22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í D-deild Alþingistíðinda. (4327)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég var nú eiginlega að bíða eftir því, að hæstv. samgrh. tæki til máls. Sennilega hefur hann markað sér stefnu í þessu og ekki er að efast um, að hann vill auka jöfnuðinn á milli þéttbýlis og dreifbýlis og bæta aðstöðuna í dreifbýlinu frá því, sem nú er.

Mig undrar ekkert, þótt till. sé flutt til þess að vekja athygli á þeim mismun, sem er á því, sem dreifbýlisfólkið greiðir og því, sem greitt er í þéttbýlinu. Og það er engin tilviljun, að þessi till. var flutt, áður en fjárlögin voru afgreidd. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að eftir að búið er að afgreiða fjárlögin, þá er miklu erfiðara fyrir hæstv. samgrh. að vinna að leiðréttingum í þessu efni. Það lítur út eins og framkvæmdafé Landssímans á þessu ári sé horfið. Nú í fyrsta sinn er Landssímanum gert að greiða 90 millj. kr. í söluskatt. Eins og sagt var hér áðan, var áætlun Landssímans ekki leiðrétt frá því, sem hún var gerð í marzmánuði 1971 og þá var reiknað með marz—vísitölunni. Þegar tekið er tillit til þeirra hækkana, sem orðið hafa síðan, hækka útgjöld Landssímans um 110–120 millj. kr. Söluskatturinn og það, sem vantar á tekjurnar, eru 200-210 millj. kr. Eins og áætlun Landssímans var vorið 1971, þá var gert ráð fyrir, að framkvæmdaféð væri 229 millj. kr. Það er þá ekki mikið eftir af framkvæmdafénu á þessu ári, nema gerðar verði ráðstafanir til þess að afla fjár og það má náttúrlega gera með því að hækka gjaldskrá Landssímans og getur verið, að það sé á döfinni, til þess að framkvæmdum verði haldið áfram á þessu ári.

Framkvæmdirnar á undanförnum árum hafa aðallega legið í því að bæta línukerfið eftir því sem unnt hefur verið og koma upp sjálfvirkum stöðvum víðs vegar um landið. Og þetta er komið vel á veg. Sjálfvirkar stöðvar eru nú 52, en einn landshluti er að mestu eftir enn. Það eru Austfirðir. Þegar áætlunin var gerð í fyrstu, þá var hún gerð með þeim hætti, að Austfirðir, sem voru lengst í burtu, væru síðast í áætluninni. vegna þess að það þarf að gera meira en að gera stöðvar sjálfvirkar. Það þarf að leggja og bæta línukerfið til stöðvanna og það er lengst og erfiðast til Austurlandsins. En þetta er nú allt saman komið vel á veg, þannig að ef Landssíminn hefur áfram í framkvæmdafé 200-250 millj. kr. á ári, þá vinnst þetta nokkuð fljótt. En til þess að hægt væri að auka jöfnuðinn í dreifbýlinu við það, sem gerist í þéttbýlinu, þá þarf að bæta línukerfið á milli stöðvanna, til þess að menn komist að, þegar þeir hringja og ekki verði of mikið álag og það höfum við öll orðið vör við, þegar við erum að hringja á hina ýmsu staði, að línurnar eru of fáar. Það kostar mikið að bæta úr þessu, en er vitanlega mjög aðkallandi. En þótt það sé aðkallandi, þá hefur eigi að síður þótt eðlilegast að koma sjálfvirku stöðvunum upp sem allra fyrst.

Það er náttúrlega hægt að auka jöfnuðinn nú þegar með breytingu á gjaldskránni, þ.e. að hækka hér í þéttbýlinu á Reykjavíkursvæðinu mest eða miklu meira en úti á landi og fá þannig peninga. Þetta hefur verið skirrzt við undanfarið, m.a. vegna þess, að símakerfið víðs vegar um landið er byggt upp fyrir það fé, sem símanotendur í mesta þéttbýlinu borga, því að af skiljanlegum ástæðum er ódýrast að leggja síma í þéttbýlinu og afgangurinn kemur þaðan. Það verður svo alltaf matsatriði, hversu langt á að ganga í fjáröflun með því að hækka símagjöldin, stofngjöldin og ársfjórðungsgjöldin í þéttbýlinu. Og það getur vel verið, að það sé réttmætt að ásaka fyrrv. stjórnvöld fyrir það að hafa gengið of skammt í því efni. En ég hygg þó, að dómur manna verði mjög misjafn í þessu efni.

Það þarf ekki að rökræða það hér, vegna þess að öllum hv. þm. er það ljóst, að Landssíminn hefur ekki annað starfsfé en það, sem hann aflar hjá símanotendum. Og það er undir því komið, hvað gjaldskráin er há, hve miklar tekjur verða til ráðstöfunar. Það fer eftir því, hvernig gjaldskráin er gerð, hversu mikill jöfnuður eða ójöfnuður er á milli hinna ýmsu notenda í landinu. En það verður að segja eins og er, að það hefur verið unnið að því undanfarið að auka jöfnuðinn eftir því sem hefur þótt fært af tæknimönnum. Til þess að hlaða ekki of miklu á kerfið og til þess að útiloka ekki, að samband náist með eðlilegum hætti, hefur þurft að hafa takmarkanir, misjafnlega löng skref, eins og það er kallað.

Hv. 1. þm. Vestf. vitnaði hér í símabókina 1971, en ég get upplýst það, að það var lagfært ákaflega mikið á s.l. vetri í sambandi við þessi svokölluðu skref, þannig að skref, sem ekki voru nema 12 sekúndur, voru eftir því sem fært þótti, hækkuð í 24 jafnvel upp í 36, eftir því sem talið var, að kerfið þyldi. Þá hefur einnig, til þess að reyna að auka á jöfnuðinn og gefa mönnum tækifæri á því að spara peninga, verið tekinn upp hinn svokallaði næturtaxti frá kl. 10 á kvöldin og til kl. 8 á morgnana og þetta er notað í stórauknum mæli. Og þessi næturtaxti, þessi nætursímtöl eða kvöldsímtöl eru tekin upp til þess að jafna notkun á þessu kerfi, sem er ekki enn þá nógu fullkomið hjá okkur. Ég get tekið undir till., sem hér er um að ræða, að því leyti, að ég tel það æskilegt, að jöfnuður geti orðið sem mestur, en ég taldi eðlilegt að láta þessar hugleiðingar koma hér fram. til þess að menn geri sér grein fyrir því, að það var ekki af viljaleysi á undanförnum árum, að ekki hafa verið gerðar meiri leiðréttingar á þessu en orðið er.

Ég tel það gott, að þessi till. fari í n., og þar verða vitanlega tæknimenn Landssímans kallaðir til ráðuneytis. hvað þeir telji rétt og eðlilegt að gera í þessum efnum. Ég þykist vita, að það fyrsta, sem þeir segja, sé, að bæta þurfi við talrásum víða um land, áður en fært sé að auka álag á kerfið með þessum svokallaða jöfnuði, sem hefur verið talað um. Og þegar við hugleiðum nú þetta og vitum það, að enn vantar nokkrar sjálfvirkar stöðvar í þéttbýlinu, þá vitanlega hörmum við það, að aðstaða Landssímans skuli vera gerð mun verri en hún áður var með því að fara nú í fyrsta sinn að innheimta söluskatt hjá stofnuninni auk tolla af innfluttu efni, sem eru allháir og ekki hefur þótt fært að afnema undanfarið. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. samgrh. geri nú einhverjar ráðstafanir til þess, að það verði, þrátt fyrir þetta unnt að halda uppi framkvæmdum. Það var búið að gera lokaáætlun um sjálfvirku stöðvarnar, um að ljúka þeim á næstu 2—3 árum og það verða mikil vonbrigði hjá þeim, sem bíða eftir þeim, ef nú á að verða sama sem framkvæmdaverkfall hjá Landssímanum á þessu ári. Ég efast ekkert um, að þeir stjórnarsinnar, sem standa að flutningi þessarar till., muni knýja fast á, að hér verði gerð leiðrétting. Og það var búið að gera áætlun, að vísu lauslega, um það að fá sjálfvirkan síma í sveitirnar. Okkur var farið að dreyma um að lifa það, að sjálfvirkur sími kæmi í sveitirnar og vegna þess að tækninni fleygir mikið fram, þá er það ekkert út í bláinn að hugsa sér, að það gæti orðið jafnvel á þessum áratug. En þá má ekki taka starfsféð af Landssímanum, skattleggja þessa stofnun umfram það, sem verið hefur. Við megum ekki gera það, alls ekki oftar en nú. Ég tel, að það hafi verið af einhverri slysni, að þetta skyldi vera samþ. og jafnvel athugunarleysi hjá stjórnarliðinu, því að ég er alveg viss um, að það hefur alls ekki verið meiningin hjá stjórnarsinnum að íþyngja Landssímanum og gera stofnuninni erfiðara fyrir um allar framkvæmdir. Við skulum vona, að það verði nú leiðrétt, sem hefur verið skakkt gert í þessu efni og að áfram verði unnið að framkvæmdum hjá Landssímanum, sjálfvirku stöðvarnar komi og línurnar verði auknar á milli staða. Þá er hægt að leiðrétta mikið af því misræmi, sem nú er talað um. Það er náttúrlega einnig hægt fljótlega að leiðrétta þetta svokallaða misræmi með því að hækka talsímagjöldin og ársfjórðungsgjöldin hér í þéttbýlinu og jafnvel lækka þau í dreifbýlinu. Þetta væri hægt að gera, ef menn að athuguðu máli telja það rétt. Og vitanlega verður ekkert gert í þessu nema að vel athuguðu máli.

Það getur verið, að einhver segði, að það mætti gera það með því að draga eitthvað úr þjónustu, þjónustan sé óþarflega mikil, það megi draga úr þjónustunni. En ekki hefði ég nú haldið, að á þessum áratug aldarinnar þætti það eðlileg ráðstöfun að draga úr þjónustunni, því að það er yfirleitt ekki stefnan nú á tímum. En þá gæti einhver komið og sagt: Ja, það má auka hagræðingu hjá stofnuninni og auka sparnað og þess vegna getur hún nú með auknum sparnaði og nýrri hagræðingu farið að borga söluskatt til ríkisins. En ég vil upplýsa það, að hjá Landssímanum hefur verið unnið að hagræðingu á undanförnum árum og þegar n. fær póst— og símamálastjóra og tæknimenn hans til viðtals, þá munu þeir staðfesta það, að það hefur verið starfandi nefnd og nefndir á vegum stofnunarinnar til þess að vinna að hagræðingu. Og ég hygg, að það sé enginn vandi að koma með tölur, sem sýna það, að hjá Landssíma Íslands hefur ýmsu verið hagrætt, vegna þess að, að öðrum kosti gæti Landssíminn ekki verið rekinn á ódýrari og hagkvæmari hátt, Landssími Íslands, heldur en t.d. Landssími Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur.