20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í D-deild Alþingistíðinda. (4246)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Það var nú aðeins út af þessari fsp. um það, hvort ríkisstj. hefði látið hanna háspennulínu frá Þjórsársvæðinu til Norðurlands. Það hefur ekki enn þá verið gert. Það hefur verið talað um, að þessa línu væri hægt að leggja sumurin 1973 og 1974, þannig að línan gæti verið komin í gagnið á svipuðum tíma og raforkuskortur yrði norðanlands. Kostnaður við þessa framkvæmd hefur verið áætlaður um 300 millj. kr., en ég hef litið þannig á, að þessar orkuveitulínur verði að fjármagna með alveg sérstökum hætti, þannig að ekki sé hægt að reikna flutningskostnað eftir þeim samkv. neinum venjulegum reglum, heldur verði að greiða niður flutningskostnað eða afskrifa hann að einhverju verulegu leyti. Ég hugsa mér, að þetta samtengingarkerfi, sem þarna er um rætt, mundi leiða til þess, að heildsöluverð á raforku yrði það sama um allt land. Og ég hygg, að það sé ekki neitt stærra hagsmunamál fyrir dreifbýlissvæðin og ekki sízt fyrir Norðurland en að fá raforku á sama heildsöluverði og raforka er fáanleg hér fyrir sunnan. Ég vil einnig minna menn á það, að þessi samtenging, sem þarna er rætt um, er alger forsenda þess, að hægt verði að ráðast í meiri háttar virkjanir fyrir norðan, og ég vil vara menn mjög við því að ímynda sér, að við getum leyst okkar raforkumál hér á Íslandi án þess að líta á þær sem samfelldar framkvæmdir í samhengi. Ég vil benda mönnum á það, að raforkumarkaðurinn á Íslandi er ekki stærri en svo, að það verður að vera einn öflugur aðili, sem þarna annast alla raforkuframleiðslu og hagkvæmni í raforkuframleiðslu er algerlega bundin því, að við getum tekið upp slíka tilhögun hér á landi.

En sem sagt, ráðagerðirnar um lagningu háspennulínu norður eru ekki komnar á það stig, að hún hafi verið hönnuð. Það hefur aðeins verið kannað af hálfu Orkustofnunar, hvaða vinnubrögð væru skynsamleg í því sambandi.