18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í D-deild Alþingistíðinda. (4226)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan, að hann þekkti meira til karfaveiða en ég og það væri nú meira að marka, hvað hann segði um þessi mál en ég. Ég vil nú ýmislegt gera fyrir hæstv. sjútvrh., m.a. skal ég láta það eftir honum, að hann viti miklu meira um karfaveiðar en ég og að ég viti bara tiltölulega mjög lítið um þær. Svo vonast ég til þess, að hann gangi nú til samkomulags við mig um það eftir þessa yfirlýsingu, að Gunnar Auðunsson skipstjóri viti nú enn meira en hæstv. sjútvrh. og ég til samans. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið 2. nóv.:

„Verði útfærsla íslenzku landhelginnar bundin við 50 sjómílur, munu karfamið togaranna okkar lenda utan landhelgi. Aðalkarfamið togaranna eru vestur af Jökultungu, norður fyrir Víkurál“, sagði Gunnar Auðunsson, og hann bætti við: „Á þessu svæði fást um 80% af karfanum utan 50 mílna, en sáralitið veiðist utan 400 metra dýptarlínunnar.“

Að vísu dró hæstv. ráðh. svolítið í land. Hann sagði, að karfi hefði nú fengizt, en hann hefði verið smár, en karfi var það samt. Læt ég svo útrætt um karfaveiðar við hæstv. ráðh. í bili.

Hv. 5. þm. Reykv. svaraði hæstv. ráðh. ítarlega í sambandi við samkomulagið við Breta og Vestur–Þjóðverja frá árinu 1961. Ég verð nú að segja eins og er, að það er orðið þreytandi að hlusta á þessar fullyrðingar hæstv. sjútvrh. í sambandi við samkomulagið við Breta. Það er eins og þetta samkomulag sé einhver þrándur í götu þess, að hægt sé að taka þá mikilvægu ákvörðun að færa landhelgina út. Hvað er þetta samkomulag? Hvað er eftir af þessu samkomulagi? Jú, þetta samkomulag er í fjórum greinum. 1. gr. er sú, að ríkisstjórn Bretlands fellur frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, sem mæld er frá grunnlínu samkv. 2. gr. þessa samkomulags, og er þá eingöngu átt við fiskveiðilögsögu.

2. gr. samkomulagsins er, að grunnlínur þær, sem miðað er við í 1. gr., verði hinar sömu og ákveðnar eru í reglugerð nr. 70 frá 30. júní 1958 með þeim breytingum, að grunnlínur verði dregnar milli eftirfarandi punkta, eins og þá kemur til. Landhelgi Íslands var með þessu samkomulagi stækkuð. Þetta er orðinn hlutur og er löngu orðinn að veruleika. Allt var þetta okkur til mikils góðs.

3. liðurinn er, að í þrjú ár frá dagsetningu þess svars, sem íslenzku ríkisstj. barst við orðsendingu sinni, þá mun hún ekki hindra, að skip, sem skrásett eru í Bretlandi, stundi veiðar á svæði milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögu, sem um getur í 1. og 2. gr., á tilteknum svæðum og tímum, sem upp eru talin. Þetta er líka löngu liðið.

Þá kemur 4. atriðið. Á áður greindu þriggja ára tímabili er þó skipum, sem skráð eru í Bretlandi, óheimilt að stunda veiðar á svæðinu milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar, sem um getur, á eftirtöldum svæðum, eins og þá er talið upp. Það er líka búið að vera.

Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með sex mánaða fyrirvara. (Gripið fram í.) Ég er ekki búinn. Það verður að taka þessu rólega. Það liggur ekkert á. Og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til Alþjóðadómstólsins.

Það er hægt að tilkynna útfærslu fiskveiðilögsögunnar hvenær sem er með sex mánaða fyrirvara. Þetta hefur íslenzka ríkisstj. og Alþ. í hendi sér að gera, og það er hægt að færa út lögsöguna, hvað sem Bretar eða Vestur-Þjóðverjar segja. En þeir eiga aftur rétt á því að skjóta þessu máli til Alþjóðadómstólsins eða við, ef við viljum.

Núv. hæstv. ríkisstj. tók upp viðræður við stjórn Bretlands og stjórn Vestur-Þýzkalands á s.l. hausti og hún sendi hæstv. utanrrh. til þeirra viðræðna. Hún sagði ekki upp þessu samkomulagi um leið og hún óskaði viðræðna við þessar stjórnir. Þessar viðræður hafa farið fram og ég veit ekki betur, en að þeim sé ekki lokið. Eigum við þá jafnframt, á meðan verið er að leysa mál eftir diplómatískum leiðum og skynsamlegum leiðum, að bjóða upp á kurteisar viðræður og gefa þeim svo, þegar þær standa sem hæst, utan undir? Eigum við ekki að vita, hvernig þessum viðræðum lyktar? Og eigum við þá ekki að taka ákvörðun í þessu máli, hvað snertir þessa uppsögn?

Ég skal hugga hæstv. sjútvrh. með því , að það er ekkert víst, hvaða afstöðu Sjálfstfl. sem slíkur tekur. Hann verður að meta þessar viðræður, þegar þær eru komnar á það stig. En hann þarf ekki að óttast það, að Sjálfstfl. muni koma aftan að ríkisstj. eða þjóðinni, því að hann er staðráðinn í að standa með aðgerðum í landhelgismálinu og vinna sigur í þessum aðgerðum, sem fram undan eru, eins og í öðrum, sem hann hefur tekið þátt í frá því að barátta um útfærslu fiskveiðilögsögunnar hófst.

Hæstv. sjútvrh. líkaði ekki ályktun LÍÚ. Ég get nú ekki gert neitt fyrir hann í þeim efnum, því að það er búið að gera þessa ályktun. Og hann ræddi um þær umr., sem fóru fram um þessa ályktun á aðalfundi LÍÚ. Vitaskuld eru alltaf til einhverjir úrtölumenn í öllum félagsskap. Og það voru þarna örfáar úrtöluraddir, en það var hægt að telja þær á fingrum annarrar handar, meira að segja þótt einn eða tvo putta hefði vantað. Ályktunin var samþykkt af öllum þorra fundarmanna.

Hæstv. ráðh. ætlaði heldur betur að koma mér í opna skjöldu í sambandi við jafndýpislínuna og sagði, að þótt farið væri í 400 metra jafndýpislínu, þá mundi landhelgislínan úti fyrir Vestfjörðum ekkert færast út. Ég skal segja hæstv. ráðh. það, að línan færist auðvitað allmjög út frá því, að við förum suður fyrir Reykjanes og norður undir Arnarfjörð. En ég skal segja honum jafnframt frá því, að mið vélbátaflotans frá Djúpi, að ég tali nú ekki um sunnar á Vestfjörðum, ná alllangan tíma á árinu suður á Breiðafjörð. Og mið vélbátanna á sunnanverðum Vestfjörðum eru eingöngu á þessu svæði. Vona ég, að við þurfum svo ekki að karpa meira um þetta atriði.

Ég ætla sérstaklega vegna ræðu hv. 1. þm. Vestf. að benda honum á, að á aðalfundi Útvegsmannafélags Vestfjarða var samþykkt ályktun í þessu efni. Þar kemur fram í grg. með þeirri ályktun, sem m.a. var send Alþ., orðrétt:

„Þar sem komin er fram á Alþ. þáltill. um, að yztu mörk fiskveiðilandhelginnar verði miðuð við 50 sjómílur frá grunnlínupunktum, þá vill Útvegsmannafélag Vestfjarða ekki láta hjá líða að benda á þá stórkostlegu hættu, sem felst í því að láta nokkurn hluta af landgrunninu verða áfram utan fiskveiðilandhelginnar. Þetta gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulíf á Vestfjörðum, þar sem staðhættir valda því, að verulegur hluti af yztu brún landgrunnsins út af Vestfjörðum verður utan 50 sjómílna markanna. Þarna ber og að hafa í huga, að þar eru ein beztu fiskimið í Norður–Atlantshafi, sem er landgrunnsbrúnin, er snýr að hafdýpinu milli Íslands og Grænlands, og þar með hluti af hinum víðfrægu Halamiðum.“

Mér finnst mjög hafa dregið af hv. 1. þm. Vestf. í þessu máli frá því að við gerðum viðreist í byrjun júnímánaðar, en þá var hann mjög galvaskur. Þá talaði hann mjög um útfærsludaginn. Ég held, að hann verði alls ekki lengur neitt deiluefni. Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir. Og um eitt erum við þó öll sammála, að við viljum stækka landhelgi okkar og nýta sem bezt fiskimiðin í kringum landið.

Hv. 5. þm. Reykv. tók af mér ómakið að svara hv. 1. þm. Vestf., sem gerði ágæta reisu, sem þegar er kunnugt, allt til Nígeríu. Og þar voru þær þjóðir, sem sóttu þá ráðstefnu, mjög á sama máli og við og vildu meira að segja fara út í 200 sjómílur. Ég trúi því ekki, að það þurfi endilega að senda aftur fulltrúa til að tryggja liðsinni þessara þjóða til að fá þessa skák af landhelginni út fyrir 50 mílur, eða út í 400 metra jafndýpislínu. En ef svo fari, að þeir væru ekki tryggir, þá mundi ég vilja styðja það og greiða atkv. með því, að hinir sömu ágætu sendimenn yrðu sendir aðra ferð.

Mér finnst leitt til þess að vita, hvað hæstv. sjútvrh. hefur tekið neikvætt á þessu máli. Ég hef aldrei vænt hann um það að vera að draga af sér í sambandi við baráttu við útfærslu landhelginnar. Þess vegna kemur það mér og öðrum mjög á óvart, hvað hann tekur neikvæða afstöðu í sambandi við það að færa landhelgislínuna út í 400 metra jafndýpislínu.

Það ætti hvorki að koma hæstv. sjútvrh. eða hv. 1. þm. Vestf. á óvart, að í landgrunnslögunum frá 1948 segir, að miða beri íslenzkt yfirráðasvæði við endimörk landgrunnsins, og var þá átt við, að dregnar væru beinar línur þvert yfir djúpála þess, svo sem gert hefur verið í framkvæmd. Ekki er sagt í lögunum, við hvaða dýpi skuli miðað, en í aths. við frv. að lögunum segir, að landgrunnið sé nú talið greinilega afmarkað á 100 faðma dýpi, en nauðsynlegt sé, að nákvæm rannsókn fari fram á því, hvort eðlilegra sé að miða við annað dýpi.

Ég frábið mér það að heyra oftar, að till. okkar sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna, sem samþykkt var á síðasta Alþ., hafi ekki markað ákveðna stefnu. Í upphafi till. er gert ráð fyrir því, að frv. skuli samið og lagt fyrir næsta Alþ., en það kemur greinilega fram og um það verður ekki deilt af mönnum, sem vilja lesa þessa þál. Alþ. og þá grg., sem henni fylgdi, að höfuðnauðsyn er, að framkvæmd landgrunnslaganna frá 1948 sé jafnan þannig hagað, að markvisst verði haldið áfram að vinna að nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að tryggja óskertan rétt Íslendinga á landgrunnssvæðinu. Með þeim hætti yrði fiskveiðilandhelgin 50 mílur eða meira. Þarna er eitt orð „eða“, en svo kemur „meira“ á eftir. En landhelgin kynni þó að vera mismunandi breið eftir því, hvort við dýptarlínur eða fjarlægð frá grunnlínum yrði endanlega miðað.

Þetta er nákvæmlega hið sama og kemur fram í þeirri þáltill., sem liggur hér til umr. Þess vegna er þetta mál ekkert nýtt. Þessi þáltill., sem borin var fram á s.l. vori og er samþykkt sem ályktun Alþ., hún er vafalaust til í þýðingu hjá þeim þjóðum, sem við er að semja og þess vegna hefði það ekki þurft að koma þeim á óvart, sem við erum nú að óska eftir samkomulagi um við hæstv. ríkisstj. og hæstv. þingmeirihluta, sem að henni stendur.