25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í D-deild Alþingistíðinda. (4251)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er einkum út af því, að forsrh. sá ástæðu til þess hér við þessa umr. að véfengja ummæli mín, er ég lét falla, þegar mál þetta, sem hér er til umr., lá síðast fyrir, um það, að styrr stæði á milli ríkisstj. og Norðlendinga í orkumálum, sem ég sé ástæðu til þess að kveðja mér aftur hljóðs við þessa umr. Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti að vita það, að þessi ummæli mín, að verulegur styrr hafi staðið milli Norðlendinga og ríkisstj. í orkumálum, eru alveg dagsönn og ég held, að hæstv. ráðh. hefði ekki átt að vera að gera sér sérstakt erindi hér í ræðustól til þess að draga þau í efa. Hann veit sjálfur, að þeim áformum ríkisstj. að leggja raforkulínu norður yfir öræfin og tengja Þjórsársvæðið við Norðurland, án þess að kanna aðra möguleika til orkuöflunar á Norðurlandi, hefur verið kröftuglega mótmælt þar og munu berast mörg mótmæli gegn því á næstunni, eftir því sem lýst hefur verið í fjölmiðlum. Hæstv. ráðh. veit það líka, að fjórðungsstjórn hefur farið þess á leit við ríkisstj. að hafa samráð við hana í þessum málum, en hún hefur ekki hlotið neinar undirtektir. Ég vil lesa hér skeyti, sem ég fékk afrit af, frá fjórðungsstjórn til ríkisstj. um þessi mál sem getur e.t.v. varpað á það nokkru ljósi og rennt stoðum undir það, að ummæli mín hér voru sönn:

„Fjórðungsstjórn fer eindregið fram á, að haft verði fullt samráð við fjórðungssambandið um lausn orkumálanna, áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar. Fjórðungsstjórn telur nauðsynlegt, að hlutlaus hagkvæmnis samanburður verði gerður á tillögum fjórðungsþings um Norðurlandsvirkjun og aðild að Landsvirkjun. Stjórnin vitnar í yfirlýsingar ríkisstj. um endurskoðun verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og samráð við landshlutasamtökin svo og um stuðning við jákvæða byggðaþróun í landinu. Telur stjórnin orkumálin nú vera prófstein á alvöru þessarar yfirlýsingar.“

Í þessu skeyti kemur glöggt fram, að fjórðungsstjórn Norðlendinga er ekki sammála ríkisstj. í orkumálum og hún hefur farið þess á leit við ríkisstj. að fá að hafa samráð við hana í því formi, að komið verði á fót samstarfsnefnd ríkisstj. og fjórðungssambandsins í þessum málum. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er það ætlun ríkisstj. að verða við þessum óskum?

Ég skal ekki að öðru leyti fara út í þessi mál. Ég vil aðeins undirstrika það, að það, sem vakir fyrir Norðlendingum í þessum efnum, er ekki, að þeir vilji ekki kaupa orku á hliðstæðu verði og aðrir landsmenn af Sunnlendingum eða að sunnan, eins og kallað er, heldur vilja þeir, að látin sé fara fram athugun, gagnger athugun á orkuöflunarleiðunum, þær bornar saman og sú, sem er nægilega örugg og jafnframt hagkvæmust, sé valin. Þetta er þeirra stefna í sem stytztu máli.

Ég vil aðeins bæta við þessi orð, fyrst ég er kominn hér í ræðustól. að mér finnast bollaleggingar hæstv. orkuráðh um, hvernig fara eigi með kostnaðarverð háspennulína, sem hann hyggst leggja þvert yfir landið, all undarlegar. Hann upplýsir, að lína norður muni kosta 300 millj. kr., en auðvitað verði sá kostnaður ekki borinn uppi af þeim, sem kaupa orkuna fyrir norðan, heldur af þjóðinni allri. Línan verði sem sagt greidd niður af þjóðinni allri. Ef slíkar kúnstir ætti að leika í þessum efnum, af hverju er þá ekki einfaldlega virkjað þar sem bezt er, þar sem orkan kostar minnst við stöðvarvegg, t.d. Dettifoss, þar sem líkur benda til, að sé hægt að fá ódýrari orku, en í Sigöldu, verulega ódýrari? Af hverju er þá ekki virkjað þar, en ekki í Sigöldu og orkan leidd þangað, þar sem neytendurnir eru, ef ekki þarf að taka flutningskostnað inn í þetta dæmi? Þetta vildi ég aðeins undirstrika hér og spyrjast fyrir um það hjá orkuráðh., hvort honum sé virkilega alvara í þessum bollaleggingum sínum.