22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

71. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að mér finnst nokkuð mikill hluti af gagnrýni minni hl. ákaflega léttvægur. Hv. frsm. hans talar nokkuð mikið um vinnubrögð í sambandi við þetta frv. og vitnar í vinnubrögð fyrrv. ríkisstj. T.d. telur hann, að þau hafi verið sérstaklega ágæt gagnvart viðskiptabönkunum. Ég er nú ekki persónulega kunnugur því í einstökum atriðum. En það eru ýmis önnur vinnubrögð hjá þeirri ríkisstj., sem maður þekkti betur, og þau voru áreiðanlega ekki öll til fyrirmyndar. Það má minna á það, þegar hér voru teknir til skoðunar málaflokkar eins og skólamál, þá þótti ekki henta að taka nokkurn mann utan úr strjálbýlinu til þess að vinna að þeirri endurskoðun. Það væri hægt að finna fleira af þessu tagi. Og í sambandi við afgreiðslu lántökuheimildanna stundum áður, eins og t.d. 1970, þá voru vinnubrögðin hér gagnvart þinginu með þeim hætti, að þetta frv. var ekki hér til meðferðar fyrr en á allra síðustu dögum, þegar fyrir lágu jafnvel tugir stórmála, sem þurfti að afgreiða á tæpri viku, þannig að þinginu gafst enginn tími til þess að skoða málin, eins og skyldi. Og hvað það snertir, að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaða notkun fjárins, þá kemur það fram líka hjá hv. frsm. minni hl., að þetta er heldur ekkert einsdæmi. Hann viðurkennir, að þetta sé jafnvel eðlilegra nú, þegar ný ríkisstj. situr, en stundum áður, svo að allt, sem snertir þessa þætti í málflutningi hv. frsm. minni hl., þá finnst mér það fremur þýðingarlitið og léttvægt. Meginatriðið, sem hér er um að ræða og ágreiningur er um, er það, hvort rétt sé að ganga í það nú að afla þessa fjármagns á innlendum lánamarkaði. Það liggja fyrir vissar staðreyndir, sem ég vék raunar að í minni fyrri ræðu og vil nú aðeins árétta. Það liggur fyrir, að innflutningur til landsins hefur aukizt gífurlega. Það virðist því vera mjög mikil kaupgeta í landinu, og það hefur líka komið fram í sambandi við sölu fasteigna, eins og einhver hv. ræðumaður minntist á hér áðan, að sala fasteigna hefur mjög örvazt nú í sumar. Þetta eru staðreyndir. Síðan verða menn að meta þetta, þetta er matsatriði, og það er hægt að deila um þetta. En í huga okkar, sem fylgjum þessu frv., er m.a. af þessum grundvallarástæðum ástæða til að heimila að bjóða þetta lán út nú. Á sama hátt er auðvitað matsatriði, hver sé staða viðskiptabankanna. Það verður þó að leggja töluverða áherzlu á það, að það er verulega greitt fyrir þeim með þeirri breytingu, sem nú verður á afurðalánunum frá hálfu Seðlabankans. Það er mjög verulega greitt fyrir þeim með því, þó að hér liggi ekki fyrir tölulegar upplýsingar um, hversu mikil sú fyrirgreiðsla verður í krónum.

Það er skoðun Seðlabankans, að þessar aðgerðir séu eðlilegar. Hins vegar eru viðskiptabankarnir, og það mun áður hafa verið þeirra afstaða í þessum málum, neikvæðir gagnvart útboðinu nú. En ég vil árétta það, sem ég drap á í framsöguræðu, að það liggur ekki fyrir nein „statistik“, sem sýnir það ótvírætt, að lánsútboðin á innlenda lánamarkaðinum að undanförnu hafi haft afgerandi áhrif á stöðu viðskiptabankanna, á innlánin í viðskiptabönkunum. Og það finnst mér töluvert mikið atriði í þessu máli. Ég viðurkenni það, að einnig þetta, sem snýr að viðskiptabönkunum, hlýtur að vera matsatriði, en mat okkar, sem frv. fylgjum, er það, að lánsútboð nú sé réttmæt ráðstöfun.