22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í D-deild Alþingistíðinda. (4324)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 178 hef ég leyft mér ásamt sjö öðrum hv. þm. að leggja fram till. til þál. um endurskoðun á gjaldskrá Landssímans. Segja má, að þetta sé enn eitt mál í stórum og e.t.v. stækkandi málaflokki, sem nefna mætti vaxandi ójöfnuð á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Ég hef áður vakið máls á nokkrum þáttum í þessum málaflokki. Þar má víða bera niður. Þar má líta á flutningskostnað, fræðslumál, læknis— eða heilbrigðismál, og þannig mætti lengi telja, en ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þetta mikilvæga mál. En staðreyndin vona ég, að sé öllum ljós, að með vaxandi þörfum og kröfum allra landsbúa, réttmætum kröfum til hinna ýmsu þarfa, sem nútímaþjóðfélag veitir og ber að veita, þá er þessi ójöfnuður mjög vaxandi. Eins og ég hef sagt, eitt af þessum málum er endurskoðun á gjaldskrá Landssímans og hefur hv. þm. verið þetta ljóst fyrr, því að þessu máli hefur áður verið hreyft á hinu háa Alþingi.

Ég vísa fyrst og fremst til grg., en þó ætla ég aðeins til þess að skýra málið nánar að gripa niður á bls. 6 í símaskránni. Þar birtist listi, sem nefnist „Gjaldskrá fyrir sjálfvirk símtöl“. Fyrst til almennra upplýsinga vil ég geta þess, að gjaldflokkarnir eru átta, O, A, B og síðan 1, 2, 3, 4, 5. Og eftir því sem þessi tala hækkar, þá verður skref í sekúndum minna og verð fyrir hverja mínútu hærra. T.d. ef hringja á frá Ólafsfirði inn á Akureyri, þá telst það tvö skref eða gjaldflokkur 2 og er þá skrefið 12 sekúndur og kostnaðurinn á hverja mínútu 9.50 kr. Ef Akureyringur ætlar að hringja til Reykjavikur, þá telst það í hæsta gjaldflokki, þ.e. í 5. gjaldflokki og er þá skrefið aðeins 6 sekúndur og verð fyrir hverja mínútu 19 kr. Ef hins vegar íbúi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar eða Garðahrepps ætlar að hringja hér í opinbera stofnun, þá telst það í gjaldflokki O. Þá er tíminn ótalinn, m.ö.o. hann getur talað eins lengi og hann vill á lágmarksgjaldi.

Ég hygg, að það dyljist engum, að hér er mjög mikill ójöfnuður á ferð og hann er raunar, getum við sagt, tvíþættur. Annars vegar er það staðreynd, að í öllum byggðarlögum hefur þjónustan smám saman dregizt inn í svonefnda þéttbýliskjarna og hefur það verið eðlileg þróun. Það er ljóst, að Ólafsfirðingurinn þarf æði oft að leita til Akureyrar með margs konar þjónustu á sínum vegum, pantanir og viðtöl þar við aðila, sem annast hin ýmsu störf fyrir þann landshluta og þá hefur hann aðeins 12 sekúndna skref. Og svo er það einnig staðreynd, að í Reykjavík, eins og fram kemur í fjölmörgum málum, sem hreyft er hér á Alþ., hafa í vaxandi mæli hópazt saman ýmsar opinberar stofnanir, sem veita landinu öllu í vaxandi mæli ýmiss konar þjónustu, Akureyringurinn eða Ólafsfirðingurinn, sem til þessara stofnana þarf að leita, fær aðeins 6 sekúndur í eitt skref og ef samtalið fer upp í mínútu, sem allir þekkja, að er fljót að koma, t.d. þegar reynt er að ná í opinberan starfsmann í rn. eða opinberri stofnun, þá kostar það 19 kr. á mínútuna.

Nú er ég út af fyrir sig ekki að lýsa undrun minni á þessu, því að eðlilega er þessi gjaldskrá reiknuð út eftir ákveðnum kostnaðartölum, sem Landssíminn hefur eflaust réttilega reiknað út miðað við kostnað við að koma talsíma á hina ýmsu staði og er það ekkert undarlegt í raun og veru, þó að embættismennirnir, sem þar starfa, setji upp gjaldskrána með ákveðnu tilliti til þess, hver kostnaðurinn er miðað við, eins og ég segi, hina ýmsu staði á landinu. Hins vegar á það að vera hlutverk okkar, sem á Alþ. sitjum, að gæta fremur hins mannlega sjónarmiðs í þessu og það er einmitt í þeim tilgangi, sem þessi þáltill. er lögð fram.

Í þáltill. gerum við ráð fyrir því, að leitazt verði við að jafna þetta á tvo vegu, getum við sagt. Annars vegar að sama gjaldið verði látíð gilda innan sérhvers svæðis á landinu, þ.e. að t.d. Ólafsfirðingurinn, sem þarf að hringja til Akureyrar, greiði lágmarksgjald eða hið sama og Reykvíkingurinn, sem hringir innan síns svæðisnúmers. Og hins vegar teljum við, að það beri að lækka mjög þann mismun, sem er með fjarlægð og ég nefndi áðan sem dæmi frá Akureyri eða Ólafsfirði til Reykjavíkur. Þetta tvennt teljum við, að þurfi að haldast í hendur.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að málið er æði margslungið og eflaust er nokkuð langt í land með það, að gilt geti hið sama gjald fyrir landið allt, en þó get ég ekki leynt þeirri skoðun minni, að, að því beri smám saman að stefna. Og það er von okkar, ef Alþ. samþykkir að vísa þessari till. til n., að n. líti vandlega á málið og afli sér hinna ítarlegustu upplýsinga frá Landssímanum og bendi á þá leið, sem megi verða til þess, að þessi jöfnuður verði meiri og helzt alger í náinni framtíð.

Með þessu vil ég leggja til, að till. verði vísað til allshn.