18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í D-deild Alþingistíðinda. (4221)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Forseti (EystJ):

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan varðandi meðferðina á þessu máli, vil ég taka þetta fram:

Málið var tekið út af dagskrá á dögunum samkv. ósk nokkurra þm., sem þurftu og vildu endilega vera við umr. á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Þangað ætlaði þá sjútvrh., og vildu þeir vera þar og hlýða á hans mál. Af þessum ástæðum var málið tekið út af dagskrá og vissi ég ekki annað en það væri ágreiningslaust. Menn fengu orðið við þá umr., sem þá fór fram stranglega í samræmi við þingsköpin og er ekki með rökum hægt að því að finna.

Hv. þm. gerði talsvert úr því, að 19 dagar væru liðnir síðan fyrri hluti þessarar umr. fór fram. Um það atriði er það að segja, að ekki var hægt að koma því við fyrr að hafa þessa umr. nema misbjóða einhverjum og það veit ég, að hv. þm. vill ekki láta gera. Þess vegna tel ég, að ekki mundi verða ágreiningur okkar á milli um þessa málsmeðferð, ef tóm gæfist til þess að bera bækur okkar saman.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um, hvernig til hefði tekizt með vinnubrögð á Alþ. nú. Um það mun ég ekki ræða, en um það munu þeir hv. þm. geta dæmt, sem hafa þingreynslu.