30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (4288)

70. mál, erlendir starfsmenn við sendiráð á Íslandi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki þessa till. undir höndum, en ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. hans svör, þó að þau lægju nú ljós fyrir í fjölmiðlum áður að mestu leyti. En ég vil aðeins vekja athygli á þeirri skoðun minni, að það sé heildarfjöldi starfsmanna við sendiráðin, sem máli skiptir. Bandaríkjamenn hafa langflesta starfsmenn í sendiráðinu, yfir 30. Það er staðreynd. Hins vegar væri kannske sanngjarnt að setja einhver skynsamleg mörk um heildarfjölda starfsmanna að meðtöldum starfsmönnum fréttastofa eins og þeirrar rússnesku, — ég man ekki, hvað hún heitir, — og upplýsingastofnana eins og Upplýsingastofnunar Bandaríkjanna. Að vísu kæmu slík mörk langharðast niður á Bandaríkjamönnum, en fyrst hv. 3. þm. Sunnl. hefur vakið máls á þessu, þá getur hann varla verið þekktur fyrir að standa á móti svo sanngjarnri lausn. Hins vegar er skylt að benda á, að slík takmörkun gæti verið viðkvæmt mál og sízt vildi ég verða til þess að styggja þá ágætu Bandaríkjamenn í þessu efni. Að lokum vildi ég aðeins taka undir orð hæstv. utanrrh. um nákvæma skoðun á þessu máli.