18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (4224)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun nú aðallega ræða 2. og 3. lið þeirrar till., sem hér liggur fyrir og geri ég það, að ég tel, að gefnu tilefni, vegna þess, hvernig hæstv. sjútvrh. tók undir þau ákvæði till., sem þar er að finna, þegar ég ræddi þau lítillega í sambandi við landhelgistillögu stjórnarinnar. Ég vil þó að nokkru víkja að meðferð landhelgismálsins í heild.

Ég tel að það hafi enn á ný komið í ljós hér í kvöld hjá hv. 1. þm. Vestf. að a.m.k. Framsfl. virðist alls ekki fylgjast með eða gera sér grein fyrir þeirri þróun, sem hefur orðið í þessum málum, ég vil segja hin síðustu ár og sérstaklega hina síðustu mánuði. Hv. þm. benti á, að ekkert ríki hefði miðað sína landhelgi við landgrunn, heldur aðeins tiltekinn mílu fjölda. Þetta er rétt, en ég hygg, að þetta stafi fyrst og fremst af því, að þessi ríki öll voru búin að færa út sína landhelgi, áður en sú stefna varð mjög ríkjandi meðal flesta þjóða, að þær vilja helga sér sitt landgrunn. Meira að segja Íslendingar hafa gert um það samþykkt og ákveðið það í lögum að hagnýta landgrunnið og þau auðæfi, sem er að finna á landgrunnsbotninum. Þetta er gert með lögunum frá 1969, eins og ég sagði.

Ég sagði hér við fyrri umr. um landhelgismálið, að ég teldi, að afstaða ríkisstj. í landhelgismálinu væri of veik út á við. Ég gerði þá grein fyrir því, af hverju ég teldi þetta og er það vegna þess, að ég tel, að sú skoðun sé mjög að verða ríkjandi og þeirri skoðun fari mjög ört vaxandi fylgi meðal erlendra þjóða, að hvert strandríki hafi til þess heimild og mörg þeirra eru þegar búin að ákveða að tileinka sér landgrunnið til nýtingar þeirra auðæfa, sem á landgrunnsbotninum eru. Og ég hygg, að það sé mjög að færast í vöxt, að hægt sé að reikna með því , að ekki einungis þau auðæfi, sem á landgrunnsbotninum kunni að finnast, skuli nýtt af þeim strandríkjum. sem þar eiga hlut að máli. Heldur sé það að færast í það horf, að einnig þau auðæfi, sem eru í sjónum yfir landgrunninu, skuli nýtt af þeim þjóðum, sem þar eiga hlut að máli eða strandríkjum og þau fái óskoraðan rétt yfir þessu hafsvæði.

Það er alveg rétt, að það kann vel að vera erfitt að skilgreina nákvæmlega nú í dag, hvar íslenzka landgrunnið liggur. Til þess vantar okkur nákvæmar mælingar. En við höfum þó með lögum ákveðið að nýta auðæfi á landgrunnsbotninum og eins og við höfum gert það, þá hljótum við eins að geta ákveðið með lögum að nýta þau auðæfi, sem yfir landgrunnsbotninum eru, þ.e. fiskimiðin, sem þar er að finna. Þannig að ég tel ekkert meiri vandkvæði á því en þeirri samþykkt,. sem Alþ. hefur þegar gert um nýtingu landgrunnsbotnsins.

Ég er sannfærður um það, að hefði verið reynt að ná samstöðu milli allra stjórnmálaflokkanna, áður en farið var að kynna málin nú í haust á erlendum vettvangi, um það, að Íslendingar tækju landgrunnið allt undir sín yfirráð og færðu fiskveiðilögsögu sína út yfir það, þá hefði verið hægt að ná samstöðu um það. Og ég er sannfærður um, að það hefði verið miklu hægara fyrir fulltrúa Íslands á erlendum vettvangi að túlka málið á þeim grundvelli en binda sig einvörðungu við 50 sjómílur.

Hæstv. forsrh. vildi afsaka þetta nokkuð í ræðu, sem hann flutti hér 18. nóv., þegar þessi till. var fyrst til umr., með því, að aðstaðan til að færa út í 50 sjómílur nú væri ekkert veikari, en aðstaðan hefði verið, þegar fært var út í 4 mílurnar og síðar í 12 sjómílurnar. Ég tel þetta misskilning hjá hæstv. forsrh. að tala um, að aðstaðan sé ekkert veikari nú. Ég tel hana miklu sterkari. Þó að við séum að stíga þarna miklu stærra skref, en við gerðum bæði þegar við færðum út í 4 mílurnar og eins þegar við færðum út í 12 mílurnar. Þá hefur álit í heiminum almennt til þessara mála breytzt á þann veg, að ég tel okkar aðstöðu miklu sterkari til að færa landhelgina út, sérstaklega ef við héldum okkur að því að færa hana út yfir landgrunnið og miða fiskveiðimörkin við það.

Það hefur verið hamrað á því hér, að sennilega hafi það ráðið úrslitum kosninga, að stjórnarflokkarnir, sem voru í stjórnarandstöðu fyrir síðustu kosningar, höfðu tiltekið ákveðinn mánaðardag, 1. sept. 1972. Á þetta skal ég engan dóm leggja, en hér hefur verið réttilega á það bent, að a.m.k. Framsfl. getur ekki hrósað þarna miklum sigri. Og ég vil algerlega mótmæla því, a.m.k. fyrir mína hönd og ég held, að óhætt sé að gera það fyrir hönd allra fulltrúa Sjálfstfl., að við höfum nokkurn tíma haldið því fram, að það ætti að bíða fram yfir hafréttarráðstefnuna með útfærslu landhelginnar. Ég minnist þess mjög vel, að ég hélt því fram í kosningabaráttu á Suðurlandi, að ég væri tilbúinn að standa að útfærslu landhelginnar, þó að það yrði fyrir 1. sept. 1972, ef talin væri nauðsyn á því vegna aukinnar ásóknar á Íslandsmið eða af öðrum ástæðum. Þannig að ég lét þá skoðun þegar fyrir kosningar uppi, að ég væri reiðubúinn að standa að slíkri útfærslu, þó að hún yrði fyrir 1. sept. 1972. Ég vil því alveg mótmæla því, að fulltrúum Sjálfstfl. verði nokkuð brigzlað um það, að þeir hafi viljað bíða svo og svo lengi eða fram til 1973. Ég hygg, að það liggi hvergi fyrir. Við töldum það eðlilegt, að beðið yrði eftir undirbúningsráðstefnunni, sem þá var fyrirhuguð fyrra hluta þessa árs, og séð, hvernig viðhorfið yrði þá, hvað út úr henni kæmi. Því að það lá þá nokkuð í loftinu, að stefnubreyting væri að verða í þessum málum. Og ég hygg, að hefði því verið fylgt, þá hefði kannske viðhorfið til málsins í heild farið nokkuð á annan veg og allir stjórnmálaflokkarnir getað orðið sammála um það að haga stefnu þjóðarinnar í þessu máli eins og örugglega er hægast að vinna því fylgi á erlendum vettvangi nú í dag, en það er með því að halda sig að landgrunnsmörkunum, en ekki ákveðnum mílufjölda. Ég er alveg sannfærður um, að það hefði létt baráttuna á erlendum vettvangi mikið fyrir íslenzku fulltrúunum, hefði þetta sjónarmið legið fyrir og allir flokkar staðið á bak við slíka ákvörðun.

Ég skal, eins og ég gat um í upphafi, snúa mér að því, sem ég ætlaði nú að gera aðallega að umræðuefni hér. Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að enginn ágreiningur væri um 2., 3., 4, og 5. lið till. Hann taldi engan ágreining um þá, en því miður tel ég, að annað hafi komið í ljós hjá hæstv. sjútvrh., þegar þetta mál var rætt hér fyrr eða 18. nóv., eins og ég sagði áðan. Ég mundi einnig telja það mjög mikils virði fyrir fulltrúa þjóðarinnar, sem þurfa að túlka þetta erlendis, ef Íslendingar sjálfir vildu sýna það og sanna með beinni samþykkt frá Alþ., að þeir væru reiðubúnir að gera friðunarráðstafanir ekki einasta utan við 12 mílurnar, eins og gert er ráð fyrir í till., heldur einnig innan við 12 mílurnar. Þetta mundi að mínum dómi setja allt annan og miklu betri blæ á málið, ef allar þjóðir fengju um það vitneskju, að okkur væri full alvara í því sambandi við það skref, sem við erum að stíga í þessum málum, að miða fyrst og fremst aðgerðir okkar við friðunarráðstafanir til þess að vernda fiskistofnana hér á landgrunninu. En ekki að ofnýta þá, hvorki af okkur sjálfum né leyfa öðrum þjóðum að gera það.

Sá atburður hefur orðið síðan þetta mál bar hér á góma síðast á Alþ. í sambandi við friðunarráðstafanir, — og á ég þar við 2. liðinn, að ákveðin skuli friðunarsvæði á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisks á landgrunninu og út að ytri mörkum þess, — að forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, Ingvar Hallgrímsson, kom fram í sjónvarpsviðtali við fréttamann 22. nóv., og þar var hann spurður einmitt um þetta atriði. Fréttamaðurinn spyr: En hve alvarlegt er þetta seiða— og smáfiskadráp í raun og veru? Hve mikið er í húfi? Þetta er spurning fréttamanns sjónvarpsins. Svar forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar var þannig, með leyfi forseta:

„Ég held, að það sé mjög mikið í húfi. Við getum tekið t.d. þorskárganginn frá 1964, sem var mjög stór. Hann var byrjað að veiða hér við land 1968, en í svo miklum mæli, að af þeim smáfiski, sem var veiddur við landið, af smáþorski, var helmingurinn árgangurinn frá 1964, og þessu hefur verið haldið áfram. Við bjuggumst við því, að þessi fiskur kæmi fyrst til hrygningar á síðustu vetrarvertíð hér sunnan- og vestanlands, en hann kom ekki. Og það læðist náttúrlega að sá grunur, að það hafi einmitt verið vegna þess, hve mikið hafi verið gengið á hann, á meðan hann var ókynþroska. Athuganir Kanadamanna staðfesta þetta líka eða ganga í sömu átt. Þar var þessi árgangur mjög sterkur, þorskurinn frá 1964 og var mikið veiddur utan við strönd Kanada 1967, þegar hann var þriggja ára. Þá veiddu Rússar mjög mikið af honum, en svo tveimur árum síðar, 1969, þegar hann var fimm ára, þá fannst hann svo til ekki. Hann hafði allur verið urinn upp sem ókynþroska fiskur og fannst yfirleitt ekki á miðunum eða í sáralitlum mæli. Og þetta er náttúrlega mikið víti til varnaðar.“

Þetta segir forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar íslenzku í sjónvarpsviðtali 22. nóv. s.l. Ég tel, að ráðamönnum þjóðarinnar beri bein skylda til þess að taka tillit til þeirrar afstöðu, sem þarna kemur fram og álits þessa fiskifræðings okkar.

Hæstv. sjútvrh. taldi, að við gætum raunar ekkert í þessum málum gert í sambandi við friðun uppeldisstöðva ungfisks fyrir Norðausturlandi nema fyrir lægi álit fiskifræðinga. Hann taldi, að það væri ágreiningur um þetta. Aðallega væru það erlendir fiskifræðingar, sem þarna stæðu í veginu, en þegar fram kemur jafn skýlaus yfirlýsing frá forstöðumanni Hafrannsóknastofnunarinnar íslenzku, þá tel ég, að ráðamönnum íslenzku þjóðarinnar beri að taka fullt tillit til þess og stíga það skref, sem þarna er lagt til í þeirri till., sem hér er til umr. og sjálfsagt fyrst og fremst vegna þess, að þar kemur greinilega fram mjög ákveðinn ótti við það, að við séum þegar búnir að ganga of langt, hvað þá ef við höldum þessum ótakmörkuðu veiðum áfram, eins og nú á sér stað. Ég tel því, að einmitt þessi liður mundi vinna landhelgismálinu og fiskveiðimálum okkar í heild gagn, að tryggja, að fiskurinn fái að alast upp og verði síðan veiddur, þegar hann er orðinn fullþroska eða kominn á það stig, þegar eðlilegt er, að hann verði veiddur. Einnig er ég sannfærður um, að þetta mundi vekja almenna athygli erlendis, ef Íslendingar stígu þetta skref að byrja jafnhliða ákvæðum um útfærslu landhelginnar að gera beinar friðunarráðstafanir, sem að sjálfsögðu kæmu við þeirra fiskveiðar eins og annarra þjóða á þessu svæði.

Um 3. liðinn, friðun hrygningarsvæða, taldi hæstv. ráðh. einnig, að ekki væri samdóma álit fiskifræðinga og þess vegna væri erfitt að gera nokkrar ráðstafanir í sambandi við það. Ég skal alveg viðurkenna, að fiskifræðingar hafa þar verið íhaldssamari, en þarna kemur fram í þessu áliti, sem ég var nú að lesa. Hins vegar er ég sannfærður um það, að einnig í sambandi við friðun hrygningarsvæða fyrir Suðurlandi og Suðvesturlandi og víðar, er að verða stefnubreyting hjá fiskifræðingunum. Ég tel orðið mjög athugandi, hvort við séum ekki einnig þar að ganga of langt og séum farnir að stunda rányrkju á hrygningarsvæðunum. Þeir hafa enn þá ekki viljað láta hafa eftir sér beinar yfirlýsingar um þetta, en ég hygg, að þeirra afstaða sé, sem betur fer segi ég, einnig að breytast í því sambandi þannig að ég tel, að ráðamenn þjóðarinnar eigi nokkuð að leggja upp úr því að kanna það til hlítar, hvort þessar ráðstafanir eru ekki einnig jafnnauðsynlegar og nú liggur ljóst fyrir, að fiskifræðingar telja að friðun á hrygningarsvæðum eða uppeldisstöðvum ungfisks sé.

Ég skal nú ekki tefja þessar umr. meira. Þær eru orðnar alllangar, eins og eðlilegt er. Hér er um stórmál að ræða, landhelgismálið í heild, en ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að ég harma það, að ekki skuli hafa náðst, þegar áður en þing kom saman, samstaða milli stjórnarflokkanna um að hafa eitt sjónarmið í málinu til túlkunar á erlendum vettvangi, en mér vitanlega var ekki reynt af núv. ráðamönnum að ná slíku samkomulagi. Eina samþykktin, sem gerð hefur verið um þetta, þó að það væru einnig tvö sjónarmið þar, er samþykktin, sem gerð var á s.l. vori. Hún er mér vitanlega enn í fullu gildi og þar er landgrunnsstefnan fyrst og fremst túlkuð. Það má að sjálfsögðu snúa á marga vegu út úr því, þegar menn eins og hæstv. sjútvrh. vilja hafa sig til þess. Það má vitanlega snúa út úr öllum málum, en grundvallarsjónarmiðið er það, að við tileinkum okkur landgrunnið allt, þegar útfærslan á sér stað. Það átti að vera meginverkefni þeirrar nefndar, sem átti að semja lög um landgrunnið, svo að þetta er ekkert nýtt mál. Þetta er sú eina samþykkt, sem enn þá er í gildi í sambandi við þessi mál og hefði vissulega verið betra og heillavænlegra fyrir alla aðila og þjóðina í heild, að allir flokkar hefðu getað sameinazt um þá stefnu, sem Alþ. tók s.l. vor og enn þá er í fullu gildi.