30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í D-deild Alþingistíðinda. (4238)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 59 hef ég ásamt átta öðrum þm. Sjálfstfl. leyft mér að bera fram till. til þál. um endurskoðun orkulaga. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar endurskoða orkulög, nr. 58 29. apríl 1967, með það fyrir augum, að komið verði á sérstökum orkuveitum landshluta, er taki við verkefnum Rafmagnsveitna ríkisins. Aðilar að þeim landshlutaveitum gætu einnig orðið aðrar rafveitur, sem fyrir eru á hverju svæði.

Þá skal einnig athuga, hvort ekki sé rétt, að ákvæði IV. kafla laganna, um Rafmagnseftirlit ríkisins, verði í sérstökum lögum og að stofnun sú heyri beint undir ráðh.

Enn fremur. skulu ákvæði laganna um hlutverk Orkustofnunar endurskoðuð, svo og önnur ákvæði, ef þurfa þykir.“

Seint á síðasta þingi var borin fram till., sem var samhljóða þessari till., en náði á eigi að hljóta fullnaðarafgreiðslu. Till. er því nú endurflutt.

Orkulögin, sem hér er lagt til að endurskoða, eru, svo sem fram kemur í tillgr., frá 29. apríl 1967 eða rúmlega 41/2 árs gömul. Allt fyrir það þó að löggjöfin sé ekki eldri, teljum við flm. till. það vera bæði tímabært og nauðsynlegt, að orkulögin séu nú endurskoðuð með það fyrir augum að gera á þeim verulegar breytingar eða a.m.k. sumum köflum laganna. Nú nálgast óðum, að íslenzka þjóðin öll fái notið þeirra lífsþæginda, sem raforkan veitir. Það er því sérstök ástæða til þess, að nú verði mörkuð sú stefna, sem ríkja á til frambúðar í þeim efnum, sem veit að stjórnun og rekstri rafveitnanna. Tveim árum áður en orkulögin voru samþ. á Alþ. voru samþ. á Alþ. lög um Landsvirkjun, en þar er gert ráð fyrir vissri sameign ríkis og sveitarfélaga hvað varðar orkuframleiðslu og dreifingu orkunnar með samveitum.

Eins og ég hef þegar sagt, er nú aðeins um endasprettinn að ræða hvað viðvíkur lagningu á samveitukerfi til þeirra bæja, sem talið er að komi til greina með að fá rafmagn frá samveitum. Ég hygg, að flestir séu sammála um það, að á meðan uppbygging rafveitukerfisins um hinar dreifðu byggðir landsins hefur átt sér stað, hafi það verið eðlilegt, að sú framkvæmd ætti sér stað undir forustu ríkisins eða ríkisstofnunar. Kemur þar til m.a. að stór hluti af því fjármagni, sem staðið hefur undir kostnaðinum, er bein framlög úr ríkissjóði. En þegar þessum þætti rafvæðingarinnar er nú að ljúka, er fyllilega eðlilegt, að tekið sé til athugunar, á hvern hátt hagkvæmast muni reynast til frambúðar að haga rekstri rafmagnsveitnanna. Hvað þessa hlið málsins snertir er það álit okkar flm. till., að hagkvæmast muni reynast að skipta landsbyggðinni í sérstök orkuveitusvæði eftir landfræðilegum mörkum og kemur þá m.a. til greina að miða stærð orkuveitusvæðanna við kjördæmaskipunina, eins og hún er í dag. Fyrir þessari skipan raforkumálanna hygg ég, að sé mikill og vaxandi áhugi um land allt. Svo sem kunnugt er, eru nú þegar fyrir hendi í öllum landshlutum orkuver, sem munu þá verða grundvöllurinn að þessum landshlutaveitum.

Eins og nú á sér stað, hafa Rafmagnsveitur ríkisins á hendi rekstur samveitna víðs vegar um landið. Þessum rekstri er stjórnað frá einni aðalskrifstofu hér í höfuðborginni. Það gefur auga leið, að slíkri fjarstýringu fylgja ýmsir annmarkar, sem ekki verður komizt hjá og óhjákvæmilega fylgja slíkri skipan. Ég vil þó taka það sérstaklega fram, að ég tel, að stjórn og forstaða Rafmagnsveitna ríkisins sé í höndum ágætra starfsmanna. Hitt er svo annað mál, að mörgum finnst þungt í vöfum að sækja allt sitt til höfuðborgarinnar og telja, að stjórnun þessara mála eigi frekar að vera heima í héruðunum sjálfum en fjarstýrð frá Reykjavík, eins og nú á sér stað. Það er því okkar álit, að þessum þætti raforkumálanna ætti að skipa með sérstökum lögum og þá með þeim hætti, sem fram kemur í tillgr.

Annar þáttur raforkumálanna, sem lagt er til að endurskoða, er raforkugjaldið og ráðstöfun þess fjármagns. Ég tel, að það sé fullkomlega eðlilegt, að tekið sé raforkugjald í einhverju formi, sem renni í sérstakan sjóð, er verja skal til að jafna aðstöðu ýmissa byggðarlaga til raforkunotkunar. Sá sjóður ætti fyrst og fremst að veita framlag til stofnkostnaðar, t.d. til lagningar á dreifilínum eða á þeim stöðum, þar sem kostnaður er hvað mestur vegna mikilla fjarlægða á milli býla.

Það hefur ekki farið leynt, að mörgum finnst óeð1ilegur og ósanngjarn sá mismunur, sem á sér stað á rafmagnsverði í landinu. Ástæðuna fyrir því má að sjálfsögðu rekja til fleiri orsaka. Ég tel hins vegar, að þegar samveitukerfið er að mestu leyti komið um landið og hinir nýju aðilar, landshlutaveiturnar, kaupa rafmagnið í heildsölu af Landsvirkjun, þá verði auðveldara að skapa meira jafnvægi í raforkuverðinu og þá muni koma í ljós, að með þessu nýja formi skapist meiri hagsýni í rekstrinum. Því að þá finnur hver og einn til meiri ábyrgðar en ella og skapast jafnframt samkeppni um að ná sem mestri hagkvæmni í sjálfum rekstrinum.

Annar þáttur raforkumálanna, sem full ástæða er til að endurskoða, er verðjöfnunargjaldið sjálft og ráðstöfun þess fjármagns. Og það er, eins og ég hef þegar vikið að, eðlilegt að verja þessu fjármagni til að taka þátt í þeim mikla stofnkostnaði, sem verður víðs vegar um landið umfram það, sem aðrir eiga við að búa. Ég tel það eðlilegra vegna þess, að ég tel, að það eigi að gilda það sama varðandi reksturinn á hverjum stað og þar eigi hver og einn að standa undir sínum rekstrarkostnaði. Þegar samveitukerfið er komið um allt landið og hinar nýju landshlutaveitur eiga þess kost að fá raforkuna keypta á heildsöluverði frá Landsvirkjun, að svo miklu leyti sem ekki er þá um það að ræða, að raforkan sé frá þeirra eigin orkuveitum, þá verður auðveldara að skapa þetta jafnvægi á raforkuverðinu og þá mun koma í ljós, að það mun verða minni mismunur á sjálfu orkuverðinu, en nú á sér stað í dag. Ég tel því , að þann skatt, sem lagður er á orkuverin, svokallað verðjöfnunargjald, eigi fyrst og fremst að nota til þess að færa niður stofnkostnað á dreifilínunum, en ekki til almenns rekstrar.

Þá er í þessari till. gert ráð fyrir því, að athugað verði sérstaklega, hvort ekki sé rétt, að Rafmagnseftirlit ríkisins verði tekið út úr orkulögum og verði þá sett sérstök, sjálfstæð löggjöf um þessa stofnun og hún heyri þá beint undir rn. eða ráðh. Slíka skipun verður að telja eðlilega, þar sem hér er um að ræða stofnun, sem gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í öryggismálum.

Raforkumálin og skipan þeirra eru nú ofarlega á dagskrá í hinum ýmsu landshlutum. Má því vissulega gera ráð fyrir því, að áhrifa frá dreifbýlinu muni gæta í sambandi við þá endurskoðun orkulaga, sem hér er lagt til, að eigi sér stað.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.