20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (4247)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var aðeins út af einum ummælum hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, 5. þm. Norðurl. e., sem ég vildi segja tvö, þrjú orð. Ég tók svo eftir, að hann segði, að það væri ágreiningur á milli ríkisstj. og Norðlendinga um orkumál. Mér finnst þetta nokkuð mikið sagt. Í fyrsta lagi er ég nú ekki viss um, að hann hafi umboð til þess að tala fyrir munn allra Norðlendinga. Í öðru lagi held ég, að því miður sé það svo, að það sé nokkur ágreiningur í Norðlendingafjórðungi um þessi mál og meðal Norðlendinga sjálfra. Í þriðja lagi vil ég undirstrika það, að ríkisstj. hefur lýst því yfir eða iðnrn., að nú á næstunni mundu verða kannaðir allir virkjunarmöguleikar á Norðurlandi mjög rækilega og það mundi verða látin fara fram m.a. fullnaðarkönnun á Dettifossi. Auðvitað get ég ekki sagt um, hversu fljótt er unnt að vinna þetta verk, en það verður gert og ég hygg, að þetta sé í samræmi við óskir Norðlendinga.

Þetta vil ég leyfa mér að undirstrika, vegna þess að ég held, að það sé engum til góðs að gera of mikið úr því, að ágreiningur sé um starfsaðferðir í þessum efnum.

Ég hef verið talsmaður þess, að það væri heppilegt fyrir hvert hérað að eiga innan sinna vébanda raforkuver. En ég hef alltaf sagt og segi það enn og segi það á Norðurlandi líka, að aðalatriðið í þessum málum er þó það, að menn fái nægilegt rafmagn, hvaðan sem það kemur og að þeir fái það á sambærilegu verði og aðrir, og það er það, sem ég held, að við eigum að leggja áherzlu á og það er það, sem ég held, að Norðlendingar eigi að leggja áherzlu á.