06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (4209)

46. mál, öryggismál Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og menn hafa tekið fram, eru þessar umr. orðnar langar og langur ræðumannalistinn. Ég vildi þó í lokin nota þetta tækifæri um stund til þess fyrst og fremst að þakka hæstv. forsrh. fyrir það svar, sem hann gaf 2. þm. Reykv. Hann gaf það að vísu ekki með orðunum já eða nei, en hann svaraði á þann hátt, að það væri ekki búið að taka neina endanlega ákvörðun um brottför hersins og hann svaraði því efnislega þannig, að túlkun utanrrh. væri rétt, að þegar fyrir lægi endurskoðun á varnarsamningnum, könnun á aðstöðunni, þá færi það eftir niðurstöðum þeirrar könnunar, hvort hers eða varnarliðs væri talin þörf í landinu eða ekki. Með þessu sendi að vísu hæstv. forsrh. tveimur öðrum ráðh. skeyti, sem hafa sagt allt annað og sagði í raun og veru við þá: Hættið þið þessu blaðri, því að þetta allt, sem þið eruð að segja, er vitleysa. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þetta svar.

Ég hef sjálfur frá öndverðu talið það lang alvarlegasta liðinn í stjórnarsamningi hæstv. núv. ríkisstj., þegar því er lýst yfir fyrir umheiminum, að það sé ágreiningur innan ríkisstj. um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að það sé mjög óvarleg yfirlýsing og mjög óvænleg til þess, að af henni geti gott stjórnarsamstarf leitt, þegar sumir ráðh. í ríkisstj. vinna að því og vilja, að Atlantshafsbandalagið verði lagt niður, en aðrir vilja styrkja það og efla. Og ég hygg, að það sé óvíða til ríkisstj. á slíkum grundvelli, eins og þessi ríkisstj. byrjaði. Nóg um það.

Utanstefnur viljum vér engar hafa. Ja, nú þykir mér hæstv. iðnrh. vera farinn að verða nokkuð vaskur. Hann er í hópi þeirra manna hér á Íslandi, sem hefur hlýtt hverri einustu utanstefnu kommúnismans um áraraðir og svo segir hann hér: Utanstefnur viljum vér engar hafa. Þessir menn hafa sótt línuna austur til Moskvu eða einhvers staðar fyrir austan járntjald svo að áraröðum skiptir og aldrei getað haft sjálfstæða skoðun. Og það er rétt, sem hér var sagt, að í áraraðir þótti allt gott, sem gert var á þessum slóðum, allt. Það var alveg sama, þó að menn ákærðu menn og létu þá játa syndir sínar og tækju af þeim höfuðið. Þá var það ágætt. Svo lýstu þeir því yfir, stjórnarherrarnir síðar, að þetta hefði nú allt verið misskilningur, aumingja mennirnir hálshöggnir saklausir. Ja, þá var það líka gott. Svona hefur þessi hæstv. ráðh. og þessi ungi nýi þm., sem hér talaði, verið handbendi kommúnismans, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Og ég get ekki gert að því, þó að hæstv. iðnrh. skammist sín fyrir það að vera kallaður kommúnisti og vilji reyna að bera þessa skömm af sér.

Það sagði nú einn ágætur rússneskur maður, mikilsvirtur, að af Rússum, sem eru eitthvað á 3. hundrað millj. eða eitthvað svoleiðis, ég veit það ekki nákvæmlega, væru í kommúnistaflokknum 14 millj. manna. Ekki er það nú mikið, segi ég, af svona stórri þjóð. Nei, það er ekki mikið, sagði hann. En þeir eru hreyknir af því að vera kommúnistar og vera í kommúnistaflokknum. Ja, öðruvísi fer þeim hér heima, sagði ég. Þeir eru alltaf með nýjar og nýjar gærur, þó að þið haldið, að þetta séu kommúnistar og viljið láta þá vinna að ykkar málstað og verða umboðsmenn ykkar hér á landi. Ja, þetta þykir mér leitt að heyra, sagði þessi ágæti maður, því að öðruvísi er þessu farið í Rússlandi.

Að öðru leyti vil ég um ræðu hæstv. iðnrh. segja, að hún einkenndist að mestu leyti af stóryrðum og illyrðum í minn garð, bæði fyrri ræðan í dag og síðari ræðan. Og ég veit ekki, hve mikið tilefni hann hafði til þess, en einhverja löngun hafði maðurinn til að hnýta í mig. Ég átti að hafa sagt eintóma vitleysu hér á þinginu, ég átti að vera mjög illa liðinn flokksforingi o.s.frv., óalandi og óferjandi. Hann má vel skemmta sér við það eða gleðjast yfir því, að ég sé svo slæm persóna sem hann vill vera láta. En varðandi það, sem hann vék að, að hæstv. forseti ætti nú að vita það, að ég lét að því liggja, að bæði hann og fleiri væru umboðsmenn erlends valds hér á landi, þá endurtek ég það hér. Forseti hefur ekki enn vítt mig, en hins vegar hefur þessi maður verið það leynt og ljóst og ritstýrt því blaði, sem hefur verið leiksoppur kommúnismans hér á Íslandi.

Um flutning þessarar þáltill., sem við höfum hér til umr., þá á það m.a. að vera henni til foráttu, að flm. séu ekki Ellert Schram og Gunnar Thoroddsen. En það eru 10 flm.till. og við höfum haft þann hátt á með flutning á ýmsum stórmálum hér í þinginu, sjálfstæðismenn, að taka einn mann úr hverju kjördæmi og gjarnan tvo úr stærsta kjördæminu, Reykjavík. Eins var gert í þessu sambandi og þannig eru aðrar till., þar sem okkur þótti nokkuð mikið að hafa allan þingflokkinn sem flm., en auðvitað hefur þingflokkurinn samþ. allar þessar till.

Loks vil ég víkja að því, að hv. þm. Sigurður Magnússon hefur látið liggja að því og það hefur hæstv. utanrrh. því miður gert líka, að það væri þeirra óskhyggja að leggja niður Atlantshafshandalagið og Varsjárbandalagið líka. (Utanrrh.: Ég hef ekki gert það.) Jæja, þá biðst ég afsökunar á því og mér þykir vænt um að heyra það hjá hæstv. utanrrh. Ég hef þá misskilið það. En þessum unga hv. þm. vil ég segja það, að þetta er alveg sitthvað. Ég er alveg sannfærður um, að hann veit ósköp vel, með hvaða blekkingu hann er að fara. Að leggja niður Atlantshafsbandalagið þýðir það að leysa upp varnarbandalagið. Þar með er það uppleyst. Að leggja niður Varsjárhandalagið er í raun og veru engin breyting. Sovétríkin hafa tvíhliða samninga við hvert einasta ríki Varsjárbandalagsins og þau hanga öll í snörunni jafnt eftir sem áður. (Gripið fram í.) Það kemur ekki þessu máli við, við skulum ekki vera að víkja frá því. Það kemur ekki þessu máli við. Ég er bara að benda þessum hv. þm. á og kenna honum svolítið, að það er allt annað mál að leggja niður Atlantshafsbandalagið eða Varsjárbandalagið. Því að Varsjárbandalagsríkin hanga öll í snörunni hjá Sovétríkjunum eftir sem áður. Hins vegar þótti mér vænt um að heyra, hvað þessi hv. þm. talaði fallega um, að við ættum að bjarga og hjálpa bágstöddum og nauðstöddum þjóðum. En hvaða þjóðir eru það, sem þessi hv. þm. og unga fólkið á að hjálpa? Eru það Eystrasalts ríkin, sem Sovétríkin innlimuðu? Er það fólkið, sem býr á landssvæðunum í Finnlandi, sem Sovétríkin rændu af Finnum? Er það Ungverjaland, fólkið í Ungverjalandi, fólkið í Tékkóslóvakíu og fólkið í öðrum Austur–Evrópuríkjum, sem eru kúguð undir járnhæl kommúnismans? Eru það þau? (Gripið fram í.) Eru það þessi ríki, eða eru það kannske nýlenduríkin, hin frjálsu, nýju ríki í Afríku og annars staðar, sem hin vestrænu lýðræðisríki hafa staðið að, að gera frjáls og telja um 704—800 millj. manna, sem þau stóðu að, að gera frjáls ríki á sama tíma sem kommúnisminn í Austur-Evrópu undirokaði ríkin þar? Þessu ættu menn að gera sér grein fyrir. Við skulum vona, að það séu ekki aðeins þessi nýju, frjálsu ríki, sem kölluð eru þróunarríki og eru yfirleitt fátæk ríki, heldur einnig þau kúguðu ríki í Austur—Evrópu, sem þessi hv. þm. vill rétta hjálparhönd og hann gæti kannske lagt lið sitt líka með því að fá menn í lið með sér til þess að reyna að rífa niður Berlínarmúrinn, þennan óskapnað í Evrópu, þar sem girt er sundur þjóðin og fólkið í löndunum með steinmúr eins og skepnur. Að slíku ætti hann að beita sér og skal ég svo ekki fleira um það segja.

Ég vil svo ekki, af því að umr. hafa dregizt á langinn, tefja þm. lengur, en legg áherzlu á það, að þessari till. verði að umr. lokinni, eins og ég sagði í dag, vísað til utanrmn., eins og við höfum óskað eftir, og vona, að það verði engin fyrirstaða á því.