20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (4243)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er nú alllangt síðan þáltill. sú, sem hér er á dagskrá, var rædd við fyrri umr. eða fyrri hluta þessarar umr. Hæstv. iðnrh. var þá ekki viðstaddur og ekki heldur, þegar til stóð, að till. yrði tekin til framhaldsumræðu. Það er því eðlilegt, að á þessu hafi orðið dráttur, en ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að rifja upp ítarlega efni till. Það var gert af hv. 1. flm. hennar hér, þegar hann gerði grein fyrir málinu.

Eins og till. ber með sér, er um nokkuð aðra stefnu að ræða, sem hún leggur til, en verið hefur. Hún gerir ráð fyrir frekari ítökum sveitarfélaga í sambandi við dreifingu raforku og er þessi stefna vissulega í samræmi við það, sem vitað er að gildir hjá nágrannaþjóðum okkar. Ég hef aflað mér upplýsinga um, hvernig þessum málum er fyrir komið hér á Norðurlöndum, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, að því er varðar framleiðslu raforkunnar og þá einnig, hvernig dreifingu hennar er háttað, þegar til smásölunnar kemur. Samkv. þeirri skýrslu, sem ég hef fengið um þetta, hagar þessu þannig til, að í Danmörku hefur ríkið engin afskipti af framleiðslu orkunnar, hvorki í heildsölu eða smásölu. Þar er um að ræða sveitarfélög og einkaaðila, samvinnufélög eða hlutafélög, en ríkið kemur þar hvergi nærri. Í Noregi mun ríkið framleiða eða annast frumframleiðslu á orkunni að því er nemur um 30%, sveitarfélög um 47% og aðrir aðilar um 23%. Dreifing er þar ekki heldur samkv. þeim skýrslum, sem ég hef um þetta, neitt á vegum ríkisins, heldur í höndum sveitarfélaga og annarra aðila. Í Svíþjóð er þessu þannig háttað, að þar eru 44% framleiðslunnar hjá ríkinu, 5% hjá bæjar— og sveitarfélögum og 51% hjá öðrum aðilum. Ríkið hefur mjög lítil afskipti af dreifingunni þar, aðeins um 6%, sveitar– og bæjarfélög um 62% og aðrir aðilar um 32%.

Eins og vitað er, annast ríkið eða fyrirtæki, sem eru á vegum ríkisins, verulegan hluta af framleiðslu hér á landi, þó ekki allri. Þar er einnig um að ræða einstök sveitarfélög, sem annast framleiðslu á raforku, eins og Andakílsárvirkjun o.fl. og dreifing er ýmist í höndum Raforkumálaskrifstofu ríkisins eða í höndum sveitar—og bæjarfélaga.

Flm. þessarar till. telja, að stefna beri að því að færa dreifingu raforkunnar sem mest í hendur sveitarfélaga eða samtaka sveitarfélaga, landshlutasamtaka þeirra, láta þau annast um þetta, en hafa Raforkumálaskrifstofuna þar ekki sem millilið. Við viðurkennum alveg, að Raforkumálaskrifstofan hefur á undanförnum áratugum unnið mjög þarft verk í sambandi við uppbyggingu raforkukerfisins. Sérstaklega er þar um að ræða rafvæðingu sveitanna og strjálbýlisins, en nú fer að sjást fyrir endann á því. Þessi uppbygging er að komast á lokastig samkv. þeirri áætlun, sem lögð hefur verið á borð þm. Stendur til, að þessu ljúki á næstu þremur árum og þá telja flm. þessarar till. það orðið tímabært, að gerð verði veruleg breyting á um dreifingu raforkunnar, þannig að bæjar– og sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga taki þetta mál í sínar hendur. Við sjáum ekki ástæðu til þess að vera að hafa þarna millilið, sem auðvitað þarf að leggja á orkuna, því að allir þurfa að fá fyrir sitt og er þar um allverulega álagningu að ræða á verð Landsvirkjunar, þar sem Raforkumálaskrifstofan kaupir orkuna, til hækkunar á það verð, sem hún selur einstökum rafveitum orkuna á. Við teljum, að við þetta megi sleppa og ekki sé ástæða til þess að hafa þarna neinn millilið, því að víðast megi koma málum þannig fyrir, að þess sé ekki þörf. Ég vil t.d. benda á það, að ef Landsvirkjun leggur línu niður að Hvolsvelli og selur orku þar frá spennistöð, eins og hún gerir niður við Sog, þá er það mjög einfalt fyrir sveitarfélög á Suðurlandi að taka að sér dreifingu raforkunnar og ættu þau að vera þess mjög vel umkomin að ráða við það. Með því móti gætu þessir aðilar orðið beinir samningsaðilar við Landsvirkjun eins og landsvirkjunarlögin ekki aðeins heimila, heldur gera beinlínis ráð fyrir. Í 2. gr. laga um Landsvirkjun er það tekið fram, að hlutverk Landsvirkjunar skuli vera að selja raforku til rafveitna einstakra sveitarfélaga og annarra aðila.

Ég vildi í sambandi við þetta mál, af því að hæstv. iðnrh. er nú hér, sérstaklega beina þeirri fsp. til hans, hver sé hugmyndin um þessi mál í framtíðinni. Það hefur heyrzt ómur af því, að um verulega stefnubreytingu sé að ræða frá því, sem nú er, í þveröfuga átt við það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að hafa þar kannske aðeins ríkisvaldið sem heildsöluaðilann, framleiðandann og heildsöluaðilann, en láta síðan Raforkumálaskrifstofuna taka við dreifingunni í enn ríkara mæli en nú er gert. Ég vil ekki fara dult með það, að ég tel þarna stefnt í mjög ranga átt og mætti að mínum dómi og okkar flm. koma þessu fyrir á miklu einfaldari hátt með því að láta þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli, kaupa orkuna endanlega, hinar einstöku rafveitur sveitarfélaganna, láta þær annast dreifinguna og sleppa við milliliðinn.

Raforkumálaskrifstofan er orðin geysilega stórt fyrirtæki hér á landi. Hún hefur þróazt upp, sem eðlilegt er, meðan hún hafði með mikið af uppbyggingu raforkunnar að gera. Það er eðlilegt, að hún þróaðist í stórt fyrirtæki. Hún er eitt af viðameiri fyrirtækjum landsins eða hins opinbera og rekstur hennar kostar án efa mjög mikla peninga, enda sýna fjárlög það og á þessu hefur verið sífelldur halli undanfarin ár, svo að skiptir tugum millj. Mig minnir, að það séu 60—70 millj., sem hefur þurft að leggja þessu fyrirtæki til eða þessari starfsemi og hafa orkuneytendur í landinu almennt beinlínis verið skattlagðir til þess að endar næðust þar saman á þeim grundvelli, sem hún rekur starfsemi sína. Ég mundi halda, að það væri sjálfsagt að freista þess, hvort ekki væri hægt að komast fram hjá þessu, ef þeir aðilar, sem endanlega kaupa orkuna, þ.e. aðilar í hinum einstöku sveitarfélögum landsins eða kaupstöðum, vilja taka þessi mál í sínar hendur. Þá ætti að vera hægt að sleppa þarna við mjög dýran millilið, eins og ég hef áður sagt. Þó að einhver kostnaður verði að sjálfsögðu við dreifingu raforkunnar, eins og hlýtur að verða, þá teljum við, að hann geti orðið mun lægri með því fyrirkomulagi, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir og er það að sjálfsögðu ástæðan fyrir flutningi hennar hér.

Ég vil leyfa mér að endurtaka fsp. mína til hæstv. iðnrh., hvort á döfinni sé veruleg stefnubreyting, eins og heyrzt hefur, í sambandi við raforkumálin í heild, því að það er að sjálfsögðu eðlilegt, að alþm. hafi nokkurn áhuga fyrir því. Mér er það ljóst, að um það eru skiptar skoðanir hér á Alþ., hvernig beri að standa að þessum málum. Sumir telja, að það beri að standa að þeim eins og verið hefur, að hafa þennan millilið áfram. Aðrir telja, að málin hafi þróazt þannig, að þessi milliliður sé að verða óþarfur og verði óþarfur í framtíðinni og að orkukaupendur geti sjálfir tekið raforkuna í heildsölu og annazt dreifinguna.