17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (4312)

113. mál, aðstoðarmenn lækna í byggðum landsins

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál., sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Austf. og hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna, hvort ekki sé tímabært og nauðsynlegt að hafa sem víðast um byggðir landsins starfandi sérstaka umboðs– og aðstoðarmenn lækna, sem fólk gæti leitað til í neyðartilfellum og í sambandi víð ýmis minni háttar erindi, þegar ekki næst til læknis og væru þeir þjálfaðir í slysahjálp, umönnun sjúkra, umsjón með lyfjabirgðum, lyfjaafgreiðslu o.s.frv. Skal í þessu sambandi athugað, hvort eigi sé líklegt, að nýta megi starfskrafta ljósmæðra framar því sem nú er á sviði heilbrigðisþjónustu. Efna skal sem fyrst til sérstakra námskeiða fyrir það fólk, sem veldist til slíkra starfa sem hér um ræðir.“

Ástand heilbrigðisþjónustunnar hefur mjög verið til umr. að undanförnu. Einkum hafa menn leitt hugann að hinum tilfinnanlega og almenna skorti héraðs— og heimilislækna. Er ekki ofsagt, að hér sé um að ræða eitt af meiri háttar vandamálum hins íslenzka þjóðfélags. Þetta er að vísu ekki nýtt vandamál. Það á sér nú alllangan aðdraganda og hefur vaxið eins og meinsemd í þjóðfélagslíkamanum á alllöngu tímabili. Eins og eðli margra meinsemda er háttað, hefur þessi meinsemd ekki staðnæmzt við eitt eða fá svæði þjóðarlíkamans, sem segja mætti, að hafi verið veik fyrir. Hún hefur breiðzt út um allan þjóðarlíkamann að meira eða minna leyti. Þessa gætir í þéttbýli hér á landi sem dreifbýli, í bæjum og sveitum. Því get ég endurtekið það, að læknaskortur er almennt vandamál á Íslandi og snertir fólkið í landinu, hvar sem það býr og hvar sem það starfar.

Eins og fram kemur í grg. fyrir þessari till., þá er það ekki ætlun okkar flm. nú að fjalla um heilbrigðisþjónustuna og læknaskortinn á breiðum grundvelli. Okkur er ekki kunnugt um annað en að stjórnvöld, sem þessi mál hafa með höndum, vinni að því af áhuga að finna viðunandi lausn á læknaskortinum. Meðan svo er, sjáum við ekki beina ástæðu til þess að vera með eftirrekstur eða hafa uppi alþingissamþykktir, enda liggja þegar fyrir frá fyrri þingum ýmsar ályktanir um þessi efni. Til þeirra viljum við vísa og minna hæstv. ríkisstj. á þann einróma vilja, sem Alþ. hefur jafnan látið í ljós um raunhæfar og skjótar úrbætur.

Læknaskorturinn mæðir mest og tilfinnanlegast á fólki, sem býr um hinar dreifðu byggðir landsins. Núverandi ástand þessara mála kemur þyngst niður á þeim, sem fjærst búa höfuðborginni og verst eru settir um samgöngur, ýmist vegna fjarlægða eða torfarinna samgönguleiða á sjó eða landi eða í lofti. Þannig háttar til hér á landi, að langtímum saman kann að vera ófært eða illfært milli byggðarlaga, sem þó geta ekki talizt fámenn eða lítilsmegandi á íslenzka vísu. Mér kemur í hug t.d. Ólafsfjarðarbyggð, þar sem er myndarlegt framleiðslubyggðarlag, sjósókn og fiskverkun annars vegar, en verulegur sveitarbúskapur á hinu leitinu. Þarna er saman komið fjölmenni á okkar mælikvarða, fólk, sem stundar erfið framleiðslustörf, sem meðal annars stafar af veruleg slysahætta. Ólafsfjörður er sérstakt læknishérað og fram til hausts 1971 hefur læknir átt búsetu í Ólafsfirði til ómetanlegs öryggis fyrir íbúana þar. Eftir að héraðslæknirinn sagði starfi sínu lausu og fluttist burt, hefur Ólafsfjarðarhéraði verið þjónað frá nágrannabyggð, — sem einnig á við öryggisleysi í læknamálum að búa, — eða verið upp á sérstaka náð reykvískra lækna komið, sem hafa gripið í það að gamni sínu að sitja stund og stund í héraðinu. Slíkt er vissulega betra en ekkert og vissulega þakkarvert. Ólafsfirðingar eru ekkert einsdæmi að þessu leyti. Dæmi eru til þess, að heilar sýslur hafi verið læknislausar árum saman, ef undan er skilin stutt þjónusta einstaka læknis eða aukaþjónusta nágrannalækna, sem annars eru störfum hlaðnir í sínu eigin héraði. Öryggisleysið, sem þetta fólk býr við, er augljós staðreynd og í rauninni óviðunandi. Sérstaklega hlýtur það að vera þungbært ástand að vita sig varnarlausan og öryggislausan gagnvart slysum. stórum og smáum, sem ekki gera boð á undan sér, en eru þó alltaf yfirvofandi í lífi fólks, sem stundar íslenzka atvinnuvegi til lands og sjávar. Svo illt sem það er að geta ekki augliti til auglitis ráðfært sig við lækni, þegar farsóttir geisa eða aðrir sjúkdómar gera vart við sig, þá held ég þó, að ógn af slysum sé enn verri vágestur og kvíðvænlegra ástand.

Þegar við flm. þessarar till. ákváðum að hreyfa henni hér á hv. Alþ., þá höfðum við m.a. í huga þetta atriði. Við lítum svo á, að það væri til stórra bóta, ef þjálfaðir væru til þjónustu í hverri sveit, eða því sem næst, sérstakir hjúkrunarmenn, sem fólk gæti leitað til í neyðartilfellum, ekki sízt þegar slys ber að höndum. Við hugsum okkur, að slíkir hjúkrunarmenn séu sérstaklega þjálfaðir og nánast fastráðnir aðstoðarmenn héraðslækna og vinni undir þeirra stjórn og undir þeirra eftirliti. Að sjálfsögðu yrði þó að gera ráð fyrir því í langflestum tilfellum, að hjúkrunarmenn þessir hefðu slíka þjónustu að aukastarfi með aðalstarfi sínu, en þó þannig, að þeir gætu sinnt kalli hvenær sem á þyrfti að halda. Til þessara starfa gætu bæði valizt konur og karlar. Við bendum á það í tillgr. og í grg., að möguleiki kunni að vera á því að breikka starfsvettvang ljósmæðra og nýta starfskrafta þeirra á fleiri sviðum, en nú er gert ráð fyrir. Störf ljósmæðra hafa dregizt saman víðast hvar, enda yfirleitt ósk barnshafandi kvenna að fæða á sjúkrahúsum. þar sem því fylgir meira öryggi, en fæðingum í heimahúsum. Sýnist rétt að kanna til hlítar, hvort mögulegt sé að samræma ljósmóðurstörfin þeim hugmyndum um hjúkrunarþjónustu, sem hér er hreyft. Að öðru leyti er nærtækast að leita til hæfileikafólks í byggðunum sjálfum um, að það þjálfi sig til þessara starfa. Menntunar þörf þessa fólks yrði að leysa með námskeiðshaldi eða e.t.v. skólarekstri, þegar fram í sækti.

Við höfum í þessari till. kallað hina fyrirhuguðu hjúkrunarmenn umboðs— og aðstoðarmenn lækna. Það er e.t.v. ekki þjált starfsheiti, en hins vegar lýsir orðið því betur, en margt annað, hvað fyrir okkur vakir. Okkur kemur auðvitað ekki til hugar að halda því fram, að framkvæmd þessarar till. sé lausn á læknaskortinum. Engum heilvita manni dettur í hug, að hægt sé að „leysa“ lækna vandamálið með þessum hætti. Hins vegar felst í því öryggi og mundi mjög létta störf héraðslækna, ef þeir hefðu sér til fulltingis þjálfað hjúkrunarlið sem víðast í byggðum landsins. Ég hef minnzt á slysahjálpina sérstaklega, en ég vil minna á, að slíkt hjúkrunarfólk gæti orðið læknum og sjúklingum að liði á ýmsan annan hátt, eins og fram kemur í tillgr. og í grg. Má þar nefna ýmiss konar umönnun sjúkra, umsjón með lyfjabirgðum, lyfjaafgreiðslu og e.t.v. ýmislegt fleira, sem varðar aðstoð við lækna og þjónustu við sjúklinga.

Herra forseti. Við væntum þess flm., að þessi till. fái vinsamlegar undirtektir hér á hv. Alþ. Við teljum, að hún sé þess virði, að hún verði gaumgæfilega athuguð. Ég legg til, að umr. verði nú frestað, en till. vísað til hv. allshn.