20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (4248)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta nokkra ánægju mína í ljósi yfir því, sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, ef ég hef skilið hann rétt, að það væri skoðun stjórnarinnar og það væri í vændum við þá endurskoðun, sem hann lýsti hér, að mundi fara fram á raforkulögunum, lögum um raforkumál almennt, að veita landshlutasamtökum eða landshlutum frekari ítök en nú er í sambandi við dreifingu orkunnar í smásölu eða til neytenda. Ég hafði satt að segja óttazt það, að stefnan væri eingöngu og einhliða í þá átt að láta ríkisvaldið eða Raforkumálaskrifstofu ríkisins einnig taka þetta hlutverk að sér og það er einmitt það, sem flm. þessarar till. telja mjög varhugavert.

Því miður er það svo, að í mörgum tilfellum er það að koma í ljós nú, að verið er að draga valdið frá strjálbýlinu í sambandi við ýmsa þætti þjóðlífsins og til stofnana hér í höfuðstaðnum. Ég tel, að þetta sé mjög röng stefna og það beri að halda því mjög á lofti, sem ég taldi, að væri orðinn sterkur vilji hér á Alþ., að dreifa valdinu einmitt frá höfuðstaðnum í þeim tilfellum, þegar hægt væri að gera það með eðlilegum hætti og út í strjálbýlið og voru orkumálin eitt af þeim atriðum, sem þar komu undir. Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir, að eins og þessi mál hafa þróazt, hlýtur ríkissjóður eða fyrirtæki, sem ríkissjóður er stór eigandi og aðili að, að hafa veruleg afskipti af uppbyggingu þeirra raforkuvera, sem áformað er að byggð verði upp í framtíðinni, því að þar er um svo fjárfrek fyrirtæki að ræða, að þau eru hvorki á valdi einstaklinga eða sérstakra sveitarfélaga og jafnvel gæti orðið erfitt í sumum tilfellum fyrir landshlutasamtök að ráða við þau. Hitt er annað mál að þegar kemur að sjálfri dreifingunni til neytenda á lokastigi, þá er aðstaðan allt önnur og við það er auðvelt að ráða fyrir einstakar rafveitur, sem nú eru starfandi og samtök smærri sveitarfélaga í hinum ýmsu landshlutum gætu tekið þetta verkefni að sér og losað það frá Raforkumálaskrifstofunni.

Ég sagði það hér áðan og viðurkenni það alveg, að Raforkumálaskrifstofan hefur undanfarna áratugi unnið mjög þarft verk í sambandi við uppbygginguna, en það er allt að komast á lokastig og fram undan er aðeins um að ræða rekstur hjá þessu fyrirtæki og að gerast milliliður á milli neytendanna og sjálfra framleiðendanna, þannig að við teljum, að þetta eigi að hverfa út úr dæminu og neytendur á hverjum stað geti snúið sér til fyrirtækja heima í sínum héruðum eða heima í sínum byggðarlögum og fengið þar þá fyrirgreiðslu og þjónustu, sem með þarf í sambandi við dreifingu orkunnar. Ég ætti ákaflega bágt með að hugsa mér það t.d. að Rafveita Vestmannaeyja, sem nú er, að ég held, önnur elzta rafveita á landinu, – hún var byggð 19l4, hún er a.m.k. með þeim langsamlega elztu,—hyrfi af sjónarsviðinu og við þyrftum allt í einu að fara að sækja undir Raforkumálaskrifstofuna hér í Reykjavík alla þá fyrirgreiðslu, sem ein rafveita þarf að veita.

Ég segi þetta ekki út í bláinn, því að við höfðum ástæðu til að óttast þetta þegar í tíð fyrrv. vinstri stjórnar á árunum 1956—1958. Þá var tekin upp stefnubreyting í þessum málum á þann veg, að Rafmagnsveitur ríkisins gerðu beinlínis gangskör að því að reyna að ná undir sig sem allra flestum rafveitum á landinu. Þetta tókst nokkuð. Margar smærri rafveitur, bæði á Austurlandi og víðar, afsöluðu sér sínum eignum til þessarar stofnunar. Þar var um smærri rafveitur að ræða í flestum og ég vil segja öllum tilfellum, sem kannske áttu í einhverjum fjárhagslegum erfiðleikum og töldu, að þetta væri hagkvæm lausn fyrir sig, en hafa án efa síðar komizt á allt aðra skoðun. Það var einnig mjög reynt við stærri rafveiturnar að fá þær inn í þetta heildarkerfi. Og þegar ég nefni stærri rafveitur, þá á ég t.d. við Rafveitu Vestmannaeyja. Það var lagt mjög hart að okkur í Eyjum að afsala okkur öllum eignum rafveitunnar til handa Rafmagnsveitum ríkísins. Okkur var boðið gull og grænir skógar, ef við vildum aðeins stíga þetta spor, sem við vissum auðvitað, að gat kannske verið þénusta í örstuttan tíma, en við töldum alveg öruggt, að þegar frá liði, mundi þeim grundvelli, sem fyrir okkur var túlkaður, verða breytt þannig, að það væri öruggast fyrir okkur að hafa þetta allt í okkar eigin hendi og er ég þeirrar skoðunar enn, að svo sé.

En ef það kemur fram í þeirri endurskoðun, sem hæstv. iðnrh. hefur boðað og tilkynnt, að sé í gangi og muni verða lögð fyrir Alþ. innan skamms, ef það kemur fram þar, að það eigi að stefna frekar í þá átt í sambandi við dreifinguna að gefa einstökum rafveitum og einstökum landshlutasamtökum sveitarfélaga frekari kost á því að verða þar beinir aðilar, þá tel ég, að því beri að fagna, því að það mun án efa reynast þjóðinni hagkvæmast, þegar til kemur, að hafa það form á þessu. Og þá væri vissulega stigið spor í þá átt að dreifa valdinu frá höfuðstaðnum út til strjálbýlisins og mundi það, eins og ég sagði, án efa verða öllum aðilum, sem þar eiga hlut að máli, til góðs.