02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í D-deild Alþingistíðinda. (4347)

170. mál, vistheimili fyrir vangefna

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa till. og ég vildi í því sambandi vekja athygli á því geysilega starfi, sem Styrktarfélag vangefinna hefur unnið í þágu þessa fólks nú á undanförnum árum. Það má segja, að alger bylting hafi orðið í aðbúð vangefinna hér á landi frá því að þetta félag tók til starfa, frá því að tappagjaldið var samþ. á Alþ. Það er ekki nóg með það, að plássum hafi mikið fjölgað, heldur hefur einnig öll aðbúð verið stórbætt og þau dagheimili, sem Styrktarfélagið rekur nú hér í Reykjavík, Lyngás og Bjarkarás, eru rekin með nýtízku sniði í ágætu húsnæði og við þau beztu skilyrði, sem hægt er að skapa hér á landi. Þetta átak held ég, að standi í mjög nánu sambandi við einmitt þetta atriði, að hér var farin sérstök tekjuöflunarleið fyrir þennan hóp fólks. Og mér er líka kunnugt um það, að Styrktarfélag vangefinna hafði einmitt hug á því í upphafi að byggja heimili úti á landi fyrir vangefna unglinga. En til þess nú að vera vissir í sinni sök um, hvernig haga ætti málum, þá fengu þeir erlendan sérfræðing til að kanna þessi mál hér á landi og á hvern hátt yrði bezt að þessu staðið. Þessi ágæti maður lagði það hins vegar til, að heimili yrðu ekki byggð úti um landið, heldur eingöngu í Reykjavík og þetta álit hans var byggt á þeim sömu forsendum og svo margt annað hjá okkur, að hér væri bezt aðstaða til þess að geta veitt þá fullkomnustu þjónustu, sem hægt væri að fá, hér væri bezt nýting á starfsfólkinu, meðan við yfirleitt hefðum of fátt starfsfólk í þeirri grein. Þetta voru hans meginrök. Hins vegar er það ekki bara á þessu sviði, heldur svo mörgum öðrum, sem við höfum orðið að taka tillit til okkar sérstöku aðstæðna og ég held einmitt, eins og sagt var hér áðan, að Sólborg á Akureyri sýni það, að það er full ástæða til þess að koma á fót heimilum fyrir vangefna í þeim landsfjórðungum, sem enn ekki hafa slík, þ.e. á Austfjörðum og Vestfjörðum. Og enda þótt það kunni að verða einhverjum örðugleikum háð í upphafi að afla sér kennslukrafta og góðs starfsfólks í þessu skyni, þá er vonandi, ef þessi heimili yrðu reist í sambandi við heilsugæzlustöðvar eða sjúkrahús, að þetta mál mundi allt verða auðveldara.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að nú á síðustu árum hefur mikil breyting orðið á afstöðu til þessa hóps. Það er nú orðin viðurkennd staðreynd, að stórum fjölda þeirra má kenna miklu meira, en áður var talið, stóran fjölda má hæfa til vinnu af þeim, sem áður voru taldir gersamlega óvinnuhæfir. En allt þetta krefst sérmenntaðs starfsfólks. Og það er það sama í þessu efni hjá okkur eins og er í öðrum þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Okkur vantar yfirleitt alls staðar sérhæft starfsfólk.

Engu að síður er tvennt, sem skeður með því að hafa þessi hæli dreifð út um landið. Í fyrsta lagi, eins og komið hefur fram, að ættingjar eiga hægara með að fylgjast með líðan sinna afkvæma og í öðru lagi er það í raun og veru styrkur fyrir heilsugæzlustöðvar og sjúkrahús úti á landi að fá sem flestar tegundir af stofnunum til sín. Ég held þess vegna, að það gæti einmitt verið stuðningur fyrir heilsugæzlu og þróun þeirra mála í þessum fjórðungum að staðsetja þetta heimili í sambandi við heilsugæzlustöð eða sjúkrahús þar og ég er ekki í nokkrum vafa um, að svo sterkur aðili sem Styrktarfélag vangefinna mun sannarlega verða fúst til aðstoðar.