30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í D-deild Alþingistíðinda. (4286)

70. mál, erlendir starfsmenn við sendiráð á Íslandi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Um till. til þál. á þskj. 76, er fjallar um fjölda erlendra starfsmanna við sendiráð erlendra ríkja á Íslandi, vil ég aðeins leyfa mér að segja örfá orð.

Athuganir hafa verið gerðar í utanrrn. undanfarin tvö ár á fjölda erlendra starfsmanna við sendiráð hér. Það má vera, að það hafi verið gert fyrr, en þessar athuganir liggja fyrir og það liggur jafnframt fyrir, að þessi fjöldi hefur ekki breytzt á undanförnum tveimur árum. Jafn þingreyndum manni og hv. 3. þm. Sunnl. geta því ekki komið á óvart þær upplýsingar, sem í skýrslu utanrrn. eru um fjölda erlendra starfsmanna. Fyrrv. ríkisstj. sá enga ástæðu til þess að gera neinar ráðstafanir til þess að takmarka fjölda erlendra sendimanna hér. Ég vil segja, að það er sjálfsagt að gera athugun á því máli, sem þáltill. fjallar um, frá almennu sjónarmiði. Það eru alþjóðlegar reglur til um það, að móttökuríki getur, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, takmarkað fjölda erlendra sendimanna. Það er um það samningur, sem gerður var í Vínarborg 1961 og Ísland hefur nýlega gerzt aðili að, þannig að tæknilegir örðugleikar þurfa ekki að vera fyrir hendi í þessu atriði, sem hér um teflir. Hitt vil ég segja sem mína skoðun, að ég tel ekki, að það sé neinn óeðlilegur fjöldi við nokkurt sendiráð á Íslandi, þannig að ástæða sé til að beita þeim samningsákvæðum, sem hér um teflir. En utanrmn. getur að sjálfsögðu fengið og fær að sjálfsögðu umrædda þáltill. til meðferðar og þar verður þetta mál skoðað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þessa till. fleiri orð. Ég get vel metið þá hugsun og þá viðleitni hv. 3. þm. Sunnl.; að hann vilji ekki hafa fleiri útlendinga hér á Íslandi en nauðsyn ber til.