstv. forsrh. Ég sé ekkert athugavert við það, að myndin sé sýnd hér. Hún má fara í ritskoðun hjá ráðherranefndinni áður. Ef hún er ekki talin hæf fyrir Íslendinga, þá verður það að dæmast svo. En hún var talin hæf fyrir Noreg. Og fyrst ég er að tala um Norðmenn, þá var ég nú þarna í Noregi og ég verð að segja það, að a.m.k. var uggur í fjöldamörgum Norðmönnum, sem ég talaði við. Á einum stórum vinnustað, þegar þeir vissu, að ég var íslendingur og í viðbót þm., þá var haldinn þar fundur og ég margspurður um það, hvað þessi stefna ætti að þýða. Það var uggur í fólki, en ég segi ekki, að hún hafi skaðað okkur. En það var uggur í fjölda manns. Og þess vegna leyfði ég mér það í upphafi ræðu minnar, sem hæstv. utanrrh. gerði grín að, að stikla á nokkrum staðreyndum sögunnar, hvers vegna NATO varð til og hvers vegna fólkið hér í Vestur–Evrópu snerist til samstöðu, hvað orsakaði það. Og það mætti kannske fletta upp í gömlum ritum forustumanna Framsfl. hér fyrr á árunum og lesa upp ýmislegt í sambandi við varnarlaust land o.s.frv. En það ætla ég mér ekki að gera.

Ég þarf raunar ekki að svara hér fleiru, þó að ástæða væri til. Umr. eru orðnar svo langar. En ég ætla samt, svo að það komist hér á hreint, að skýra frá því, hvað hæstv. utanrrh. sagði í sjónvarpinu 1. febr. Þá sagði hann, þegar áhorfandi úr hóp spurði hann: „Utanrrh. sagði áðan, að það væri búið að gefa samþykki fyrir lengingu flugbrautarinnar. Þær upphæðir, sem talað er um, eru 500—600 millj. Hvaðan hafa þeir fengið fé? Bandaríkjamenn buðust til þess að láta þetta fé með því skilyrði, að þeir fengju að vera áfram.“ Hæstv. ráðh. svarar: „Já, þetta fé er ekki frá Bandaríkjunum, ef það er það, sem fyrirspyrjandi er á höttunum eftir.“ Spurt: „Er það frá NATO?“ „Nei, nei, það er innlent fé.“

Nú hefur fengizt á þessu breyting. Ég skal ekkert segja um það, hvort hún er komin til vegna ýmissa annarra atvika, breyttrar afstöðu og þar fram eftir götunum, bæði hér heima og erlendis, en hitt er jákvætt, finnst mér, vegna þarfa okkar almennt til stórframkvæmda, að við eigum kost á því að þessi fjármögnun fari fram með þeim hætti, að við fáum til þess fé frá Bandaríkjastjórn vegna varnarsamningsins. Það hefði dregið úr framkvæmdum í bili hér heima, ef við hefðum þurft að fjármagna þetta með innlendu fé eða lánsfé, vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að við höfum ekki ótakmarkað fé til framkvæmda. En framkvæmdaþörf á Íslandi er gífurleg. Þess vegna tel ég, að ríkisstj. hafi gert rétt í því efni að ganga til samninga um þetta fjármagn þrátt fyrir ágreining. Alþb.–menn eru samkvæmir sjálfum sér í þeirri afstöðu að vera á móti þessu fé, og ég sé ekkert athugavert við það út af fyrir sig. En ég sagði hér í framsöguræðu minni. að ég sæi ekki, að það boðaði sjálfstæða og ábyrga stjórnarstefnu að vera svo mjög á öndverðum meiði innan stjórnarinnar um afstöðuna til NATO og í vissum utanríkismálum. Hvað er nú óháð utanríkisstefna? Hvar getum við borið niður, svo að við séum einir sér með óháða utanríkisstefnu? Lendum við ekki upp að hlið einhverra annarra þjóða, Norðurlandaþjóðanna, Austur–Evrópuþjóðanna, Suður—Ameríkuþjóðanna e.t.v. eða Afríkuþjóðanna, því að þjóðirnar eru nú svo margar í heiminum, nokkuð á annað hundrað talsins þarna hjá Sameinuðu þjóðunum? Það væri skemmtilegt, að við gætum boðað algerlega óháða og sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég veit ekki, hvað á að skilja þetta hugtak víðtækt, en ég hef skilið það þannig, að við héldum fram vissum grundvallaratriðum lýðræðisins og stæðum á því. Og þó að við séum í varnarbandalagi við þjóðir, sem ekki virða lýðræðið í dag, þá harma ég það, en ég harma það á breiðum grundvelli, en ekki til þess að kasta hnútum að einni sérstakri þjóð.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að eltast við fleiri túlkanir hér hjá vissum ræðumönnum. Það er nú komið svo greinilega fram hér, að túlkunin er mismunandi á þessum þáttum mála. Ungir jafnaðarmenn vilja, að herinn hverfi burt sem fyrst, en því miður verðum við að fá tryggingu fyrir því, að öryggi okkar lands verði ekki rýrt og friðarhorfur í Evrópu verði ekki minni en verið hafa s.l. 25 ár með þeim aðgerðum, sem við erum að framkvæma og við erum að stuðla að, að geti átt sér stað.