22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í D-deild Alþingistíðinda. (4328)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þessi till. tekur sig mjög vel út á pappír, og allt hennar orðalag miðast við það að auka jöfnuð milli landslýðsins varðandi notkun símakerfisins. Ég get strax lýst því yfir, eins og hér var getíð til áðan, að ég mundi vera fús til þess að vinna að framkvæmd till., eftir því sem hægt væri, í þá átt, að aukinn jöfnuður fengist um aðstöðu fólksins í landinu til þess að hagnýta sér símakerfið og þá, að því er virðist samkv. till., sérstaklega hið sjálfvirka símakerfi.

En eins og raunar gægist fram í ræðum allra tillögumannanna og allra ræðumannanna, sem hér hafa rætt um till., þá gera menn sér ljóst, að það, að ekki er jöfn aðstaða fólks í landinu varðandi notkun símans, er sjálfsagt ekki, eins og síðasti ræðumaður sagði, af neinu viljaleysi, heldur er það vafalaust bundið tæknilegum vandkvæðum fyrst og fremst. Ég skal ekki fullyrða, hvort unnt er að gera þarna öllum jafnt undir höfði, en gæti trúað, að það væri allverulegum erfiðleikum bundið. A.m.k. virðist mér auðsætt, að sú mismunandi aðstaða, sem er hjá fólki í fámenni og í fjölbýli, eins og t.d. á Reykjavíkursvæðinu, þar sem talað er um að ójöfnuðurinn blasi átakanlegast við, — að Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Kópavogsbúar og þeir, sem tilheyra því heildarsvæði, hafi aðgang að 40 þús. númerum. — sá mismunur verði aldrei jafnaður út í landinu, það er alveg augljóst mál. Þeir, sem búa á þessu svæði, fá alltaf aðgang í gegnum símann að fleiri númerum en fólkið úti í dreifbýlinu, ef yfirleitt er byggt á því kerfi að skipta landinu í svæði og ég hygg, að það sé tæknileg nauðsyn, sem ekki verði komizt hjá. Hitt er vafalaust annað mál, hvort sú svæðaskipting, sem nú gildir, er sú eina rétta eða hvort þar er hægt að breyta til og stækka svæðin eitthvað. Það skal ég ekki segja um. Það verða tæknimenn Landssímans að segja til um og einnig, hvort sú breyting á svæðum kostar mikið fé. Því er vafalaust rétt, að sú n., sem fær þetta vandasama mál til meðferðar, verður að fá nákvæma vitneskju um það, í hverju hin tæknilegu vandkvæði á framkvæmd till. eins og þessarar sérstaklega liggi og hygg ég, að tæknimenn Landssímans verði fúsir til þess að gefa þingnefnd slíkar upplýsingar.

Önnur leið, sem hugsanleg er til þess að auka jöfnuð eitthvað hjá notendum Landssímans, er sú, að skrefin, sem notuð eru sem grundvöllur gjaldstofns, verði stækkuð í fámenninu og fleiri sekúndur eða mínútur reiknaðar undir gjaldeininguna, sem ákveðin er. Vafalaust er hægt að framkvæma einhverja jöfnun í gegnum það, hin svonefndu skref. En hvort hægt er að ná þarna fullum jöfnuði á milli landsmanna af tæknilegum ástæðum. það skal ég á engan hátt fullyrða og er afar hræddur um, að það verði torleyst mál. Ég hef rætt þetta nokkuð við póst— og símamálastjóra og hann hefur gert mér það ljóst, að hér er um veruleg vandkvæði, tæknileg vandkvæði fyrst og fremst, að ræða.

Hér hefur verið nokkuð dreginn inn í umr. fjárhagur Landssímans. Ég hygg, að það atriði komi ekki til þess að ráða úrslitum þessa máls. Vissulega hefur verið þrengt að Landssímanum sem stofnun með því að gera honum skylt að greiða söluskatt, ekki aðeins af öllu innfluttu efni til Landssímans, sem hann hefur alltaf greitt, — hann hefur alltaf greitt söluskatt af því efni öllu saman, sem hann notar til sinna framkvæmda, en á núverandi fjárlögum er honum gert að greiða söluskatt einnig af allri sinni símaþjónustu og það er vissulega byrði, sem nemur 90—100 millj. kr., en það hefur aldrei verið ætlun ríkisstj., að þar með yrði þurrkaður út framkvæmdamöguleiki Landssímans á yfirstandandi ári. Engu hefur enn þá verið slegið föstu um það, hvort eða að hve miklu leyti þessi byrði verði látin fara út í gjaldskrá Landssímans og honum þannig gert fært að hafa svipaða framkvæmda getu og hann annars hefði haft. Það er til athugunar, en hefur ekki verið tekin ákvörðun um það enn, hvort þetta verður gert, að færa þetta út í gjaldskrána að einhverju leyti eða öllu leyti og fer þá nokkuð eftir því, hvenær á árinu það er gert. Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að það verður ekki í sambandi við fjármál Landssímans, sem erfiðleikarnir verða á framkvæmd þessarar till. Þeir eru tæknilegs eðlis fyrst og fremst.

Hv. síðasti ræðumaður minnti á, að það væri kannske hægt að koma þarna meiri jöfnuði á en enn væri fenginn með hækkun ársfjórðungsgjalda og notendagjalda í þéttbýlinu og e.t.v. með lækkun á gjöldum í dreifbýlinu. En það mundi vissulega hafa áhrif á fjárhagsafkomu Landssímans, ef af honum er heimtuð ódýrari þjónusta og þá verður hann auðvitað fyrir tekjutapi af því og það þýðir minni tekjur nema gjaldskrár séu hækkaðar.

En eitt er það atriði, sem þessi till. kemur ekkert inn á og ég held þó, að sé nú stórfelldasta misréttið milli fólksins í landinu að því er varðar notkun síma. Og það er það fólk, sem ekki á neinn aðgang að neinum sjálfvirkum síma og er þannig útilokað frá allri símaþjónustu nema þær stundir á dag, fáar stundir á dag, sem símstöðvarnar eru opnar. En við, sem á þéttbýlissvæðunum búum, höfum aðgang að síma eftir okkar eigin vild á öllum tímum sólarhringsins og það með sérstökum vildarkjörum. Þegar kemur fram á kvöldið, er fólkið úti á landsbyggðinni útilokað frá allri notkun síma. Þetta misrétti er ekki tekið til meðferðar í þessari till. og hygg ég þó, að það sé átakanlegasta misréttið, sem fólkið úti á landsbyggðinni býr við, að hafa engan síma meira en hálfan sólarhringinn, meira að segja mjög víða aðeins örfáar stundir á dag og þá fyrir lítið svæði. Það er vafalaust ekki síður athugunar— og íhugunarefni, hvort hægt sé að leiðrétta það misrétti og auðvitað hefur ágerzt og orðið átakanlegast núna í læknaleysinu einmitt öryggisleysi fólksins, sem ekki á aðgang að símstöðinni nema fáeinar klukkustundir á dag.

Þetta er sem sé viðurkennt af öllum sem mikið vandamál og óvíst um, hvort hægt sé að fullnægja till. eins og þessari. Till. verður þó alltaf til þess, að það verður kannað og það fást alveg raunhæf svör tæknimanna við því, hvað hægt sé að gera í þá átt að jafna og bæta aðstöðu fólks til þess að nota símakerfið og samkv. till. sérstaklega sjálfvirka símakerfið. Ekki þætti mér ólíklegt, að í leiðinni yrði þá reynt að dveljast við hitt atriðið, misréttið, sem fólkið býr við, sem ekki hefur sjálfvirkan síma og ekki á þess von á næstunni að fá aðgang að sjálfvirkum síma.

Till. verður að sjálfsögðu tekin til athugunar af rn. og haft samráð við stjórn póst— og símamálastjórnarinnar varðandi þetta mál, og tæknifræðingar Landssímans munu áreiðanlega leggja fram sitt lið í þjónustu þingnefndar, sem fær málið til meðferðar.